Nafnlaus auglýsinga comment eiga hreinlega ekki heima hér

Kæri nafnlausi auglýsandi!

Hér á þessari síðu rausa ég um mig og mitt og öllum er velkomið að tjá sig um það, hafa skoðanir á því þar sem ég hef kostið að birta það á almennum miðli. Þeim almennasta sem til er – internetinu sjálfu. Jafnvel þó efnið sé í meira lagi persónulegt eins og t.d. myndin hér að neðan.

Ég hef unnið við vefmiðil og þekki óritaðar og ritaðar reglur þess ágætlega – ég þekki einnig almenna kurteisi ágætlega – þó hver skilgreini hana fyrir sig.

Ég set tengla inn á aðrar síður sem ég vitja oft og hef áhuga á og er því þar með e.t.v. að auglýsa þær um leið. Fólk lítur hér við, sumir skrifa eitthvað notalegt handa mér í baráttunni við sjálfa mig á meðan enn fleiri lesa bara og hafa vonandi eitthvað gaman af að fylgjast með mér vegna tenglsa þeirra við mig eða þekkja einhver viðfangsefni sem ég fæst við. Ég hef ekki sett tengla inn á magaminnkunarsíður hversu ágætar sem þær aðgerðir reynast öðrum. Ég fæst hins vegar við hlutina á annan hátt. Útfrá því að breyta um lífsstíl, -með því að hugsa um þessa þætti: hreyfingu, mataræði og hvíld.

E.t.v. á þessi síða sem vísað er í, í tvígang í ,,commentum“ hér eftir að vekja áhuga minn og vonandi á hún eftir að ganga vel og öllum þeim sem velja þá leið sem titill hennar vísa til. Ég biðst hins vegar undan auglýsingum um þessa síðu í nafnlausum commentum hér á mínu bloggi.

Þú myndir hvort sem er ná betri árangri kæri auglýsandi ef þú segðir frá þér, kynntir þig og segðir hvað ræki þig hér inn á þessa síðu annað en leitarorðið magaminnkun á google þaðan sem þú komst hér inn fyrst.

Það er óviðeigandi að nota aðrar síður en sína eigin til auglýsinga sig nema með gjaldi eða leyfi og ég frábið mér þær nafnlausar í tengslum við bloggfærslur sem eru runnar undan einhverjum allt öðrum rifjum en þess að fara í magaminnkun.

Þér er hins vegar velkomið að kynna þig með formlegum hætti og síðuna þína og vísa til þess hvernig þú álítur hana geta tengst og hjálpað fjölskyldu minni og vinum sem fæstir þurfa þó á nokkurri magaminnkun að halda.

Vonandi lítur þú hér við þér til ánægju á nýju ári – en lætur auglýsingaherferð þinni hér með lokið.

Bestu kveðjur Ingveldur

Nú árið er liðið I

Nú nálgast uppgjör ársins. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár í meira lagi og full ástæða til þess að gera því skil. En það er e.t.v. ekki úr vegi að skella stöðunni í dag upp á þetta blessaða blogg.

Mér líður á stundum sem ofskreyttu jólatré og miðarnir eru ekki allir sérlega fallegir eða skemmtilegir. Sumir þeirra eru eldri en aðrir en allir eru þeir mér á einhvern hátt ókunnuglegir þó svo að ég hafi átt að kannast við þá suma.

En amk er staðan sú í dag að mér finnst eins og þeir hafi aldrei þvælst fyrir mér sem nú :-). En það er líklega vegna þess að ég er að gera eitthvað í þeim.

Áramótaheitin hljóta að tengjast þessum miðum öllum saman – svo mikið er víst.

Með því að smella á myndina er hægt að sjá hana stærri

Jólatré jólatré

Ég er bara algjörlega heilluð af jólatrénu mínu :-). Fékk mér nýtt jólatrésskraut núna fyrir jólin og ég er svooo ánægð með það að það er gasalegt. Verð að leyfa ykkur að njóta! Já svo ekki sé nú minnst á það hve ánægð ég er með að það er komin stafræn myndavél á heimilið á ný! Aðalsteinn er svo góður að leyfa mér að nýta hana með sér :-).

