
Sko þetta gæti verið skór dagsins.
Ég er nú bara í nokkuð góðum gír nefnilega. Ég er nokkuð vel áttuð í skólanum – búin að senda 100 tölvupósta til ýmissa foreldra um hitt og þetta – bara gaman að því :-).
Ég svaf vel í nótt – það er nú ekki alveg á hverjum degi sem ég geri það. Er í nýjum fötum sem passa þokkalega.
Er bara betri af hælsporanum mínum og veit hvað ég á að hafa í kvöldmatinn og ALLT. Var á þrælskemmtilegum fundi um skólamál þar sem maður ræddi sín hjartansmál – líka gaman að því.Gaman ef maður fær að tala – það vantar nú ekki.

En svo er ég einhvern veginn svo glötuð líka – eins og þessi skór – sko hann gæti verið fín á öðrum en ekki MÉR. Þetta er svo erfitt líf á köflum að ég get dáið. Ekki dáið dáið en vorkennt mér dáið.
Það eru bara ákveðnir hlutir sem eru ekki að gera sig og mér finnst ég eiga óþarflega stóra sneið í þeim hlutum. Jukkiti jukk…
En það verður bara að bretta upp ermarnar og snúa helv… vesenið niður :-).
Ég hef ekkert hreyft mig í dag – fór ekki með Bjart heldur lá í bælinu eins lengi og ég gat því ég var svo þreytt og uppgefin. Ætla svo ekkert að gera í dag – kannski bara í heita pottinn en ég meira að segja efast um það. Ég geri heldur ekkert á morgun þó ég ætli nú að labba í fyrramálið.
Ég er bara svo uppgefin og þreytt. Ég var það nú líka í gær og það var eins og ég væri með heilt fjall í stærri kantinum á herðunum. Ég minnist þess bara ekki að það hafi verið svona erfitt að hjóla eins og í gær, úff. Fór nú samt í Styrk því annars hefði ég bara farið á föstudaginn næsta. Það er bara ekki nóg. Onei… Held samt að það hafi ekki verið sérlega gáfulegt ráðslag satt að segja. En ég beið svo sem engan skaða af því. Fór bara í hádegishléinu mínu eftir að hafa mætt út í skóla rúmlega sex.
Það er kannski hluti af þessu öllu, búin að mæta í vinnuna á milli sex og sjö síðustu tvo daga og vinna til að verða níu og er enn að vinna í dag. Kannski er það hluti þess að ég sé þreytt. En ég er líka ánægð með það því ég hef getað gert svo mikið og verið fókuseruð á það sem ég er að gera. Maður bara verður stundum að vinna. En maður verður náttúrulega líka að vera duglegur að hvíla sig og ég hef nú svo sem ekki verið fræg fyrir annað í gegnum tíðina.
Á morgun er fimmtudagur. Þá er stutt í föstudag og helgina! Ég þarf að vinna svolítið um helgina held ég – skila einhverju af mér og svo bara verð ég að fara að læra smá. Er ekki að gera sig að sleppa því lengur.
Ekki var nú vigtin skemmtileg við mig í gær. Stundum afber ég þetta ekki. Það eru margir sem segja við mig að þeir skilji ekki að ég léttist ekki meira miðað við hvað ég hreyfi mig mikið! Og ég sekk stundum í það að skilja það ekki heldur – þó ég viti að jafnaðar þyngdartap upp á 700 gr eða svo á viku sé ekki slæmt á hálfs árs basis. Það skilar fínu á ársgrundvelli. En ég sekk stundum alveg niður í þetta að vorkenna mér þessi ósköp og fæ nagandi sektarkennd því ég er náttúrulega viss um að ég sé í raun og veru ekki nógu dugleg og mataræðið sé allt í volli og ég þá þar með orðin aumingi. Stundum finnst mér eins og ég geti aldrei verið ánægð – þurfi alltaf að finna skuggahlið á allri gleði.
Sko – ég er í aumingja ég stuði – en samt er ég frekar hress bara – en það er einhver hóll sem skyggir á útsýnið!
En ég færist vonandi úr stað- nú eða hóllinn verði grafinn í burtu – sem væri náttúrulega best líka.