Leiðin mín

Það er skrítið með þessa vegferð mína sem lífið er. Er það ekki svo með okkur öll? Einhver sérkennileg undarlegheit sem saman mynda lífið.

Afhverju ætli ég geti ekki bara farið í megrun og látið þar við sitja. Afhverju þarf ég að leggjast í einhverja sjálfsskoðun. Glíma við fortíðina, mistökin, mótunaröflin?

Ég veit ekki svarið, ég veit samt að fyrir mér er engin önnur leið til. Ég einhendi mér í þetta, endurskoða, endurupplifi og set saman í myndina af mér. Hver er ég? Hvers vegna er ég feitari en maðurinn við hliðina á mér? Hvað get ég gert til að breyta því – sætta mig við eða fyrirgefa mér að vera sú sem ég var og umfaðma þá sem ég er og verð og ætla að verða?

Hið eina sem ég get gert er að takast á við þetta verkefni – mig. Sinna því eins og flestum öðrum verkefnum sem mér hafa verið falin um ævina; af kostgæfni og alúð. Nú er komið nóg af því að setja sjálfan sig í aftursætið, nú þarf að huga að og gefa sér tíma til að íhuga og ígrunda sitt líf. Einungis þannig get ég breytt því sem þarf að breyta.

Oft er erfitt að finna það sem er að, kannski er ekkert að sem orð er á gerandi en raunveruleikinn er þó sá að sjálfsmyndin og sjálfstraustið er ekki upp á sitt besta. Sjálfsmyndin myndast í bernskunni og unglingsárunum og þá gerðist margt sem ég finn núna að hefur skipt máli og flest gott – afskaplega gott. Ég átti 9 eldri systkini sem öll höfðu skoðanir á yngstu leiðinda frekjudósinni, dekurdúkunni og sjálfstæðisinnanum Ingveldi. Ég fékk eitt og annað að heyra og ég er sannfærð um að það sé allt satt enn þann dag í dag. Alveg sama þó ég reyni að halda öðru fram við sjálfa mig. Og einhvern veginn er það svo að hrós var í minna mæli en umvandanirnar. Ég var bara lítið barn sem gat ekki verið annað en ég var og systkini mín þau sem þau voru. Engum er um að kenna en eftir stendur það sem var sagt og sýnt. Sumt hafði neikvæð áhrif á stelpuhnokkann annað gerði mig að þeirri hetju sem ég er 😉 – sumt man ég enn og á eftir að fyrirgefa. Bara smá atvik, orð – fjölskyldulíf af bestu gerð en ég sver það er ekki auðvelt að vera yngst 9 systkina og eiga aldraða foreldra. það eru æði margir sem hafa álit á uppeldinu og afurðinni. Þetta myndar sjálfsmyndina og mín er hálf brengluð held ég. Og það er svolítið erfitt að takast á við þetta allt saman.

það er líka glíma að takast á við ræktina og hreyfinguna. Þar koma oft fram brestir á sál og líkama sem þarf að taka á, áður en næsta skref er stigið. Baldur þarf að laga hælsporann og auman háls, ég þarf að laga það sem er fyrir innan og styrkja það og efla í senn með hans hjálp og annarra. Dj… sem þetta getur verið erfitt. Og þegar steitir á er auðveldast að fara í gamla farið – það er ekki best en það er auðveldast.

Það sem er mér erfiðast núna er að sinna vinnunni, ræktinni, labbinu, heimilinu, náminu, Bjarti, börnunum, Páli þannig að allir fái sitt og mér líði vel. Það gengur ekki vel. Ég vildi geta unnið miklu meira. (minnumst ekki á allt hitt) Miklu miklu meira… Og verkefnin hrannast upp…

Það er líka erfitt að vera svo illt aftan í hálsinum og níður í bak og ætla sér að láta eins og ekkert sé. Þá er gott að hugsa með sér að hvíld sé nauðsynleg. Hægja á og ná sér góðri. En gerist það með hreyfingarleysi? Náði ég mér góðri þannig í vor spurði Baldur og svarið er reyndar nei…. Og þar sem mér varð það ljóst fór ég í Styrk í dag og tók 50 mín í brennslu þar af 12 á svitavélinni 😉 og þunginn hvíldi ekki allur á höndum takk fyrir pent.

