Polli og við hin

Ég er búin að koma vitinu fyrir Polla – sem betur fer. Honum finnst ég vera í rosa góðu formi enda er púlsinn hjá mér eins og sofandi þorski um lágnættið. Hann sagði að ég hefði eitt um 300 kal í vatnsleikfiminni í morgun sem lætur nærri – hún er alltaf lægri á morgnana brennslan hjá mér – en á mánudag þegar ég fór í Styrk þá var hann alveg ringlaður og enn undir áhrifum hennar Þórunnar mögnuðu og talaði því bara big nonsense.

Í sundi í gær var hann líka heldur gáfulegri. Sem svo aftur þýðir það að ég hef hreyft mig svona þessa vikuna:

Mánudagur
Hjólreiðar í 25 mín (ekki samfellt alveg)
Styrkur 40 mín brennsla og léttar æfingar f. efri hlutann

Þriðjudagur – 800 m í sundi – hreyfing í 30 m ín

Miðvikudagur – sundleikfimi

Nokkuð gott bara – en svo er ég svo búin að vera n´ðuna að ég get ekki andað. En það er bara fimmtudagur eftir og svo er kominn föstudagur.

Ég hef verið þolanleg í hálsinum og verkjatöflur virkað vel á verkina og höfuðið en nú er aftur farið að síga á ógæfuhliðina og ég er löðrandi í verkjum. Hælsporinn kítlar en skrækir ekki – ætti að vera orðin skárri á morgun – er alltaf slæm 3 – 4 daga eftir nálarnar. Og ég er sannarlega miklu betri en ég var t.d. um jólin.

Ég hef verið að telja hitaeiningar ofan í mig. Það er nú meiri bévans hagfræðin! Dísuss. Vitið þið að í einum litlum núðlupakka – svona instand ógeði eru 400 hitaeiningar. Nei takk segi ég nú bara þá borða ég nú flest annað! Fuss og svei. Og hrökkbrauð – eins lítið spennandi og það nú er – það er sko fullt af hitaeiningum í því! Þó það sé nú kannski skárra en brauð…

Jukk bara

Og ég er svo leið yfir leiknum í gær að ég get í hjartans einlægni grátið fögrum tárum.

Polli hvað?!?

Ég er mjög fúl út í vin minn Polla. Ég lánði Þórunni hann um helgina og eftir það þá bara lætur hann eins og asni og þverneitar að telja kaloríurnar eins og hann hefur gert heldur segir mig bara brenna sama og engu og hinn leiðinlegasti.

Ég ætla nú að reyna að núllstilla kvikindið því ég þverneita að hafa bara brennt um 200 hitaeiningum í 50 mín á brennslu í Styrk í gær.

Jibbí ég sem sagt fór í Styrk og ég hjólaði hér um allan bæ meira af vilja en m ætti skal ég segja ykkur – máttur verkjataflanna er mikill!

Nú svo fór ég í hálsteygingu hjá Baldri og fékk nálar í 3ja sinn í vinstri fótinn. Ég er áberandi skárri í hælnum en mikið djöfull var vont að fá nálina sem kom fyrir neðan tábergið. Venjulega hefur það verið hælsporanálin sjálf sem hefur næstum drepið mig en nú var það þessi. Ég endaði bara með tárin út um allt! Aumingja Inga 😉 Þetta er nú svona með því verra sem ég hef lent í varðandi svona stungur held ég – já og jafnvel verra en kálfanuddið en það stóð nú lengur.

Jamm – ég þreyi Þorrann – sjáum hvað gerist á Góunni.

Og Áfram Ísland en ég get eiginlega ekki tjáð mig meira um það! Er í andnauð satt að segja – man of vel eftir leiknum 2002 satt að segja.

Hrmpf

Ég er að drepast í hálsinum!

Og ég er búin að fá hundleið á því!

Hef komist að því að þetta er ekkert líf!

En ég hef ekki komist að því hvað ég eigi að gera í því frekar en orðið er?

Mig langar mest að vola bara svolítið!

En annars er ég bara hress var í sumarbústað um helgina ætlaði að læra en gat það ekki því ég var svo slæm í höfðinu og hálsinum. Búin að hvíla mig í 2 sólarhringa stanslaust, í potti, méð því að ganga og borða hóflegan mat.

Er ég skárri? Nei.

Og ég held ég geti ekki meira bara – og þetta er samt góður dagur!

Við Polli og sundleikfimin

Við erum í firna góðum gír. Eftir að vera búin að spjalla við Betu sundleikfimisdrottningu og Sigrúnu sem er líka mikil íþróttadrottning um hálsinn min og flotholt ýmsikonar, mín og tilbúin ákvað ég að fara í sundleikfimi í morgun. Og það var svo skemmtilegt og dásamlegt og gott.