Posted by Picasa

Brennslupúls


Þar sem ég er stoltur eigandi af Polar F11 púlsmæli þá á ég klárlega eftir að tala svolítið um brennslupúls á næstunni. Samkvæmt mínum útreikningum ætti hann að vera í kringum 110 – frá 100 – 120 segir Baldur. Polar vill að hann sé hærri þarf að athuga afhverju það er en það liggur áreiðanlega í einhverri svona vitleysu ala fljótfærni ;-). Polar vill líka meina að ég sé í voða góðu formi – barasta í elite flokki þegar kemur að einhverjum fínheitum sem ákvarða ástand hjartans – ég á nú eftir að prófa það á fleirum. Hef ekki trú á að sú sé raunin! Þó held ég reyndar að hjartað sé fínt og súrefnisupptakan hjá mér þegar læknirinn minn mælir hana er nánast eins og hjá langhlaupara sagði hann en samt… Það er einhver sérkennileg skekkja í þessu hjá mér.

En nú væri gaman að tala svolítið um morgunbrennslu þar sem ég fór út að hjóla í morgun áður en ég gerði nokkuð.

Púlsinn hjá mér var þá 30% af einhverju sem Polar vill (eða amk held ég að hann vilji það)að hann sé sem er nú eiginlega lygilegt en ok ég voða hvíld og svona (var nú samt búin að setja í eina vél og hengja upp og eitthvað heimilisdútl) en já svo fór mín að hjóla og það var sama hvað ég hjólaði hratt – var komin í hæsta gír og fannst ég fara óguðlega hrædd miðað við hræðslu mína við að detta. Það var sem sagt sama hvað ég djöflaðist ég komst ekki nema upp í 54% . Það var sama hvað ég breytti um takt, færði til beltið, bleytti nemana og allt – ekkert breyttist.

Ef þetta er rétt – þá skil ég þetta með að það sé mikilvægt að koma brennslunni af stað á morgnana – oh my god! Ef ég er bara á núlli og nixi þrátt fyrir 20 min djöfulgang á hjóli þá skil ég þetta ,,röfl“ hans Baldur míns um morgunbrennslu…

70 hitaeiningar fóru þó í þessu hjóleríi

Á nú samt eftir að sannreyna þessar tölur betur.

Og nú langar mig mest í heitan pott í lauginni…

Ummm það væri dásamlegt. Á nú eftir að sjá hvort ég nenni.

Þyrfti líka að læra svolítið betur á þennan ofurpúlsmæli… Svoldið flottur skoho… Svo gæti maður keypt sér skrefamæli – km mæli á hjólið já og lukt jafnvel ;-). Maður þarf eiginlega að vita hve langt maður fer finnst ykkur það ekki ;-). Það er svo margt sem maður þarf að vita að það er rosalegt!

Frænkurnar Ragnheiður og Ágústa í jólaskapi!

p.s – að kvöldi sama dags: Fór í sund með Polar vini mínum sem sagði mér að ég hefði brennt 270 hitaeiningum á þeim 22 mín sem ég var að svamla í lauginn en mestu brenndi ég þegar ég gekk fram og til baka í lauginni, því ég var ekki með blöðkurnar en þá eyði ég meiru. En sem sagt voða gott að fara og hreyfa sig þó maður sé með hálsbólgu. 350 hitaeiningar í dag í hreyfingu – þær eru þá ekki eftir!

Jólin eru komin

Gleðileg jól segi ég nú bara enn og aftur!

Sumir eru svo óheppnir að þurfa að vera að vinna í dag. Óskaplega er ég fegin að þurfa þess ekki enda sprengurinn fyrir jól þannig upp settur að maður þarf að hvíla sig í marga marga daga eftir hann!

Stundum hugsa ég – alltaf eftir á, afhverju voru þessi ósköp öll í gangi hjá mér? Hefðu gjafirnar ekki mátt vera færri, tiltekin tilkomuminni (svarið við því er nú alltaf strax og í hvelli, nei minni mátti hún nú ekki vera). Snúast jólin um öll þessi læti sem eru í mér fyrir jólin? Kannski hefði verði meira gaman að vera minna þreytt á aðfangadag og geta notið alls aðeins betur.

