Er búin að vera heima í tvo daga vegna hálsverkja sem svo aftur leiða af sér þessa líka svakalegu höfuðkvalir, þreytu og ómögulegheit. Ég fór til læknis í gær, ég er eiginlega alveg búin á því. Og það er ár síðan ég var búin á því síðast. Sem þýðir að janúar er mánuður sannleikans í mínu lífi.
Læknirinn var hinn skilningsríkasti og var mér sammála um að undarlegt væri að ég losnaði ekki við háls og höfuðverkinn í þeim aðgerðum sem ég væri í. Ergo einhverjar félagslegar aðstæður valda þessari vanlíðan minni. Hann benti mér á leið til úrbóta sem ég þarf að íhuga. Hún er svolítið drastísk en ég held að ég geti ekki meira. Rétt eins og í janúar 2006. Með úrbótum á lífsstíl hélt ég reyndar að leiðin lægi upp á við og líklega gerir hún það. Það eru brekkur á öllum leiðum. Ætli ég væri uppistandandi í dag, fær um að taka ákvarðanir um nokkurn skapaðan hlut ef ég hefði ekki farið í nudd í febrúar á liðnu ári?
Líklega ekki.