Það tekur eitt æðið við af öðru! Nú er það Polli sem er æði. Hann sér um að halda utan um púlsinn minn á æfingum og telur samviskusamlega hitaeiningar sem ég brenn. Hann segir að á æfingum sé ég búin að brenna 2910 slíkar þessa viku. Ég er svo illa áttuð og vitlaus að ég veit ekki einu sinni hvað það merkir. Ég veit hins vegar að ég á að borða 3200 hitaeiningar á dag miðað við hreyfingu og þyngd og hæð og það þýðir að á æfingum hef ég næstum eytt dagsskammti af mat.
Og þá komum við að því sem er náttúrulega það sem er að pirra mig meira en ég kæri mig um að viðurkenna: Mataræðið. Ég náttúrulega verð að fara að skoða það ítarlega. Og það þýðir skráning og vesen alveg út í eitt og þá má hann Polli nú fara að vara sig – og gott ef ég tek yfirleitt eftir Kimi á rauða bílnum þegar að því kemur!
Í gær fór ég í afmæli hjá Árna á Bíldsfelli og það var svo skemmtilegt. Ég fór í pæjuskónum mínum og nýjum fötum með hárið mitt sérkennilega 😉 vel greitt – bara hugguleg. Og það var voða gaman að hitta alla vini mína þarna og þeir voru svo glaðir með mig og þótti ég líta svo vel út enda nokkuð um liðið síðan flestir þeirra sáu mig. Þetta var svona egóflipp kvöld – gott fyrir sálina vona ég. Virkilega skemmtilegt kvöld og gaman að hitta gömlu sveitungana.
Í dag fór ég í sund og gleymdi sundhettunni og gleraugunum og fannst þá bara rétt að fara í pottinn en hviss bamm þá fattaði ég að ég gæti hlaupið smá og synt á bakinu og ég gerði það og brenndi skoho helling af hitaeiningum og komst að því að ef ég syndi bakskrið þá næ ég púlsinum langbest upp og brenni þar af leiðandi meiru. Þannig að baksund here I come ;-).
Í fyrramálið er það sundleikfimi og þá kemur betur í ljós hvernig það kemur út. Ég veit að þetta er frábær tími að stunda hreyfingu en ég þarf að átta mig betur á því hvernig ég næ sem mestu út úr þessu. Ég þarf að sjá að þetta skili mér meiru heldur en t.d. 30 mín sund og hlaup í útilauginni en þá ber náttúrulega að hafa það í huga að ég er lengi að koma púslinum upp á morgnana. Ekki alveg sambærilegt.
Á morgun er sem sagt mánudagur og svo kemur hryllingsþrennan – þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur. Það er alltof mikið að kenna þrjá daga í röð frá 8 til 2 og þrjú. svona mörgum krökkum. Það ætti eiginlega að banna það!