Ég verð ekki ánægð nema ég stundin ræktina af þeim krafti sem ég veit ég þarf. Ég þarf bara að setja upp nýja áætlun – nýtt plan og hætta að væla. Ég bara missi stundum stjórn á mér í vælinu. Ég ætti að rifja upp það títtnefndur sjúkraþjálfari sagði við mig í sumar: Hættu að segja oh alltaf þetta er ekkert erfitt.

Það er hvort sem er bara skilgreiningaratriði.

En ég fór á vigtina í dag. Held mig langi ekki aftur á hana. hafði ekki þyngst frá síðustu vigtun. Ég hafði jafnvel búist við því. Og nú er bara að vera dugleg og hugsa um hitaeiningar. Og brennslu. Ég verð að brenna og brenna og brenna.

Ég fór í nálar í dag og ég sver að þetta er engu líkt. Þær held ég að hafi allar lent á sálinni í mér og ollu stormviðri þar. Svo ekki sé minnst á verkinn í vinstri hluta líkamanum frá toppi til táar en vinstra megin er hælsporinn sem er ekki eins góður og ég hélt hann væri orðinn, kálfi sem verkjar, vinstra megin í hálsinum er allt verra. Ólýsanleg tilfinning. Óskiljanleg líka

Lasin

Það er ekki hátt á mér risið núna. Er kvefuð og þreytt. Höfuðverk og allt mögulegt. Þótti sá kostur alvænlegastur að vera í bólinu sem lengst og fá mér svoldið af verkjatöflum með.

Og svo hlýt ég bara að hætta að vera svona mikill aumingi bráðum. Innan tíðar…

Enginn Styrkur, ekkert labba, bara að gera ekki neitt…

Setja undir sig hausinn


…og reyna að vera eins og manneskja!
Grípa í taumana.
Taka einn dag í einu.
Vera ábyrgur fyrir sínu eigin lífi.
Einn dagur í einu.
Þetta er nú meiri dómadags bardaginn…
En ég tek hann með glöðu geði. Berst með höndum og fótum, hug og hjarta ;-).
Ekki halda for a moment að afsakanirnar séu farnar út úr mínu lífi. Og það sem meira er – ég er orðin ótrúlega dugleg að finna nýjar. Og þá er bara ekki annað að gera en sjá við því og bregðast við. Ég hef jú gefið það út að einn minn mesti kostur sé að hugsa í lausnum :-). Það er mjög heppilegur kostur á þessum tímapunkti 🙂
Ég fer ekki til Færeyja – Palli fór bara út í dag og honum veitir víst ekki af hvíldinni frá mér :-D. Ég ætti bara að læra og undirbúa fyrirlestur sem ég á að halda í nóvember – eða ég hef ekki heyrt annað.
Hélt einn stuttan í dag fyrir gesti úr Sjálandsskóla. Það var mjög skemmtilegt en vísast alveg óskiljanlegt. Það er allt í lagi :-). Kannski að bæklingurinn um starfið í 6. bekk skýri málið líka.
Þegar ég hef komist niður úr þeim verkefnabunka í skólanum sem er núna 24. okt þá verð ég glöð. Þó ég viti að það bætist alltaf við.
En nú er ég farin að sofa því ég ÆTLA að labba smá með bjart hér innan bæjar á morgun og fara á hjóli í skólann. Og smá undirbúning á ég eftir líka.
Og svo er það Styrkur eða Toppsport í hádeginu með áherslu á brennslu eða…???

Hlusti hlusti hlust

Ég er ekki mjög góð í því…

Ég ætla ekki að segja að ég sé ekki góð í neinu samt…

Ég er nefnilega að æfa mig í því að vera jákvæð 🙂

Ég á sko svoldið í land!

Og ég er búin að finna amk eina ástæðu fyrir því.

Palli er farinn til Færeyja. Ojá og bíllinn minn er í Reykjavík – aleinn!

Ég fæ mjög mikinn aðskilnaðarkvíða við tilhugsunina eina saman (vegna bílsins þó fjarvera Páls sé í sjálfu sér afar heartbreaking).

Ég át eins og grís um helgina – drakk hins vegar eins og svín 😉 Nei nei bara djók – eða þannig!

