Höfuð herðar hné og tær (hæll) og svo svoldið meiri háls ;-)

Eitthvað er ég orðin slappari við að blogga. Sá slappleiki átti reyndar að vera vísbending um það að ég væri að slaka á klónni – svona eitt af fyrstu einkennunum. Ég er svo sem ekki viss um nema það sé – en ég er heldur að vona að þessi lífsstílsbreyting sé meira svona ferli frekar en ein allsherjar brunferð niður kílóaskalann eða upp vellíðunarstuðulinn! Svona er ég nú orðin sjóuð, þroskuð og vel hugsandi í þessu öllu saman :-). Yeah rigt!

Staðan er þessi hjá mér:

Mér finnst erfitt að stunda vinnuna mína eins vel og ég vildi- mér finnst hún erfið!
Það veldur mér leiða

Ég hef fengið nóg af hálsverkjum
Ég hef fengið nóg af svefntruflunum vegna þeirra

Ég er farin að skrá ítarlega matardagbók – allt upp á kalóríur og grömm. Niðurstaðan er nokkuð athyglisverð. Ég ætla þó ekki að grípa til neinna breytinga þessa viku heldur skrá hjá mér nákvæmlega allt það sem ég borða í um vikutíma og sjá mynstrið. Nánari fréttir af því síðar 😉

Polli vinur minn heldur utan um brennsluna. Ég hef lítið getað hreyft mig þessa viku vegna hálsins og einhvers fundarvesens hér og þar. Ég hef brennt 1100 kaloríum þessa viku og næ ekki nema um 1800 hitaeiningu þessa viku. Þannig er þetta bara stundum – það er bara að gera betur næst. Það er þá auðvelt að bæta sig en ég vil helst brenna um 2900 hitaeiningum. Ah já og svo fór ég í hælsporanálar á mánudaginn var og gat nú ekki hreyft mig meira þann daginn og á föstudaginn fór ég í nálar í hálsinn og teygjur og tog og ég gat skoho ekki farið í sund eftir það.

Mér líkar ekki sundleikfimin – en ætla að prófa einn eða tvo tíma í viðbót. Væri frábært ef hún gæti gengið amk í mesta skammdeginu- en svo kannski vil ég bara heldur labba í Hellisskógi með Bjart árla morguns um leið og birtir. Það gaf mér heilmikið svo ekki sé nú minnst á Bjart sjálfan.

Húsið er allt komið í skrall einhvern veginn. Palli er heima og mér finnst einhvern veginn að hann eigi að gera eitthvað varðandi heimilishaldið, en auðvitað er það ekki þannig – ég þarf bara að gera það sem ég vil gera sjálf en ekki ætlast til þess að aðrir geri hlutina eftir mínu höfði – það er víst ekki hægt að kenna gömlum hundum að sitja. Ef ég tek á mínu þá eiga víst aðrir að gera það líka í framhaldinu – við skulum nú sjá með það.

Ég fór í Kennó í dag og það var frábært! Fannst einhvern veginn eins og það væri þrátt fyrir allt eitthvað vit í því hvernig ég hugsa – ég hlakka til að vinna verkefnin í þessum áfanga og vinna svo verkefnið í honum – ég er næstum nú þegar búin að ákveða hvað það ætti að vera. En svo þráast nú hlutirnir í allavega áttir. Það er bara gaman af því.

En amk er að baki góður dagur – ég brenndi 770 hitaeiningar í sundi – það finnst mér frábært og er persónluegt met á 30 mín í sundi. Mataræðið ekki eins gott en ekki alveg slæmt heldur.

Á morgun er frídagur og ég gæti bæði farið í Styrk og eða sund. Það er nú ekk amalegt. Ég kemst ekki í Styrk á mánudag en ég gæti farið í sund seinni partinn ef nálarnar í hælinn verða ekki alveg eins hrykalegar og á mánudaginn var.

