Blaðaviðtöl ímynduð – eða ekki

Látum aðeins gamminn geysa:

30 kílóum léttari: Allt annað líf!

Hefur öðlast nýtt líf eftir að hafa lést um 50 kíló!
Ung kona segir reynslusögu sína

Hef losnað við áralanga vanlíðan
,,,, sss dóttir segir sögu sína af baráttunni við aukakílóin, eineltið og félagslega eingangrun!

Þetta eru allt uppdiktaðar fyrirsagnir en þær hafa vísast allar verið notaðar, nóg er amk af viðtölunum við fyrrum óhamingjusamt fólk sem hefur öðlast hamingjuna við að léttast.

Flest-allir rekja ástæðu offitunnar til einhvers sem þeir urðu fyrir enda lítið gaman að taka viðtöl við einhverja sem hefur ekki lent í neinum áföllum. Offitan er sem sagt ein og sér ekki nægilega spennandi viðfangsefni – heldur verður hún spennandi þegar hún er horfin og var tilkomin vegna einhverra hörmunga.

Ef þú hefur dvalið á biðstofu þá hefur þú séð þessi viðtöl í afskaplega mörgum en gömlum tímaritum. Þau eru líka í dagblöðum og sjónvarpi. Fólk kemur og segir reynslu sína og spyrlarnir sem sjaldnast hafa bætt á sig meira en 5 kg um ævina sitja bergnumdir og vilja heyra af stórsigrum viðkomandi.

Og það er stórsigur að léttast. Það eru svo aftur á móti ekkert minna engaldrar að ekki er nóg með að fólk léttist heldur hverfur öll óhamingjan. Nýja lífið inniheldur ekki lengur vanlíðan, þunglyndi né hvað þá vandræðin sem olli spikinu.

Allt í einu er eineltið sem olli því að fólk datt í ofát ekkert issue – ekki þegar maður er mjór á ný, þá virðast engin vandamál vera til.

Kynferðislegt ofbeldi tilheyrir bara fortíðinni – það viriðist ekki skipta máli nú þegar viðkomandi er orðinn mjór. Ja amk er ekki látið fylgja sögunni

Þrekið er meira – fötin eru fallegri, svefninn betri og andleg líðan svona miklu miklu betri.

Ég bara skil þetta ekki. Nú hef ég ekki lent í nokkrum áföllum í mínu lífi. Átti ágæta fjölskyldu, hef aldrei orðið fyrir ofbeldi og bara hamingjusamlega gift í þokkabót. Svoldið blönk stundum en það er nú ekki verra en gengur og gerist. Samt á ég í þessu ógnarinnar basli. enda hef ég bara misst fjórðung þeirrar þyngdar sem þarf til að ég komist í kjörþyngd. Þriðjung af þeirri þyngd sem ég þarf að missa til að ná þeirri þyngd sem langar að vera í og get sætt mig við að sinni.

Mér finnst sem sagt að hamingjustigið ætti þá að hafa aukist um 33% prósent og þá ekki minna en 25% fyrst fólk getur losnað við heilu og hálfu ofbeldisverkin með kílóunum.

Málið er að mér finnst þetta fáránlegt. Við sem erum feit eigum alltaf að vera svo vansæl og skelkuð, heilsulaus og firrt. Étandi allan daginn, í ljótum fötum, með minnimáttarkennd, óáreiðanleg og hreinlega heims. Ja það er amk þannig ef marka má ímyndina sem er gefin í sjónvarpinu og bíómyndum. Og svo um leið og kílóin fara – hviss bang þá er allt gott í veröldinn. Illska bernskunnar skiptir ekki lengur máli. Ég held það gleymist nú stundum að athuga þá betur þessa ástæðu sem fólk gefur fyrir spikinu – hvort kom á undan kílóin eða ástæðan? Ef ekki er fengist við ástæðuna og fólk einblínir bara á myndir og sjálfan sig í speglinum þá er hætta á að sársaukinn sé alveg samur.

Ég þekki amk grannt fólk sem dettur ekki um hamingjuna í hverju skrefi. Mér hefur nú bara sýnst að lífið geti verið strembið á fleiri bæjum en Offituvöllum.

Ég er hætt að leita að ástæðu fyrir mínu spiki. Ég veit hana og hef alltaf vitað:

Ég borðaði of mikið og hætti að hreyfa mig á krídískum tíma eftir að hafa verið mikill göngugarpur og útivistar barn.

Þess vegna varð ég feit.

Ég er leið afþví ég ræð ekki alveg við vinnuna mína, vildi vera milli og finn til í hálsinum.

Einu sinni var ég leið yfir því að hafa ekki lokið við Kennó – ég held varla að það hefði hjálpað mér að losna við kílóin þar.

Ég er samt viss um að með því að vera duglegri að hreyfa mig hef ég sótt í mig veðrið. Hvert sumar frá 32 ára aldri hefur fært mér meira þrek og sjálfsánægju.

Síðasta ár hefur hins vegar fært mér heim sanninn um það að þetta sé ekki flókið – jafnvel bara einfalt – en þetta er ekki auðvelt.

og þetta þetta er ekki að missa kílóin heldur að breyta um hugsunarhátt, lífsstíl og áherslur.

Ég er að hugsa um að vera svolítið stolt af því að við Baldur eigum bráðum eins árs afmæli. Það er ár síðan sáðkornum var fyrst sáð í huga minn – nú er breytinga þörf. Ég hef styrkst jafnt og þétt og kjölfarið hafa 20 kg farið hægt og bítandi og þau virðast ekkert vera á leiðinni til baka. Ég stend samt í stríði við þunglyndið, vanlíðanina og orkuleysið.



Ég held það hafi í sjálfu sér ekkert að gera með spikið á mér. Vandi minn felst í því hver ég er – en þar er líka styrkur minn og því felst lausnin innra með mér en ekki í því að minnka það sem hangir utan á mér.

Færðu inn athugasemd