Ég sleppti öllum lóðum og beltum og hvað þetta heitir – var við og við með núðlu, og fyrir vikið náði ég miklu meira út úr æfingunni – var að vísu með of hraðan púls lengstum þannig að fitubrennslan var ekki nema 46% en hefði ella verið um 60% eins og þegar ég t.d. syndi í brennslupúls.

Ég réði ekki alveg eins vel við að lækka hann og ég vildi en ég brenndi 920 hitaeiningum á 35 mínútum sem verður nú bara að teljast gott. En þarf að athuga þetta með púlsinn. En þetta var ljómandi skemmtilegt og frískandi og ég gat verið í útiklefanum og það er nú hálf sælan og rúmlega það!

Þessa viku hef ég varið 58 mín (2 æfingar) í líkamsrækt og brenn 1398 kaloríum – ég fer vonandi í Styrk á eftir og næ að sprikla þar svolítið en svo er stefnan tekin á sumarhús til að læra og njóta lífsins. Vonandi get ég farið í góðar göngur um helgina. SVo kannski í sund á sunnudag en ég þori ekki að lofa því :-). Það lokar líka svo asnalega snemma í sundlauginni. Svo fór ég í smá göngu sem Polli fékk ekki að vera með í – blessaður heilladrengurinn.

Mér líður vel í hálsinum eftir nuddið í gær – það létti á greinilega en ég er á ansi góðum verkjalyfjaskömmtum í vinnunni en afeitra mig svo þegar ég kem heim. Það er ekki gott að komast í gegnum veröldina með því að dópa sig í gegnum hana – er ekki við mitt hæfi satt að segja.

Lífið er gott – ég er mikið glöð að það er föstudagur þá kenni ég bara 2 tíma og get notað götin mí til alls mögulegs – nú er ég t.d. í kaffipásu og nota hana til að blogga – það er gott að skrifa finnst mér. Takk fyrir að lesa,

Ykkar Inga

Í blíðu og stríðu

Ég hef það fyrir algjöra reglu að nafna ekki hm í handbolta hér – og ætla ekki að gera það frekar nema til þess að láta ykkur vita af því að hugur minn er hvergi annars staðar. Íþróttaáhorf er hins vegar mér afar orkufrekt og sálartrekkjandi.

Í hverri einustu ræsingu í F1 er ég í andnauð – í hverju víti langar mig mest að missa meðvitund, hvert tap særir mig í hjartastað. Hver sprungin vél, hver ákeyrsla hjá Kimi (mika) hefur sært mitt viðkvæma geð! Þannig að ég ætla ekki að tala um þetta mót – ræð ekki við það miðað við ástandið á öðru.

Ég hef uppgötvað mátt verkjalyfjanna – ég borða bara heilmikið af þeim og voila – ég held höfði og næ að þrauka út daginn í skólanum. Ég hef aldrei tekið mikið af verkjalyfjum – er alltaf með hausverk og slíkt þannig að það væri til að æra óstöðugan. En nú sem sagt er ég komin á endastöð og ét þennan fjanda bara. Mæli ekki með því en öðruvísi kemst ég bara ekki almennilega í gegnum lífið.

Þetta hlýtur að lagast einhvern tímann Það eru ekki nokkrar líkur á öðru. Nálar, nudd og hártoganir, teygjur, sund og sundleikfimi – Styrkferðir – þetta hlýtur allt að smella.

No pain no gain.

Ykkar Inga pinga pikkaló

Í dag er miðvikudagur

Í gær fór ég í tíma til sálfræðingsins. Það var nú svei mér merkilegur tími. Tók greindarpróf – mmig hefur alltaf langað til þess að taka svoleiðis og það útskýrir ýmislegt í mínu lífi – niðurstaðan sem sagt. O jamm.

Það sem að mér er svona helst, svo ég opinberi það nú bara á síðum veraldarvefsins, er þessi þunglyndistendence og orkuleysi. Orkuleysinu finn ég mæta vel fyrir og finnst það ekki henta mér sérlega vel – það er heldur ekki sérlega líkt mér, þunglyndið er lymskufyllra og ekki alltaf sem ég átta mig á því. En með því að fá það svart á hvítu og nokkrar skilgreiningar og ábendingar þar um hefur mér tekist að halda í halann á því og jafnvel tjónka svolítið við það enda er það ekki hyldýpis pyttur heldur meira léttur blues.

Það sem hefur hjálpað mér hve mest eru þau orð sála að maður megi ekki streitast á móti því þegar maður finnur að það rekur nefið inn – ekki henda því viðstöðulaust út aftur heldur taka á móti því, greina líðanina og bregast svo við. Þennan gest er ekki hægt að reka á dyr án þess að sinna honum. Mér finnst þetta hafa hjálpað – ég er betur áttuð á líðan minni og því færari um að breyta henni en loka ekki bara og læt sem ekkert sé. Fyrir vikið bregst ég við – eða reyni það að minnsta kosti.

