Sumir eru svo óheppnir að þurfa að vera að vinna í dag. Óskaplega er ég fegin að þurfa þess ekki enda sprengurinn fyrir jól þannig upp settur að maður þarf að hvíla sig í marga marga daga eftir hann!
Stundum hugsa ég – alltaf eftir á, afhverju voru þessi ósköp öll í gangi hjá mér? Hefðu gjafirnar ekki mátt vera færri, tiltekin tilkomuminni (svarið við því er nú alltaf strax og í hvelli, nei minni mátti hún nú ekki vera). Snúast jólin um öll þessi læti sem eru í mér fyrir jólin? Kannski hefði verði meira gaman að vera minna þreytt á aðfangadag og geta notið alls aðeins betur.
Í ár hugsaði ég þetta svolítið fyrir jólin. Reyndi að vera skynsöm en aðstæður spila nú ekki alltaf með mér í liði og gera mér svolítið erfitt fyrir. Og svo finnst mér þar að auki svolítið gaman af veseni ;-).
Ég vil gjarnan geta tekið almennilega til í jólafríinu – ekki endilega útaf jólunum heldur hinu að þá er ég í fríi og ég fer ekki í frí aftur fyrr en um páska. Ef ég kemst ekki niður úr bunkanum í þessu fríi þá kemst ég það bara alls ekki neitt!
En þessi sprettur tekur svolítið á – ég skrifa það þó ekki á jólin – ég elska jólin enda ekki furða:
Á aðfangadag var besti hamborgahryggur í heimi í matinn, eldaður eftir kúnstarinnar reglum sem margborgðu sig!
Ég fékk svo fallegar gjafir að ég man ekki eftir öðru eins – það skilar sér undir jólatréð að eiga tvö vinnandi börn 😉 elsku litlu grjónin mín- en nánar um gjafirnar síðar!
Á jóladag horfði ég á sjónvarp og las. Við Palli fórum svo í heljarinnar göngu um Þrastaskóg þveran og endilangan – heldur of langan þar sem flóð komu í veg fyrir að við færum okkar venjulega 40 mín göngu og við vorum því í rúman klukkutíma. Færið var ömurlegt – holklaki og drulla og því reyndi mikið á þó ekki væri farið hratt yfir :-). Að því loknu fengum við okkur hangikjöt hjá tengdó og beint í bólið þar á eftir að hvíla mína þreyttu fætur.
Í gær lá ég og horfði á myndir, las og svaf allan heila daginn og kunnu því svona líka ágætlega. Og nú er ég að fara út að hjóla. Reyna að losna við þessar ókennilegu gastegundir sem hafa heltekið meltingarveginn í mér! 
Ég held reyndar að hangikjöt og hamborgarahryggur sé eitraður matur. Getur bara ekki verið hollur!