Feeling the blues

Það læðist að manni…

Maður veit að því verður ekki á móti mælt…

Engan skugga ber á þá vissu að einmitt núna sé maður að missa tökin…

Framundan séu þessir fádæma leiðinlegu dagar þar sem ekkert gengur, allt er ómögulegt -, enginn frekar en maður sjálfur.

Og maður má ekki streitast á móti heldur á maður að umvefja ástandið -fylgjast með þróun þess.

Sjá hver hún verður og þegar það er ljóst þá grípur maður í taumana og reynir að fleyta sér upp á yfirborðið. Sú ferð er sjaldnast einföld, bein eða auðveld.

Sérstaklega ekki þegar efasemdirnar um eigið ágæti herja á, dómgreindin bregst manni á ótrúlegustu stundum. Já og svo er eins og sunddtökin beri mann bara af leið, eða eitthvað sé á botninum sem hreinlega dragi mann til sín…

Svona er þunglyndið mitt. Ekki svo mjög alvarlegt – ekki lamandi nema stutta stund í einu. En svona líka dj… leiðinlegt á köflum. Verst er þetta með aumingjann. Aumingjahugsanirnar gjósa upp og sé sé ekkert nema það sem ég geri rangt. Það sem ég ætti að gera öðruvísi, láta vera að gera eða geri ekki nóg af.

Ég bara hreinlega fann þetta laumast að mér í gærkveldi. Hef barist á móti í dag – einfaldlega vegna þess að maður þarf að standa sig. Það er heldur engin ástæða til annars.

En svo verður þetta bara allt snúnara. Það þrengist um æðarnar í hálsinum. Höfuðið kvartar, axlirnar keyrast upp, hálsverkurinn gerir vart við sig. Maður jafnvel kaupir sér sælgæti á miðvikudegi og drekkur jafnvel kók með sykri á þriðjudegi. Undarlegir hlutir gerast og þeir fara á aumingjareikninginn sem alltaf getur tekið við og virðist aldrei vera lokað.

Mikið vildi ég, að ég gæti verið glöð og ánægð marga daga í röð. Eins og ég er búin að vera sæl með mitt undanfarið.

En svona er þetta – nú er bara að leita til þeirra sem styðja mann með ráðum og dáð eða bara hreinlega tilveru sinni. Þið eruð allnokkur.

Í krafti ykkar skrifa ég þetta hér og reyni að skrifa mig inn í ástandið og út úr því aftur

Og ég sem var svo kát í fyrradag, dagana þar á undan… Hvert flutti sú Inga?

Almenn geðvonska

Dagurinn byrjaði svona líka ægilega vel – fór langt með að slá brennslumet í sundleikfimi – náði helvíta góðum púls og hvað eina. Allt að koma hjá mér þar – best að vera með sem minnst af hjálpartækjum þar – þá næ ég að hreyfa mig hálft eins hratt og ég þarf.

Við tók svo skóladagurinn – langur. Ég er búin að ákveða að ég ætla ekki að kenna einum tíma meira en 26 tíma næsta vetur – það þýðir að ég kenni næstum heilum mánudegi minna en ég geri núna og það get ég sagt ykkur – það munar um minna.

Ég veit ekkert hvað fólk segir um vinnutíma kennara. Ég hef amk ekki aðrar áhyggjur af mínum en að hann sé of langur. Og það er sem verra er að ég kemst ekki yfir nærri allt sem ég vil gera og þyrfti að gera. Sú tilfinning daginn út og inn er afskaplega slítandi.

Allt þetta hjálpar mér að hugsa um áform næsta vetrar.

Ég er þakklát fyrir sveigjanlegan vinnutíma. Ég er fegin að ég get unnið seinni part föstudags af mér á sunnudögum. Ég er fegin að ég fæ að fara í Styrk á mánudögum. Mér finnst gott að byrja vinnudaginn 3 daga vikunnar klukkan 7:30 en ekki kl.8:10 það þýðir að ég hef unnið af mér seinni partinn – en þá er ég ekki nærri eins spræk og á morgnana. Best þætti mér að geta byrjað sex þá daga sem ég er ekki í leikfiminni en því verður nú ekki viðkomið.

Svo er gott að eiga einn langan dag í viku og vinna bara og vinna. en það er svo sem ekki sérlega gaman að vera alltaf svo þreyttur í lok dags að maður getur eiginlega ekki annað en fyllst kvíða yfir öllu því sem bíður og bíður…

Þetta er líka erfitt starf – margt sem mæðir á manni á sömu mínútinni. En mikið eru samskiptin við börnin samt gefandi og lærdómsrík. En þau eru líka stundum erfið – taka á.

Það er ekki nema von að kulnun í starfi sé eitthvað sem bíði margra kennara.