Ég er svolítið í vandræðum með æfingarnar mínar og hreyfinguna. En þau eru alveg að fara! Gufa kannski upp!

En jæja ætla að hlusta smá – er svo sem að hlusta – hlusti hlusti hlust.

Fer í nudd á eftir. Er nú svooooldið slæm í hálsinum sko.

Meira síðar.

Steiktur fiskur í raspi

Þannig líður mér núna. Ótrúlega trúverðug lýsing þó fáránleg sé.

Ég veit ekki alveg hvort ég er í þessum skó eða undir honum!

Tíhíhí…. Í sumar fékk ég ótrúlega mikið í höfuðið og hálsinn. Og í vor gat ég nátturulega ekki haldið haus því hálsinn á mér var svo lélegur. Og svo bara batnaði mér. Hausverkurinn fór með nuddi og nálum á ótrúlega skömmum tíma.

Svo fór ég í nudd á mánudaginn og fékk svo frábært tog eitthvað að ég fann alveg hvernig það virkaði frá a til ö en eftirstöðvarnar urðu nokkuð svæsnar – nema að það sé bara streita og vitleysa sem veldur þessu öllu saman. Hún er nú alveg næg. Það var sovlítil brekka í þessu öllu saman hjá mér á mánudaginn var en mér var nú komið inn á brautina með góðra manna hjálp.

E.t.v. er hluti af því hvað mér finnst lífði stundum erfitt um þessar mundir er að vinnan er farin að safnast upp. Það er svo ofboðslega mikið sem er að safnast upp hjá mér og ég bara verð að sinna því – en ég kem því ekki við. Ég náttúrulega elska að vinna og vil gera allt sem áður en ræð ekki við það tímalega séð. Þetta er ekki alveg einfalt alltaf. Nú verð ég að vera fókuseruð í vinnunni og taka æfingarnar það létt að ég geti það. Ég er því að hugsa um að setja upp nýtt æfingaprógramm.

Fara í toppsport (styrkur heitir sko ekki lengur styrkur) á sunnudögum, þriðjudögum og föstudögum. Þá er allt annað yfirbragð á þessu hjá mér. Kannski fer ég líka í spinning og reyni að vera eins og manneskja. ´

Ég heit mér því að láta ekki deigan síga þó ég sé að drepast í höfðinu og hálsinum. Fór í neyðarnudd í morgun og svo tók hann mig í nálar seinni partinn. Og ég er eins og steiktur fiskur í raspi – á uppleið 🙂
Ekkert farið á vigtina og guð má vita hvernig það gengur. Úff…
En nú er bara verið að ná heilsu á ný og passsa mataræðið sem best ég get.

Já já er það ekki bara

´

ÉG þekki sko klárlega einhvern sem er þessi skór. Ég þekki svo margar blúndur. Hildur systir væri ein. Og svonan lítil falleg kona einhver, hmmmm já – tileinka hann bara öllum litlum fínlegum konum. Þær eiga nú skilið að fá sína athygli hér á þessu bloggi líka :-).

Heyrið þið mig. Ég fór í nudd í gær sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi – er búin að vera þar í 8 mánuði slétta núna. Nema nú er minn kæri nuddari farinn að dútla sér á alveg nýjan hátt við herðarnar á mér og hálsinn. Oh my god – frekar vont verð ég að segja og ég er nú bara alveg helaum í dag eftir átökin í gær. Ég þarf náttúrulega að finna til tevatnsins þar sem kálfarnir eru úr sögunni í bili að minnsta kosti.

Og ekki tók svo betra við í dag. Ég hjólaði í gær um allt eins og berserkur þrátt fyrir mikið rok og kulda fór ekki heim fyrr en að verða 22 eftir að hafa föndrað smá jólaföndur frá 20 en fram að því hafði ég nú bara verið að vinna. Nú í morgun fór ég líka út að labba eins og í gærmorgun (heyriði og sunnudaginn en þá fór ég nú í klst göngutúr um Selfoss með Páli og Bjarti!) og svo á hjólið í sama dómadags rokinu að viðbættum svakalegum kulda – eiginlega fyrsta kuldanum í haust. Og þar sem ég hjólaði í Styrk í hádeginu og gatinu mínu þá bara hélt ég stundum að ég væri stopp en hvað um það – er sem sagt búin að hjóla heilmikið í strekking í gær og dag. Svo bætast við 11 mín á stigvélinni, ógeðstækið og fótaæfingar dagsins og saman gerir þetta þessar líka dómadags harðsperrur og strengi. Þetta er nú í alfyrsta skipti lengi lengi ef nokkurn tímann sem ég er bókstaflega eins og kvika frá toppi til táar. Ætti ég ekki bara að sleppa morgungöngunni í fyrramálið – ég meina vá.