Háls

Er búin að vera heima í tvo daga vegna hálsverkja sem svo aftur leiða af sér þessa líka svakalegu höfuðkvalir, þreytu og ómögulegheit. Ég fór til læknis í gær, ég er eiginlega alveg búin á því. Og það er ár síðan ég var búin á því síðast. Sem þýðir að janúar er mánuður sannleikans í mínu lífi.

Læknirinn var hinn skilningsríkasti og var mér sammála um að undarlegt væri að ég losnaði ekki við háls og höfuðverkinn í þeim aðgerðum sem ég væri í. Ergo einhverjar félagslegar aðstæður valda þessari vanlíðan minni. Hann benti mér á leið til úrbóta sem ég þarf að íhuga. Hún er svolítið drastísk en ég held að ég geti ekki meira. Rétt eins og í janúar 2006. Með úrbótum á lífsstíl hélt ég reyndar að leiðin lægi upp á við og líklega gerir hún það. Það eru brekkur á öllum leiðum. Ætli ég væri uppistandandi í dag, fær um að taka ákvarðanir um nokkurn skapaðan hlut ef ég hefði ekki farið í nudd í febrúar á liðnu ári?

Líklega ekki.

Mánudagur

Sundleikfimi í dag – var ömurlega illa staðsett í lauginni. Ég veit ekki alveg hvað ég geri með þessa leikfimi, það er svo mikið kraðak þarna og ég er ekki mikið fyrir svona þrengsli eitthvað. Svo á hver kona sér sinn stað og er búin að vera þarna í kannski 3-5 ár svo ég skil það nú vel.

En þar sem ég var svona illa staðsett þá er ég bókstaflega að drepast í hálsinum eftir æfingarnar og búin að éta vöðvaslakandi í allan dag við lítinn árangur.

Í dag fór ég í nálastungur við hælsporanum – ég ætla ekki að lýsa því hvað það vont þegar nálinni var stungið þar sem ég meiði mig mest út frá honum! Oj bara. Næstum eins vont og kálfanuddið í upphafi! Ekkert nær nú að slá því út þannig að allt sem fer samhliða því er slæmt – trúið mér.

Ég hlýt að verða löðrandi í vellíðan einn daginn. En dj er ég að verða uppgefin á þessu heilsufari í þessu heilsufári öllu!

En jæja – fer snemma að sofa til að halda út frekari sundferðir.

Ég brenndi 2910 hitaeiningum í síðustu viku! Ætli það sé gott eða slæmt? Þar inni eru samt þrír hvíldardagar – sem er tveimur hvíldardögum of mikið.

Af Polla og Ingu

Það tekur eitt æðið við af öðru! Nú er það Polli sem er æði. Hann sér um að halda utan um púlsinn minn á æfingum og telur samviskusamlega hitaeiningar sem ég brenn. Hann segir að á æfingum sé ég búin að brenna 2910 slíkar þessa viku. Ég er svo illa áttuð og vitlaus að ég veit ekki einu sinni hvað það merkir. Ég veit hins vegar að ég á að borða 3200 hitaeiningar á dag miðað við hreyfingu og þyngd og hæð og það þýðir að á æfingum hef ég næstum eytt dagsskammti af mat.

Og þá komum við að því sem er náttúrulega það sem er að pirra mig meira en ég kæri mig um að viðurkenna: Mataræðið. Ég náttúrulega verð að fara að skoða það ítarlega. Og það þýðir skráning og vesen alveg út í eitt og þá má hann Polli nú fara að vara sig – og gott ef ég tek yfirleitt eftir Kimi á rauða bílnum þegar að því kemur!

Í gær fór ég í afmæli hjá Árna á Bíldsfelli og það var svo skemmtilegt. Ég fór í pæjuskónum mínum og nýjum fötum með hárið mitt sérkennilega 😉 vel greitt – bara hugguleg. Og það var voða gaman að hitta alla vini mína þarna og þeir voru svo glaðir með mig og þótti ég líta svo vel út enda nokkuð um liðið síðan flestir þeirra sáu mig. Þetta var svona egóflipp kvöld – gott fyrir sálina vona ég. Virkilega skemmtilegt kvöld og gaman að hitta gömlu sveitungana.

