Góður sunnudagur

Stjörnuspáin mín gerir ráð fyrir miklu rifrildislofti í kringum mig í dag – ég veit ekki við hvern ég ætti að rífast. Ég sit nú bara ein á mínum rassi – hef ekki mikinn félagsskap satt að segja nema af Bjarti þá helst. Og ekki má gleyma Aðalsteini sem virðist vera að finna sjálfan sig í fárviðri unglingsáranna. Það er þakkarvert. Blessaður litli unginn minn. Hann er stundum heima. Við erum þó oftar en ekki hvort í sínum heimi.

Ég gleymdi sundbolnum mínum og nemanum hans Polla í sundi í gær. Ég er farin að gleyma öllu mögulegu hér og þar. Svoldið leiðinlegt verð ég að segja. En vegna þess að beltið hans Polla er fjarri mér þá líður mér eins og það vanti eitthvað stórkostlegt í tilveruna – sjúkket að ég fattaði þetta ekki í gær – þá hefði ég ekki sofið af áhyggjum. Mér líður svolítið eins og þegar ég þarf að skilja bílinn einhvers staðar eftir. Það er skelfilegur aðskilnaðarkvíðinn skal ég segja ykkur ;-).

En svolítið um svefn: Mín er bara farin að sofa eins og engill. Rumska kannski við og við yfir nóttina en það er allt annað en vera að vakna margoft og nokkurn tíma í senn. Ég var t.d. bara farin að sofa svolítið snemma í gærkveldi og svaf í þokkalegum rikk til bara að verða sjö. Það finnst mér ekki amalegt. Alltaf 7 tíma svefn með smá meðvitund við og við. Batnandi konu er best að lifa.

Ég er með nettan seiðing og fiðring í herðunum eftir sundið en það helsta sem er að pirra mig líkamlega núna – því trust me – það er alltaf eitthvað sem ég finn fyrir, eru ristarnar. Mér er svooo illt í ristunum – það er sama hvernig ég teygi fetti og bretti upp á tærnar, kálfana og hvað þetta er allt saman alltaf er ég jafn aum í ristunum. En það hverfur nú áreiðanlega innan tíðar.

Hælsporinn liggur þarna niðri og dormir. Finn að ég þarf að passa mig verulega á honum – var t.d. aum eftir sundið í gær enda reyna blöðkurnar svolítið á fótinn. Mest þarf ég að passa að vera með mjúkt undir hælnum og teygja vel. Kannski bara hviss pang fer hann í langan dvala. Ég hef amk stórkoslega lagast við nálastungurnar – eins ógeðslega vont og það var á köflum. Það var þess virði samt.

En nú ætla ég að nota tímann vel og vinna svolítið – svona fram til tólf og reyna ekki að hugsa um beltið sem okkur Polla vantar. Það hlýtur að hafa verið tekið til handagagns eins og sundbolurinn.

Áfram svo

Ykkar Inga

Smá um hvað hælspori sé. Reyndar er það ekki alveg rétt þarna að það séu bara íþróttamenn sem stunda íþróttir sjaldan s.s. eins og bara um helgar sem fá þetta – þetta er mjög algengt hjá langhlaupurum til dæmis. En rétt er það sem segir þarna að þetta er ógeðslega vont 😉

