Einu sinni fér ég á Silverstone!

Það var nú svei mér skemmtilegt!
Ég var að finna geisladisk með myndum þaðan! Ég hef farið á tvö F1 mót og í bæði skiptin biluðu bílarnir undan Finnunum mínum. Sérstaklega ánægjulegt. Fyrri keppnin sem ég fór á var í Frakklandi á Magny Cours – frábært fjölskylduferðalag sem ég á held ég aldrei eftir að gleyma.
Á keppnisdag var 42 stiga hiti og dekkin nánast bráðnuðu undan bílunum. Eftir æðisgengna upphitun og góðan gír brotnaði gírkassinn hjá Mika á ráslínunni og hann komst ekki lengra þann daginn! Mika minn. Vitlaust saman settur kassi og ég kallaði Ron Dennis til ábyrgðar að hafa dröslað mér yfir Atlantshafið til þess að berja þetta helv… augum. Jæja allt gott um það að segja. Man ekkert hver vann – hlýtur að hafa verið Schumi. Amk vel hægt að veðja á það. Nú. Hitt mótið sem ég hef farið á er Silverstone sem sagt en það var á vegum formula.is en á þeim tíma skrifaði ég fréttir og pistla þar við annan mann, hana Freyju mína. Í húsbíl á tjaldstæði við brautina eyddum við einni viku. Ferlega skemmtilegt nema hvað ég var alltaf inni í bílnum meðan hinir voru úti að reykja og drekka brennivín!

Það var eiginlega í þessari keppni sem Arrows liðið lagði upp laupana sem var mjög sorglegt, sprækt lið með flottan lit á bílunum sínum 🙂

Og gott ef Schumi vann ekki bara! Nema að hann sé að skipta um peru þarna uppi!

Ég inni að skrifa pistil heim. Hvað er þessi Beilísflaska að gera þarna – já og allir þessir nammi poka

Freyja????!!!!!!????

Kimi minn átti þvílíkan stjörnuleik – eftir afskaplega sérkennileg talstöðvasamskipti þar sem helikopterrás kom við sögu og enn undarlegri þjónustuhlé. Hann tók t.d. 7 sinnum fram úr Ralf Schumacher og ók eins andsk… í rigningunni. Hann er awesome í rigningu þessu drengur. Hræðist ekkert. Ætli Ferrarivélarnar verði nógu sterkar fyrir hann?

Á þessari brú fékk ég mitt eina taugaáfall um ævina. Ja svona fram að líkamsrækt amk – lofthræðsla er ekkert grín

Öflugasta F1 fréttagengi Íslandssögunnar – fer ekki ofan af því.

Eitt og annað um hörmungar :-)

Ég fletti upp orðinu hörmungahyggja og lenti á þessum frábæra pistli – tilviljun að hann fjallar líka um líkamsrækt? Hrein dásemd!
En hvað er hörmungarhyggja – sem mér finnst frekar að ætti að heita hörmungahyggja því í mínu tilfelli eru þær nokkrar hörmungarnar sko 🙂
Af Geðheilsu.is:
Hörmungarhyggja (catastrophizing) Sambland af hrakspá og ýkjum svo að verður ýktara en hrakspá. Það sem þegar hefur gerst eða mun gerast er metið svo hræðilegt, óbærilegt eða óviðunandi að maður muni alls ekki þola það eða telja að vandræði manns séu óyfirstíganleg. Dæmi: Þetta á eftir að setja mig svo gjörsamlega út af laginu að ég á ekki eftir að geta hagað mér eðlilega
Hér er ein góð grein um hörmungahyggju frá háskólanum í Flórída. Ég held ég sé nú ekkert mjög slæm af þessu – mætti nú kannski frekar kalla þetta neikvæðni hjá mér ha? Samkvæmt þessu er það hættulega við hörmungahyggju að maður hættir að sjá lausnir heldur bara vandamál og ræður svo á endanum ekki neitt við neitt. En ég hugsa nú í lausnum svo… En þetta kannski gerir manni ekki lífið auðveldara. Þannig að ég er ekki haldin hörmungahyggju… Ég meina fullt af því neikvæða sem ég hugsa (lesist raunsæa á vondum dögum) tengist ekki einhverjum skelfilegum afleiðingum heldur mála ég bara raunveruleikann svoldið dökkum litum ha hu hummmmmm?
Ég meina þegar ég segi – það er ekki hægt að léttast um eins mikið og ég þarf að léttast um þá svo sem veldur það mér ekki neinum kvíða sérstökum heldur bara leiðindum og almennum pirringi… En það stendur í vegi fyrir lausninni – ah ég þarf bara að fá hjálp við þetta frá Erlu :-).
Ég fór ekki í kennslu í dag – ætlaði að hvíla mig og verða alveg góð. Hmmm gekk ekki alveg eftir en ég er miklu betri – kannski verð ég alveg góð á morgun! Ég þreytist gríðarlega að halda höfðinu uppi. Sérstaklega ef ég horfi niður – er að vinna ofan í borð eða eitthvað slíkt.
Ég fór í myndatöku með hálsinn – vonandi kemur eitthvað út úr því sem fyrst – helst náttúrulega ekki neitt. Svo fór ég í Styrk því hreyfing er það eina sem getur hjálpað manni og ég má ekki missa dampinn þar. Ég prófaði að gera ekki neitt í tæpa viku og það hjálpaði sko ekki. Mér leið svolítið illa vegna þessa, finnst maður eigi ekki að vera á rápi um líkamsræktarstöðvar þegar maður er ekki vinnufær en ég segi bara iss – Gylfi læknir og Baldur segja að ég eigi að hreyfa mig númer eitt tvö og þrjú og þetta er því í samráði við góða menn! Þetta er líka bara mitt mál. Og enga hörmungahyggju með það!
Annars er nú ekki björguleg á Ingveldi halningin. Hausinn er framstæður og ég vagga þegar ég labba! Minnir hún nokkuð á önd þessi lýsing? Sigh. Svona sér sjúkraþjálfarinn minn mig… Dásamlega létt og leikandi lýsing þegar við bætast kílóin mín! Sigh… gott að við Palli áttumst. Þá er að minnsta kosti einni katastrófíunni færra í mínu lífi!
Tíhíhí
Og það eru komin mánaðarmót hugsið ykkur það!