Og við þurfum að hlusta á píp um starfið okkar út og inn. Verið bara velkomin í heimsókn og verið hjá mér í 2 – 3 daga – já jafnvel bara klukkutíma. Svo skulum við tala saman 😉

444 færslur á blogginu

Flott tala 🙂

Ég held bara að ég sé að ná einhverri heilsu svei mér þá. Kannski er það bara sólin – eða að ég sef svolítið betur. Sef vel á milli þess sem ég vakna. Vakna t.d. alltaf þegar ég sný mér því hálsinn á mér fylgir ekki alveg með – á alltaf í svolitlu basli með hann greyið.

Ég gerði æfingarnar mínar nýju í gær í salnum og það tókst nú bara bærilega þó ég viti nú ekki alveg hvaða æfingar eru fyrir þetta og hitt 😉 Reyndi að beita líkamsvitundinni og finna það út all by myself – og náttúrulega rifja það upp sem mér var sagt. Gekk ekki alveg en það er þó bót í máli að ég hef hugmynd um að ég hef biceps og triceps 🙂

Já og svo fór ég í Johninn og gerði nokkrum sinnum svona til að æfa mig og átta mig og minnka kvíðahnútinn og það allt saman. Hann reynir gasalega á lærin – á að gera það og ég er aum í hnjánum líka – eða vöðvum og sinum þar í kring líklega. Veitir sem sagt líklega ekki af æfingum sem þessum.

Stefni á að fara sem allra fyrst í dag í styrk svo ég nái að gera eitthvað skemmtilegt.

Svo hef ég nú lært það að maður á ekki að senda tölvupósta undir áhrifum áfengis! Ef ég gæti fengið móral þá væri ég með hann núna. En ég er að verða svo umburðarlynd kona og lífsreynd að ég lít á þetta sem hvert annað hundsbit!

En samt…

Ekki skrifa tölvupósta drukkin elskurnar…

Það er sunnudagsmorgunn

ok – það hljóta að hafa orðið einhver mistök á Stjörnuspárvöllum:

April 9 You will probably have the energy and drive to tackle some very difficult problems and tasks today, Inga. You’re not afraid of a little hard work, and you will find yourself with an incredible amount of energy at your disposal. The people around you, your family in particular, may have a hard time following along. It’s important to be understanding of others!

Sigh

Þetta energy finn ég bara ekki – það örlar ekki einu sinni á því. Mig langar bara til að sofa, lúra og gera ekki neitt og tilhugsunin um eitthvað annað veldur mér bara verulegri vanlíðan og jafnvel kvíða.Úff!

Ég var eitthvað að rausa um það að ég yrði að fá nýjar æfingar í salnum – er búin að vera með þessar sem ég er að gera í hálft ár held ég bara! Jamm fékk þær – og ég kvíði svo fyrir að gera þær að ég er í verulegri krísu! Reyni að hugsa ok þú bara gerir nokkrar – prófar bara – eða eitthvað slíkt en það er nú ekki alveg í mínum anda. Þá reyni ég að hugsa um að ég geri bara þessar gömlu en það er nú hálfgerð uppgjöf. Og ekki vil ég gefast upp!

En það eru efri búks æfingar í dag svo ég slepp við þennan John eða hvað hann heitir – þó ég ætti kannski að prófa nokkum sinnum því það er fámennara í Styrk í dag en á morgun – huhummm…

En það er nú samt gaman að fá nýjar æfingar – það er leiðinlegt að gera alltaf þær sömu ég verð nú að segja það – vissi bara ekki alveg að þær yrðu svona erfiðar… en hinar voru nú ógó erfiðar líka þegar ég fékk þær fyrst – rámar í að ég hafi verið við dauðans dyr til að byrja með…

Ég þyrfti í fullri hreinskilni að taka hér svolítið til en það er nú bara þannig að ég nenni því ekki fyrir mitt litla líf. Já það er líklega hægt að vera latari en góðu hófi gegnir…

Sjáum til hvort ég nái ekki að hrista þetta af mér.

Ég er þó afskaplega ánægð með margt. T.d. er æfingaprógrammið mitt sem ég fer eftir núna aldeilis ágætt. Ég fer á sunnudögum í Styrk og í heitu pottana á eftir. Á mánudögum fer ég í Styrk (og hef fengið nudd og hælsporanálar en það er búið í bili) og svo heim að hvíla mig fyrir löngu dagana mína þrjá. Stundum fer ég samt út í skóla að vinna svolítið. Það er svo gaman að vinna ;-).