En á móti kemur er ég hrædd um brennsluna. Er ég ekki eitthvað búin að minnka hana því ég er að hjóla – kannski er ég bara ekkert að brenna nóg. Kannski er það þess vegna sem Baldur er farinn að tala um spinning? Oh my god. Svona getur þetta verið…. Oh my god endalaust.

En jæja – enn að reyna að vera jákvæð eftir miklar sveiflur undanfarið – og sveiflurnar flestar verið niður á við… Ég meina hversu óánægður getur maður verið við sín og sín verk? Töluvert I tell you. Og þá er nú gott að eiga vesenislausar vörður til að leiða sig áfram.

Sem minnir mig á að ég er að fara að klára verkefnið mitt hjá Ingvari – hinum vesenislausa manninum í mínu lífi.

Veðrið í Færeyjum – webcam

Ef þið smelllið á fyrirsögnina sjáið þið flugvöllinn í Vogi. Og hér er líka mynd frá Þórshöfn. Ef þið smellið á myndina og refreshið þá sjáið þið allt sem er að gerast þarna 😀 – svona frá einni mínútu til þeirrar næstu amk! Krúttlegt ekki satt?

Ótrúleg þessi tækni.

Ótrúlegir þessir flugmenn að geta lent í svona!

Vélin hans Palla á að fara í loftið kl. 13 að íslenskum tíma – svoldið mikil þoka sýnist mér!

Góða ferð gullið mitt.

Það dugir ekki að láta svona

Sem sagt ég er haldin einhvers konar sjálfseyðingarhvöt. Ég hef komist að því.

Baldur hafði rétt fyrir sér að ég ætti ekki að vera alltaf á vigtinni heldur hugsa um að koma mér í stand og hafa léttinginn on the side því vigtin gerir mig mjög geðvonda.

Nú steig ég á hana á föstudaginn og hitti ekki á góðan dag! Og ég er búin að vera alveg vitlaus síðan. Gott ef ég er ekki búin að bæta á mig öllum 16 kg sem voru farin og gott betur allt fyrir afli hugarorkunnar.

Og ég held að ég sé meira að segja búin að fatta ástæðuna fyrir þessu. Ok það er í sjálfu sér ekki neitt mál að gera það sem ég er að gera – það þarf ,,bara“ að gera ákveðna hluti og s.s. eins og breyta vinnutímanum sínum, ganga í gegnum ýmsa líkamlega verki, taka til í sálarlífinu, fást við þá bresti sem koma í ljós undir álagi – og vísast valda því að maður er eins og maður er -og ég er viss um að það eru fleiri en bara offitusjúklingar sem hafa sína bresti. Þetta er sem sagt svolítið mál allt saman 😉 en ég er viss um að það sé ekkert sérlega erfitt að léttast. Maður þarf einfaldlega að finna brautina sína – og það er erfitt.

En þarna komum við einmitt að kjarnanum. Ég hef í gegnum tíðina verið fullkomlega sátt við að synda sundsins vegna og áhrifa þess á mig. Ég hef verið alsæl með golfið golfsins vegna og sjálfs mín vegna. Og framan af í vor var ég alsæl með Styrk og ferðirnar þangað hreyfingarinnar vegna en svo fór það að léttast að skipta öllu máli. Ég er heltekin af því og allt í einu er ég bara að þessu til þess að léttast – kannski vegna þess að ég er ekki lengur það flak sem ég var og finnst ég vera hressari.

