Góðviðri

Það er sama hvort það rignir eldi og brennisteini, snjói eða skafi; það er komið vor. Þegar ég kom út í morgun þá bara hviss bang búmm. Grasið orðið grænt og hlýindi í lofti. Ekki slæmt.

Af þessu tilefni hef ég hengt þvott út á snúrur. Verst að það er ekki sérlega mikið sem þarf að þvo að þessu sinni – en það skemmir svo sem ekki að sleppa við þvotta. Ég sé til hvort ég finni ekki einhver rúmföt og teppi og slíkt sem gaman væri að þvo ;-). Yndislegt að geta hengt út og látið þorna þar nú þegar maður er þurrkaralaus. En hvað um það.


Ég fór í sund og buslaði í 30 mínútur og brenndi 550 hitaeiningum þannig að dagskyldan er að baki þar. Ég er á góðu róli varðandi markmiðin. Með styrkferðinni á morgun þá er ég í 1200 í plús sem er ágætt því sundleikfimin er dottin út en morgungangan 5 daga vikunnar ætti að vinna það upp – sérstaklega ef ég lengi hana svolítið. Best er að vera kominn upp í skóg rétt rúmlega sex þá hefur maður góðan tíma þegar heim er komið að finna til nesti og borða morgunmat.

Nýjustu fréttir að vöðvauppbyggingu er að nú er bakið að taka við sér. Það hefur breyst gríðarlega nú undanfarið, herðablöðin farin að standa út eins og á venjulegu fólki – og ég farin að sjá til þeirra í fyrsta skipti í áratugi held ég að ég megi segja. Vöðvarnir sem liggja við hrygginn – yfir rifbeinin og við mittið eru líka sprækir. (verður gaman að fá nýja tölu yfir mittisbreidd mína – ég hlýt að vera grennast þar svolítið um þessar mundir). Þetta gengur sem sagt rosa vel og ég fór ekki á vigtina í gær – onei og ætla ekki fyrr en á föstudaginn. Það verður bara að koma í ljós hvað stendur á henni þá. Kannski að víndrykkja og eitthvað slugs sé nóg til að skemma fyrir – en á móti kemur að ég hef verið nokkuð dugleg í mataræðinu – kvöldmaturinn er samt svolítið vesen, þarf að halda áfram að vinna að betrumbótum þar.

Í dag ætla ég að njóta lífsins, safna kröftum, fókusa, syrgja Sunnulæk og að þessu öllu loknu get ég farið að horfa til framtíðar. Hún bíður þarna með útilegur, göngur og sprikl. Ég hlakka mjög til að ári þegar vonandi verða farin 24 kg í viðbót. Ég verð ekki nein léttavara þó svo fari – en ég verð allt önnur trúi ég. Við þetta bætist allt að ég hef ekki bara grennst heldur hefur holningin á mér gjörbreyst. Manneskja sem æfir af sama kappi og ég hlýtur að hafa öðlast mikinn styrk og breytta líkamsbyggingu eftir 12 mánaða hörku púl. Ég held meira að segja að ég sé farin að finna það á eigin skinni.

Færðu inn athugasemd