Víst léttist ég!

Sko mína – búin að léttast um 18,5 kg síðan í byrjun maí – ég tel ekki apríl með því þá bara þyngdist ég :D. Geri þetta sko bara svona ef mér sýnist :D. Það gerir 3 kg á mánuði sem er töluvert betra en 2 kg.
Baldur segir að ég sé haldin hörmungarhyggju! Ég hef heyrt þetta áður – ég hef nú stundum bara kallað þetta raunsæi en það er víst munur á.
Ég ætla að reyna að vera ekki svona vælin og leiðinleg. Horfa á björtu hliðarnar. Reyna að finna þær fyrst náttúrulega. Og þær eru þarna. Ég er viss um það, eða amk eru fólk að benda mér á þær…
Ég held ég fái mér svona kjól þegar ég verð orðin eitthvað svoldið minna en ég er núna – mér finnst hann æði. Það verður gaman að velja skó við hann – verst ef ég verð orðin sextug þegar það passar að ég fari í svona flík. Hvaða markmið á ég að setja mér fram að jólum? 2 kg? 3 kg? Og svo að halda því yfir jólin. það eru um 7 vikur til jóla – og svo er kannski eitthvað sem maður þarf að láta eftir sér á aðventunni. Ég náttúrulega verð að lifa mínu lífi og njóta þess um leið. Sem aftur styður að ég þarf að líta til einhvers annars en hörmungarhyggjunnar…
Vitiði þetta er ekkert svo slæmt. Víst finnst mér stundum að það sé ekki hægt að losna við helming líkamsþyngdarinnar – það fylgir því ýmsilegt en ég hef allt það sem ég þarf til þess. Og hversu miklu heppnari getur maður verið?
3 kg fram til 24. desember – ok?
Markmið fyrir 13 nóv hefur náðst. 1. áfanga er lokið og 2. áfangi hafinn. Það er bara flott!

Engin vigt og vinna í fríinu!

Ég segi ykkur það satt að þeir sem gera stjörnuspár líta fyrst til mín og svo semja þeir hana. I tell you no lie there!

AriesDate of Birth: April 9

You might at this time be involved in some projects that require a lot of physical effort, Inga. Today you might be tempted to exert yourself perhaps more than you should in order to speed up your progress. Don’t do this alone! Get someone to help you. Otherwise, you might strain your muscles to the point where you won’t be able to do anything. This would sabotage the quicker pace you’re trying to attain. Be careful!
Er úti í skóla að vinna. Ég er miklu betri í vöðvanum upp í hálsinn vinstra megin og finn því betur fyrir eymslunum í hálsliðunum. Verð svolítið þreytt við að horfa niður í borðið. Er að bíða eftir kennaranemunum mínum sem ég hélt að ætluðu að koma en ég er ekki viss um að ég hafi nefnt neinn tíma við þær! Dæmigert svolítið fyrir mig. Ég verð hér amk ekki lengi eins og seiðingurinn í hálsinum lætur svo mikið er víst.