Í dag fór ég í sund og gleymdi sundhettunni og gleraugunum og fannst þá bara rétt að fara í pottinn en hviss bamm þá fattaði ég að ég gæti hlaupið smá og synt á bakinu og ég gerði það og brenndi skoho helling af hitaeiningum og komst að því að ef ég syndi bakskrið þá næ ég púlsinum langbest upp og brenni þar af leiðandi meiru. Þannig að baksund here I come ;-).

Í fyrramálið er það sundleikfimi og þá kemur betur í ljós hvernig það kemur út. Ég veit að þetta er frábær tími að stunda hreyfingu en ég þarf að átta mig betur á því hvernig ég næ sem mestu út úr þessu. Ég þarf að sjá að þetta skili mér meiru heldur en t.d. 30 mín sund og hlaup í útilauginni en þá ber náttúrulega að hafa það í huga að ég er lengi að koma púslinum upp á morgnana. Ekki alveg sambærilegt.

Á morgun er sem sagt mánudagur og svo kemur hryllingsþrennan – þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur. Það er alltof mikið að kenna þrjá daga í röð frá 8 til 2 og þrjú. svona mörgum krökkum. Það ætti eiginlega að banna það!

Ég og Polli

Ég hef sko eignast nýjan förunaut sem kunnugt er. Við Polli (www.polar.fi) eigum vel saman en við erum þó einungis að kynnast.

Í gær fórum við saman í Toppsportið sundursagaða og hávaðasama (jukk jukk). Þar sagði Polli vinur minn að ég hafi brennt 1200 hitaeiningum og við það urðum við jafnvel enn betri vinir.

Áður er Polli búinn að segja mér að hvíldarpúslinn minn sé svona á bilinu 40 – 50 oftar nær 40 en hinu og það er nú svei mér lár púls. Þar til læknirinn minn segir að ég sé eitthvað veik kýs ég bara að líta svo á að ég sé komin í svo gott form enda bætt mig frá því að vera í um 90 svo 65 og þá þetta neðarlega.

Björk segir að ef ég kæmi inn á sjúkrahús þá myndu allir æpa upp yfir sig að ég væri með lágan púls og fengi lyf í hvelli til að auka hann. Þá myndi ég stynja upp: nei þetta er allt í lagi ég er nefnilega í svo fínni þjálfun ;-)“ Nú eða: Nei þetta er minn púls ég er nefnilega íþróttamaður 🙂 ha ha ha ha ha

En amk glöð með að hafa komist í gegnum Toppsportið jafn lítið aðlaðandi og það nú er þessa dagana – svo ekki sé minnst á andnauðina sem maður kemst í við að anda að sér þessu sagi öllu saman.

Ég verð að huga að mataræðinu enn frekar.

Yfirlit

Þriðjudagur – unnið til átta eða svo 😉
Matur að mestu í fínu lagi
Miðvikudagur – vatnsleikfimi – var að venjast fyrirbærinu. Sund um kvöldið, alls brenndi ég 600 hitaeiningum í vatninu yfir daginn. Matur í fínu lagi nema 2 smákökur og einn súkkulaðimoli og ég borðaði of seint eða 20:30. Fór í nudd og bylgjur á hælinn. Er mjög þreytt í hálsinum og komin með verki um 11 leytið alla virka daga. Geng hölt eftir setur. Er með seiðingshausverk alltaf hreint, gleymi honum stundum hann er orðinn svo viðvarandi.
Fimmtudagur. Besti morguninn varðandi hálsinn en var með dúndrandi hausverk þegar ég vaknaði. Keypti mér fínt nesti yfir daginn :-). Stefni á hvíld í dag nema kannski sund seinni partinn því ég er á fundi í kvöld- það yrði þá bara til að létta á spennunni sem er ynnra með mér.

