Inga sem hvílir sig og hvílir

Híhí- Vilborg er svo góð að taka myndir. Mér finnst hins vegar myndefnið ég aldrei vera sérlega gott en ég er viss um að ef einhver nær að gera það betra en það er þá er það hún Vilborg.

Hér er ég rjóð og sælleg eftir göngu og fótbolta í Þrastaskógi á íþróttadegi í Sunnulæk á leið í óvissuferð. Ég er ómáluð því ég hélt ég væri á leiðinni í sund og þáhá átti sko að gera sig sæta – þe eftir það. En ég fór nú aldrei í sundið þannig að lúkkið varð aldrei betra en þetta… Það áttu allir að vera með höfuðfat og ég valdi mér náttúrulega eiturgræna Púma Kastróhúfu 😉 og þar sem maður verður að vera hæfilega extream þá er ég með enn grænni glimmer eyrnalokka við :-). Í flöskunni er bara ananassafi – kannski eitthvað kominn framyfir síðasta söludag – ég skal ekki segja.

Ég hefði nú alveg viljað að ég væri með lokaðan munninn – en ég er það víst eiginlega aldrei…

Nú er ég mest að bíða eftir því að sundlaugin opni – ég þarf mjög nauðsynlega að komast í bað og í heitan pott og það helst nokkra meira að segja. Það þarf að mýkja þessa vesalings fætur mína upp er ég hrædd um.

Ég á það til að vera svolítið föst í því sem er að – en ég kannski aðhefst ekkert sérstaklega í því. Ja eða við skulum segja að áhyggjurnar og vandræðagangurinn leiði ekki endilega til þess að ég geri nokkurn skapaðan hlut í því. Ég er svona meira að hafa áhyggjur til að hafa áhyggjur ;-).

Mataræðið og það allt saman er sem sagt klassískt áhyggjuefni – nokkuð sem ég annað hvort ætti ekkert að vera að hafa áhyggjur af – síðasta ár hefur jú gengið ágætlega. Ég ætti frekar að horfa fram á veginn núna – slaka á ánægjunni með það liðna og horfa til þess sem ég þarf að gera í framhaldinu því slagurinn er ekki að baki. 24 kg eru því miður bara eins og dropi í hafið og nú þarf að losna við næstu 24 kg. HORFA FRAM Á VEGINN

Huga að markmiðunum, gera áætlun um hvernig það eigi að ná þeim og slíkt. Þar sem hlutirnir ganga ekki eins og ég vil að þeir gangi þá þarf ég að bregðast við og því hef ég gert aðgerðaráætlun sem þarf þó að samþykkja af hlutaðeigandi – ég læt hana því ekki uppi strax.

Ég ætla þó að tala við heimilislækninn og athuga með lyfið sem Sturla læknir sagði mér frá og er fyrir fólk eins og mig sem hefur sannanlega breytt um lífsstíl og haldið honum í einhvern tíma. Þær taka frá manni matarlistina og maður léttist hraðar fyrir vikið. Mér veitir ekki af að léttast hraðar vegna þess að það munar um hvert kíló á göngu og í hreyfingu. Ég þarf ekki að léttast hraðar til þess að verða ánægðari – eða mjórri heldur til þess að eiga auðveldara með að hreyfa mig – létta þrautpíndum líkama mínum burðinn.

Ég veit ekki alveg hvert prógrammið verður í sumar hvað varðar hreyfinguna það fer eiginlgega svolítið eftir því hvernig þetta þróast núna – hvernig fæturnir á mér verða og svona. Kannski þarf ég að fara að synda meira og hætta á stigvélinni og svona – hún reynir nú glettilega mikið á blessunin. Ég hætti ekkert að hreyfa mig – mér finnst alltof gaman að því og mér finnst ofboðslega gaman að lyfta. Ég er líka klár á því að maður verður allur lögulegri við þetta – axlirnar breikka, mittið verður mjórra og vöxturinn allur líkari venjulegri manneskju þrátt fyrir aukakílóin öll.