Annars þorði ég ekki út að labba né hjóla í morgun vegna hálsins og fór því í Styrk og hjólaði þar svolítið. Var að hugsa um að stíga á vigtina, eða jafnvel ná í Baldur og láta hann gera það fyrir mig en hafði ekki manndóm í mér í það! Og um leið og ég sá hann koma fyrir hornið hentist ég út til þess að þurfa áreiðanlega ekki að svara fyrir nokkurn skapaðan hlut! Klárt ekki satt?! Tíhíhí

Nú skal ég ná að hugsa um þetta mataræði. Verður samt vísast ekki í lagi fyrr en eftir mánaðarmót en fram að þeim verð ég bara að standa mig líka. Ég bara verð að ná að laga það eitthvað til því þó það hafi lagast mikið er einhver afdrifarík hugsanavilla í því ég segi það satt. I tell you no lie!
Jæja best að halda áfram því ef mér tekst að klára þetta enskudót þá finnst mér ég hafa himin höndum tekið

Ég hef bara staðið mig vel

Jibbí ei og jibbí jó ég steig ekki á vigtina í dag. Ég veit svo sem ekkert hvað vinnst með því en amk gerði ég það ekki því ég var svona næstum búin að ákveða að gera það ekki. Sem sagt stóð við það. Ræði svo bara við Baldur um hvert framhaldið verði með þetta. Kannski er bara gott að ég sjái ekki töluna og bara hann – þá verð ég að standa mig í mataræðinu til að það komi bara ,,góðar“ tölur. Ha hu hummmm… kannski virkar þetta bara fínt.
Ég fór sem sagt í Styrk – Toppsport heitir það víst (finnst það svo hallærislegt nafn að ég á hreinlega í vandræðum með andadrátt þegar ég skrifa það). Var í 50 mín á brennslutækjunum og tók æfingar fyrir efri hluta líkamans – var bara með minn þyngd en alla jafna út af mínum yndislega hálsi. Það gekk bara vel. Mér finnst ógeðslega gaman í tækjasalnum. Það er eitthvað geggjað við að rembast þetta. Mér er aftur á móti farið að leiðast óumræðilega á brennslutækjunum. Ég held ég ætti að fá mér ipod og kaupa hljóðbækur inn á hann á netinu. Hlusta á góða sögur. Það gæti reddað mér þar sem ég er ekki mjög mikið fyrir tónlist. Nú svo fór ég og borðaði fisk og grænmeti – jukk mér finnst fiskur ekki góður. Að því skylduverkefni loknu fór ég í heita pottinn í lauginni og í gufu og ég veit ekki hvað og hvað. Borðaði svo meðal þegar ég kom heim og setti kaldan bakstur á hálsinn á mér og ég hef ekki hreyft mig síðan og líður svona líka bara ágætlega :-).
Ég verð að reyna að rífa mig upp úr þessari neikvæðni og vandræðum. Ég meina ég lifi góðu lífi. Ég er ekki einu sinni óhamingjusöm. Frekar bara hamingjusöm held ég. Ætli þetta sé ekki bara gamla óþolinmæðin sem er farin að láta á sér kræla af fullum krafti. Það skyldi þó ekki vera.
En mikið óskaplega verð ég fegin þegar koma mánaðarmót.
Sem sagt góður dagur í dag. Barasta aldeilis ágætur hvað það varðar að standast sett markmið. Um meira getur maður varla beðið.

Er hálf leið eitthvað… enn og aftur?

Best að setja bara afmælisskóinn minn með þessum pistli. Það er nú meira hvað sá skór er innilega óIngulegur. Það er hreinlega gríðarlegt!

Ég er búin að væflast í allan morgun. Bjartur vælir og vælir og vill fara út og ég rífst og skammast við hann og reyni að benda honum á að ég ætli ekki að labba með hann þessa helgina. Það er bara eins og hann skilji það ekki. Ragnheiður er búin að vera svo slöpp að hún þvertekur að fara með hann svo það er kannski ekki nema von að hann væli greyið. Ég ætla að fara í Styrk núna á eftir – og ég get spænt mig upp í ægilegan kvíða vegna þess. Aldrei farið á sunnudegi sjáið þið til og það gæti verið svo margt fólk og líklega allt mjög hættulegt fyrst ég læt svona. Það er ekki eins og ég hafi ekki verið í Styrk þegar það er margt. Ég er klikkuð. En nú ætla ég að greina allt það sem ég get fundið mér til að vera leið yfir. Fyrst þetta tvennt sem ég er búin að nefna:

  • Bjartur fær enga hreyfingu
  • Ég fer í Styrk á sunnudegi (kvíðinn veldur mér leiða sjáið þið til)
  • þvotturinn minn var allur út í hundahárum og ég var búin með límfataburstablöðin (!)
  • Ég á ekki þurrkara og hér engin þurrkaðstaða
  • ég er með hausverk
  • mér er illt í hálsinum
  • ég held að baðgólfið sé að pompa niður úr húsinu
  • ég sakna hússins á Írafossi
  • ég er löt og nenni ekki að gera neitt af því sem ég vildi að ég nennti að gera
  • ég fór ekki til Sigurlínar á föstudagskvöldið
  • ég fór ekki til Ásdísar í gærkveldi
  • ergo ég er orðin mannafæla!
  • ég er alltaf skítblönk, kann ekki með peninga að fara held ég
  • ég er ekki búin að líta á verkefnið hjá Ingvari síðan í sumar og ég er hrædd um að hann sé óánægður með mig – og það væri ferlegt!
  • ég er ekki sem ánægðust í vinnunni – sem er nú eiginlega alveg nýtt fyrir mig!
  • ég át 6 ískex í gær og svo 3 franskbrauðssneiðar fyrir svefninn ergo hef enga sjálfstjórn þegar matur er annars vegar!
  • ég hef ekkert lést í október og til hvers er þetta allt þá?
  • ég er ómöguleg í skrokknum og næstum óvinnufær svo ekki er það til að verða svo gasalega ofboðslega líkamlega hress!!!!!
  • vetrarfríið fór í að vera heima og vorkenna sér!

