
Fyrsta hluta frásagnarinnar má finna hér
Þegar hún Ingveldur fór ,,að nota eitthvað salinn hérna!“
Það var nokkuð stór biti að kyngja að mæta aftur í nudd aftur til Baldurs eftir hamfarir fyrsta tímans! Hann var skoho augljóslega ekki mín týpa. Ég hafði svo sem ekki uppi neinar stórar væntingar um samband mitt við nuddara – en hitt vissi ég – þetta var ekki að gera sig!
Ég og nuddarar
Ég var svo sem enginn sérfræðingur um þá stétt en taldi þó að þeir ættu að nudda mann, maður ætti að vera slakur og reyna að slappa af og svo í framhaldinu læknaði nuddið vöðvabólguna. Ég geymdi nudd og jóga svona á svipuðum stað í kollinum – ímyndin var heilsusamleg, rólegheit og andlegt jafnvægi væri ákjósanlegt og ætti að aukast í hvoru tveggja. Ferðir mínar til nuddara hingað til höfðu haft svona um það bil þessi áhrif. Kannski ekki endilega í mjög langan tíma í senn og þó…
Ég fór til eins blinds þegar ég var um tvítugt og hann sagði nú ekki margt. Var hins vegar yfirkomin af höfuðverk og vanlíðan um þær mundir og man að ég fékk ofbirtu í augun af hvítum veggjum herbergisins míns á eftir. Lá með blautan þvottapoka lengi dags og hélt ég myndi deyja. Nokkru síðar fór ég í eitthvað sem hét sogæðanudd í Hveragerði til konu sem var alveg yndisleg. Og fyrir nokkrum árum fór ég svo til undarlegs kerlingapars í Laugarási í nudd, á hverjum degi í ótal mörg skipti. Þar var bakið nuddað frá toppi til mjaðma og ég man mest eftir nuddinu neðst í bakinu því mér var svo ótrúlega illt í stóru bakvöðvafestingunni. Svo var ég sett í einhverjar bylgjur sem meiddu mig svo rosalega að ég hélt ég dræpist til að byrja með. Þetta bauk þeirra dugði mér alveg í tvö ár held ég bara – þangað til ég tók strauið til Gylfa og tilkynnti honum að ég væri dauðvona. Hélt reyndar úr einhverjum merkilegri sjúkdómi en vöðvabólgu…
Ég lifi til að vinna – mér þarf að batna til að geta lifað
Engin þessara nuddferða hafði veruleg áhrif á mig eða mitt líf – nema ég gat haldið áfram mínu striki með heldur auðveldari hætti á eftir. Ég bað ekki um meira í febrúar 2006 – verða færari um að vinna mitt verk í Sunnulæk. En ég hefði viljað skilningsríkari – eða hlutlausari nuddara. Það verður að viðurkennast. Mér fannst ég ekki þurfa þetta dæmalausa skilningsleysi og óvægð. Mér fannst ég bara ekki eiga það skilið. Mér leið eins og einhver staðalímynd feits fólks héngi í loftinu. Ég passaði ekki þar inní. Ég var einfaldlega með vöðvabólgu og trust me – ég var ekki eini Íslendingurinn sem hreyfði sig ekki nóg! Að skrifa allt það sem að mér væri á offitu væri ofureinföldun dauðans. Ég var tough cookie með mitt á þurru. Vissi fyrir hvað ég stóð! Og það passaði ekki við þá tilfinningu sem ég fékk í fyrsta tímanum. No way José!
Þess verður þó að geta að upplifun mín hlýtur að hafa mótast af mínum viðhorfum til umhverfisins og e.t.v. uppdiktuðum staðalhugmyndum mínum um líkamsrækt og þann hóp sem mér fannst Baldur tilheyra. Heilsufríka og skinheilagra heilsuræktar sinna. Þær hugmyndir eru engu skárri en aðrir fordómar. Mínir fordómar stóðu áreiðanlega í veginum í upphafi. Líklega meira en flest annað.