Hvað er hælspori?
Spurning: Hvað er hælspori? Hvað veldur þessum sjúkdómi og hver er meðferðin við honum?
Svar: Fóturinn er eins og spenntur bogi þannig að maður stendur aðallega í hæl og tær. Það sem heldur boganum uppi er sinabreiða sem festist í tærnar að framan og hælbeinið að aftan. Í hvert skipti sem maður stígur í fótinn kemur álag á hælinn sem getur verið allt að því tuttuguföld líkamsþyngdin. Þetta álag dempast af fitupúða sem er undir hælbeininu og áðurnefndri sinabreiðu. Við langvarandi mikið eða rangt álag á fótinn geta orðið skemmdir á sinabreiðunni og festingu hennar á hælbeinið. Þessar skemmdir geta verið á formi tognunar, smásprungna og að lokum beinmyndunar í sininni þar sem hún festist í hælbeinið. Þarna getur myndast lítið beinhorn sem kallast hælspori. Einstaka sinnum finnst hælspori fyrir tilviljun án þess að hafa valdið óþægindum en oftast veldur hann óþægindum sem geta verið mjög mikil. Þessi óþægindi lagast í hvíld en þau eru vanalega mest á morgnana þegar farið er á fætur. Ef þrýst er undir hælinn er það mjög sárt.Orsakir hælspora eru of mikið álag á fótinn og oftast er um að ræða miðaldra, of þunga einstaklinga eða þá sem stunda erfiðar íþróttir einstaka sinnum, t.d. um helgar. Það eykur einnig áhættuna ef ekki er hitað upp fyrir íþróttaæfingar.Mestu máli skiptir að koma í veg fyrir að hælspori myndist strax og einkenni um óeðlilegt álag á fótinn gera vart við sig með þreytu og verkjum eftir áreynslu. Þá verður að minnka álagið og gera viðeigandi æfingar, einkum teygjuæfingar sem strekkja á kálfavöðvum og sinabreiðunni undir fætinum. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er ekki hælsporinn sem slíkur sem veldur verkjunum heldur er hann afleiðing af langvarandi of miklu álagi á fótinn. Sjúkdómsgreining byggist á sjúkrasögu með lýsingu á verkjunum, skoðun á fætinum og röntgenmynd.Þegar hælspori hefur myndast kann að virðast freistandi að fjarlægja hann með skurðaðgerð. Árangur slíkra aðgerða er slæmur og er reynt að forðast þær í lengstu lög. Í staðinn er ráðlegt að gera viðeigandi æfingar, nota heppilega skó og innlegg, taka bólgueyðandi lyf og stundum er sprautað bólgueyðandi barksterum í hælinn. Þetta ber venjulega einhvern og stundum góðan árangur.

Rættist úr

Alltaf gott að eyða peningum. Fékk mér svolítið af fötum í dag. Vantaði buxur en endaði nú með eitt og annað í farteskinu.

Fór í sund – fékk í hálsinn og það allt saman – sjáum hvort það lagist ekki bara eins og svo margt annað.

Styrkur á morgun og stefni á 5000 hitaeiningar þessa vikuna.

Halda sjó og það allt saman. Verð áreiðanlega ánægðari á morgun því ég ætla í vinnuna og stússast svoltíð fyrir hádegi. Veitir ekki af.

Lof jú

Hva bara tveir dagar liðnir

Svona líður nú tíminn hratt á Þunguvöllum.

Síðasta dýfa stóð í einhverjar vikur – tvo mánuði kannski. Hún svona rjátlaðist af mér og mér finnst ég bara vera nýfarin að skynja litina í veröldinni á ný. Og þá kemur önnur. Og allt er þetta náttúrulega mjög aumingjalegt (takið eftir hvaða orð ég nota – vinsælasta orðið í síðustu dýfu). Þetta er ekki einu sinni almennilegt þunglyndi. Bara blues sem ég þoli ekki nema hæfilega vel.

Fór á vigtina í dag – var tveimur kílóum þyngri en ég var fyrir hálfum mánuði – það var nú alveg til að toppa liðanina. Enda í skemmtilegum takt við aumingjabraginn á mér. Ég veit ekkert hvaðan þessi kíló koma. Verð bara að skrifa dagbók og taka almennilega í lurginn á mér hvað mataræðið varðar. Kannski er þetta bara líka að breyta um æfingar – ég hef tekið eftir að það hefur alltaf smá áhrif. Kannski er þetta bara áfengið sem ég neytti um síðustu helgi. Þessi kíló eru ekki einu sinni stóra málið – veit alveg hvað þarf að gera til að losa mig við þau. Þau taka heldur ekki frá mér að ég er búin að brenna 3300 hitaeiningum þessa viku og brenndi 5400 í síðustu viku. Þau taka heldur ekki frá mér að ég fer alltaf í ræktina, gönguna, sundleikfimina og hvað þetta heitir allt – alls 7 skipti á viku. Það á ég bara og kalla mig samt aumingja. Svona getur þetta verið.

Geri bara eins og Sáli sagði – fylgist með ástandinu – kortlegg það og reyni svo að bregðast við eftir mætti. En það má víst ekki streitast á móti heldur vinna með þessum fjára. Ég get skilið það. (get samt eiginlega ekki skilið þessi 2 kg en skítt með það).

Það er matarboð á vegum skólans í kvöld. Ég get ekki hugsað mér að fara – og ég get ekki hugsað mér að fara ekki.

En stundum er maður bara ekki upplagður.

Og mér finnst hræðilegt að fara bara einu sinni í nudd á viku – þó mér finnist í sjálfu sér ekki svo hræðilegt að þurfa bara að fara einu sinni :-).