En það eru nú bjartar hliðar á öllu – sjáum til hvort ég sé of down til að finna þær?

  • Bjartur fær enga hreyfingu
  • Bjartur hefur aldrei verið hreyfður eins mikið og nú í sumar og haust. Hann fer út að labba seinni partinn með Ragnheiði og Jobba.
  • Ég fer í Styrk á sunnudegi (kvíðinn veldur mér leiða sjáið þið til)
  • Frábært að ég fari á sunnudegi í Styrk því þá get ég slappað vel á, á eftir og þarf ekki að fara á mánudegi og get í staðinn unnið alveg eins og mig lystir fram eftir kvöldi ;-).
  • þvotturinn minn var allur út í hundahárum og ég var búin með límfataburstablöðin (!)
  • Ég er búin að vera dugleg að þvo um helgina og það er meira að segja búið að brjóta allan þvottinn saman!
  • Ég á ekki þurrkara og hér engin þurrkaðstaða
  • hmmm – þetta er bara hreinlega hræðilegt – verð að fá mér þurrkara er lausnin!
  • ég er með hausverk
  • Hausverkurinn er ekki eins slæmur og í sumar og ég er alveg rólfær.
  • mér er illt aftan í hálsinum
  • hmmm – alveg ómögulegt, því borða ég Norgesic og fer í nudd og í Styrk. Verið að vinna í málinu sem sagt!
  • ég held að baðgólfið sé að pompa niður úr húsinu
  • Þetta er í sannleika sagt óskaplegt. Vona að það haldi þar til lausafjárstaðan batnar!
  • ég sakna hússins á Írafossi
  • Ég hef búið í frábærasta húsi ever! Þvílík forréttindi!
  • ég er löt og nenni ekki að gera neitt af því sem ég vildi að ég nennti að gera
  • Stundum verður maður bara að gefa sér tíma í að slaka á,hugsa og skipuleggja líf sitt og það hefur gengið ágætlega síðustu daga. Maður þarf ekki alltaf að vera að gera eitthvað þó verkefnalistinn sé langur.
  • ég fór ekki til Sigurlínar á föstudagskvöldið
  • bömmer – var of illt í maganum!
  • ég fór ekki til Ásdísar í gærkveldi
  • Bömmer – var of illt í hausnum, treysti mér ekki í skarkalann!
  • ergo ég er orðin mannafæla!
  • Nah – maður er manns gaman. Ég þarf bara að vera dugleg að detta í heimsóknir en það er nú kannski ekki gaman að fara af bæ þegar maður getur illa haldið haus! Ég á eftir að hendast um allar koppagrundir innan tíðar.
  • ég er alltaf skítblönk, kann ekki með peninga að fara held ég
  • Ég er nú öll að lagast í peningamálunum! Þetta er allt að koma!
  • ég er ekki búin að líta á verkefnið hjá Ingvari síðan í sumar og ég er hrædd um að hann sé óánægður með mig – og það væri ferlegt!
  • Ég er búin að ákveða að vinna í verkefninu mínum um næstu helgi og einnig aðra helgi og skila því um 10. nóv. Og ég ætti bara að senda Ingvari póst um það. Hann er nú búin að hjálpa mér og styðja annað eins að ég held það sé útilokað að hann sé búin að gefast upp á mér – enda fékk ég leyfi til að skila þessu í haust – og það er enn haust right?
  • ég er ekki sem ánægðust í vinnunni – sem er nú eiginlega alveg nýtt fyrir mig!
  • Það er svolítið leiðinlegt að vera ekki glaður í vinnunni sinni. En hugsið ykkur bara hvað það er heppilegt að það er ekki að gerast fyrr en núna eftir 11 ár í kennslu! Um leið og ég finn tíma til að sinna því sem ég vil sinna á þann hátt sem ég vil, þá verð ég ánægð. Sem sagt finna tíma!
  • ég át 6 ískex í gær og svo 3 franskbrauðssneiðar fyrir svefninn ergo hef enga sjálfstjórn þegar matur er annars vegar!
  • Ég fékk mér ekki hádegismat í gær og því varð ég svo brjáluð í skjótfengna orku en það er ekki rétt að ég hafi ekki sjálfstjórn í mat. Ég hef þvílíkt bætt mig síðasta hálfa árið eða svo. En það má alltaf gera betur.
  • ég hef ekkert lést í október og til hvers er þetta allt þá?
  • Kannski hef ég aðeins lést – hef ekki vigtað mig síðustu vikuna. Og svo er það vel þekkt að líkaminn þarf að aðlagast þyngdartapi áður en hann tekur næstu lotu í léttingi. Víst er leiðinlegt að hafa lagt allt þetta á sig og ekkert lést ef það verður raunin en það eru svo sem ekki endalokin (ég trúi eiginlega engu af þessu fjólubláa krappi sem ég hef skrifað undir þessum lið!!!)
  • ég er ómöguleg í skrokknum og næstum óvinnufær svo ekki er það til að verða svo gasalega ofboðslega líkamlega hress!!!!!
  • Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það koma upp tímabundin vandamál sem er eðlilegt þegar farið er af stað með svo þungan skrokk sem minn. Auðvitað lætur eitthvað undan en ég er miklu hressari en ég var. Ég gengi miklu hraðar, ég verð varla þreytt í fótunum, er miklu sterkar, úthaldsbetri, er hressari á kvöldin. Er 100 sinnum geðbetri (skil nú ekki alveg þessa geðvonsku sem skín hér í gegn á blogginu þá! Kannski er hún bara búin að finna sér þann farveg og ég er betri í annan tíma!) Auðvitað er ég stundum þreytt en það sýnir bara að það er tekið á og þess þarf stundum. Rétt eins og að stundum þarf að hvíla sig ha hu hummm!
  • vetrarfríið fór í að vera heima og vorkenna sér!
  • Ég hef hvílt mig, stundað ræktina, reynt að ná bata í hálsinum og stússast svolítið í heimilinu í fríinu og á morgun ætla ég að vinna mig aðeins niður úr verkefnalistanum sem ég hef úti í skóla fara svo í nudd klukkan 4 og verða bara orðin góð á þriðjudagsmorgun ok?
  • Ég er óendanlega heppin að Gylfi skydi senda mig til Baldurs. Ég er líka svolítið ánægð með heilbrigðiskerfið sem gerir mér það kleift að vera undir handleiðslu sjúkraþjálfara vonandi eins lengi og ég þarf.

