Það læðist að manni…
Maður veit að því verður ekki á móti mælt…
Engan skugga ber á þá vissu að einmitt núna sé maður að missa tökin…
Framundan séu þessir fádæma leiðinlegu dagar þar sem ekkert gengur, allt er ómögulegt -, enginn frekar en maður sjálfur.
Og maður má ekki streitast á móti heldur á maður að umvefja ástandið -fylgjast með þróun þess.
Sjá hver hún verður og þegar það er ljóst þá grípur maður í taumana og reynir að fleyta sér upp á yfirborðið. Sú ferð er sjaldnast einföld, bein eða auðveld.
Sérstaklega ekki þegar efasemdirnar um eigið ágæti herja á, dómgreindin bregst manni á ótrúlegustu stundum. Já og svo er eins og sunddtökin beri mann bara af leið, eða eitthvað sé á botninum sem hreinlega dragi mann til sín…
Svona er þunglyndið mitt. Ekki svo mjög alvarlegt – ekki lamandi nema stutta stund í einu. En svona líka dj… leiðinlegt á köflum. Verst er þetta með aumingjann. Aumingjahugsanirnar gjósa upp og sé sé ekkert nema það sem ég geri rangt. Það sem ég ætti að gera öðruvísi, láta vera að gera eða geri ekki nóg af.
Ég bara hreinlega fann þetta laumast að mér í gærkveldi. Hef barist á móti í dag – einfaldlega vegna þess að maður þarf að standa sig. Það er heldur engin ástæða til annars.
En svo verður þetta bara allt snúnara. Það þrengist um æðarnar í hálsinum. Höfuðið kvartar, axlirnar keyrast upp, hálsverkurinn gerir vart við sig. Maður jafnvel kaupir sér sælgæti á miðvikudegi og drekkur jafnvel kók með sykri á þriðjudegi. Undarlegir hlutir gerast og þeir fara á aumingjareikninginn sem alltaf getur tekið við og virðist aldrei vera lokað.
Mikið vildi ég, að ég gæti verið glöð og ánægð marga daga í röð. Eins og ég er búin að vera sæl með mitt undanfarið.
En svona er þetta – nú er bara að leita til þeirra sem styðja mann með ráðum og dáð eða bara hreinlega tilveru sinni. Þið eruð allnokkur.
Í krafti ykkar skrifa ég þetta hér og reyni að skrifa mig inn í ástandið og út úr því aftur
Og ég sem var svo kát í fyrradag, dagana þar á undan… Hvert flutti sú Inga?





