Inga á leið til Færeyja!

Ég veit ekki hvort það voru prófinu öll, það að vera ekki búin að finna til farangurinn fyrir Færeyjadvölina, Færeyjarferðin, áhyggjur af kærum stórfjölskyldumeðlim eða bara því að vita að ég yrði að fara í Styrk í dag nú eða allt þetta sem olli því að ég fékk gamalkunna heimsókn í nótt. Ég hélt ég væri alveg laus við þennan hvimleiða gest. Ég ætla að segja ykkur frá honum – til þess að eyða óttanum við hann og sýna honum að hann getur ekki falið sig 😉

Skömmu eftir að ég er sofnuð, kannski svona rúmum hálftíma hrekk ég upp við eitthvað – kannski svelgist mér á, eða mér bregður við einhver hljóð – já bara hvað sem er. Mér finnst ég hreinlega vera að kafna, hjartað hamast og hamast og ég finn hvern einasta slátt þess. Óttinn læðist að og eykur enn andþyngslin og hjartsláttinn og að mér sækir óttinn við að nú sé ég hreinlega að fá hjartaáfall. Ef ég ekki tek mér tak á þessari stundu endar þetta í algjörri oföndun, miklum kvíða og ofsahræðslu. Þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur að magnast upp í algjöra vitleysu. Í eina tíð varð þetta svo slæmt að það endaði stundum í ofsaskjálfta og köldu. Panic attack er ekkert grín – það lærði ég.

Smám saman lærðist mér að ég væri ekki að deyja – lífiði hverja heimsóknina af annarri af og lífið hélt sinn vanagang með morgninum. Ég lærði á þessum tíma að ég yrði þá bara að gefa eftir og deyja – það væri fátt sem ég gæti gert við því. Minn tími væri einfaldlega kominn ef út í það væri farið. Ég lærði að tala við mig, reyna að róa mig niður, rísa upp, vekja Palla eða fara aðeins fram – allt sem óttinn hafði lamað og ranghugmyndin var líka svo að ef ég hreyfði mig þá yrði allt verra og lengi vel, leitaði ég því inn á við – reyndi að verða ósýnleg – hverfa þessum óboðna gesti.

Með tímanum hvarf þetta svo bara, ég veit ekkert hverju þetta tengist. Kvíða, álagi, magakveisu eða hverju. Aðdragandinn er þó ávalt sá sami og það er alltaf jafn fjandi leiðinlegt að eiga við þetta. En ég var orðin skrambi dugleg við það – réði að lokum niðurlögum kauða og taldi mig hólpna. Svo fór hann að líta við aftur nú í vor. Og í nótt réðst hann til inngöngu.

Það er nú meira hvað maður getur orðið hræddur og umkomulaus einn í bólinu! En með lempni tókst mér að sannfæra mig um að hjartað í mér væri í fínu standi, ég væri ekki að deyja og ég skyldi nú bara vera róleg og anda svolítið gáfulega. Eftir dágóðan bardaga með sókn og vörn sofnaði ég á ný og vaknaði ekki fyrr en dagur rann. Svo ljómandi glöð að vera á lífi því það síðasta sem ég hugsaði áður en ég sofnaði í nótt eftir atganginn, að það yrði þá bara í annars höndum hvað svo gerðist ;-).

Ferlegt alveg – ég held ég ætti að fara að gera eitthvað af því sem hvílir á huga mér.

Námsmatið, pakka niður, gleðjast yfir því að vera að fara til Fæeyja og fá gott helgarfrí frá öllum erlinum, fara í Styrk á eftir.

Ég held ég ætti að finna gleðina, umvefjana hana og njóta þess að vera til og lifa þessu fína lífi. Hætta að vera að vesenast þetta yfir hverju því sem á daga mína drífur.

Því lífið er gott. Njótum þess í blíðu sem stríðu. Sumir bardagar eru svo miklu hatrammari en þeir sem ég þarf að fást við.

Færðu inn athugasemd