Spurt er: Stígur Ingveldur á vigtina á eftir?

Af hálsi og letilífi – varúð væl pistill mikill

Ég átti alveg arfa slaka nótt eftir ágætan gærdag. Ég fór í Styrk og stóð mig bara vel og svo í nudd. En í fyrsta skipti á ferlinum datt mér það í hug í nótt að kannski ætti ég bara ekkert að vera að fara í nudd á meðan hálsinn er svona!
Ég var bókstaflega að drepast. Ég hafði nú etið vel af Norgesic í gær og fyrir svefninn – auðveldar mér til muna lífið verð ég að segja – hélt jafnvel að ég væri bara að verða góð! En ég hafði ekki undan í nótt að vorkenna mér. Ég fann svo ótrúlega til í hálsinum. Það var eins vinstri hliðin langt upp eftir haus væri opin kvika. Norgesic gerði sko ekkert gagn, og ég fór því fram í ísskáp og náði mér í kælipokann og lagði hann við. Þá fyrst fékk ég einhverja bót ég meina það. Svo hitnaði hann nú en ég tók hann aftur fram undir morgun. Ég er ekkert afleit í dag en ég get nú ekki snúið hausnum hratt til hægri eða vinstri og öll sveigja er óþægileg.
Bjartur er mjög óánægður með lífið og tilveruna. Ég fer ekki með hann út í dag – ég er algjörlega ákveðin í því að hvíla mig í dag enda fer ég í Styrk nú eða Toppsport á morgun og veitir bara ekkert af hvíldinni 😉 Ég nenni ekki einu sinni í sund og þó er veðrið eins og best verður kosið. Mest langar mig að skríða upp í rúm og gera ekki neitt nema sofa en ég hef ekki góða reynslu af viðureign minni við koddana eða ekki koddana.
Mataræðið er ekki að gera sig. Aðallega af því það er ekkert til. Ætla samt að reyna að gera eitthvað gáfulegan fisk núna svo ég fái eitthvað almennilegt. Þetta er eilíf barátta við halda matnum að sér á réttum tíma og í réttu magni. Ekki vil ég vera étandi fram eftir öllu. Rétt að venja sig ekki á þann fjanda á ný.
En jæja svo sem ekkert að frétta, nema bara hvíld og róleg heit og almennt væl. Voða sem ég er orðin vælin – en það er svo sem ágætt að fá útrás hér á blogginu – hef engan til að væla utaní annan 😉 Svo afsaka ég þetta með sjálfri mér með því að segja að það sé bara gott að koma þessu út úr myndinni með því að pústa – sneðugt ekki satt?
Maður er svona að taka pólinn upp á nýtt eftir skrítið tímabil í október. Hélt einhvern veginn ekki að október yrði erfiðasti mánuðirnn af þeim 6 sem liðnir voru. En svona getur þetta verið. Vandræðin gera ekki boð á undan sér og líklega þarf maður bara að ganga í gegnum ákveðnar sveiflur og líta svo á heildina.
Ég er mikið að hugsa um vigtina – ég er næstum viss um að ég stíg á hana á morgun – en vil það samt hálfpartinn ekki og eiginlega alls ekki. Mér finnst bara svo asnalegt að stíga á hana með Baldri með lokuð augun eitthvað- eins og maður sé ekki fær um að bera ábyrgð á því sjálf… En kannski er það bara sniðugt… (not) Er samt ekki alveg búin að kaupa það!

