Ég og Bjartur vöknuðum árla í morgun en í gærkveldi bjó ég til lista yfir allt það sem ég þarf að gera næstu 7 dagana – hefur vísast valdið því hve snemma ég vaknaði. Það er ýmislegt- húslegt og garðlegt. Hér í garðinum er mikið rusl saman komið – jukkiti júkk bara – bæði frá okkur og svo fýkur mikið hingað inn líka – mjög sóðalegt og ég verð að gera eitthvað í þessu í algjöru snarhasti. Ja kannski ekki algjöru snarhasti en svona nokkru snarhasti….
Nú en það sem ríður mest á er að komast í taktinn í lífinu sjálfu aftur eftir hálf einbeitingarlausa viku síðast. Það dugir ekki að horfa bara á það sem betur má fara og gera ekkert í því heldur barasta koma sér í gírinn á ný.
Gærdagurinn var afleitur matarlega séð – en ég var mjög dugleg í ræktinni en fór ekki sundleikfimina. Var bara einfaldlega of þreytt – en það er nokkuð sem einkenndi mig í liðinni viku. Svo erfitt að vera í páskafríi ;-).
En þar sem ég var minnt á það að ég ætti hjól í gær og að ég ætti að nota það brá ég undir mig betri fætinum og hjólaði í morgun til að koma brennslunni af stað. Það var nú ekki sérlega gott veður og rigningin æði köld á köflum en ég náði að hjóla góðan spotta á móti vindi sem er sérlega æskilegt því annars næ ég ekki púlsinum upp nema með mikilli langkeyrslu. Ég hjólaði í um 25 mínútur og er bara ánægð með það nú þegar ég hlusta á nauðið í vindinum og sé dropana falla skáhalt hér fyrir utan.
Í dag ætla ég að horfa á tímatökur í F1, baka bollur, taka til í ,,skrifstofugeymslunni“ minni og slappa svo vel af inn á milli. Stefni á svolítið hlaup í lauginni um fjögur leytið – þarf enn að brenna um 400 hitaeiningum til að vera á áætlun dagsins. Vantar umtalsvert upp á að bæta hreyfingaleysi mánudags en þar sem ég fer í Styrk á morgun þá lítur jafnan ekki afleitlega út og ég hef snúið vörn í sókn.
Nú er bara að huga vel að mataræðinu og taka sig í gegn þar sem því er ábótavant. Auka grænmetisátið, minnka brauðát – helst setja það alveg út og borða ekki neitt nema grænmeti eftir kl 20 á kvöldin. Þá er ég í góðum málum.
Bless í bili