Ég hef bara staðið mig vel

Jibbí ei og jibbí jó ég steig ekki á vigtina í dag. Ég veit svo sem ekkert hvað vinnst með því en amk gerði ég það ekki því ég var svona næstum búin að ákveða að gera það ekki. Sem sagt stóð við það. Ræði svo bara við Baldur um hvert framhaldið verði með þetta. Kannski er bara gott að ég sjái ekki töluna og bara hann – þá verð ég að standa mig í mataræðinu til að það komi bara ,,góðar“ tölur. Ha hu hummmm… kannski virkar þetta bara fínt.
Ég fór sem sagt í Styrk – Toppsport heitir það víst (finnst það svo hallærislegt nafn að ég á hreinlega í vandræðum með andadrátt þegar ég skrifa það). Var í 50 mín á brennslutækjunum og tók æfingar fyrir efri hluta líkamans – var bara með minn þyngd en alla jafna út af mínum yndislega hálsi. Það gekk bara vel. Mér finnst ógeðslega gaman í tækjasalnum. Það er eitthvað geggjað við að rembast þetta. Mér er aftur á móti farið að leiðast óumræðilega á brennslutækjunum. Ég held ég ætti að fá mér ipod og kaupa hljóðbækur inn á hann á netinu. Hlusta á góða sögur. Það gæti reddað mér þar sem ég er ekki mjög mikið fyrir tónlist. Nú svo fór ég og borðaði fisk og grænmeti – jukk mér finnst fiskur ekki góður. Að því skylduverkefni loknu fór ég í heita pottinn í lauginni og í gufu og ég veit ekki hvað og hvað. Borðaði svo meðal þegar ég kom heim og setti kaldan bakstur á hálsinn á mér og ég hef ekki hreyft mig síðan og líður svona líka bara ágætlega :-).
Ég verð að reyna að rífa mig upp úr þessari neikvæðni og vandræðum. Ég meina ég lifi góðu lífi. Ég er ekki einu sinni óhamingjusöm. Frekar bara hamingjusöm held ég. Ætli þetta sé ekki bara gamla óþolinmæðin sem er farin að láta á sér kræla af fullum krafti. Það skyldi þó ekki vera.
En mikið óskaplega verð ég fegin þegar koma mánaðarmót.
Sem sagt góður dagur í dag. Barasta aldeilis ágætur hvað það varðar að standast sett markmið. Um meira getur maður varla beðið.

Færðu inn athugasemd