Eitt enn

Svakalega langar mig að vita hver les bloggið mitt á Ítalíu. Spennandi verð ég að segja. Ummmm Ítalía! Hver sem þú ert – ég bið að heilsa Kimi ef þú sérð hann!

Snör viðbrögð og ný aðgerðaráætlun

Það er margt sem getur ruglað litla sál eins og mína. Meira að segja fyrirfram þokkalega fyrirsjáanleg birtuskilyrði geta haft ótrúleg áhrif. Ég hef síðan ég byrjaði að vinna farið með Bjart á morgnana upp í Hellisskóg og gengið þar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá þarf ég ekki að halda í kvikindið sem er í meira lagi leiðinlegt verk eins illa og hann er upp alinn blessaður. Við getum því bæði um frjálst höfuð strokið.
Þetta gekk allt saman vel á meðan það var bjart. Ég gat verið búin að borða hafragrautinn og komin út í skóla bara rétt um sjö ef ég vildi. Náð andanum og hugsað minn gang og unnið svolítið líka ;-).
En svo fór þetta að verða erfiðara og erfiðara. Ég komst alltaf seinna og seinna og stressið jókst í samræmi við það. Nú svo fór ég að fara á hjólinu í skólann og hafði gaman af en það er ekki hægt í kulda og hálku snjó og slabbi. Og því fór að líta illa út með morgunbrennsluna mína (sem hefur samt skilað ótrúlega litlu í þyngdartapi miðað við væntingar verð ég að segja! en svöng er ég þannig að ég borða meira fyrri partinn en ég gerði og minna seinni partinn). Nú svo er bara svoldið mikið að gera í vinnunni og einhvern veginn er vikan þannig upp sett að ég þarf að vinna skrambi langt fram á kvöld á þriðjudögum og mánudögum sem voru báðir líkamsræktardagar.
Ég var líka hætt að hvíla um helgar heldur fór t.d. bæði í langa göngu í Þrastarskógi bæði laugardaga og sunnudaga enda veðrið og haustlitirnir eitthvað sem ekki var hægt að láta fram hjá sér fara. Þannig að ég var orðin ansi þreytt á miðvikudegi eftir vinnu, labb og líkamsrækt.
Smám saman dró því af mér. Ég átti erfiðara og erfiðara með brennslutímann og enn erfiðara með að halda í við verkefnin í skólanum. Þetta bjó svo um sig í mér og ég varð kvíðin og fannst ég ekki alveg ráða við þetta allt saman að því svo viðbættu að ég léttist ekki neitt svo árangurinn þeim megin var ekki góður. Fannst mér.
Eitthvað hefur þetta síast út í umhverfið og mínum helsta styrktaraðila var ekki farið að lítast á blikuna og hefur nú í nokkurn tíma bent mér að hætta að hugsa um vigtina heldur einbeita mér að heilsunni, mataræðinu og því hvernig mér líður eftir æfingarnar. Allt annað sé aukaatriði – bónus í besta falli. Ég get nú alveg fallist á að það sé rétt viðhorf. Það er ekki eins og það hafi einhvern veginn alltaf skipt mig svo miklu máli að léttast… Ég vil svo sem frekar vera heilsuhraust en best þætti mér að léttast líka. Mér finnst að ég eigi bara að gera það! En það er eitthvað sem skilar sér ekki þó mér finnst að það ætti að gera það! Baldur segir að það sé ekki línuleg fylgni á milli þess að hreyfa sig og léttast. Mér finnst nú samt að það eigi að vera rökrétt samhengi þar á milli – ég verð nú að segja það!!!! En ég þarf að venja mig við hina nálgunina – hún er hvort sem skynsamlegri og meira í mína veru. Ég er því komin með svar við því þegar fólk spyr hvort ekki gangi vel og ég sá alltaf jafn dugleg. Já og hvort ég sé ekki búin að léttast heilmikið og það allt saman. Ég ætla sem sagt að segja að ég sé alltaf jafn dugleg og ég styrkist með hverjum deginum! Þetta láti mér líða svo dáindis vel – en það segi ég nú bara ef ég er í rosa uppsveiflu! Gott plan ekki satt?!?
Og svo er ég komin með nýja aðgerðaráætlun varðandi hreyfinguna:
Passa mig gríðarlega í mataræðinu þessa viku!- Einbeiti mér að því að borða svakalega ofboðslega hollt og fínt viku og viku. Annars tek ég einn dag í einu og reyni að standa mig með að borða máltíðir með fullum grænmetisskammti sem allra oftast. Ekki borða á kvöldin – sem vel að merkja hefur gengið dásamlega vel í flestum tilfellum
Fer í Styrk (sem heitir eitthvað annað) á þriðjudögum


