Það dugir ekki að láta svona

Sem sagt ég er haldin einhvers konar sjálfseyðingarhvöt. Ég hef komist að því.

Baldur hafði rétt fyrir sér að ég ætti ekki að vera alltaf á vigtinni heldur hugsa um að koma mér í stand og hafa léttinginn on the side því vigtin gerir mig mjög geðvonda.

Nú steig ég á hana á föstudaginn og hitti ekki á góðan dag! Og ég er búin að vera alveg vitlaus síðan. Gott ef ég er ekki búin að bæta á mig öllum 16 kg sem voru farin og gott betur allt fyrir afli hugarorkunnar.

Og ég held að ég sé meira að segja búin að fatta ástæðuna fyrir þessu. Ok það er í sjálfu sér ekki neitt mál að gera það sem ég er að gera – það þarf ,,bara“ að gera ákveðna hluti og s.s. eins og breyta vinnutímanum sínum, ganga í gegnum ýmsa líkamlega verki, taka til í sálarlífinu, fást við þá bresti sem koma í ljós undir álagi – og vísast valda því að maður er eins og maður er -og ég er viss um að það eru fleiri en bara offitusjúklingar sem hafa sína bresti. Þetta er sem sagt svolítið mál allt saman 😉 en ég er viss um að það sé ekkert sérlega erfitt að léttast. Maður þarf einfaldlega að finna brautina sína – og það er erfitt.

En þarna komum við einmitt að kjarnanum. Ég hef í gegnum tíðina verið fullkomlega sátt við að synda sundsins vegna og áhrifa þess á mig. Ég hef verið alsæl með golfið golfsins vegna og sjálfs mín vegna. Og framan af í vor var ég alsæl með Styrk og ferðirnar þangað hreyfingarinnar vegna en svo fór það að léttast að skipta öllu máli. Ég er heltekin af því og allt í einu er ég bara að þessu til þess að léttast – kannski vegna þess að ég er ekki lengur það flak sem ég var og finnst ég vera hressari.

Það er góð og gild ástæða fyrir því að ég hef aldrei á ævinni farið í megrun. Það bara hentar mér ekki. En nú er ég allt í einu farin að haga mér eins og ég sé í henni án þess þó að hafa mataræðið þar inni. Ég vil bara að ég léttist vegna þess ég hreyfi mig og ég borða ekki eins vitlaust og ég gerði. Ég er farin að hreyfa mig á morgnana, verða svöng árla dags, hætt að borða eftir 8 á kvöldin og samt finnst mér ekkert gerast. Afhverju léttist ég t.d. ekki meira núna en ég gerði í sumar? Ekki labbaði ég fyrst á morgnana þá – ekki var brennslan komin af stað þá og ekki hjólaði ég svona mikið þá – og ég borða ekki tóma vitleysu núna – ég get bara sagt ykkur það strax.

Allt í einu er allt farið að snúast um þetta – hreyfingin og áhrif henna á mig hætti að skipta mig máli – ég varð bara heltekin af því að léttast en gerði þó ekkert róttækt í því hvað mataræðið varðar enda nenni ég því ekki. Og nú þarf ég að breyta þessu – ég þarf að skipta um sjónarhorn.

Ég þarf að hugsa um hreyfinguna og hvað hún gerir mér gott og hve skemmtileg mér finnst hún vera. Mér finnst ótrúlega gaman að hjóla og reyna á mig í salnum, gaman og gott að hitta Helgu Dögg og þá sem eru að æfa þar svo ekki sé minnst á hvetjarann minn og bjargvætt. Ég hef lést vel og ágætlega – þeir á Reykjalundi þverneita að það sé gott fyrir mann að léttast meira en um 500 gr á viku og það er MARGsannað að þeir sem missa meira en það safna fljótar á sig aftur fitu.

Afhverju er ég þá ekki ánægð? Afþví ég er haldin sjálfseyðingarhvöt.

Ég held að ég sé að leita að ásætðu til að hætta þessu og fara í sama farið – ég get ekki beitt hreyfingunni fyrir mig en léttingurinn er ekki að gera sig að því er ég tel mér trú um og þetta sé vonlaus margra ára barátta. Ég geti svo sem bara hætt þessu strax þetta sé hvort sem er ekki hægt – ég geti þetta ekki – ég sé ekki manneskja í þetta. Ég verði því bara að borða það sem hendi er næst og láta þetta sigla sinn sjó. Það að stíga á vigtina færir mér heim sanninn um það – það eru sveiflur upp á 1 kg búnar að vera alveg síðan í vor – sumar vikur er ég að bæta við mig og svo hrapa ég niður og bæti aðeins við mig aftur og svo koll af kolli. Ég veit alveg hvernig mynstrið er en samt læt ég það trufla mig – eyðileggja fyrir mér. Kannski af því ég veit að ég gæti alltaf gert betur í mataræðinu og hreyfingunni. Og ég lem á mér fyrir það að vera ekki fullkomin – gera ekki allt rétt – fá mér stundum óhollan mat. Það er náttúrulega fullkomin ástæða til þess að hugsa neikvætt – maður hlýtur að sakna þess eins og ég barði á mér hér í eina tíð fyrir að geta mig varla hreyft og láta rétta mér allt eftir að ég kom heim útkeyrð úr vinnu – farin á sál og líkama. Þá var nú aldeilis hægt að lemja á sér – ókeypis og af ákefð. Nú get ég sakað mig um að vera allt annað en fullkomin. Það er náttúrulega dauðasynd.

En aftur á móti þarf ég að laga nokkra hluti og það er kannski bara rétt að gera það og vera ekki að lemja á sér vegna þeirra. Ég þyrfti að léttast um 2,8 kg í október og það lítur ekki vel út – en ef ég geri það ekki – þá hef ég hreyft mig fullt, orðið betri af hælsporanum, hjólað mér til yndisauka og upplifað haustið og litina í göngum með litla krílið mitt hann Bjart – ekki svo slæmt! Hitt kemur – það hlýtur að koma eins og það hefur komið hingað til og ég verð hraustari og hraustari!

Svona ætla ég að reyna að hugsa í dag – taka því fagnandi þegar einhver segist sjá mun og þakka honum fyrir það. Og vona svo að Pallinn minn komi heim í dag. Þetta er nú búin að vera meiri biðin eftir ljósinu mínu.

1 athugasemd á “Það dugir ekki að láta svona

Færðu inn athugasemd