Úthald

…já eða ekki :-S

En sem sagt nú er ég bara búin að ákveða þetta.

Damage control it is

Ég meina hver getur verið gáfulegur í miðju námsmati og veikindum.

Ekki ég amk – þoli ekki svoleiðis ágjöf 🙂

Nú en vöfflukaffið með krökkunum og nokkrum foreldrum gekk ótrúlega vel 😉

Margar vöfflur bakaðar og öryggi sprengd hægri vinstri

Frábær börn – frábærir foreldrar – frábært partý

Og ég lasin

Verður ekki tilþrifameira.

Þetta gengur hægt

…ekkert hjólað í gærkveldi. Bara borðað nammi og unnið út í eitt. Kvaldist af magaverkjum sem höfðu annars legið í láginni frá því á mánudag. Svaf illa í nótt með kvef og magaverki enn.

Vaknaði þannig. Fór á bílnum í skólann – sigh…

borðaði óhollan morgunmat og er svo alveg hissa á því hvað mér er illt í maganum. Get ekki verið úti á íþróttadeginum því ég tel að ég sé svo slæm í maganum og með hálsbólgu og kvef.

Ekkert útlit fyrir nein stórátök eða sigra í dag.

Hvað er að mér eiginlega?

Follow that bus!

Halló þið þarna fellow þverhausar 😉

Skólaferðalega í dag með litlu grjónin 60 – gekk frábærlega og þó það hafi verið hvimleitt og svolítið sorglegt þá blandaðist hasaspennandi leynilögguaðgerð inn í ferðina þar sem fyrirsögnin kom við sögu ;-). Úff púff.

Þórur í Skógum heillaði unga sem aldna og við skemmtum okkur dásamlega í mikilli blíðu og innan um gamla muni. Vonandi fara krakkarnir aftur að safninu og fá lengri tíma til að skoða. það var síðan gengið upp með Skógarfossi (þori það náttúrulega ekki en hefði líklega komist það ef ekki hefði verið fyrir lofthræðsluna.)

Nú svo var líka farið að Seljalandsfossi og farið þar á bakvið en ég þorði því ekki heldur – meiri álfurinn. Sagðist ekki geta það en krakkarnir reyndu að hvetja mig og fá mig með sér. Þá rifjaðist upp fyrir mér hve oft ég hef sagt síðasta árið að ég geti ekki eitthvað. Og þá hefur Baldur staðið við öxlina á mér og sagt – víst getur þú þetta og gerðu það. Og oftast eða alltaf jafnvel hef ég getað – en í dag dugði þó ekki sú hvatning hans mér og ég þorði ekki 😉

Ég er með svolitla kvefdrullu – eins og ég losni ekki almennilega við hana. Fór EKKI hjólandi í skólann í morgun – ætlaði að spara á mér fæturna en þeir hafa verið arfalélegir eins og kunnugir vita. Er á einhverjum gigtar og bólgulyfjum sem hafa hjálpað heilmikið og í fyrsta skiptið í nótt meiddi sængin mig ekki – svo aum hef ég verið í blessuðum fótarbólgunum mínum.

Verst að sundlaugin er lokuð – hefði mjög vel getað sett einn góðan sprett inn með hana – og hún opnar ekki fyrr en eftir 10 daga eða hvur má vita hvað.

Dagurinn í gær gekk vel í mataræðinu – nema hvað ég fékk mér kornflegs með sykri í gærkveldi klukkan 22! En jamm – hummm

Í dag var það síðan kex í nestinu í ferðinni – sigh. En hvað um það.

Stefni á að klára til hálfs þessi 60 enskupróf sem ég á eftir að fara yfir og hjóla í kvöld. Það er svo yndislegt veður og þó ég fari ekki nema í 20 mín þá er það betra en ekki neitt. Svo fer ég hjólandi í skólann á morgun. Held mig við hjólið og fer svo í Styrk á föstudag og sunnudag. Það er þá hægt að taka léttar á því en reyna að hafa brennsluna í toppi.

Ég er hvort sem er hálf aum í öxlunum er ekki viss um að ég nái að lyfta svo miklu.

Ferðasagan frá færeyjum verður að bíða enn um sinn – finn hvergi nokkurs staðar myndavélina!

Morgunhjólreiðar

Ég vaknaði algjörlega sannfærð um að ég væri mjög lasin. Þrefaði við sjálfa mig í allnokkurn tíma, fór svo á fætur upp á hjólið og hjólaði í 20 mínútur tæplega og er svo sest hér við að fara yfir síðustu prófin og slá inn.