Brjóta odd af oflæti sínu
En ég hafði tekið ákvörðun um að halda áfram hjá Baldri. Það náði ekki nokkurri átt að byrja biðina alveg upp á nýtt – ég var aðfram komin og óvinnufær með öllu að verða. Það varð því einfaldlega að bíta í skjaldarrendur og halda út svo lengi sem þurfti. Ég bara varð að komast út úr þessu vöðvabólgufári. Það var meðvituð en á köflum einnig ómeðvituð ákvörðun mín.
Fyrstu tímarnir fóru í ógnarinnar vanlíðan og innri togstreytu því mig langaði svo að segja þessum nuddara þarna, frá því hve ósátt ég væri við hann og að líf mítt væri nú ekki alveg svona einfalt eins og hann hafði setti það upp í byrjun. Eða eigum við að segja eins og mér fannst hann hafa sett þetta upp? En ég mátti ekki mæla. Eitthvað var nú Baldur að reyna að halda uppi samræðum en ég svaraði með eins atkvæðis orðum og gaf lítið út á umræðuefnin – en hugsaði mitt. Hann var nú að spyrja um eitt og annað og ég man að mér þótti ekki alltaf auðvelt að svara – oft beið svarið þar til í næsta tíma – það er ekki auðvelt fyrir mig að svara beinskeittum spurningum um mig sjálfa.
Og ég engdist af innri spennu. Mér fannst ég ekki geta látið það órætt sem á mér hvíldi, en ég hafði enga – ekki sefil, af getu til að bera þetta upp… Og eitthvað fannst mér líkurnar á bata minnka við þessa líðan. Það væri kannski ekki gott að liggja algjörlega freðin á meðan maður ætti að slaka á og láta nuddið hafa sinn gang. En ég gat ekki slakað á.
Ertu farin að …?
Hann hafði man ég, ótrúlega mikinn áhuga á því hvort ég væri farin að fara á hjólið. Óþarflega mikinn því ég hafði nákvæmlegar engin áform uppi um það að fara á þetta helv… hjól. Kæmist ekki upp á það og fannst tilgangurinn ekki vera sérlega augljós. Líf mitt myndi ekki breytast þó ég færi í nokkrar mínútur á eitthvert hjól sem stæði úti í horni. Þar væri ekki lausnin á mínum vanda falin. Lausnin lá í því að fá nudd – batna og halda áfram að vinna, grípa svo til almennilegra aðgerða síðar. Ég gæti svo litið á aðra heilsurækt í sumar. Ekki fyrr. Var vinnandi kona sem átti nóg með sitt! 10 mín á hjólhesti hefði ekkert að segja. Það var ég alveg viss um
Þrátt fyrir lítil viðbrögð leið þó ekki á löngu að Baldur fór að tala um labb. Og hann gat talað um labb endalaust, linnulítið og með engum hléum. Helst langaði hann að ég labbaði í skólann á morgnana. Ég þverneitaði því (en þetta með hjólið hummaði ég bara fram af mér og eyddi talinu – eða reyndi það). Hann hélt þó áfram að koma með þá tillögu að ég labbaði að morgni dags og jafnoft neitaði ég því staðfastlega. Ég ÆTLAÐI ekki að gera það – myndi ekki gera það og hana nú. En hann virtist ekki heyra það – en það var allt í lagi, ég skyldi segja nei við því eins oft og hann þyrfti til að skilja, því ég myndi ekki labba á morgnana. Og hana nú. Punktur og pasta…
Eftir því sem honum miðaði minna með labbið og hjólið fór hann að bæta sundi inn enda hafði ég gefið út stórar yfirlýsingar um það hve góður sundmaður ég væri. En ég átti nú gott svar við því sem ég hélt að hann sem ,,nuddari” myndi skilja. Ég væri svo slæm í hálsinum að ég gæti ekki synt. En hann kom bara með einhverjar lausnir á því sem mér hugnuðust alls ekki. Ég ætlaði ekki strax í sund – væri einfaldlega alltof slöpp til að geta það. Í skemmstu máli var hann ekki sammála um neitt af því sem ég bar fyrir mig og hann hélt sínu striki og ég mínu. Ég taldi mig hafa í fullu tré við hann. Og tíminn leið.
