Kæri nafnlausi auglýsandi!
Hér á þessari síðu rausa ég um mig og mitt og öllum er velkomið að tjá sig um það, hafa skoðanir á því þar sem ég hef kostið að birta það á almennum miðli. Þeim almennasta sem til er – internetinu sjálfu. Jafnvel þó efnið sé í meira lagi persónulegt eins og t.d. myndin hér að neðan.
Ég hef unnið við vefmiðil og þekki óritaðar og ritaðar reglur þess ágætlega – ég þekki einnig almenna kurteisi ágætlega – þó hver skilgreini hana fyrir sig.
Ég set tengla inn á aðrar síður sem ég vitja oft og hef áhuga á og er því þar með e.t.v. að auglýsa þær um leið. Fólk lítur hér við, sumir skrifa eitthvað notalegt handa mér í baráttunni við sjálfa mig á meðan enn fleiri lesa bara og hafa vonandi eitthvað gaman af að fylgjast með mér vegna tenglsa þeirra við mig eða þekkja einhver viðfangsefni sem ég fæst við. Ég hef ekki sett tengla inn á magaminnkunarsíður hversu ágætar sem þær aðgerðir reynast öðrum. Ég fæst hins vegar við hlutina á annan hátt. Útfrá því að breyta um lífsstíl, -með því að hugsa um þessa þætti: hreyfingu, mataræði og hvíld.
E.t.v. á þessi síða sem vísað er í, í tvígang í ,,commentum“ hér eftir að vekja áhuga minn og vonandi á hún eftir að ganga vel og öllum þeim sem velja þá leið sem titill hennar vísa til. Ég biðst hins vegar undan auglýsingum um þessa síðu í nafnlausum commentum hér á mínu bloggi.
Þú myndir hvort sem er ná betri árangri kæri auglýsandi ef þú segðir frá þér, kynntir þig og segðir hvað ræki þig hér inn á þessa síðu annað en leitarorðið magaminnkun á google þaðan sem þú komst hér inn fyrst.
Það er óviðeigandi að nota aðrar síður en sína eigin til auglýsinga sig nema með gjaldi eða leyfi og ég frábið mér þær nafnlausar í tengslum við bloggfærslur sem eru runnar undan einhverjum allt öðrum rifjum en þess að fara í magaminnkun.
Þér er hins vegar velkomið að kynna þig með formlegum hætti og síðuna þína og vísa til þess hvernig þú álítur hana geta tengst og hjálpað fjölskyldu minni og vinum sem fæstir þurfa þó á nokkurri magaminnkun að halda.
Vonandi lítur þú hér við þér til ánægju á nýju ári – en lætur auglýsingaherferð þinni hér með lokið.
Bestu kveðjur Ingveldur