Ég ætla að verða jákvæð og horfa á björtu hliðarnar áfram en líka að huga að því hvernig ég geti breytt hinu, ein eða með hjálp. Ég ætla ekki að vera feimin við að biðja um hjálp. Það er fullt jákvætt sem hefur hafst upp úr þessu öllu saman þó mér finnst ég stundum vera að kafna í verkjum og vesaldómi.´

  • Ég finn næstum ekkert fyrir hælsporunum – bara eiginlega ekki neitt.
  • Ég á gallajakka númer 50!
  • Ég hef ekki verið léttari í 16 ár
  • Ég get hlaupið í fótbolta 😉
  • Ég á frábæra stuðningsaðila í ykkur öllum
  • Ég á yndislegan mann sem finnst ég hreint afbragð 🙂
  • Ég á son sem tók til í herberinu sínu í gær 😉
  • Ég á dóttur sem hjálpar mér við allt mögulegt og er góður félagsskapur
  • Ég fór í óvissuferð með dúk, kertastjaka og glös ásamt heitu kakói og Amarúló – og sló þokkalega í gegn fyrir vikið
  • Ég er heilbrigð og ætti svo sem ekkert að vera að væla.

En nú er besta að fara að huga að sundinu, svo prófagerð og prófayfirferð. Þetta verður góður dagur vænti ég hjá okkur vonandi flestum.

Úff … jafnvel svolítið púff :-S

Sko….

Kalt mat:

Mataræði verður að laga

Ég verð að gera það

Er alltaf að ,,reyna“
Verð eiginlega að hætta að reyna og bara gera…
En það er sko svoldið erfitt þar sem ég er ekki algjörlega fullkomin…
…sem eru náttúrulega ákveðin vonbrigði í sjálfu sér!

Fæturnir á mér eru í hassi. Ég er algjörlega ógöngufær eftir margra tíma labb og fótboltaleik í gær með nokkrum krökkum í 3. og 4. bekk ;-). Já og eina óvissuferð með skólastarfsfólkinu í gær – sem var aldeilis ágætlega vel heppnuð. Flott hjá ykkur stelpur í skemmtinefndinni. Takk þið hin fyrir skemmtunina.

Var eiginlega búin að gleyma að ég væri með auma rist og er ekki mjög góð í innanfótar skotum né þeim utanfótar… Svo tærnar voru notaðar með hroðalegum verkjum í ristinni ;-). En þess meiri skemmtun fyrir sálina. Það er hroðalega gaman að spila fótbolta ;-). Sérstaklega þegar maður er farinn að geta hlaupið svolítið.

Ja það er kannski alveg víst að ég geti það sbr ástandið á fótunum ;-).

Eftir tiltekt í dag var bara hvílt sig sveitt og mikið. Ég borða ibufen og ber á mig Deep relief, borða svo panodil inn á milli og vonandi næ ég þessu úr mér.

Einbeitin fer að að aukast ég er viss um það – einhvern tímann…

Verst að ég er bara einhvern veginn algjörlega áhugalaus um að vera öguð í mataræðinu. Ég er sem sagt í því að hugsa – ahhh ég geri það bara samt. Kannski lauma ég… í dag -með – en það skiptir ekki máli því allir dagar eru svo sem svipaðir með þetta. Ég klikka alltaf eitthvað á hverjum degi.

Þetta er eiginlega eini raunverulegi bardaginn við mataræðið sem ég hef tapað í heilt ár, þ.e. meðvitaður slagur – stundum hef ég bara látið eftir mér og ekki verið að berjast neitt. En nú er ég svolítið að ætla mér að standa mig en stend mig alls ekki – en það verður líka bara að hafa það. Ekki ætla ég að gefast upp – eða hætta. Það er ekki í boði – en þið vitið þetta er svona svoldið pirrandi erfitt og slítandi.

En margur glímir við meira og alvarlegra en spikið – en það hefur þessar skuggahliðar, það setur mig jú í ýmsa hættu á að … eitthvað.

Ég hugsa að ég hvíli stigvélina í Styrk og jafnvel bara Styrk í heild svolítið – fari að huga að sundi og hjólreiðum meira.

Ég held ég þurfi líka að mæta einu sinni í viku til Baldurs – mér veitir ekki af aðhaldinu í augnablikinu (hlusta á góðu vísurnar sem eru aldrei of oft kveðnar. Honum finnst ég að vísu óhugsandi. Finnst eitthvað erfitt að ráðleggja mér þar sem ég fer ekki eftir ráðunum sem er náttúrulega bara RANGT. Ég fer eftir öllu sem hann segi – eða amk reyni það…. þegar upp er staðið… Á endanum, kannski.

Svoldið leiðinlegt að vera óhugsandi… En líklega alveg hárrétt

Það er ekki víst að ég komist til Færeyja – það er náttúrulega allt pakkað í þetta flug um hvítasunnu.

En hvað um það – ég fer þá bara síðar.

Inga óhusandi

Vinna og matur

Hó hó og hæ hó
Er búin að vera úti í skóla eftir að hafa sofið vel og lengi alveg til 11 held ég bara svei mér þá. Fór þá að huga að því að fara út í skóla að vinna en var ógnarinnar lengi að bæði koma mér þangað og svo að byrja að vinna – en ég var nú svona að hugsa um ýmislegt á meðan :-).
Samdi yfirferðarreglur fyrir stærðfræðina, undirbjó enskuprófið hjá 5. bekk og vesenaðist svona í ýmsu. Og borðaði. Það er svo mikilvægt að borða vel. Sigh
En nú fer hreyfingin að koma aftur inn – ganga á morgun með skólanum og óvissuferð með starfsfólkinu síðar um daginn. Svoldið vín þar reikna ég með… Ég ætla ekki að geta losnað frá þessu víni öllu saman.
Búin að borða 6 kexkökur í dag og heilmikið brauð og rækjusalat. En ég er líka búin að borða 400 gr grænmeti…

Ég er aum í fótunum – hefði átt að fara í sund bara og eins er hálsinn hálf þreyttur. Ætti að fara í nudd aftur í næstu viku svei mér þá. Líka þegar maður er orðinn svona duglegur að vinna á ný ;-).

Æ þetta er allt í góðu. ÉG veit hvar vegurinn liggur. Og ég veit ég þarf að vera upp á honum. Ég veit líka nokk hverjir geta hjálpað mér við það. Svo þetta er í lagi.

Palli er búinn að bjóða mér til Þórshafnar um hvítasunnuna. Ég ætla að drífa mig. Kannski fæ ég mér gönguskó áður…

Stefnulaus

… ég ráfa um ranghala matarkistur veraldarinnar. Mig langar að borða allt það ,,góða“ í heiminum sem er allra verst fyrir mig.

…nenni ekki að elda

…nenni ekki að versla

…nenni ekki að hugsa um grænmetisskammtinn

…nenni ekki að borða EKKI eftir kl 20

…nenni ekki að vera alltaf að reyna að hafa hlutina eins og þeir ættu að vera.

Er þar að auki komin með bullandi hálsbólgu og eitlabólgu, jafnvægisleysi og svima.

Fuss og svei

Hvenær ætli ég verði einbeitt á ný?

Og hvað ætla ég að gera í því þegar ég hef ekkert lést á föstudaginn í heilan mánuð?

Breyta einhverju?

Ekkert annað í boði.

En nenni ég því?

Mig vantar að láta setja mig á beinu brautina á ný. Baldur getur þú það ekki einu sinni enn? Já eða bara hver sem er? Er ekki einhver fjarstýring þarna úti sem gæti virkað á mig – einhver sem þið eruð kannski hætt að nota? Kannski er hún þarna í neðstu skúffunni til hægri heima hjá þér? Góða ýttu eða góði ýttu – best bara bæði, á rauða stóra takkann – helst nokkrum sinnum.

Já og hvernig er það – teljið þið enga ástæðu til þess að commenta hér ever again?


Gerið þið ykkur grein fyrir hve mikils virði það er…

Sigh

Leirbakstrar

Nú er að verða að kvöldi kominn svimadagurinn mikli :-). Ég hef verið með eyrnaverk og svima í allan dag – byrjaði í morgun og ég fór því ekki í gönguna né hjólaði ég í vinnuna. Hef svo bara verið að gaufast þetta í vinnunni eins og hægt er með öll þessi börn og viðfangsefni.

Ég fann í gær að ég var að stífna svolítið upp í öxlunum enda setið nokkuð við að vinna vegna námsmats og skólaloka almennt. Hafði því vit á að biðja um nuddtíma sem ég fór í nú áðan. Á álagstímum þá sest alltaf svolítil spenna í axlirnar. Kannski hef ég burði einhvern daginn að biðja um kálfanudd. Ég er með þennan fjandans pirring alltaf í fótunum en finnst svo einhvern veginn óþægilegt – á feimnislegan hátt að láta nudda kálfana. Sem er svolítið merkilegt. Eina ástæðan segm ég finn er að mér finnist lappirnar á mér svo ótrúlega ljótir og viðbjóðslegir. Sem mér finnst en er ekki sanngjarnt því blessaðir fæturnir mínir standa sig nú bara vel í að halda mér uppi.

Fékk leirbakstra – holy moly – þvílík sæla. Besta besta besta ever sem ég hef komist í. Vonandi fæ ég svoleiðis aftur!

Nammi namm…

Sjúkraþjálfun með nuddívafi er góð

Vor

Vor í huga og vor í hjarta – eigum við ekki bara að segja það.
Er komin heim og Ragnheiður tók til – víhó – æðislegt að koma heim í hreint og fínt hús.
Er alveg að verða búin að púsla síðustu dögum skólaársins saman í huga mér.
Ég ætla að láta mér líða sem best með börnunum og með því að reyna hvað ég get til að þeim líði vel. Ég á eftir að sakna þeirra óumræðilega.
Það eru 5 venjulegir skóladagar eftir – ja eða kannski sex. Útivistardagur á föstudaginn, frí á fimmtudag og svo bara næsta vika. Hugsið ykkur bara að þessi erfiði vetur er að verða búinn.
Ég held ég gæti alveg hugsað mér að hjóla og hjóla og hjóla – kannski ekki alltaf saman daginn en svona allt að því ;-). Mér líður ótrúlega vel á eftir – reyndar eins og eftir alla hreyfingu. Nú er það farið að skila sér – á þrettánda mánuði.
Ég er bara sæl með mitt þrátt fyrir allt eða kannski vegna alls. Hver nennir að pirra sig á kosningum og Eurovision endalaust?
Gerum bara gott úr þessu. Borðum hæfilega, hreyfum okkur þó það sé stundum vont og lítt innan okkar langana marka – elskum hvert annað og sofum svo vel.
Er svo ekki rétt að fá sér svolitla pizzu og aðra óhollustu?
Sigh

Hjólatúr og svengd

Ég er alltaf svöng – þetta er bara ekki normal! Getur þetta verið útaf því að ég er með hærri púls og þá brenni ég meira en áður – eða brenndi ég alveg því sama þó hjartanum væri haldið niðri? Svarið er að líklega hef ég brennt alveg því sama þó ég væri á betablokkaranum – þó að í Opruh hafi einn læknir sagt að þau séu fitandi og hægi á brennslunni.

Þetta er kannski bara eitthvað sem fólk er almennt ekkert að pæla í – en amk er ég búin að vera síðustu vikuna er ég búin að vera svo svöng og matgráðug að ég hef aldrei vitað annað eins. Og veit ég þó eitt og annað um matgræðgi ;-).

En nú ætla ég bara að fylgjast vel með vigtinni og skrá hjá mér brennsluna – hætta þessu röfli og sjá bara hvernig þetta þróast.

Fór með krakkana hálfan Votmúlahringinn – 40 mín túr svona rúmlega.

Nokkrir punktar úr lífi mínu

  • Er á barmi taugaáfalls vegna þeirrar þjóðar sem ég hlýt að teljast hluti af
  • Er hætt að vorkenna okkur þetta stjórnarfar sem við höfum búið við í 16 ár og verður kannski alls 20 ár
  • Fullt af fólki sem er rúmlega þrítugt hefur aldrei búið við annað en hægri stjórn
  • Völd eru skaðleg þegar þau eru lengi á sömu hendinni
  • Feðraveldi er að komast á í þingflokk Sjálfstæðismanna
  • Samfylkingin er komin til að vera
  • Ingibjörg stóð sig frábærlega dagana fyrir kosningar en það dugði ekki til
  • Ég held að happadrýgst væri að Samfylking færi í stjórn með Sjálfstæðisflokk og reyndi að tjónka eitthvað við þetta fólk og setti lit sinn á samfélagið
  • Ég læt eins og mér komi ekki hitaeiningar eða gáfulegt mataræði við
  • Drekk hitaeiningaríka drykki eins og mér sé borgað fyrir það og verð glöð af
  • Hreyfi mig þó nokkuð reglulega
  • Kimi er dottinn út úr keppninni á Barcelóna og mér er alveg sama
  • Ég er líklega bara McLaren manneskja
  • Ég er úti í skóla að vinna´
  • Palli á afmæli í dag og er 44 ára – flott tala
  • Mér fannst Serbneskalagði 1 af þremur bestu lögum keppninnar
  • Rússneska sönglagakeppnin sýnir að vestur Evrópa fær það sem hún á skilið rétt eins og við hér á klakana
  • Það á að vera símaatkvæðagreiðsla til hálfs í öllum löndunum.
  • Eiríkur rokkar feitt

Over and out – ja nema ég á nýjan gemsa og fyrirgefið öll sem hafið fengið alls konar misgáfuleg sms síðasta sólarhringinn. Hann hefur verið strembinn – sólarhringurinn og síminn. Og nú ætla ég að fá mér kók með sykri til að jafna sykurbúskap líkamans.

Vesaldómur

Þegar ég fór að sofa í gærkveldi þá var ég algjörlega uppgefin. Þegar ég vaknaði 15 sinnum í nótt þá var ég alveg uppgefin líka, með hausverk og einhverja ólund í skrokknum. Svolitla hálsbólgu, nefið stíflað til hálfs og svo framvegis og svo framvegis.

Ég vaknaði kl. sex og hugsaði mér gott til glóðarinnar að fara með hundinn en eftir að hafa farið fram úr og litið á sokkplöggin mín og tannburstað mig og sitthvað fleira sá ég að ég gæti þetta nú ekki. Hvíld væri góð í göngunni í dag – eins og sumir eru nú að benda mér á – það þarf ekki að gera allt upp í topp.

Ekki batnaði ástandið mikið eftir því sem leið á morguninn og hafragrautseldamennskan fór alveg með mig – og ég þurfti verulegrar hvíldar við eftir hana! Sá þá þann kost vænstan að hringja mig inn veika í skólann. Það væri eins og líkaminn væri að segja mér að ég væri alveg tilbúin í einhverja hvíld. Kannski eru þetta nýju lyfin – kannski er blóðþrýstingurinn eitthvað hár eða skrítinn. Amk er meira að gera hjá hjartanu mínu – þarf að dæla helmingi hraðar í dag en á föstudaginn – eða svona allt að því – kannski bara þriðjungi. Aumingja litla hjartað mitt. Verið að messa við það hægri vinstri með lyfjum, líkamsrækt og álagi af ýmsum toga.

Ég er sem sagt heima – í bælinu því ég held varla haus. Góðar þessar fartölvur til síns brúks.

En nú ætla ég að hvíla mig svolítð. Strembin þessi morgunverk. Verst að ég er með svo mikið samviskubit yfir vesaldómnum – enskudagur í skólanum í dag – og þar með missa allir krakkarnir af henni en hvað á maður að gera þegar maður er lasinn?

Stundum bara gerist það.

Kosningar, Evrovision, aðdáandi og prófagerð

…já og svo er einhver sjálfsmeðaumkvun þarna með líka! Hí hí það er sem sagt margt í mörgu.

Ég er pólitískt viðrini. Samfylkingarkona af lífi og sál og það allt saman – en mér finnst stundum ég sjái óþarflega margar hliðar á málunum. Er ekki nógu einstrengingsleg til að ná mér á almennilegt flug. En ég er krati af gamla skólanum.

Ég trúi á gildi og mátt almannatrygginga

Ég vil að samfélagið hugsi um þá sem minna mega sín og hlúi að þeim allt eftir því sem aðstæður hvers og eins bjóða upp á.

Ég vil hraðvirka og góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla og minnka kostnað fólks við hana. Það að fá blóðtappa í fótinn á ekki að kosta viðkomandi 18 þús krónur. Það finnst mér óforsvaranlegt.

Ég vil öflugt skólakerfi rekið af sveitarfélögum og ríki, þar sem áhersla er lögð á vellíðan nemenda, rólegt vinnuumhverfi og alúð sé lögð við hvern einstakling, hvort sem hann er nemandi eða starfsmaður.

Ég vil að skólinn sé vin í erli hversdagsins hjá börnum. Við þurfum að vega upp á móti flýtinum og stressinu í umhverfi þeirra með því að skapa þeim öryggar aðstæður þar sem samskipti skipta meginmáli. Í öryggi þroskumst við best þar sem við fáum krefjandi viðfangsefni og náum að láta ljós okkar skína. Í þessu finnst mér ýmislegt vanta í dag.

Skoðanirnar hér að ofan eru mér algjörlega inngrónar og ég hef skoðanir á mörgu fleiru. Ég hef hins vegar ekki leyft mér að fara á flug í stjórnmálunum því þá veit ég hvernig það myndi enda. Ég yrði stjórnmálanörd. Rétt eins og ég varð kennaranörd, bridgenörd eða F1 nörd – já eða líkamsræktarnörd. Ég nenni ekki að hafa áhuga á einhverju nema demba mér algjörlega í það. Þegar ég horfði á fótbolta þá sökkti ég mér algjörlega í það – þvældis á leiki hér og þar, og glápti á þennan fjanda í sjónvarpinu eins og ég kom því við. Úff sem betur fer gat ég bægt þeirri bakteríu frá mér og hef látið eins og hún sé ekki til – ætla að halda því sem allra mest áfram. Þarf samt að vera aðeins með á nótunum til að vera viðræðuhæf við krakkana!

Aumingja Palli fer illa út úr þessu ,,áhugaleysi“ mínu á stjórnmálum. Honum finnst svo gaman að tala um stjórnmál, fjargviðrast yfir stjórninni og þessar stefnu sem hefur fært ogkkur græðgi og aukið völd Mammons þannig að við erum eins strengjabrúður andskotans þegar kemur að peningum – og hjá okkur er eiginlega ekkert annað sem kemst að! Ég umla bara og humma og þverneita að nenna því að tala um þessi ósköp öll. Enda yrði ég líklega alveg vitlaus um leið.

Ég er nú svoldið spennt út af Evróvision – skyldi Eiki ná að koma okkur upp úr tapdeildinni? Hann hefur einhvern sjarma karlinn – ef honum tekst vel upp á sviðinu gæti vel farið svo – annars er ég orðin vonlítil með að við komumst nokkru sinni lengra en í undankeppnina. Það eru nokkur ágætis lög þarna innan um og saman við. Og ég elska þættina skandinavísku (hægt að líta á þá hér) sem eru á RUV – þvílík krútt sem þar eru saman komin. Eitt allra besta sjónvarpsefni síðari ára svei mér þá. Húrra fyrir þeim. Samfylkingin er með Evrovisonpartý á fimmtudaginn í Inghól – maður ætti kannski að skella sér? Annars skelli ég mér aldrei neitt…

Ég hitti aðdáenda minn á föstudaginn (vonandi má ég kalla hana það) Það var alveg frábært. Það er mjög gaman að vita að það sem ég skrifa geri einhverjum gott. Hún kom að máli við mig í Styrk og sagðist alltaf lesa bloggið mitt og það hvetti hana til að gera eitthvað í sínum málum. Ég var ótrúlega glöð að heyra það. Gaman að þessar langlokur mínar skipti einhverju agnarlitlu máli fyrir fleiri en mig. Þó ekki væri nema vegna einhvers skemmtanagildis. Baldur átti líka aðdáenda í henni. Amk vakti hann forvitni hennar ;-). Hann er vel þess virði að eiga aðdáendur – ég hefði aldrei farið af stað án hans tilstilli og ég hefði heldur ekki þraukað þetta án hans. Hann hefur hvatt mig áfram, stutt mig og sjúkrað. Það er mikilvægt að hafa einhvern með sér í þessu sem hefur áhuga á því sem er að gerast hjá manni. Komið ykkur í samband við einhvern. Kannski bara æfingafélaga, sjúkraþjálfara, einkaþjálfara eða verið í hóp – sumum finnst það gott. Þetta er í raun einfalt mál:

Þú þarft að taka frá tíma í hreyfinguna
Þú þarft að ætla þér að breyta
Þú þarft að fara aftur eftir fyrsta skiptið…
Þú þarft að fara aftur og aftur alveg sama hvað

Þú þarft ekki að vilja gera þetta
Þig þarf ekki að langa til að gera þetta
Þér þarf ekki einu sinni að þykja þetta skemmtilegt

Hið eina sem þarf er ákvörðunin: Ég ætla að gera þetta.

Við vitum öll að við eigum að hreyfa okkur og við erum jafnvel öll tilbúin til að trúa því að hreyfingin bæti líf okkar og auki lífslíkur. Sú almenna skynsemi sem við höfum öll til að bera dugar fyrsta kastið. Við vitum að við eigum að hreyfa okkur.

Þegar þú hefur brotist út úr vananum og er farin(n) að hreyfa þig reglulega þá kemur viljinn, markmiðin og áhuginn. Og ef ekki þá bara tough shit – þú verður bara að halda áfram samt. Sá munaður að halda að maður hafi val um að hreyfa sig eða hreyfa sig ekki, fleytir manni ekki áfram.

Það koma erfiðir tímar – þetta er stundum hundleiðinlegt og virðist ekki skila miklu, fyrir nú utan það að maður hefur bara engan tíma í þetta- og það er þá sem þarf að bretta upp ermarnar – og fara aftur og aftur alveg sama hvað. Og það besta við þetta allt saman er að þó eitthvað bregði útaf í mataræði eða hreyfingaráætlun þá er alltaf hægt að byrja aftur strax – maður bara stendur upp, dustar af höndunum rykið og heldur af stað á ný. Það er bara eðlilegt að hrasa. En það er líka gott að hafa einhvern til að styðja mann á fætur og blása á meiddið.

Við getum þetta öll, við finnum okkar takt og fetum okkur áfram veginn. Mér þótti hreint ekki skemmtilegt í Styrk fyrst og leið bara hroðalega illa þar. Ég vildi aldrei hitta Baldur aftur eftir að ég sá hann fyrst, Styrkur var óvinveittur staður og ég engdist um – eins og fiskur í neti. Eða minnkur í búri eins og upplifun Baldurs var af þessum fyrstu tímum okkar… Þessar aðstæður voru mér framandi og ógnvekjandi.

En einhvers staðar kraumaði svo vitneskja að ég yrði að gera eitthvað og kannski væri Baldur rétti maðurinn til þess að koma mér af stað – nógu dj… væri hann beinskeittur og lítt meðvirkur. Ég var lengi af stað en þessir 10 fyrstu nuddtímar þar sem Baldur rausaði og rausaði um hreyfingu var upphafið að ferðalaginu sem ekki sér fyrir endann á. Fyrst ég get þetta (ekki ef) þá getið þið það líka. Það er bara að ákveða að maður ætli að hreyfa sig, hvenær og hvernig. Ákvörðunin þarf að standa og hefur ekkert með vilja að gera – heldur common sense. Og svo er að mæta aftur og aftur og aftur þar til það er orðið manni eins eiginlegt og hitt – að mæta ekki.

Á einu ári hef ég misst 24 kg og 110 sentimetra af ummáli mínu. Ég hef styrkst, orðið yfirvegaðari, ekki eins stressuð og orðið meðvitaðari um sjálfa mig, þarfir mínar og mörk. Eftir ár verð ég búin að missa 48 kg og eftir tvö ár héðan í frá – eða þrjá ár alls verð ég búin að missa massa sem nemur eins og einni meðalkonu. Ég ætla ekki að hafa neitt ef í þessu en ég veit að kannski næst þetta ekki – kannski tekur það mig 4 ár að ná markmiði mínu og það verður þá bara allt í lagi. Ég hef nefnilega lært ýmsilegt um markmið líka á síðastliðnu ári.

We can do it.

Verum bara vel byrg af plástrum og öðrum björgum því stundum gefur á bátinn 😉
You go girl – aðdáandi minn. Það var ótrúlega hvetjandi að hitta þig og heyra frá þér. Takk fyrir það.