Svo er það toppsport á morgun og það verður nú svolítið gaman að sjá hvað Polli vinur minn segir þá. Hann þverneitar að taka sundið í gærkveldi inn í kaloríur vikunnar – skil ekkert í því. Æfingin birtist í dagsyfirlitinu fyrir 10.01 en kemur ekki inn í vikuna. Verð að athuga þetta :-).

Við Polli, við erum annars góð saman ;-).

En best að leggja í daginn sem vísast verður með skrautlegasta móti.

Mont

Sko stundum þarf maður að pakka í vörn og verjast árás s.s. eins og pínu þunglyndis og jóla – og þá ekki síður áramóta og janúars!

Nú það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki þyngst frá því fyrir jól og þar til nú nema ef ég skyldi telja með 200 grömm eða svo sem ég ætla ekki að gera!

Ég er rosa ánægð með það. Ég er svo sem ekkert himinlifandi með árangurinn í haust – það hefur lítið farið af kílóum síðan í október en ég ætla samt að vera ánægð að hafa náð því markmiði mínu að hanga á fengnum hlut yfir hátíðirnar.

Í dag brenndi ég 550 kal í sundi! Persónulegt met skal ég segja þér! Enda fékk ég bikar frá Polar vini mínum!
Í dag hef ég borðað tvær skyrdollur, banana, epli, kjúklingasalt, 400 gr grænmeti og fisk með smjörklípu. Ég hef líka drukkið rúman lítra af vatni.
Í dag fór ég í langþráð nudd og fékk bylgjur á hælinn. Er að vísu algjörlega ógöngufær eftir þær en af fenginni reynslu þá veit ég að þær hjálpa.
Í dag fór ég í toppsport og sá ekki Helgu Dögg og ég áttaði mig ekki neitt á neinu! Þeir verða nú að vinna svolítið meira í þessu svo ég fái einhvern botn í þetta. Finnst þetta allt mjög þröngt og sérkennilegt verð ég að segja.

Á morgun ætla ég að drekka meira af vatni og fara í sund.
Á morgun ætla ég að borða 600 gr af grænmeti!

Á miðvikudag ætla ég að byrja í sundleikfimi hjá Betu. Ég er í eitthvað svo miklu sundstuði.
Hún byrjar korter fyrir sjö og er búin hálf átta – sem þýðir að ég kem út í skóla sprikluð og fín og fæ mér eitthvað að borða þar :-).

Ofbeldi

Ég veit bara ekki hvað er að gerast:

Innlent mbl.is 7.1.2007 12:38
Börðu unglingsstúlku í höfuðið með hafnaboltakylfu

Stúlka á 16. ári kom á lögreglustöðina í Keflavík skömmu fyrir 22 í gærkvöldi og tilkynnti að á sig hafi verið ráðist á leikvellinum við Ásabraut skömmu áður. Að sögn lögreglu hafði stúlkan leitað til læknis en hún hafði verið lamin í andlitið og slegin í hnakkann með hafnaboltakylfu. Hún hlaut skurð á hnakkanum.
Árásaraðilar voru tvær aðrar stúlkur, á 15. aldursári og 14. aldursári. Lögregla hafði upp á stúlkunum. Þær viðurkenndu verknaðinn. Málið er í rannsókn.

Og hvað er með drengina sem voru uppáklæddir með slaufu og alles á nýársnótt sem gátu fundið sig í því að hálfdrepa og fullkomlega örkumla mann sem að því er þeir sögðu hafði unnið sér það til saka að rekast utan í þá?! Kannski skekktist slaufan við það!

Er bara ekki í lagi?

Enn af mér og mínu – nema hvað?

Jólin

Jæja þá eru jólin á enda runnin þar til næst. Afsakanir fyrir áti og sælgætiseigu foknar fyrir lítið! Hér stendur þó jólatré fullksreytt við hliðina á mér, jólaskraut lúrir í hverju horni og hvert sem auga lítur og ekki eru uppi neinar sérstakar áætlanir um að breyta þar um. Ég fer þó að tína það á borðið hér í stofunni svona eftir því sem andinn blæs mér í brjóst og jólaseríurnar í gluggunum fá e.t.v. að hvíla bráðlega. Annars elska ég þessi ljós og í augnablikinu mega þau loga um sinn að mínu mati hvað sem verður svo í næstu skoðanaumskiptum :-).

Jólatréð heldur að það sé enn úti í skógi. Það hefur ekki sveigt greinar sínar niður og er eins ilmandi og grænt og þegar það kom hingað inn. Ég held það sé afþví við tókum neðan af því og settum á það sjóðandi vatn og létum standa í smá stund áður en við settum kalda vatnið útí. Hver svo sem ástæðan er þá er tréð billiant – það alfallegasta sem ég hef átt á 20 ára jólatrésferli mínum :-). Rautt og gyllt með hvítum perum var þemað í ár. Í alfyrsta skipti sem ég hef haft jólatré í einhverjum setteringum og ég kann því bara vel! Perurnar mættu þó vera skærari – þarf eitthvað að hugsa það betur.

Þetta hafa verið góð jól. Ég gat hvílt mig, borðað góðan mat og hamið mig í mataræðinu. Ég hreyfði mig vel og þó ég fengi kvef var það ekki svo slæmt. Börnin mín fullorðnu voru yndisleg og Páll líka þó það sé alltaf svolítið álag að hugsa um hann meiddan ;-). Við erum ekki alltaf alveg sammála um skilgreiningar á því hvað sé hægt að gera einhentur ;-). En það gekk nú allt stóráfallalaust enda fer ég að verða þjónustuhlutverkinu vön. – Þó ég verði náttúrulega aldrei sérlega góð í því.

Hreyfing síðustu vikur

Í jólafríinu fór ég heilmikið í sund. Ég synti líka svolítið síðustu dagana fyrir fríið.

Þorláksmessa – sund 800 metrar

Jóladagur – Ganga í Þrastarskógi í 65 mín
27. des – 31.des – Einn hjólatúr, Sund 600 – 800 m auk göngu eða hlaups í lauginni 2 – 600 metra
Nýársdagur 90 mín ganga um Þingvelli
2. jan 20 mín hálkuganga í Hellisskógi og sund í Hveragerði 600 metrar eða svo
3. jan sund 800 m
4. jan Sund 600 – 800 m
5. jan Sund 800 m og ganga í lauginni
6. jan ekkert

Mataræði

Þannig að það má segja að ég hafi verið dugleg að hreyfa mig í jólafríinu. Ég var líka passasöm í mataræðinu miðað við allt og allt. Ég borðaði ekki mikið nammi né feitmeti. Hins vegar er trendið það að verða lélegri í þessu öllu frá og með Gamlársegi og janúar hefur verið rosalegur át og narta í mánuður. Þá hef ég gjarnan náð að rífa niður alla múra skynseminnar.

Það gerðist líka nú. Ég hef etið nánast allt það sem ég át af rjóma og sælgæti þann 31. og 1. jan sem ég át öll jólin og ég er enn að. Ég hef á undanförnum dögum étið margfalt það sem ég borðaði um jólin sjálf.

…og það sem verra er ég get vel hugsað mér að halda því áfram.

Ég verð svo pirruð á mér yfir því að langa ekki í morgunmat heldur sætindi eða einhverja vitleysu þá.

Ég ,,gleymi“ að borða eins mikið af grænmeti og ég þarf – man svona þægilega eftir því í annað hvert mál!

Vont en það gæti verið verra!

Mig langar ekkert í morgunhreyfingu! Bara að lúra í rúminu og lesa eða horfa á sjónvarp. Og mig langar sko ekkert í Styrk í æfingar þar – auj sen fauj sen!

Einhver sagði mér að búa mig undir að hafa þyngst um 3 kg um jólin og ég bara oh my god ég dey ef ég hef svikið mig þvílikt að ég hafi þyngst um 6 smjörlíkisstykki! En það væri samt ekkert skrítið eins og ég ét núna!

Ég er ótrúlega slæm í fótunum. Ég er með verki framan á hnjánum og sköflungnum, strengi og eða þreytuverki í lærunum.

Ég er svakalega slæm í hálsinum og þreytist fljótt – get mig varla hreyft á köflum og er með viðeigandi höfuðverk á stundum.

Hælsporinn er að drepa mig í hvert sinn sem ég sest og stend upp aftur – næstum sama hve stutt ég sit – þið ættuð að sjá mig fyrst á morgnana og bara í hvert sinn sem ég stend upp eftir smá setu.

Stundum finnst mér hreinlega að ég ætti ekki að vera í vinnu!

Þunglyndið – það er með betra móti og hugsunin sæmilega skýr en minnið arfalélegt.

En það eru ljósir punktar við skulum fókusera á þá og líta upp og halda áfram.

Ég dey ekki þó ég hafi þyngst – kannski virkar það bara hvetjandi 😉 sem spark í rassinn!

Ég fór og fékk mér grænmetisbar í hádeginu í gær í staðinn fyrir pizzu eða mcDonalds með tilheyrandi frönskum.

Ég borðaði fullt af grænmeti í kvöldmatnum líka. Ég borðaði ekkert nammi í gær!

Framundan eru 257 dagar til þess að taka á málunum. Ég gat lést um 20 kg í fyrra og ég get því gert það aftur – já og geri það.

Ég er farin að sofa miklu betur.

Ég á heilsukodda sem virðist virka vel!

Ég fékk buxur og peysu í gær og skokk og leggings! Ógó flott

Vinnan já vinnan – það kemur í ljós.

Í dag get ég vel farið að synda þó ég nenni ekki að labba!

Slatti af áramótaheitum!

Stefnt er að því að léttast ekki minna en 250 gr. á viku á komandi ári. Það þýðir að ég léttist um 1 kíló á mánuði að jafnaði – 12 kg alls. Ef ég léttist um 750 gr á viku þá verð ég 39 kg léttari í desember. Það er hins vegar ekki raunhæft og stefnt er að því að léttast um 20 – 22 kg á nýju ári. Það eru um 400 gr á viku.

Ég hef gert ótrúlega magnað línurit yfir léttinginn og inn á það verður merkt einu sinni í mánuði – nú eða tvisvar eftir því hve góð ég verð á geði en það hefur ekki sérlega góð áhrif á mig að stíga á hana er mér sagt ;-).

Sem sagt ég vonast til þess að hafa misst alls 40 kg í lok árs. Það er nú allnokkuð er mér sagt!

Leiðir til þess að léttast? Þær sömu og hingað til.

Hreyfa mig af fullri alvöru og á sem fjölbreytilegastan hátt.

Búa til rými innan hversdagsleikans fyrir hreyfinguna – gera hana að sjálfsögðum hluta hvers dags.

Morgunbrennsla
Göngur
Hjólreiðar
Sund
Sundleikfimi
Spinning
Lyftingar og ræktin

Mataræði áfram í sífelldri endurskoðun!

Bæta svefninn

Annað:

Kaupa þurrkara
Nýtt rúm!
Vera mikið í útilegum
Vera dugleg í náminu mínu
Endurskoða vinnuna mína
Mála húsið
Setja króka fyrir jólaseríu á húsið í sumar en ekki í 20 stiga frosti um næstu jól!
Safna fyrir almennilegum jólaseríum á húsið!
Fara til Færeyja
Fá bætur fyrir augað hans Palla og athuga með nýtt bað og klósett!
Koma sér út úr þessum eilífu blankheitum!

Halda áfram að búa um rúmið mitt 😉

Bætist við eftir þörfum