…og mömmu líka. Mér þótti óskaplega vænt um pabba alla tíð. Hann var orðinn gamall þegar hann átti mig – 55 ára og ég var orðin vel yfir tvítugt þegar ég vissi að hann hefði t.d. starfað fyrir UMFÍ lengi – kannski of lengi eins og gerðist.
Það er verið að gefa út bók um sögu UMFÍ og þar gæti þessi texti birst um hann pápa minn. Líklega má ég nú ekkert birta þetta hér – en ég bara get eiginlega ekki annað. Þið látið það ekki fara lengra.
Séra Eiríkur J. EiríkssonEiríkur Júlíus Eiríksson (1911-1987) fæddist í Vestmannaeyjum utan hjónabands og ólst upp á Eyrarbakka hjá móður sinni, Hildi Guðmundsdóttur, og foreldrum hennar. Faðir hans, Eiríkur Magnússon, fór til Ameríku um það leyti sem Eiríkur fæddist og kom ekki aftur til Íslands. Eiríkur gekk menntabrautina og snemma komu afburða námsgáfur hans í ljós. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1932 og lauk kennaraprófi tveimur árum síðar. Samtímis kennaranáminu las hann guðfræði við Háskóla Íslands og lauk þar prófi 1935. Hann kynnti sér skólamál í Basel í Sviss og á Norðurlöndum árin 1936-1937.Þessi ungi fjölmenntaði maður hefur væntanlega getað valið úr störfum en ákvað að gerast kennari við héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði. Þar kenndi hann til 1942 en gerðist þá skólastjóri þegar hinn aldni ungmennafélagsfrömuður Björn Guðmundsson lét af störfum. Jafnframt skólastjórn og íslenskukennslu var hann sóknarprestur á staðnum. Séra Eiríkur var þróttmikill skólastjóri og veitti hundruðum ungmenna áhrifamikla leiðsögn. Árið 1960 söðlaði hann um, fluttist til Þingvalla og gerðist þar prestur, síðar prófastur, og þjóðgarðsvörður. Þeim störfum gegndi hann til sjötugs en flutti þá á Selfoss og bjó þar til æviloka.Eiríki var létt um að koma orðum sínum og hugsunum á blað og var sískrifandi alla ævi. Allar hans predikanir og ræður í hundraðatali eru til uppskrifaðar og snyrtilega frágengnar af höfundinum. Hann var einlægur trúmaður og ritaði mikið um kirkjuleg og trúarleg málefni. Þá skrifaði hann einnig nokkuð um sögulegan fróðleik auk þess að þýða nokkrar bækur. Eiríkur var manna orðsnjallastur og gat undirbúningslaust flutt áheyrilegustu ræður af þekkingu og andagift. Hann stóð teinréttur með luktum augum þegar hann talaði blaðalaust en það var honum jafntamt og flytja skrifaðar ræður. Hann flutti mál sitt skörulega, snjöllum, djúpum rómi og átti athygli áheyrenda. Málsnilld hans var ekki aðeins fólgin í meitluðu orðavali heldur einnig framsetningu tilbrigðaríkra tónbrigða sem risu og hnigu á eftirminnilegan hátt.Hann var í senn alvörumaður og mikill húmoristi, hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Við fyrstu sýn gat hann virst fáskiptinn en það fór fljótt af og sá mikli fjöldi sem hann eignaðist að vinum og félögum um ævina lagði fram þann einróma dóm að séra Eiríkur væri einn sá hlýlegasti og skemmtilegasti maður sem þeir hefðu kynnst. Minni hans var næstum óbrigðult, hann kunni mörg tungumál og virtist vita nokkur skil á innihaldi flestra bóka í hinu risavaxna bókasafni sínu. Séra Eiríkur var mikill aðdáandi danska kennimannsins og skáldsins Grundtvigs, sem var andlegur faðir dönsku lýðháskólanna en þeir voru einmitt fyrirmynd héraðsskólanna á Íslandi eins og Núpsskóla.Eiríkur J., eins og hann var oftast kallaður gekk ungur í hið gróskumikla Ungmennafélag Eyrarbakka sem dafnaði vel í höndum leiðtoganna Aðalsteins Sigmundssonar og Ingimars Jóhannessonar. Ein athyglisverðasta nýbreytni þeirra félaga var stofnun yngri deildar félagsins sem var einskonar uppeldisstofnun ungra Eyrbekkinga. Snemma kom í ljós hvað í Eiríki bjó og 13 ára gamall var hann orðinn formaður yngri deildarinnar. Þegar eldri deild félagsins hafði verðlaunasamkeppni um ritgerðarefnið: ‘Hvað er unnið við það að vera Íslendingur?’ árið 1924 var það hinn kornungi Eiríkur sem hlaut verðlaunin fyrir ritgerð sína. Hún birtist nokkru síðar í Skinfaxa og vakti athygli fyrir íhugun og vandaðan stíl. Aðalsteinn Sigmundsson studdi Eirík til náms fyrir gagnfræðapróf sem hann tók utanskóla. Eiríkur mat þetta drengskaparbragð Aðalsteins mikils og og lét elsta son sinn bera nafn hans.Árið 1938 þegar Aðalsteinn Sigmundsson lét af formennsku UMFÍ var Eiríkur J. Eiríksson einróma kosinn í hans stað. Hann var síðan formaður UMFÍ allt til ársins 1969 eða í 31 ár, margfalt lengur en nokkur annar maður. Eiríkur lagði líka fram krafta sína til Skinfaxa og var ritstjóri hans oftar en einu sinni. Fyrst árin 1940-1946 og aftur árin 1961-1969. Þarna bættist heldur betur við annasaman starfsdag prestsins, skólastjórans og þjóðgarðsvarðarins en séra Eiríkur var starfsamur maður og hugsjónaríkur sem ekki spurði um daglaun í krónum að kvöldi heldur hvort hann gæti orðið að liði.Árið 1938 kvæntist Eiríkur Kristínu Jónsdóttur frá Gemlufalli. Hún var mannkostakona og við hennar hlið naut Eiríkur sín best þó hann væri mikið að heiman vegna ýmissa starfa. Kristín var gestrisin svo af bar og veitti ekki af því þau voru vinmörg og margir litu inn á Þingvöllum. Hún bar einnig hita og þunga af uppeldi barnanna. Þau Eiríkur eignuðust ellefu börn en einn sonur þeirra lést á unga aldri. Eiríkur var ástríðufullur bókasafnari og í hans eigu var stærsta og vandaðasta bókasafn í einkaeign á Íslandi, þrjátíu þúsund bindi. Þessar bækur hafði hann allar lesið og síðustu árum sínum varði hann til að skrásetja og flokka safnið. Þau Eiríkur og Kristín gáfu að lokum Bæjar- og héraðsbókasafnið á Selfossi hið mikla bókasafn sitt og hefur ekki önnur bókagjöf verið gefin stærri á Íslandi.Sigurður Greipsson og Eiríkur J. Eiríksson voru afar samrýmdir enda báðir miklir ungmennafélagar. Sigurður setti saman þessar fallegu hendingar um góðvin sinn á þeirra efri árum.
Sterk er röddin,
tungutakið töfrum bundið,
varla betra verður fundið.
Meistara þennan munum lengi,
máls og anda,
mikilla sæva,
mikilla sanda.
Úr óútkominni bók um UMFÍ e. Jón M. Ívarsson
Mikið sakna ég hans oft. Þeirra beggja mömmu og hans.