Fer í Styrk á föstudögum og djöflast vel og lengi – gæðatími
Prófa að fara í Styrk á sunnudögum eftir hádegið.
Í millitíðinni labba ég og hjóla – fer í morgunsárið í Styrk og hjóla smá ef mér finnst of kalt úti eða færðin úti leiðinleg!
Eyk brennslutímann upp í 50 mín þrisvar í viku en hef hann um 20 – 30 mín í hin skiptin.
Flott aðgerðaráætlun ekki satt?
Opinbert markmið Ingveldar er að léttast um 2 kg fram að áramótum. Það finnst mér lélegt markmið en Baldur segir að það sé nógu gott. Það sé þá bara ágætt ef það gengur betur en sé ekkert atriði. Já og sá böggull fylgir reyndar skammrifi að ég á að halda þyngd minni yfir jólin…
Ég er reyndar með ráð við því. Ég reyni bara að léttast meira, segi honum ekki frá því og þyngist svo bara sem því nemur um jólin! Klárt ekki satt?
Reyndar hef ég einhvern grun um að hann ætli mér ekki að stíga eftirlitslaust á vigtina hér eftir og halda reyndar fyrir augun á mér á meðan. Honum finnst ég verða eitthvað svo geðvond við að stíga á vigtina… Skil nú ekki afhverju hann kemst að þeirri niðurstöðu ;-). Vill taka þann þátt út. Ég á samt svolítið erfitt með að skilja hvað ég græði á því að hann sjái tölurnar en ekki ég – og til hvers þarf ég þá að vera að stíga á vigtina? Hvað þarf hann að vita hvað ég er þung ef ég veit það ekki sjálf? Skil þetta ekki alveg. En hann veit kannski hvað hann syngur. En bara kannski….
Nú jæja nóg er líklega komið af rausi í dag. Ég er bara ánægð með mig. Fór í 50 mín í brennslutækin á miðvikudaginn, 40 mín í gær (sem var svona auka sprikl því ég labbaði bara með Bjart en hjólaði ekki í vinnuna) og 45 í dag eftir að hafa hjólað í hálftíma um plássið í morgun í roki og rigningu – ja amk svolitlum vindi. Lærvöðvarnir mínir sem eru nú engin smá smíði voru þreyttir í dag, helvíta uppgefnir greyin þannig að það var mér töluvert mál að hjóla í 25 mín 😉 en ég gerði það. Og er stolt af mér.
Mér líður miklu betur í hálsinum þó ekki sé ég góð. Ég hef líka ekki mikið gert reyni bara að slæpast og hvíla mig. Borða svoítið Norgesic. Ægilega fínt efni! Og hælsporinn er að koma aftur. Orðin hölt og ferlega stíf fyrst á morgnana. eins og var gaman að ,,halda“ að ég væri laus við hann. En svona gengur þetta til.
Ætli ég fari svo ekki að fara í spinning? Ja það væri þa.

Nuddferðin hennar Ingu 2. hluti

Fyrsta hluta frásagnarinnar má finna hér

Þegar hún Ingveldur fór ,,að nota eitthvað salinn hérna!“

Það var nokkuð stór biti að kyngja að mæta aftur í nudd aftur til Baldurs eftir hamfarir fyrsta tímans! Hann var skoho augljóslega ekki mín týpa. Ég hafði svo sem ekki uppi neinar stórar væntingar um samband mitt við nuddara – en hitt vissi ég – þetta var ekki að gera sig!

Ég og nuddarar

Ég var svo sem enginn sérfræðingur um þá stétt en taldi þó að þeir ættu að nudda mann, maður ætti að vera slakur og reyna að slappa af og svo í framhaldinu læknaði nuddið vöðvabólguna. Ég geymdi nudd og jóga svona á svipuðum stað í kollinum – ímyndin var heilsusamleg, rólegheit og andlegt jafnvægi væri ákjósanlegt og ætti að aukast í hvoru tveggja. Ferðir mínar til nuddara hingað til höfðu haft svona um það bil þessi áhrif. Kannski ekki endilega í mjög langan tíma í senn og þó…