En sem sagt í gær talaði ég við sála um eitt sem hann sagði í síðasta tíma um að orkuleysið og þreytan væri af því að ég væri feit og þegar ég sagði að ég þekkti nú fullt af fólki sem væri þreytt en ekki feitt hafði hann líka svör á reiðum höndum við því. Síðasti tími fór mikið í að tala um fíkn og matháka og ég sat og reyndi að innbyrgða þetta allt þó ég sæi ekki nema hæfilega mikið af mér í þessu öllu saman. Og ég er algjörlega óssammála því að ég sé orkulaus, þunglynd eða hvað þetta er allt saman af því ég sé feit. Ég bara kaupi það ekki – og ég var að segja honum það í gær. Ef mig langaði til að fá svona frasa frá honum – rétt eins og reykingafólk fær alltaf um sína líðan þá myndi ég bara fá mér sjálfshjálparbók og lesa hana.

Sigh það var nú svei mér gott að bregða þessu upp og láta hann vita af þessu! Hann tók þessu bara ágætlega og sagði að ég greinilega heyrði sumt og annað ekki því hann hefði nú sagt ýmislegt fleira en þessa frasa sína. Til að mynda að væri það mikilvægt að ég væri þunglynd og orkulaus og það væru þeir þættir sem þyrfti að taka á og þeir tengdust ekki fitunni á neinn hátt annan en þann að sú sem er svona er feit í þessu tilfelli. Annað sem væri mikilvægt er að ég geri mér grein fyrir því að ég lifi í öðrum hugarheimi – sé stundum fljótandi utan við stað og stund.

Og minni fannst það nú ekki alveg passa heldur! Þá setti hann mig í greindarprófið og notaði það til þess að útskýra fyrir mér þennan hugarheim sem ég leita í – hann sé ekki óraunsær eða science fiction heldur þvert á móti oft hinn raunverulegasti og mikilvæg verkefni fá úrlausn þar, en hann sé ekki endilega tengdur þeim aðstæðum sem ég er í – heldur flóttaleið. Jább ég kaupi það. Mér finnst þetta ótrúlega merkilegt sem hann sagði – og ég fer nú ekki að endurtaka hér 😉 og það útskýrir svo margt í mínum viðbrögðum og líðan. Nú ætla ég að fylgjast með mér og sjá hvenær ég bregst svona við í staðinn fyrir að taka á aðstæðum sem mér finnst á stundum ekki þess virði að breyta eða vekja hjá mér bjargarleysi. Ég hugsa nefnilega oft að það sé betra að þegja og láta sem ekkert sé, en að halda máli mínu til streitu – eyða í það tíma og orku og uppskera svo kannski eitthvað sáralítið. Amk miðað við orkuna sem ég legg í málið.

Ég fór ekki í sundleikfimi – ákvað að blogga í staðinn – brenni nú líklega ekki neinu svipuðu. Ég hef verið algjörlega ómöguleg síðustu daga í hálsinum – finnst ég ekki eiga mér viðreisnar von go skil ekki afhverju ég er í vinnu yfirleitt. Dagurinn dugar mér ekki til neins og orkuleysið er algjört.

Eftir nálarnar á mánudaginn lá ég fyrir og leið eins og ég væri fótbrotin. Ég missteig mig svo oft á vinstri fæti þegar ég var krakki og unglingur og nálarnar lögðust á liðböndin þannig að ég gat ekki gengið nema með staf svo ekki sé minnst á hælsporann sjálfan sem bókstaflega var eins og logandi hnífur í hælnum á mér. Ég var enn mjög aum í gær en er miklu skárri í dag og ég finn fyrir undarlegum léttleika í hælnum – kannski er bólgan að minnka – nálarnar að bera árangur. Þær virka amk alla jafna ákaflega vel á mig.

En nú ætla ég að fara að búa mig fyrir skólann kennsla til þrjú í dag – hrein klikkun náttúrulega. Vonandi kemst ég í gegnum þennan dag – og þann næsta líka.

Takk fyrir að deila lífi mínu með mér

Ings

Æ mig auma

Ég bý á rútustöð finnst mér stundum. Litli einverupúkinn Ingveldur er stundum alveg uppgefin á þessu mannlífi öllu sem er í kringum hana ;-). Núna er Páll að hlusta á útvarpið – fréttir og vill meina það að ég hafi áhuga á þeim líka og hefur útvarpið því af elsku sinni hátt stillt. Fúsi er kominn til að heimsækja Aðalstein og Jobbi og Ragnheiður eru hér að kærustuparast! Allt á fullu sem sagt – Sigh.

