Ég bý á rútustöð finnst mér stundum. Litli einverupúkinn Ingveldur er stundum alveg uppgefin á þessu mannlífi öllu sem er í kringum hana ;-). Núna er Páll að hlusta á útvarpið – fréttir og vill meina það að ég hafi áhuga á þeim líka og hefur útvarpið því af elsku sinni hátt stillt. Fúsi er kominn til að heimsækja Aðalstein og Jobbi og Ragnheiður eru hér að kærustuparast! Allt á fullu sem sagt – Sigh.
Ég var að koma úr nálum í hælinn – ekki nærri nærri eins vont og síðast þó löppin sé nú öll í steik þannig lagað skoho og hálsinn ekki betri en það er nú allt í lagi. Verður ekki betra að sinni vænti ég. Vinnan var allavega þolanleg í dag og það er alltaf bót í máli.
Ég fór ekki í sundleikfimi í morgun – fannst ég ekki geta það og svo var líka smá misskilningur með bílinn þannig að þó ég hefði viljað hefði ég ekki komist í tæka tíð – en líklega var þetta mest aumingjaskapur og leti. Baldri – sem er nú eiginlega alveg hættur að sinna mér (ja nema í dag þá var hann svolítið að rífast- mest til að halda sér í formi held ég frekar en mér ;-)), finnst eindregið að ég eigi að fara í sundleikfimina. Æ mér leiðist svo bara þetta kraðak og mannmergð – sigh. Verð líklega að troða mér á einhvern góðan stað því þó það fari að birta og allt mögulegt þá get ég ekki gengið eins og er útaf hálsinum og ekki get ég nema hæfilega verið í Styrk eins og ég er í hálsinum.
VÁ ÞVÍLÍKT væl. Auj barasta. En að leggja þetta á eina litla bloggsíðu.
En sem sagt. það eru til 97 sentimetrum minna af Ingveldi en fyrir ári síðan og ég er akkúrat einu kg. léttari en ég var fyrir tveimur vikum og þá var ég 700 gr þyngri en fyrir jól – sem ég ákvað að væri innan skekkjumarka varðandi það að þyngjast 🙂 – er það ekki bara rétt skilgreining?
Ég er ótrúlega uppgefin, ótrúlega illa upplögð en ótrúlega uppistandandi. Hælspori og hálsverkir venjast bara furðu vel – já eða þannig. Mig langar bara mest í sund upp á hvern dag en ég held ég láti það vera að sinni. Rúmið heillar ótrúlega satt að segja!
Ósköp eru að vita þetta dúllan mín… Knúsknús og stundum þarf maður að slaka aðeins á til að safna kröftum fyrir næsta áfanga.
Líkar viðLíkar við
Sæl Ingveldur. Þú veist að birtan og ylurinn kemur aftur, nú reynir á þolinmæðina og þú hefur komist yfir erfiða hjalla og þú kemst yfir þennan þröskuld. Sagt er að það sé aldrei meira á okkur lagt en við ráðum við! Fylgist með þér, kveðja Ingibjörg Toppsport-isti
Líkar viðLíkar við