Hann bar upp sínar tillögur og ég sagði mín nei. Endalaust og linnulítið,30 mínútur tvisvar í viku í einn og hálfan mánuð. Afhverju hann Baldur hélt áfram að spyrja, leggja til og heimta skil ég ekki. Ég hefði verið löngu búin að gefast upp á mér sjálf. 100 sinnum. 1000 sinnum. Leiðinlegri skjólstæðing er held ég að ekki sé hægt að hugsa sér. Ég var svo þversum og ég á aldrei eftir að gleyma hljómnum í neiunum mínum. En kannski hefur hann heyrt annan hljóm. Hvernig eða hvers vegna skil ég ekki. Kannski var hann bara að uppfylla sínar skyldur. Gera eins og honum fannst rétt. Hann hefur vafalítið gert sér betur grein fyrir því en ég að eftirleikurinn yrði aldrei spilaður af öðrum en mér og ekki síðar en strax. Ég svo sem vissi að það var ég og ég og svo ég sem þyrfti að knýja vagninn áfram. Það sem ég vissi ekki þá var að hann var tilbúinn á ljá mér hönd. Ég vissi innst inni að ég gæti þetta ekki ein. Hann aftur á móti var þess fullviss að ég gæti þetta. Aldrei hef ég orðið vör við hinn minnsta vott af hinu. Hin fullkomna vissa hans um að ég geti næstum allt mögulegt kemur mér sífellt á óvart. Líkt og það afhverju hann bara hreinlega gafst ekki upp. Kannski hefur hann verið nálægt því þó hann segi mér núna að hann hafi vitað að ég þyrfti ekki nema smá spark… já eða spörk. Það að nota smá er hins vegar algjör vitleysa – ég þurfti engin smá spörk. Ég þurfti hreinlega dýfur, hrindingar og bakföll. Og það svo sem bar engan rífandi árangur. Hann gæti þó starfsheiðurs síns vegna sagt að hann hafi svo sannarlega reynt! Það var þá bara mitt að svikist undan merkjum.
Föst í neti
Hann náði mér að lokum á taktíkinni. Það var svo lymskulegt að eftir á get ég alls ekki munað hvernig það gerðist. Leikurinn var tapaður – ég var gjörsigruð. Ég vildi óska þess að ég myndi hvernig það vildi til! Ég gæti kannski notað taktíkina á þvera unglinga síðar meir…
Það var í lok mars að ég flumbraðist til að segja: ,,Ja ég væri þá helst til í að prófa tækin hérna frammi í sal. Styrkja mig… Ekki brennslutækin heldur lyftingargræurnar. Sem er í sjálfu sér ótrúlegt að ég hafi nokkru sinni látið mér detta í hug. En kannski ekki svo skrítið – ég hef alltaf verið hrifin af meiru, meiru í dag en í gær. Þyngd í tækjum er auðmælanleg.
Og að sjálfsögðu greip minn þá ekki svo mjög kæri Baldur það á lofti og bauðst af alkunnri góðmennsku og elsku til að fara með mér einn hring í salnum. Hið eina sem ég þurfti að gera var að vera í 10 mín á hjólinu áður en tíminn byrjaði. Ég var þá þegar farin að sjá eftir öllu saman og rúmlega það. Ég var ekki lyftingagella sko… en ég gat ekki snúið við sjálfsvirðingar minnar vegna. Ég var búin að segja a og b varð að fylgja á eftir. Hann var búinn að mála mig útí horn. Ég hef áreiðanlega eitthvað verið búin að monta mig af golf, sund og gönguferðum – gefið honum þá mynd að ég væri þrátt fyrir allt heljarinnar íþróttagella sko- ég væri ekki bara offitusjúklingur sem sæti á mínu priki. Og hvernig gat ég þá bakkað?
Framundan voru kvalafullir dagar. Ég var viss um að ég kæmist aldrei upp á hjólið. Ég gæti ekki frontað Baldur á þann hátt að fara með honum hring í salnum. Hann var allt það sem ég var ekki. Ég bara gat ekki horfst í augu við þetta. Og ég sat og klóraði mér í hausnum og reyndi að skilja hvernig í ósköpunum ég gat hafa komið mér í þessar ógöngur… Það var fátt um svör. Og ég varð að mæta.
