Sunnudagur og markmið

Haldið þið ekki bara að ég hafi sofið vel aðra nóttina í röð! Að vísu með ýmsum hjálparmeðulum en mér er eiginlega orðið sama um þau! Bara það að leggjast á koddann og sofa í nokkra klukkutíma samfleytt eru forréttindi sem ég get vel hugsað mér að nýta mér á ný.

Ég ætla að fara í Styrk á eftir þar sem markmið næstu viku hljóða þannig að ég á:

Ekki að synda – bara fara í sundleikfimi

Ganga meira

Fara oftar í salinn

Ekki drekka coffein seinnipartinn

Einhvern tímann hefði mér nú þótt þetta vera arfaslök markmið en svona er ég nú skynsöm orðin – sé að þetta verður mér alveg yfrið verkefni því:

Það eru bara sjö dagar í vikunni

Þriðjudagur, mikðvikudagur og fimmtudagur eru hroðalegir dagar og því ekki sérlega líklegir til þess að vera íþróttadrottningardagar 😉

Það er árshátið á miðvikudaginn

Ég á að heita í námi og er með allt á eftir mér þar – af mjög svo góðum ástæðum!

Og því má ég hafa mig alla við að koma fimm æfingum fyrir í vikunni.

En það eru bjartar hliðar.

Ég get með léttum leik farið í sundleikfimi – það er bara gaman og notalegt amk síðustu skipti. Það geri ég á miðvikudag og föstudagsmorgnum.

Á laugardag fór ég í mega göngutúr

Í dag sunnudag ætla ég að gera góða æfingu í Styrk og fara svo í pottana í lauginni

Á mánudag get ég líka farið í Styrk ef ég haska mér

Þriðjudag hugsa ég að ég geri ekki neitt og eitthvað lítið á fimmtudag. Kannski get ég samt labbað smá – það væri nú gáfulegt! Ef Ragnheiður labbar með Bjart á daginn þá get ég skotist ein og sjálf – vandræðin tengjast hvort sem er því að halda í kvikindið og þjálfa hann í því að vera slakur í taumi -ekki endilega mjög mikil brennsla í því þó það reyni á geðið.

Föstudagur er góður dagur í Styrk – er að vísu farinn að bera mark af því að ég fer í leikfimina um morguninn þannig að seinni hluti brennslunnar er alltaf svolítið strembinn – 😉

En nú þarf ég að fara að bæta í hraðann og taka betur á til að auka þolið – hef verið í svolítilli kyrrtöðu í vetur.

Bakvið eyrað hvílir svo mataræðið sem þarfnast kannski fyrst og fremst frekari einbeitingar við.

Svona eru markmiðin mín þessa vikuna.

Kannski ætti ég líka að hugsa um að vera ekki stressuð. Ég er svolítið tense þessa dagana. Finnst lífið vera svolítið erfitt og snúið. Og er ekki frá því að það sé rétt mat hjá mér :-).

Færðu inn athugasemd