Það er góð og gild ástæða fyrir því að ég hef aldrei á ævinni farið í megrun. Það bara hentar mér ekki. En nú er ég allt í einu farin að haga mér eins og ég sé í henni án þess þó að hafa mataræðið þar inni. Ég vil bara að ég léttist vegna þess ég hreyfi mig og ég borða ekki eins vitlaust og ég gerði. Ég er farin að hreyfa mig á morgnana, verða svöng árla dags, hætt að borða eftir 8 á kvöldin og samt finnst mér ekkert gerast. Afhverju léttist ég t.d. ekki meira núna en ég gerði í sumar? Ekki labbaði ég fyrst á morgnana þá – ekki var brennslan komin af stað þá og ekki hjólaði ég svona mikið þá – og ég borða ekki tóma vitleysu núna – ég get bara sagt ykkur það strax.

Allt í einu er allt farið að snúast um þetta – hreyfingin og áhrif henna á mig hætti að skipta mig máli – ég varð bara heltekin af því að léttast en gerði þó ekkert róttækt í því hvað mataræðið varðar enda nenni ég því ekki. Og nú þarf ég að breyta þessu – ég þarf að skipta um sjónarhorn.

Ég þarf að hugsa um hreyfinguna og hvað hún gerir mér gott og hve skemmtileg mér finnst hún vera. Mér finnst ótrúlega gaman að hjóla og reyna á mig í salnum, gaman og gott að hitta Helgu Dögg og þá sem eru að æfa þar svo ekki sé minnst á hvetjarann minn og bjargvætt. Ég hef lést vel og ágætlega – þeir á Reykjalundi þverneita að það sé gott fyrir mann að léttast meira en um 500 gr á viku og það er MARGsannað að þeir sem missa meira en það safna fljótar á sig aftur fitu.

Afhverju er ég þá ekki ánægð? Afþví ég er haldin sjálfseyðingarhvöt.

Ég held að ég sé að leita að ásætðu til að hætta þessu og fara í sama farið – ég get ekki beitt hreyfingunni fyrir mig en léttingurinn er ekki að gera sig að því er ég tel mér trú um og þetta sé vonlaus margra ára barátta. Ég geti svo sem bara hætt þessu strax þetta sé hvort sem er ekki hægt – ég geti þetta ekki – ég sé ekki manneskja í þetta. Ég verði því bara að borða það sem hendi er næst og láta þetta sigla sinn sjó. Það að stíga á vigtina færir mér heim sanninn um það – það eru sveiflur upp á 1 kg búnar að vera alveg síðan í vor – sumar vikur er ég að bæta við mig og svo hrapa ég niður og bæti aðeins við mig aftur og svo koll af kolli. Ég veit alveg hvernig mynstrið er en samt læt ég það trufla mig – eyðileggja fyrir mér. Kannski af því ég veit að ég gæti alltaf gert betur í mataræðinu og hreyfingunni. Og ég lem á mér fyrir það að vera ekki fullkomin – gera ekki allt rétt – fá mér stundum óhollan mat. Það er náttúrulega fullkomin ástæða til þess að hugsa neikvætt – maður hlýtur að sakna þess eins og ég barði á mér hér í eina tíð fyrir að geta mig varla hreyft og láta rétta mér allt eftir að ég kom heim útkeyrð úr vinnu – farin á sál og líkama. Þá var nú aldeilis hægt að lemja á sér – ókeypis og af ákefð. Nú get ég sakað mig um að vera allt annað en fullkomin. Það er náttúrulega dauðasynd.

En aftur á móti þarf ég að laga nokkra hluti og það er kannski bara rétt að gera það og vera ekki að lemja á sér vegna þeirra. Ég þyrfti að léttast um 2,8 kg í október og það lítur ekki vel út – en ef ég geri það ekki – þá hef ég hreyft mig fullt, orðið betri af hælsporanum, hjólað mér til yndisauka og upplifað haustið og litina í göngum með litla krílið mitt hann Bjart – ekki svo slæmt! Hitt kemur – það hlýtur að koma eins og það hefur komið hingað til og ég verð hraustari og hraustari!

Svona ætla ég að reyna að hugsa í dag – taka því fagnandi þegar einhver segist sjá mun og þakka honum fyrir það. Og vona svo að Pallinn minn komi heim í dag. Þetta er nú búin að vera meiri biðin eftir ljósinu mínu.