Í ár hugsaði ég þetta svolítið fyrir jólin. Reyndi að vera skynsöm en aðstæður spila nú ekki alltaf með mér í liði og gera mér svolítið erfitt fyrir. Og svo finnst mér þar að auki svolítið gaman af veseni ;-).

Ég vil gjarnan geta tekið almennilega til í jólafríinu – ekki endilega útaf jólunum heldur hinu að þá er ég í fríi og ég fer ekki í frí aftur fyrr en um páska. Ef ég kemst ekki niður úr bunkanum í þessu fríi þá kemst ég það bara alls ekki neitt!

En þessi sprettur tekur svolítið á – ég skrifa það þó ekki á jólin – ég elska jólin enda ekki furða:

Á aðfangadag var besti hamborgahryggur í heimi í matinn, eldaður eftir kúnstarinnar reglum sem margborgðu sig!

Ég fékk svo fallegar gjafir að ég man ekki eftir öðru eins – það skilar sér undir jólatréð að eiga tvö vinnandi börn 😉 elsku litlu grjónin mín- en nánar um gjafirnar síðar!

Á jóladag horfði ég á sjónvarp og las. Við Palli fórum svo í heljarinnar göngu um Þrastaskóg þveran og endilangan – heldur of langan þar sem flóð komu í veg fyrir að við færum okkar venjulega 40 mín göngu og við vorum því í rúman klukkutíma. Færið var ömurlegt – holklaki og drulla og því reyndi mikið á þó ekki væri farið hratt yfir :-). Að því loknu fengum við okkur hangikjöt hjá tengdó og beint í bólið þar á eftir að hvíla mína þreyttu fætur.

Í gær lá ég og horfði á myndir, las og svaf allan heila daginn og kunnu því svona líka ágætlega. Og nú er ég að fara út að hjóla. Reyna að losna við þessar ókennilegu gastegundir sem hafa heltekið meltingarveginn í mér!

Ég held reyndar að hangikjöt og hamborgarahryggur sé eitraður matur. Getur bara ekki verið hollur!

Þorláksmess–a :-)

Iss ég held að áætlanir séu bara svona mest til þess að gera ekkert með þær – gæti maður ekki sagt að þær væru svona til viðmiðunar? Jólaundirbúningsáætlunin mín er nú svoldið öðruvísi í verki en á bloggi en það er allt í lagi :-).

Hér er allt í hæfilegri vitleysu en:

Jólakveðjur óma
Hangikjöt mallar við suðumark
Jólagjafir lúra hér og þar um húsið
Kertin loga innan um ókunnulega hluti sem eru á vitlausum stað 🙂
Bjartur er úti á bletti að rífast við gesti og gangandi 😉 og keyrandi
Úti er yndislegt veður
Jólatréð virðist vera alveg tilbúið fyrir skautið sem er nú mikill munur!

Anda inn alveg ofaní maga, anda út…

alveg eins og þú sért að hella úr tunnu! Ég nenni alls ekki í bæinn að versla. Mér finnst leiðinlegt í bænum að versla. Ég er að hugsa um að fara ekkert í bæinn nema þá í kvöld ef veðrið verður ekki snarvitlaust. Það eru nú meiri lætin í þessu veðri alltaf hreint! Hrmpf….

Ekki er nú húsið orðið fína en það mjakast nú í þá áttina skal ég segja ykkur. Og ég er alveg viss um að jólin komi þó ég verði ekki búin að gera eitthvað sniðugt.

Halda ró sinni það held ég að sé svolítið mikilvægt satt að segja!

Ég er búin að vera með svo mikinn höfuðverk síðan þarna um daginn þegar kennarastóllinn vildi ekki taka við mér. Fór í nudd í gær ummmmmm og fékk svo í mig nálar sem var verulega óþægilegt á köflum sérstaklega þegar þeim var stungið í hálsinn á mér – sem aftur rifjar upp fyrir mér þegar það var hægt að stinga í mig nálum út og suður og ég fann aldrei fyrir því! Batamerki er mér sko sagt en sem sagt eftir að þeim var sargað í hnakkann á mér og hálsinn og ég lifði það af fann ég bókstaflega hvernig rafmagnsleiðslurnar liggja um mig alla svei mér þá – og ég hef ekki fengið hausverk síðan! þetta er hreinlega magical þessar nálar!

Og ég er tveimur kílóum léttari en ég var fyrir 9 dögum síðan!

Og ég er bara svolítið glöð yfir því skal ég segja ykkur -búin að eiga í óttalegu basli við þessa vigt upp á síðkastið.

Lof jú farin að jólaundirbúast.

Dagskrá

Nú dugir ekki annað en skipulag og afslappelsi hugans um leið:

Dagur 1 (í dag)

Þrífa húsið og koma því í jólabúning.
Þar með taldara skúffur í eldhúsi sem eru orðnar óleyfilega – já svona einhvern veginn öðruvísi en þær eiga að vera!
Klára Sörurnar sem döguðu uppi um síðustu helgi
Hringja og athuga með ísskáp
Koma jólatré inn
Fara í Blómaval og athuga hvort eitthvað fallegt skraut sé til á það (allt í einu á ég ekkert jólatrésskraut!)
Fara í sund og nudd – muna að frysta kortið mitt fram yfir áramót
Reyna að týna ekki sjálfri mér
Búa til merkilegan innkaupalista fyrir morgundaginn
Viðbót – gera ræðustúf
Vera tilbúin með Kiðjabergsdótið!

Dagur 2 (á morgun)

Fara til Reykjavíkur og versla ALLAR jólagjafir Þær eru allnokkrar!
Koma við hjá Ása
Koma við hjá Hlíf
Reyna að koma pökkum í Borgarfjörðinn
Fara í Hagkaup og athuga með matarinnkaup
Svo ekki sé minnst á BÓNUS!
Fara í fertugsafmæli um kvöldið – já sem þýðir að á degi 1 þarf ég að undirbúa hana
Vera komin ekki mjög seint heim

Dagur 3 – Þorláksmessa

Pakka inn gjöfum
Njóta lífsins
Fara í sund og SLAKA á
Sjóða hangikjöt ummmm nammi namm
Þorláksmessusnúningar

Þetta eru jólin!

Úff segi ég nú bara Jólafrí

Guði sé laun og dýrð!

Nú er ég aftur að verða eins þreytt og í síðustu viku. Það er sama hvað ég geri lítið þá er ég búin að vera um 12 leytið – no matter what. Allt umfram þann tíma er hreinlega of stór skammtur fyrir þá stuttu.

Litlu jólin voru í dag og þau voru að mestu yndisleg. Mér tókst að vera í pæjuskónum mínum í 5 klst samfellt og það er nú vel af sér vikið þykir mér ;-).

Já og ég fór í klippingu í gær og viti’ði, sú hin sama enn stutta lítur bara vel út til hársins ;-).

En nú bara verð ég að afgreiða jólakortin. Svo þarf að kaupa jólagjafir en á morgun tek ég til, hvíli mig og fer svo í verslunarleiðangur á föstudag.

Um að gera að vera rólegur, blíður og góður þrátt fyrir höfuðverk dauðans og hálsverki í stíl sesm tóku sig upp eftir kollveltu miklu aftur á bak í gær – æ æ eins og ég mætti við því en ég lagast.

Hóhóhó

Já já er þetta ekki bara allt að gera sig?

Ég fór í sund í dag og synti smá – en þó alltént í 20 mín og ég fór líka í mjög sérkennilega göngu með Bjart í morgun – þeir voru ekki margir metrarnir sem voru lagðir að baki frá húsinu en þeim mun fleiri á sama blettinum hér fyrir utan – ný tækni í uppeldi Bjarts – nánar um það síðar ;-). En frábært að fara út og hreyfa sig. Mér finnst það yndislegt að skondrast úti – miklu betra en að fara í Styrk á morgnana er bara ekki að fíla það um þessar mundir.

Sem sagt fyrirmyndardagur í hreyfingu í dag finnst mér miðað við allt og allt.

Er að fara að sofa – já já fyrir níu

Fer út með stubb í fyrramálið og já ég skrifaði allnokkuð af jólakortum – það væri þó ekki að jólakort yrðu send héðan ekki síðar en einum degi eftir síðasta séns? Ja það væri það 😉

Elska ykkur – verið góð og munið að slappa af og þið vitið – ég mæli með sundi ;-).

Ykkar Inga sem át 6 smákökur og 1 kakóglas…

SIGH