… og geri aðrir betur! Ég hef samt farið tvisvar sinnum í Styrk. 22 mín í brennslu í morgun og svo í brennslu og æfingar fyrir efri hluta líkamans steinláu – eða þannig. Var með litla þyngd og fann fyrir hverri lyftu. Æ æ aumingja ég.
Fór svo til Baldurs spyrils sem var eitthvað stressaður að komast í helgarfrí því tíminn minn var alltaf að færast framar og framar á daginn – þannig að á endanum var ég komin með snilldar afsökun fyrir því að vera bara í 35 mín í brennslu í stað 50 eins í upphafi var lagt upp með. Er nú ekki alveg viss um hvort ég hefði komist í þær allar 50 hvort sem var, því lærvöðvarnir mínir eru uppgefnir! Þeim finnst þyngdarstig á ógeðstækinu sem ég tók ekki eftir áður ægilega erfitt þannig að ég þarf að vera á léttari stillingu svo þeir bara springi ekki. Ætli þetta sé ekki hjólið sem er farið að segja til sín. Ég finn rosa mun á lærvöðvunum eftir að ég fór að hjóla svona mikið. Dísuss að heyra í mér! Er þetta Ingveldur sem talar?
Annars er þetta svoldið sniðugt með mig og náttúrulega svolítið ógeðslegt um leið. Ég er búin til úr tvennu – vöðvum og fitu (og svona einhverju smotterí öðru eins og beinum) en þetta tvennt sem var saman í companýi hér í eina tíð – algjörlega ómögulegt að segja til um hvort var hvort og reyndar held ég nú að vöðvarnir hafi verið óttalega lítilfjörlegir en hvað um það, en sem sagt þetta tvennt er að slíta samvistum um þessar mundir. Fitan liggur t.d. algjörlega utan á lærvöðvunum og ég get… VIÐKVÆMIR HÆTTIÐ AÐ LESA NÚNA
… fært hana til og það er eins og hún sé í eðli sínu öðruvísi, hún er öðruvísi samansett en áður. Þar sem hún er lausust í sér, þar veit ég að hún er á undanhaldi. Ég veit t.d. alltaf hvar flestir sentimetrarnir fara á hverju tímabili vegna þesas. Nú eru það lærin sem eru á undanhaldi og svo eru handleggirnir alltaf í smá minnkun. Mjög merkilegt. Þessi efnahvörf eða hvað á að kalla þetta eru sérlega viðbjóðsleg og áberandi þegar ég er í heitu pottunum – þá hreinlega líður mér eins og spikfeitum hrossakjötsbita. Jukkiti jukk! Upp fyrir mér rífjast þáttur með Ópru þar sem sýnt var inn í feita manneskju. Jukk – gleymi því aldrei og ég þverneita að fara í aðgerð af nokkru tagi fyrr en ég er orðin þvengmjó. Manneskjan var stútfull af gulu ógeði – svona hrossafitu, ööööhhhh. Sem sagt enga skurðlækna fyrir mig næstu 2 árin eða svo minn kæri Guð!
VIÐKVÆMIR MEGA AFTUR BYRJA AÐ LESA!
Að öðru leyti en Styrkferðum hef ég ekkert aðhafst og átt í fullu fangi með það! Baldur setti mig í eitthvað hengingarstrekkingartæki sem var mjög spennandi og skemmtilegt. Vonandi gerir það gagn. Svo vill hann bara helst ekkert vita af mér fyrr en á föstudag í næstu viku, þ.e. í nudd eða svoleiðis. Kannski er bara gott að hvíla það líka. Það er kannski bara auka-álag (ég meina nú fyrir mig en stundum held ég að ég sé líka auka álag fyrir hann!), ég veit ekki svei mér þá. Hann talar svolítið í hálfkveðnum vísum – já eða bara í ókveðnum vísum. Ég er svo nokkra daga að fatta að ég náði ekki því sem hann meinti og þarf þá að spyrja hann útí málið – en gleymi því oftast! Svoldið merkileg samskipti verð ég að segja ;-).
Um helgina ætlaði ég að byrja á því að ljúka verkefninu mínu í mínu námi- en ég get ekki með nokkru móti horft niður í borð – get ekki einu sinni dútlað mér í neinu föndri eða sett í uppþvottavél eða neitt. Stórmál að beygja sig og setja dvd disk í tækið. Ég meina er þetta bara í lagi? Og ekki hef ég heyrt neitt af myndunum af mínum fína hálsi. Held reyndar að það sé ekkert að mér nema vöðvabólga.
Lítur sem sagt ekki vel út með neitt verklegt hér á bæ. ÉG er að bilast á þessu – ég er eiginlega svo mikið að bilast að ég nenni ekki að æsa mig yfir þessu einu sinni.
Jæja nú er ég farin að snæða!