Það er skrítið með þessa vegferð mína sem lífið er. Er það ekki svo með okkur öll? Einhver sérkennileg undarlegheit sem saman mynda lífið.
Afhverju ætli ég geti ekki bara farið í megrun og látið þar við sitja. Afhverju þarf ég að leggjast í einhverja sjálfsskoðun. Glíma við fortíðina, mistökin, mótunaröflin?
Ég veit ekki svarið, ég veit samt að fyrir mér er engin önnur leið til. Ég einhendi mér í þetta, endurskoða, endurupplifi og set saman í myndina af mér. Hver er ég? Hvers vegna er ég feitari en maðurinn við hliðina á mér? Hvað get ég gert til að breyta því – sætta mig við eða fyrirgefa mér að vera sú sem ég var og umfaðma þá sem ég er og verð og ætla að verða?
Hið eina sem ég get gert er að takast á við þetta verkefni – mig. Sinna því eins og flestum öðrum verkefnum sem mér hafa verið falin um ævina; af kostgæfni og alúð. Nú er komið nóg af því að setja sjálfan sig í aftursætið, nú þarf að huga að og gefa sér tíma til að íhuga og ígrunda sitt líf. Einungis þannig get ég breytt því sem þarf að breyta.
Oft er erfitt að finna það sem er að, kannski er ekkert að sem orð er á gerandi en raunveruleikinn er þó sá að sjálfsmyndin og sjálfstraustið er ekki upp á sitt besta. Sjálfsmyndin myndast í bernskunni og unglingsárunum og þá gerðist margt sem ég finn núna að hefur skipt máli og flest gott – afskaplega gott. Ég átti 9 eldri systkini sem öll höfðu skoðanir á yngstu leiðinda frekjudósinni, dekurdúkunni og sjálfstæðisinnanum Ingveldi. Ég fékk eitt og annað að heyra og ég er sannfærð um að það sé allt satt enn þann dag í dag. Alveg sama þó ég reyni að halda öðru fram við sjálfa mig. Og einhvern veginn er það svo að hrós var í minna mæli en umvandanirnar. Ég var bara lítið barn sem gat ekki verið annað en ég var og systkini mín þau sem þau voru. Engum er um að kenna en eftir stendur það sem var sagt og sýnt. Sumt hafði neikvæð áhrif á stelpuhnokkann annað gerði mig að þeirri hetju sem ég er 😉 – sumt man ég enn og á eftir að fyrirgefa. Bara smá atvik, orð – fjölskyldulíf af bestu gerð en ég sver það er ekki auðvelt að vera yngst 9 systkina og eiga aldraða foreldra. það eru æði margir sem hafa álit á uppeldinu og afurðinni. Þetta myndar sjálfsmyndina og mín er hálf brengluð held ég. Og það er svolítið erfitt að takast á við þetta allt saman.
það er líka glíma að takast á við ræktina og hreyfinguna. Þar koma oft fram brestir á sál og líkama sem þarf að taka á, áður en næsta skref er stigið. Baldur þarf að laga hælsporann og auman háls, ég þarf að laga það sem er fyrir innan og styrkja það og efla í senn með hans hjálp og annarra. Dj… sem þetta getur verið erfitt. Og þegar steitir á er auðveldast að fara í gamla farið – það er ekki best en það er auðveldast.
Það sem er mér erfiðast núna er að sinna vinnunni, ræktinni, labbinu, heimilinu, náminu, Bjarti, börnunum, Páli þannig að allir fái sitt og mér líði vel. Það gengur ekki vel. Ég vildi geta unnið miklu meira. (minnumst ekki á allt hitt) Miklu miklu meira… Og verkefnin hrannast upp…
Það er líka erfitt að vera svo illt aftan í hálsinum og níður í bak og ætla sér að láta eins og ekkert sé. Þá er gott að hugsa með sér að hvíld sé nauðsynleg. Hægja á og ná sér góðri. En gerist það með hreyfingarleysi? Náði ég mér góðri þannig í vor spurði Baldur og svarið er reyndar nei…. Og þar sem mér varð það ljóst fór ég í Styrk í dag og tók 50 mín í brennslu þar af 12 á svitavélinni 😉 og þunginn hvíldi ekki allur á höndum takk fyrir pent.
Ég verð ekki ánægð nema ég stundin ræktina af þeim krafti sem ég veit ég þarf. Ég þarf bara að setja upp nýja áætlun – nýtt plan og hætta að væla. Ég bara missi stundum stjórn á mér í vælinu. Ég ætti að rifja upp það títtnefndur sjúkraþjálfari sagði við mig í sumar: Hættu að segja oh alltaf þetta er ekkert erfitt.
Það er hvort sem er bara skilgreiningaratriði.
En ég fór á vigtina í dag. Held mig langi ekki aftur á hana. hafði ekki þyngst frá síðustu vigtun. Ég hafði jafnvel búist við því. Og nú er bara að vera dugleg og hugsa um hitaeiningar. Og brennslu. Ég verð að brenna og brenna og brenna.
Ég fór í nálar í dag og ég sver að þetta er engu líkt. Þær held ég að hafi allar lent á sálinni í mér og ollu stormviðri þar. Svo ekki sé minnst á verkinn í vinstri hluta líkamanum frá toppi til táar en vinstra megin er hælsporinn sem er ekki eins góður og ég hélt hann væri orðinn, kálfi sem verkjar, vinstra megin í hálsinum er allt verra. Ólýsanleg tilfinning. Óskiljanleg líka