Hálfnað verk þá hafið er…
Sigurlín keyrði mig í fyrsta tímann minn í Styrk og ég verð henni ævarandi þakklát. Ég hefði líklega farið yfir um ef ég hefði haft bílinn og getað farið sjálf. Hún var algjörlega viss um að ég kæmist upp á hjólið og ég gæti þetta. Sannfærð og þó sannfæringarkraftur hennar færi ekki inn fyrir mína skel þá dugði hann til að ég þyrði að reyna. Ég trúði ekki orði af því sem hún sagði. En ég átti engra úrkosta. Baldur var einhvern veginn þannig maður að ég átti erfitt að ganga á bak orða minna við hann. Kannski er ég bara líka þannig manneskja að ég geri það ógjarnan.
Ég komst upp á hjólið og gat hjólað vandræðalítið – vissi reyndar fyrirfram að ég gæti hjólað – það var bara að komast upp á fákinn sem olli mér vandræðum í huganum. Það var heldur auðveldara í raunveruleikanum. Og ég komst líka í gegnum hringina tvo með Baldri í salnum. Þó ég hafi verið nær dauða en lífi af stressi. Grínlaust. Aldrei hafði ég sýnt ókunnugum manni viðlíka af minni getu og brestum. Ég hélt ég myndi kafna úr vanlíðan. Vansæld og stressi. Og hvað ég var fegin þegar hringirnir voru að baki. Bara það að ég skildi ekki þá og ekki lengi vel hvernig maður og hvenær maður á að anda og ég gat alls ekki talið um leið, fór með mig! Þetta var hreint ekki einfalt. Þetta var óskaplegt, óbærilegt og svolítið niðurlægjandi fannst mér. Mikið gat ég þó prísað mig sæla fyrir að Baldur yrði ekki með mér fleiri hringi í salnum – sjúkket. Mest um vert var að halda andliltinu þrátt fyrir svo nákvæmt eftirlit að hafa einhvern fagmann með sér í líkamsrækt. Oh my god en ég mátti ekki láta bilbug á mér finna.
Jábbs – allt að baki að því er ég hélt en karlinn var ekki á sama máli. Upp á skíðin skyldi ég. Og vera þar í 5 mínútur. Oh my god. Við tilhugsunina eina saman fékk ég andateppu, kvíðakast, lenti í oföndun, lamaðist. En upp á skíðin fór ég – dó eftir 15 sek bæði á sál og líkama. Þetta tæki leit ekki hálft eins illa út þegar maður var fjarlægur því og þegar maður var komin upp á það. Nær dauða mínum hef ég ekki komist og heimtaði bæði sjúkrabíl og lækni samstundis. En þá sem oftar sagði Baldur mér að halda áfram og vera amk í 3 mín. Þetta var óbærilegt, illskiljanlegt og óbærilegt. Gott ef einherjir voru ekki líka að horfa. En það var svo sem hjóm eitt við það að bera beinin þarna þar og þá.
Ég skil ekki – og held reyndar enn að það sé klikkun, að halda ekki að hann myndi ganga af mér dauðri þar og þá. Ég meina eru ekki einhver svona mörk sem 100 kg of þungt fólk eða svo þolir? Það virtist ekki vera. Samúð var amk ekki að finna og ég held heldur engan skilning. Ja hann var þá vel dulbúinn!
Þrisvar í viku héðan í frá?
Upp frá þessum degi í byrjun afmælismánaðar míns 2006 hef ég mætt þrisvar sinnum í Styrk í 7 mánuði utan tvisvar sinnum – og þá mætti ég tvisvar. Rain or shine. Ingveldur hefur mætt og við hafa bæst, sund, göngur og hjólreiðar. Og ég er ekki dauð enn.
Ég get sagt ykkur það kinnroðalaust að þessi sjúkraþjálfari sem gerði mér lífið svo leitt í upphafi, sem var svo skilningslaus og þver, illa áttaður og fordómafullur var allt það sem ég þurfti og meira til. Hann var kannski ekki það sem ég óskaði mér… en hann var það sem ég þurfti.
En slagurinn er ekki að baki. Enn eru endalaus verkefni, vandræði og hremmingar. Afhverju? Ég veit það ekki. En ég veit að engir aðrir valkostir eru í boði en að halda áfram þennan veg og vona að samferðarmennirnir verði slíkt eðal fólk hér eftir sem hingað til.