Ég var að koma úr nálum í hælinn – ekki nærri nærri eins vont og síðast þó löppin sé nú öll í steik þannig lagað skoho og hálsinn ekki betri en það er nú allt í lagi. Verður ekki betra að sinni vænti ég. Vinnan var allavega þolanleg í dag og það er alltaf bót í máli.

Ég fór ekki í sundleikfimi í morgun – fannst ég ekki geta það og svo var líka smá misskilningur með bílinn þannig að þó ég hefði viljað hefði ég ekki komist í tæka tíð – en líklega var þetta mest aumingjaskapur og leti. Baldri – sem er nú eiginlega alveg hættur að sinna mér (ja nema í dag þá var hann svolítið að rífast- mest til að halda sér í formi held ég frekar en mér ;-)), finnst eindregið að ég eigi að fara í sundleikfimina. Æ mér leiðist svo bara þetta kraðak og mannmergð – sigh. Verð líklega að troða mér á einhvern góðan stað því þó það fari að birta og allt mögulegt þá get ég ekki gengið eins og er útaf hálsinum og ekki get ég nema hæfilega verið í Styrk eins og ég er í hálsinum.

VÁ ÞVÍLÍKT væl. Auj barasta. En að leggja þetta á eina litla bloggsíðu.

En sem sagt. það eru til 97 sentimetrum minna af Ingveldi en fyrir ári síðan og ég er akkúrat einu kg. léttari en ég var fyrir tveimur vikum og þá var ég 700 gr þyngri en fyrir jól – sem ég ákvað að væri innan skekkjumarka varðandi það að þyngjast 🙂 – er það ekki bara rétt skilgreining?

Ég er ótrúlega uppgefin, ótrúlega illa upplögð en ótrúlega uppistandandi. Hælspori og hálsverkir venjast bara furðu vel – já eða þannig. Mig langar bara mest í sund upp á hvern dag en ég held ég láti það vera að sinni. Rúmið heillar ótrúlega satt að segja!

Mælingar

Það var með semingi sem Palli minn samþykkti að mæla horfna sentimetra á frúnni enda fóru síðustu mælingar í nóvember ekki sérlega vel fram! Reyndar gekk svo mikið á að hvorki Bjartur né Páll hafa almennilega borið sitt barr síðan. Og málbandið var rétt að koma í leitirnar nú um daginn! Það voru sem sagt farnir eitthvað færri sentimetrar þá en frúin vildi.

Páll samþykkti þó með semingi að mæla en einungis með því skilyrði að vera með hjálm og auða útgönguleið úr stofunni. Ég gekk að öllum skilyrðum og hét mér og honum því að vera ósköp blíð og góð. Hann setti nú Bjart út engu að síður enda engin vörn til handa honum önnur en útveggirnir!

Frá því í ágúst hef ég misst samtals 28 sentimetra og um 18 síðan í nóvember.

Þetta er svolítið merkilegt því frá nóvember og til dagsins í dag hef ég sáralítið – ef nokkuð lést en frá ágúst og fram í nóvember léttist ég allnokkuð og töluvert meira en ekki neitt.

Þetta sýnir mér rétt eina ferðina að ég verð að vera róleg, þolinmóð og skynsöm. Ég er greinilega enn að byggja upp líkamann og fá mér svolítið af vöðvum fyrir svo utan það að þetta virðist bara ganga svona -upp og niður – stopp. Langa stoppið nú frá því í nóvember er þó ekki kyrrstaða því ég hef glatað þessum sentimetrum út til efnisheimsins.

Nú snýst allt um það að vera sæmilega sátt, sallaróleg og halda ótrauð áfram. Nú birtir óðum, hlýir dagar framunda og ég hlýt að komast í styrk tvisvar sinnum í næstu viku nú eða ég bæti mér það upp með svona líka svakalegri sundferð eins og í gær – kannski verð ég tilbúin að leggja 40 mín að baki í sundi og þá er ég að brenna eins og á hjóli og ógeðstækinu á sama tíma. Svona á góðum degi :-).

Ég vaknaði sæmileg í hálsinum í gær og í dag – ekki verkjalaus en ekki með þessa rosalegu lömunartilfinningu og harðræðistilfinningu í aftan í hnakkanum og niður í bakið. Ég er hins vegar strax farin að þreytast núna en það er skref fram á við að opna augun öðruvísi en ég haldi að ég sé í gapastokknum.

En sem sagt Bjartur og Páll komust vel frá mælingunum og una nú sáttir við sitt. Svo ekki sé minnst á konuna sem hefur misst 97 sentimetra all frá því í lok apríl þegar hún byrjaði að léttast.

Posted by Picasa