Ég hef eiginlega verið að humma það fram af mér að byrja hér á einhverjum pistli um síðasta ár og hið nýja sem nú trítlar inn eftir gangi eilífðarinnar. Strax er einn dagur að baki og annar framundan. Sá þriðji er á morgun og þá er eins og hið ókomna hætti að vera einmitt það heldur verði að hversdagsleika nús-ins.
Ég hef aldrei verið sérlega hrifin af gamlársdegi. Hann og nýársnótt hefur verið mér kvöð frekar en nokkuð annað – þessi skylda manns að skemmta sér, vera helst svolítið hífaður – já eða mikið, vera saman og síðast en ekki sísta óviðjafnanlega glaður en þó agnarsmá daufur í bland. Ég hef heldur aldrei – fyrr en nú áttað mig á þessu fári um að áramótin séu skil – nýtt upphafi og því beri að íhuga og ígrunda um leið og horft er fram á veginn og kúrsinn tekinn. Fyrr en nú… Þessi áramót skil ég þetta einhvern veginn miklu betur – og mér finnst meira að segja eins og ég bara verði að íhuga og ígrunda alveg undir drep til þess að nýta mér þessi ósýnulegu mannanna verk – áramótin sem best.
Hin síðari ár hef ég náð nokkurri sátt við uppistandið sem á að ríkja þennan dag. Fundið minn farveg- eyði deginum í að elda einhvern ótrúlega góðan mat, stundum dettur einhver í heimsókn og við spjöllum saman á meðan ég brytja grænmetið og drekkum jafnvel freyðivín eða Blush með.
Það er svo sjaldan sem ég elda eitthvað gott eða gef mér tíma í það og því er þessi eldamennska á síðasta degi ársins kærkomin og hreinlega notaleg. Nú síðustu tvö ár höfum við farið með Bjart útfyrir á í bílnum og setið þar og horft á dýrðina. Í ár sluppum við, við að gefa Bjarti róandi eins og í fyrra enda er hann ekki nærri eins hræddur og t.d. Trítla var og í reynd bara svolítið rólegur yfir þessu öllu saman nema þegar gólfið í húsinu nötraði við sprengjudyninn.
Í ár var flugeldadýrðin sérlega glæsileg og það var ótrúlegt að sjá þennna ljósaleik mannanna bera við sjóndeildarhringinn. Í fyrsta skipti í 21 ár keyptum við enga flugelda hjónin. Fengum þetta bara beint í æð frá samborgurum okkar hér í Árborg – takk fyrir það!
En já…
Eins og þið sjáið þá er ég að humma uppgjörið og framtíðina svolítið fram af mér. Þetta er greinilega ekki alveg einfalt mál! Síðasta ár var svona með þeim flóknari á lífsleiðinni, ekki vegna atburðarrásarinnar heldur hins hvað stúlkan ég hugsaði og fékkst við í eigin kolli :D.
Þess vegna fannst mér svo upplagt að hefja árið á Þingvöllum. Viðurkenna og umlykja þá staðreynd að þeir eru mér kærir þó þar sé nú ekkert nema samkomustaður fólk. Bærinn orðinn að veislusal og sumarhúsi þeirra sem ráða, kirkjan músétin, skrefin okkar allra löngu horfin úr garðinu og trén vaxin yfir önnur. Þetta er samt minn staður þó hann sé almenningseign um leið. Enginn getur tekið – og enginn er heldur að reyna það, minningarnar frá mér sem margar hverjar eru svo bundnar öðru fólki, t.d. Björk, systkinum mínum og einfaranum mér. Stundum finnst mér eins og Núpverjarnir telji sig eina eiga minningar – vísast af umkomuleysi mínu þar sem ég kom ekki til sögunnar fyrr en löngu síðar. Stundum hefur mér líka fundist að ég ætti engar minningar ein og sér – allt sem ég gerði sem barn hafi verið upplifað af öllum mínum systkinum – bara fyrr. En auðvitað er það ekkert þannig – ég á mínar minningar sem eru bundnar órjúfanlegum böndum, samofnar Þingvöllum.
Ég labbaði endalaust um vellina, gjánna, túnin og vestari hallinn – heilu og hálfu dagana var ég í leiðöngrum oftast ein. Ég skil það núna afhverju mér finnst hreyfingin góð, göngurnar um náttúruna betri en þær sem ég fer eftir steinsteypunni. Ganga er hreinlega órjúfanlegur hluti af bernskunni minni. Ég held að varla hafi liðið sá dagur að ég fór ekki út að labba á Þingvöllum. Enda sagði mamma að það hefði komið snemma í ljós hve mikill göngugarpur ég var. Hún sagðist aldrei hafa séð barn vera jafn duglegt að labba og mig – Dísu og Ása til mikillar armæði vænti ég því oftast var ég kjagandi á eftir þeim – algjörlega óbeðin og ekki sérlega velkomin.

Já Þingvellir er góður staður til þess að hefja 2007 á.
Og nú held ég að ég hvíli um sinn og íhugi aðeins betur 2006 – kem svo innan tíðar með vangaveltur mínar þar um. Þar má finna grunninn að 2007 svo mikið er víst. Þar byrjaði ,,lífsstílsbreytingin“ – orð sem mér leiðist nú svona frekar en verknaðurinn er betri 🙂 þó seint verði hann sagður auðveldur.