Ég fór til eins blinds þegar ég var um tvítugt og hann sagði nú ekki margt. Var hins vegar yfirkomin af höfuðverk og vanlíðan um þær mundir og man að ég fékk ofbirtu í augun af hvítum veggjum herbergisins míns á eftir. Lá með blautan þvottapoka lengi dags og hélt ég myndi deyja. Nokkru síðar fór ég í eitthvað sem hét sogæðanudd í Hveragerði til konu sem var alveg yndisleg. Og fyrir nokkrum árum fór ég svo til undarlegs kerlingapars í Laugarási í nudd, á hverjum degi í ótal mörg skipti. Þar var bakið nuddað frá toppi til mjaðma og ég man mest eftir nuddinu neðst í bakinu því mér var svo ótrúlega illt í stóru bakvöðvafestingunni. Svo var ég sett í einhverjar bylgjur sem meiddu mig svo rosalega að ég hélt ég dræpist til að byrja með. Þetta bauk þeirra dugði mér alveg í tvö ár held ég bara – þangað til ég tók strauið til Gylfa og tilkynnti honum að ég væri dauðvona. Hélt reyndar úr einhverjum merkilegri sjúkdómi en vöðvabólgu…

Ég lifi til að vinna – mér þarf að batna til að geta lifað

Engin þessara nuddferða hafði veruleg áhrif á mig eða mitt líf – nema ég gat haldið áfram mínu striki með heldur auðveldari hætti á eftir. Ég bað ekki um meira í febrúar 2006 – verða færari um að vinna mitt verk í Sunnulæk. En ég hefði viljað skilningsríkari – eða hlutlausari nuddara. Það verður að viðurkennast. Mér fannst ég ekki þurfa þetta dæmalausa skilningsleysi og óvægð. Mér fannst ég bara ekki eiga það skilið. Mér leið eins og einhver staðalímynd feits fólks héngi í loftinu. Ég passaði ekki þar inní. Ég var einfaldlega með vöðvabólgu og trust me – ég var ekki eini Íslendingurinn sem hreyfði sig ekki nóg! Að skrifa allt það sem að mér væri á offitu væri ofureinföldun dauðans. Ég var tough cookie með mitt á þurru. Vissi fyrir hvað ég stóð! Og það passaði ekki við þá tilfinningu sem ég fékk í fyrsta tímanum. No way José!

Þess verður þó að geta að upplifun mín hlýtur að hafa mótast af mínum viðhorfum til umhverfisins og e.t.v. uppdiktuðum staðalhugmyndum mínum um líkamsrækt og þann hóp sem mér fannst Baldur tilheyra. Heilsufríka og skinheilagra heilsuræktar sinna. Þær hugmyndir eru engu skárri en aðrir fordómar. Mínir fordómar stóðu áreiðanlega í veginum í upphafi. Líklega meira en flest annað.

Brjóta odd af oflæti sínu

En ég hafði tekið ákvörðun um að halda áfram hjá Baldri. Það náði ekki nokkurri átt að byrja biðina alveg upp á nýtt – ég var aðfram komin og óvinnufær með öllu að verða. Það varð því einfaldlega að bíta í skjaldarrendur og halda út svo lengi sem þurfti. Ég bara varð að komast út úr þessu vöðvabólgufári. Það var meðvituð en á köflum einnig ómeðvituð ákvörðun mín.

Fyrstu tímarnir fóru í ógnarinnar vanlíðan og innri togstreytu því mig langaði svo að segja þessum nuddara þarna, frá því hve ósátt ég væri við hann og að líf mítt væri nú ekki alveg svona einfalt eins og hann hafði setti það upp í byrjun. Eða eigum við að segja eins og mér fannst hann hafa sett þetta upp? En ég mátti ekki mæla. Eitthvað var nú Baldur að reyna að halda uppi samræðum en ég svaraði með eins atkvæðis orðum og gaf lítið út á umræðuefnin – en hugsaði mitt. Hann var nú að spyrja um eitt og annað og ég man að mér þótti ekki alltaf auðvelt að svara – oft beið svarið þar til í næsta tíma – það er ekki auðvelt fyrir mig að svara beinskeittum spurningum um mig sjálfa.

Og ég engdist af innri spennu. Mér fannst ég ekki geta látið það órætt sem á mér hvíldi, en ég hafði enga – ekki sefil, af getu til að bera þetta upp… Og eitthvað fannst mér líkurnar á bata minnka við þessa líðan. Það væri kannski ekki gott að liggja algjörlega freðin á meðan maður ætti að slaka á og láta nuddið hafa sinn gang. En ég gat ekki slakað á.

Ertu farin að …?

Hann hafði man ég, ótrúlega mikinn áhuga á því hvort ég væri farin að fara á hjólið. Óþarflega mikinn því ég hafði nákvæmlegar engin áform uppi um það að fara á þetta helv… hjól. Kæmist ekki upp á það og fannst tilgangurinn ekki vera sérlega augljós. Líf mitt myndi ekki breytast þó ég færi í nokkrar mínútur á eitthvert hjól sem stæði úti í horni. Þar væri ekki lausnin á mínum vanda falin. Lausnin lá í því að fá nudd – batna og halda áfram að vinna, grípa svo til almennilegra aðgerða síðar. Ég gæti svo litið á aðra heilsurækt í sumar. Ekki fyrr. Var vinnandi kona sem átti nóg með sitt! 10 mín á hjólhesti hefði ekkert að segja. