Híhí- Vilborg er svo góð að taka myndir. Mér finnst hins vegar myndefnið ég aldrei vera sérlega gott en ég er viss um að ef einhver nær að gera það betra en það er þá er það hún Vilborg.
Hér er ég rjóð og sælleg eftir göngu og fótbolta í Þrastaskógi á íþróttadegi í Sunnulæk á leið í óvissuferð. Ég er ómáluð því ég hélt ég væri á leiðinni í sund og þáhá átti sko að gera sig sæta – þe eftir það. En ég fór nú aldrei í sundið þannig að lúkkið varð aldrei betra en þetta… Það áttu allir að vera með höfuðfat og ég valdi mér náttúrulega eiturgræna Púma Kastróhúfu 😉 og þar sem maður verður að vera hæfilega extream þá er ég með enn grænni glimmer eyrnalokka við :-). Í flöskunni er bara ananassafi – kannski eitthvað kominn framyfir síðasta söludag – ég skal ekki segja.
Ég hefði nú alveg viljað að ég væri með lokaðan munninn – en ég er það víst eiginlega aldrei…
Nú er ég mest að bíða eftir því að sundlaugin opni – ég þarf mjög nauðsynlega að komast í bað og í heitan pott og það helst nokkra meira að segja. Það þarf að mýkja þessa vesalings fætur mína upp er ég hrædd um.
Ég á það til að vera svolítið föst í því sem er að – en ég kannski aðhefst ekkert sérstaklega í því. Ja eða við skulum segja að áhyggjurnar og vandræðagangurinn leiði ekki endilega til þess að ég geri nokkurn skapaðan hlut í því. Ég er svona meira að hafa áhyggjur til að hafa áhyggjur ;-).
Mataræðið og það allt saman er sem sagt klassískt áhyggjuefni – nokkuð sem ég annað hvort ætti ekkert að vera að hafa áhyggjur af – síðasta ár hefur jú gengið ágætlega. Ég ætti frekar að horfa fram á veginn núna – slaka á ánægjunni með það liðna og horfa til þess sem ég þarf að gera í framhaldinu því slagurinn er ekki að baki. 24 kg eru því miður bara eins og dropi í hafið og nú þarf að losna við næstu 24 kg. HORFA FRAM Á VEGINN
Huga að markmiðunum, gera áætlun um hvernig það eigi að ná þeim og slíkt. Þar sem hlutirnir ganga ekki eins og ég vil að þeir gangi þá þarf ég að bregðast við og því hef ég gert aðgerðaráætlun sem þarf þó að samþykkja af hlutaðeigandi – ég læt hana því ekki uppi strax.
Ég ætla þó að tala við heimilislækninn og athuga með lyfið sem Sturla læknir sagði mér frá og er fyrir fólk eins og mig sem hefur sannanlega breytt um lífsstíl og haldið honum í einhvern tíma. Þær taka frá manni matarlistina og maður léttist hraðar fyrir vikið. Mér veitir ekki af að léttast hraðar vegna þess að það munar um hvert kíló á göngu og í hreyfingu. Ég þarf ekki að léttast hraðar til þess að verða ánægðari – eða mjórri heldur til þess að eiga auðveldara með að hreyfa mig – létta þrautpíndum líkama mínum burðinn.
Ég veit ekki alveg hvert prógrammið verður í sumar hvað varðar hreyfinguna það fer eiginlgega svolítið eftir því hvernig þetta þróast núna – hvernig fæturnir á mér verða og svona. Kannski þarf ég að fara að synda meira og hætta á stigvélinni og svona – hún reynir nú glettilega mikið á blessunin. Ég hætti ekkert að hreyfa mig – mér finnst alltof gaman að því og mér finnst ofboðslega gaman að lyfta. Ég er líka klár á því að maður verður allur lögulegri við þetta – axlirnar breikka, mittið verður mjórra og vöxturinn allur líkari venjulegri manneskju þrátt fyrir aukakílóin öll.
Ég ætla að verða jákvæð og horfa á björtu hliðarnar áfram en líka að huga að því hvernig ég geti breytt hinu, ein eða með hjálp. Ég ætla ekki að vera feimin við að biðja um hjálp. Það er fullt jákvætt sem hefur hafst upp úr þessu öllu saman þó mér finnst ég stundum vera að kafna í verkjum og vesaldómi.´
- Ég finn næstum ekkert fyrir hælsporunum – bara eiginlega ekki neitt.
- Ég á gallajakka númer 50!
- Ég hef ekki verið léttari í 16 ár
- Ég get hlaupið í fótbolta 😉
- Ég á frábæra stuðningsaðila í ykkur öllum
- Ég á yndislegan mann sem finnst ég hreint afbragð 🙂
- Ég á son sem tók til í herberinu sínu í gær 😉
- Ég á dóttur sem hjálpar mér við allt mögulegt og er góður félagsskapur
- Ég fór í óvissuferð með dúk, kertastjaka og glös ásamt heitu kakói og Amarúló – og sló þokkalega í gegn fyrir vikið
- Ég er heilbrigð og ætti svo sem ekkert að vera að væla.
En nú er besta að fara að huga að sundinu, svo prófagerð og prófayfirferð. Þetta verður góður dagur vænti ég hjá okkur vonandi flestum.