550 hitaeiningar fuku og vonandi verður brennslan hröð og góð í dag. Ég nefnilega finn mikinn mun á mér eftir að ég fór á nýju lyfin hve morgunbrennslan skilar mér meiri púls allan daginn.

Jamm þetta var sem sagt bara þessi skýrslan ;-). Er nefnilega í svona Inguþverhaussátaki.

Heyrðu mig nú þarna þverhaus!

…held ég að sé ávarp sem gæti hentað ágætleg á mig.

Híhí – komin frá Færeyjum úr frábærri ferð. Segi ykkur meira frá henni á morgun eða hinn – og læt meira að segja nokkrar myndir fylgja með. Nú er ég nefnilega að hugsa um þetta ástand á mér sem ég er um það bil að verða búin að fá nóg af.

Ég held það megi nú bara alveg segjast að það sé allt í lagi að taka smá dýfu, gera vitleysur og reyna og reyna og reyna að gera rétt í ákveðinn tíma – og mistakast það líka 😉 En af öllu er nú hægt að gera of mikið af.

Þar sem ég át tvo Dumle poka um helgina og fékk EKKI bikar frá Polla (sem skrifast nú á reikning algjörlega ónýtra fóta) í síðustu viku – og að ég ætlaði að hætta að borða nammi á miðvikudag nema bara svona á hátíðisdögum – þá verður nú snúið vörn í sókn.

Í þessari sókn sem nú er nýhafin og gæti mögulega staðið í 3 mánuði en þá lýist víst sóknarmaðurinn eftir því sem Baldur segir og við tekur vörn og 14-2 ósigrar í nokkurn tíma áður en næsta sókn hefst- en sem sagt í þessari sókn var farið út að hjóla í kvöld eftir að ég kom heim.

Fór Laugardælahringinn og hjólaði í 42 mín og brenndi 1114 kaloríum. Og ég ætla að hjóla aftur á morgun – early.

Cross your fingers – ég þarf á fjarstuðningi að halda – já og þær líka 🙂

Inga á leið til Færeyja!

Ég veit ekki hvort það voru prófinu öll, það að vera ekki búin að finna til farangurinn fyrir Færeyjadvölina, Færeyjarferðin, áhyggjur af kærum stórfjölskyldumeðlim eða bara því að vita að ég yrði að fara í Styrk í dag nú eða allt þetta sem olli því að ég fékk gamalkunna heimsókn í nótt. Ég hélt ég væri alveg laus við þennan hvimleiða gest. Ég ætla að segja ykkur frá honum – til þess að eyða óttanum við hann og sýna honum að hann getur ekki falið sig 😉

Skömmu eftir að ég er sofnuð, kannski svona rúmum hálftíma hrekk ég upp við eitthvað – kannski svelgist mér á, eða mér bregður við einhver hljóð – já bara hvað sem er. Mér finnst ég hreinlega vera að kafna, hjartað hamast og hamast og ég finn hvern einasta slátt þess. Óttinn læðist að og eykur enn andþyngslin og hjartsláttinn og að mér sækir óttinn við að nú sé ég hreinlega að fá hjartaáfall. Ef ég ekki tek mér tak á þessari stundu endar þetta í algjörri oföndun, miklum kvíða og ofsahræðslu. Þetta tekur ekki nema nokkrar mínútur að magnast upp í algjöra vitleysu. Í eina tíð varð þetta svo slæmt að það endaði stundum í ofsaskjálfta og köldu. Panic attack er ekkert grín – það lærði ég.

Smám saman lærðist mér að ég væri ekki að deyja – lífiði hverja heimsóknina af annarri af og lífið hélt sinn vanagang með morgninum. Ég lærði á þessum tíma að ég yrði þá bara að gefa eftir og deyja – það væri fátt sem ég gæti gert við því. Minn tími væri einfaldlega kominn ef út í það væri farið. Ég lærði að tala við mig, reyna að róa mig niður, rísa upp, vekja Palla eða fara aðeins fram – allt sem óttinn hafði lamað og ranghugmyndin var líka svo að ef ég hreyfði mig þá yrði allt verra og lengi vel, leitaði ég því inn á við – reyndi að verða ósýnleg – hverfa þessum óboðna gesti.

Með tímanum hvarf þetta svo bara, ég veit ekkert hverju þetta tengist. Kvíða, álagi, magakveisu eða hverju. Aðdragandinn er þó ávalt sá sami og það er alltaf jafn fjandi leiðinlegt að eiga við þetta. En ég var orðin skrambi dugleg við það – réði að lokum niðurlögum kauða og taldi mig hólpna. Svo fór hann að líta við aftur nú í vor. Og í nótt réðst hann til inngöngu.

