Að líða illa

Mig langar ekkert til að blogga. En ég veit að ef ég hætti að blogga þá verður vandinn meiri því hann býr bara innra með mér og mig vantar þá eitt vopnið til að eiga við vanlíðanina. Það er líka ekki sérlega töff að tala um vanlíðan og það kannski truflar mig að hugsa að einhver lesi þetta blogg mitt. Maður getur aldrei sagt allt hvort sem er – býr að hluta til í lýgi og blekkingum. Sumt á ekki erindi út á vefinn. Ég hef póstað tvær færslur sem ég svo faldi – það er svo sem ekki rétt að bera sig alveg. Það er líka hálfgert klúður að vera á bömmer, gráta af minnsta tilefni og finnast allt ömurlegt – ekki bara ómögulegt heldur ömurlegt. Og geta ekki tekist á við vandann sem maður þó þykist vita hver er.

Ég er óánægð með mjög margt í mínu lífi.

Í fyrsta sinn frá því ég fór að kenna finn ég fyrir raunverulegri vanlíðan gagnvart starfi mínu svo mikilli að meira að segja börnin ná varla að rífa mig upp úr því – og ekki. Þessi áánægja tengist mér og því hvernig ég er. Engum öðrum. Ég er sem sagt ástæða þess að ég er ekki ánægð. Vinn með fínu fólki að verkefni sem er krefjandi og lærdómsríkt. Niðurstaðan er því að lausnin fellst innra með mér.

Sáli sagði margt og spurði margs – gott að ég var búin að vera í 9 mánaða æfingu hjá Baldri í því að svara spurningum annars hefði 8000 kallinn sem tíminn kostaði nýst illa – best að byrja að tala á fyrstu mínútu! það kom þrennt mjög athyglisvert fram:

Feitt fólk er hömlulaust (ég er sem sagt hömlulaus sem eru náttúrulega svoldið leiðinleg tíðindi en ok ég er offitusjúklingur þannig að það hlýtur að vera, ekki satt? Og ekki nóg með það – það er greinilega mikill ókostur og hefur alvarlegar afleiðingar) á fleiri sviðum en einu. Það er t.d. drasl heima hjá mér því ég er hömlulaus! Ekki er nóg með að ég sé offitusjúklingur af því að ég hef svo marga djúpstæða galla heldur er drasl í kringum mig af því líka! Og það finnst mér frekar leiðinlegt verð ég að segja! Draslið er ekki af því ég fæ svo litla hjálp, er þreytt og uppgefin eftir vinnuna, ræktina eða námið – heldur er ég hömlaus offitusjúklingur sem burðast með það nenna ekki að taka til af sömu ástæðu og offituna. Sama er um peningamálin, þau eru líka þeim sömu göllum að kenna sem valda því að ég er feit og draslararófa! Sem sagt lausnin býr innra með mér – gallarnir mínir eru ástæðan. Ég er og haldið ykkur fast víst auli. Allt er mér að kenna og ég á að laga það því ekki vil ég hafa allt í voða vitleysu víst!

Nú svo viðheld ég kaos ástandi til að réttlæta vitlaust mataræði og það líf sem ég lif er eins og það er því ég vil viðhalda kaosástandi – það afsakar svo margt af því sem af er. Boy does this figures. Og ekki er nóg með að kaosið sé ástæða þess að ég skipulegg ekki neitt í mínu einkalífi heldur er það ástæða þess að ég geri mér ekki áátlanir né set mér markmið – og þar með viðheld ég enn betur kaosinu! Christ!

Ég ég ég….

Ég hef alltaf vitað að ég gæti ekki stundað líkamsrækt nema ég setti það niður á dag og klukku og ég var meira að segja farin að skrifa markmið niður að kvöldi fyrir næsta dag hvað varðar mataræði og hreyfingu (sem hefur verið í mjög föstum skorðum þar til núna).

Mataræðið gekk verr og gengur verr og ég læt það hafa mjög neikvæð áhrif á mig að ég nái ekki að vera með það í lagi. Ég læt það skemma fyrir mér ánægjuna af hreyfingunni. Og Óánægjan dregur mig alveg niður í svaðið í öðru. En kannski er óánægjan ekki bara tengd sjálfri mér og eigin aumingjagangi sem mér finnst á köflum algjörlega yfirgengilegur heldur aðstæðum og ég þarf að huga að þeim. Fyrirgefa mér að vera sú sem ég er.

Meira síðar um vanlíðan Ingveldar. Þið fyrirgefið rausið.

Færðu inn athugasemd