Á miðvikudögum er það sundleikfimi rétt fyrir sjö og á föstudögum er það sundfimin góða og Styrkur og nudd (og nú þarf ég að velja hvort ég vilji fara á föstudögum eða mánudögum í nudd… mjög erfitt val…) Á laugardögum er það svo ganga í amk 40 mín – kannski fer ég að lengja það með hækkandi sól og betra göngufæri.

Líklega er best að fara í nudd á mánudögum áður en löngu og erfiðu dagarnir þrír eru – jamm…

Það er foreldradagur á morgun – ég veit nú ekki hvað ég verð lengi fram eftir degi – sem svo aftur skemmir kannski svolítið fyrir mér með Styrkferðina – já það er ekki alltaf auðvelt að halda kúrs – þó það sé vissulega auðveldara í sportinu en mataræðinu.

Ætli ég verði nokkuð léttari á föstudaginn en ég var síðast- vín er víst ekki sérlega megrandi drykkur!

Hafið það gott elskurnar og be good

Úff Tópasskot

…og eitthvað fleira….

Blush, eplaciders,,bjór“, svolítið af vodka og Amarúló –

Hefur ekki endilega góð áhrif á magann! En nokkuð góð á sálina. Það má nú segja að það hafi verið hroðalega skemmtilegt í gær! Hroðalega

En það er líka hroðalega erfitt að vera til daginn eftir!

En ég á svo góða vinkonu, hana Þórunni, sem er svolítill harðstjóri líka. Hún fékk mig til þess að fara í göngu í Þrastarskógi með sér – í 50 mínútur! Geri aðrir betur!

Polli segir þær fréttir af hjartanu mínu að það hamist og hamist – líklega til þess að losa sig við óþverrann sem er að þvælast um í blóðinu mínu – svo þori ég ekki að ábyrgjast að blóðþrýstingstaflan hafi þolað ágang uppreisnargjarns maga í nótt ;-). Sigh… Sem svo aftur pirrar mig svolítið – hvað gera þessar töflur mér eiginlega og minni brennslu.

Polli segir að ég hafi brennt 900 hitaeiningum á göngunni sem mér þykir algjörlega með ólíkindum og er ekki rétt – …æ ég er of illa upplögð til að pæla í þessu.

Þarf svo að fara að hugsa um vigtina ekki nema vika í hana! Ohhh

og ég er farin að fara bara einu sinni í nudd í viku! Hef ekki efni á meiru og líklega ekki þörf heldur. Er bara rétt að drepast í hálsinum en ekki algjörlega – sem er í sjálfu sér gott og hælsporameðferðinni er lokið. Þó ég ætti nú kannski að fá kálfanudd við og við…

Guð er góður

Eins og ég hef einhvern tímann áður sagt þá leita stjörnfræðingar mig fyrst uppi og skrifa svo um Hrútinn og finna svo út úr dagsspánni hverju sinni. Þetta er bara ekki einleikið ;-):

Your mood is most likely excellent today, Inga, and you will find that you have an added boost of self-confidence that will help you along in just about any project you undertake. While the last couple days may have felt slow and a bit stagnant, today you are ready to take action. The cosmos has just hit the pilot light and now you are ready to take off again.

Ég fór í stundfimina í morgun og það er svo geggjað í henni að það er alveg dásemd. Brenndi 560 kaloríum og náði púlsinum upp í 80% af hámarkspúls sem er nú bara ágætt er mér sagt – en hann var svo sem ekki lengi þar.

Þarf að virkja betur stóru vöðvana og hreyfa mig hraðar – það er þessi hraði sem ég á erfiðast með – úthaldið er ágætt og ég þreytist ekki svo mjög. En þetta er hin ágætasta æfing. Og svo er það Styrkur á eftir, nudd og partý.

Já lífið er gott í dag.

Nammi – dirty dancing

Holy moly hvað maðurinn er fallegur!
Munið þið eftir tilfinningunni þegar þið sáuð Dirty Dancing í fyrsta sinn?
Hún rifjaðist upp fyrir mér áðan! Ummmmmmmmmmmm …. life is good isn’t it?
En annars er ekkert að frétta – vikan að verða búin og allt í góðum gír. Grín og glens á morgun – og það sem meira er ég er búin að lita á mér hárið! Eða láta gera það!
og ég er með kryppu – þarf að láta eyrað vera í beinni línu við axlarbeinið – ja eða eitthvað bein. Ég las það í Vikunni! …ekki þó Samúel.
Ég má ekki halla hausnum svona fram alltaf – las það líka í Vikunni
Það er sem sagt markmið mitt að rétta úr mér og laga þessa 3 hálsliði sem eru einhvern veginn öðruvísi en þeir eiga að vera – og … já sem sagt það má lesa um þetta í Vikunni.
Sigh
Lof jú 😉
Inga pinga pikkaló