Það er nú meira hvað maður getur orðið hræddur og umkomulaus einn í bólinu! En með lempni tókst mér að sannfæra mig um að hjartað í mér væri í fínu standi, ég væri ekki að deyja og ég skyldi nú bara vera róleg og anda svolítið gáfulega. Eftir dágóðan bardaga með sókn og vörn sofnaði ég á ný og vaknaði ekki fyrr en dagur rann. Svo ljómandi glöð að vera á lífi því það síðasta sem ég hugsaði áður en ég sofnaði í nótt eftir atganginn, að það yrði þá bara í annars höndum hvað svo gerðist ;-).

Ferlegt alveg – ég held ég ætti að fara að gera eitthvað af því sem hvílir á huga mér.

Námsmatið, pakka niður, gleðjast yfir því að vera að fara til Fæeyja og fá gott helgarfrí frá öllum erlinum, fara í Styrk á eftir.

Ég held ég ætti að finna gleðina, umvefjana hana og njóta þess að vera til og lifa þessu fína lífi. Hætta að vera að vesenast þetta yfir hverju því sem á daga mína drífur.

Því lífið er gott. Njótum þess í blíðu sem stríðu. Sumir bardagar eru svo miklu hatrammari en þeir sem ég þarf að fást við.

Annir

Jæja svona getur þetta verið…

Ekkert að gera nema vinna, vinna og svo vinna svolítið meira. Námsmat er alveg ágætur pakki. Búa það til, með kvarða, markmiðum og svörum. Leggja það fyrir. Fara yfir og skrá svo í ótalliðum á ennþá fleiri blöð. Vista sem pdf – hundrað þúsund billjón sinnum finnst mér orðið núna…

Og ég sem er að fara til Færeyja. Muna eftir að taka skilríki með, flugnúmerið eða hvað þetta heitir, ekkert fljótandi í töskuna… heldur ekki krem… Leggja nógu snemma af stað. Þora að fara í flugvélina, drepast ekki úr hræðslu í aðfluginu til Færeyja (er búin að heyra svo margar sögur að meira að segja ég sem er ekki flughrædd er orðin það!) Finna rútuna í Færeyjum – hvar stoppar hún svo?

OH MY GOD

Ég ætla ekki einu sinni að ræða um líkamsrækt, fótaveiki og mataræði. Það færi nú endanlega með mig er ég hrædd um!

Já og ykkur. En það er samt ákveðin aðgerðaráætlun komin í gang…

Það á bara eftir að fara eftir henni 😉

Annars er mér ekki hlátur í huga…

Og ég á ekki einu sinni bágt. O nei og ég geri mér grein fyrir því.

Fer þetta nú ekki að verða ágætt

Ég hef verið í afskaplega sérkennilegu gír síðan í apríl – það verður nú bara að viðurkennast. Ég held ég hafi verið á sjálfsaðdáunarflippi með kærileysislegu ívafi – það hefur ekki skilað sérstökum árangri nema hvað ég verið bara þokkalega geðgóð ;-).

En ég held ég verði að fara að taka á þessu eitthvað. Ég þarf að setja mér eitthvað það markmið að t.d. sækjast eftir þeim markmiðum sem ég hef sett mér ;-). Það væri nú svei mér gáfulegt. Ég þarf líka að forðast svona stórslys eins og ég hef lent í með fæturnar á mér síðustu dagana. Ég er heldur skárri í dag en í gær og miklu betri í gær en í fyrradag þannig að þetta er allt að koma. En ég hef líka ekki verið í neinni hreyfingu síðan á föstudag og þar áður hafði ég ekkert gert síðan á mánudag.

Tréð mitt

Við fengum kort með ferskeytlu í og þessari lýsingu í óvissuferðinni. Vísan mín var góð en ég man hana nú ekki alveg – en ég set hana inn síðar. Kortið lenti á smááá flakki í ferðinni 😉

Mér finnst þetta passa svo vel við mig – ekki satt?

Reyniviður

Viðkvæmni 01.04-10.04 & 04.10-13.10

Miklir persónutöfrar einkenna þessa manneskju og hún er bæði kát og hæfileikarík, án þess að það stigi henni til höfuðs. Hún vill vera miðpunktur þess sem er í gangi, er lífsglöð og mikið á hreyfingu, forðast ekki vandamál og veigrar ekki fyrir sér að flækja hlutina.Henni finnst hún ekki þurfa á neinum að halda en er þó mjög háð þeim sem henni þykir vænt um.

Hún er smekkvís og listfengin, ástríðufull og hjartnæm. Það er gott að vera nálægt henni, en þeir sem gera á hennar hlut ættu ekki að búast við fyrirgefningu.