Kannski svoldið eins og að vera í þessum skóm í frostrigningu – þeir eru áreiðanlega ekki betri en Puma skór Sigurlín heldurðu það 😉
Ég er í sjálfstæðisbaráttu – tilvistarkreppu – sjálfstyrkingarátaki um leið, sem svo aftur veldur því að ég lendi í svolitlum vandræðum með sjálfa mig á köflum 😉 En það eru svo sem ekki slæm vandræði – meira svona huglægt stormviðri og eiginlega er það of fínt orð!
Nú ég fór á Mýrina í gær – svona líka þrusufín mynd maður! Fór ein því ég þekki engan nógu klikkaðan til að vilja frekar fara með mér en manninum sínum. Ég hef alltaf rekist svo illa í svona giftum vinahóp – ein alltaf með karlinn á sjó eða í Færeyjum og þá þegar hann er heima þá á ég ekki neitt sérlega erfitt með að skilja hann eftir heima. Enda fer hann nú sjálfur ófáa skreppitúrana sem geta tekið svoítinn tíma, já jafnvel daga ;-). Gullaldar tíminn var kannski þegar ég og Arnrún vorum saman á Bakkanum í gamla daga. Við vorum nú góðar saman. Ég sakna oft Arnrúnar – hún sendi mér tölvupóst um daginn en ég glopraði niður netfanginu svo ég get ekki svarað henni!
Þetta var mjög skemmtileg bíóferð. Ég nefnilega passa orðið í bíósætið með þó nokkrum ágætum. Ég vatt upp á mig til vinstri og svo vatt ég upp á mig til hægri og setti meira að segja fæturnar upp á stólinn fyrir framan mig og svo setti ég fæturna í kross og ég veit ekki hvað og hvað. Og svo var bara hálf leiðinlegt eftir hlé þegar einhverjir tveir karlar gátu fundið sig í því að setjast við hliðina á mér – þá einhvern veginn kunni ég ekki eins við að vera að fetta mig þetta og bretta! Tíhíhí. Voða gaman að passa amk næstum því í bíósæti!!!! Oh yeah
Nú svo er ég búin að hafa samband við hann Ingvar minn – hina karlhetjuna í mínu lífi. Það var nú afrek í sjálfu sér að hafa sig í að skrifa honum á ný – en hann tekur mér alltaf svo vel að það er bara nærandi fyrir sálina að heyra í honum. Hringi kannski í hann í kvöld til að ræða um skólamál við hann. Já og svo á ég að vera með litla tölu í Grandaskóla einhvern tímann á næstunni – 14. nóv held ég. Hélt það hefði dottið upp fyrir. En ég kem mér nú að því vonandi.
Nú svo er námsmat í skólanum og það er aftur verra með það því ég get alls ekki unnið niður í borðið eins og ég kalla það – þe að halla hausnum niður og fram. Ég get setið og horft á tölvuskjá og pikkað því ég þarf ekkert að horfa á lyklaborðið en um leið og ég þarf að rýna eitthvað niður þá er ég búin á því. Veit ekki alveg hvernig ég á að komast í gegnum verkefnabunkann en það reddast!
Fór í vinnuna í dag og var alveg til fimm en ég gerði ekki margt – nemarnir sáu um kennsluna nema í síðasta tíma og þá svona rembdist ég við að haga mér mannalega. Er sem sagt ekki orðin góð en miklu betri samt. Við skulum sjá hvernig gengur á morgun – annað hvort lagast það eða versnar hef ég grun um 😀
Ég fór ekki í brennslu í morgun og ég er ekki ánægð með mig varðandi það – ætlaði skoho en ég svaf svo ótrúlega illa og fór alltof seint að sofa þar að auki – Mýrin sjáiði til kl 22. Þannig að ég hef ekkert hreyft mig í dag – en ég hef heldur ekki látið mjög asnalega í matarmálum nema að ég hef eiginlega ekkert borðað – sem er náttúrulega svolítið asnalegt í sjálfu sér. Og ekki vænlegt til árangurs. Huhmmm en það er ekki á allt kosið – alltaf og ekki heldur stundum 😉
Á morgun skal ég fara í brennslu árla morguns og nálar í hádeginu og spinning kl 18 – ein. Ég hef ekki þrek til að plata neinn með mér í þetta. Er ekki heldur viss um að ég komist í gegnum þetta fullan tíma en þá bara hætti ég eða fer hægar eða eitthvað – amk er þetta áreiðanlega fín brennsla og ég ætla að einbeita mér að henni þessa dagana ekki satt?
Já það er svo sannarlega margt í mörgu.
Helsta markmið mitt þessa dagana er að standa á eigin fótum. Ég hef mestar áhyggjur af því að ég geri Baldur vitlausan á mér – ég sá Fatal attractions í gær og mér varð hugsað til mín, nema þar væri scenið :skjólstæðingurinn sem ofsækir sjúkraþjálfarann í vinnunni – hmmm þetta er nú kannski hæpin viðlíking – a.m.k. mætti misskilja hana! En það gerið þið náttúrulega ekki því þið vitið svo vel hvað ég meina! Ég held ég sé eins og heftiplástur. Fæ einhvers konar ofsaáhuga á einhverju og verð þá að deila því með einhverjum. Það hefur t.d. áreiðanlega enginn skrifað Ingvari fleiri pósta en ég á námskeiðinu, Vilborg fékk ekki að eiga sér neitt líf nema með mér þegar við byrjuðum í ræktinni – enda er hún búin að gefast upp á mér og þykist alltaf vera að læra! Björk situr uppi með endalausar umræður um sömu hlutina varðandi líkamsræktina og aumingja Palli verður gjöra svo vel að hafa áhuga á öllu því sem ég hef áhuga á – allt frá bútasaumi til Bridge – og honum er það misvel gefið satt að segja 🙂 Ásta Björk fékk að kenna á golfinu o.s.f.v. Eina sem ég get huggað mig við að þeir Ingvar og Baldur eru að sinna mér í vinnunni – og fá jafnvel greitt fyrir það líka :-).
En fyrir vikið – þar sem ég er að reyna að vera sjálfstæð og ábyrg kona en ekki molbúi sem þykist ekki eiga sér nein áhugamál og vera félagsfælin með einhverfan áhuga á sinni eigin líkamsrækt, þá verð ég svoldið óttaslegin og einmana. En þá er bara að dreifa álaginu af því að þekkja mig á fleiri og láta bloggið finna fyrir því.
Eina sem ég skelfist svolítið er að opinbera mig svona á netinu. Fólk getur komið hingað inn sem hefur annarlegar hvatir s.s. eins og sýndi sig í DV um helgina. Það er hægt að mæta í viðtal og segja hvað sem er og nota allt gegn manni – segja bara hálfan söguna og illa það. Hér á þessu bloggi er áreiðanlega margt sem slíta má úr samhengi, rangtúlka og snúa upp í fína fyrirsögn. Mér var amk brugðið að sjá að einhver af fréttablaðinu var hér að snusa vikuna áður en viðtalið birtist þar sem ýmsu var snúið á hvolf nú um helgina. Það er ekki auðvelt að vera kennari með munninn fyrir neðan nefið. Nú á tímum er best að segja sem minnst og láta hlutina bara hafa sinn gang því þegar upp er staðið er hver sjálfur sér næstur og hægt er að bera upp á mann hvað sem er því ekki fara kennararnir í blöðin og segja sína hlið á málinu. Enda er það ekki til neins.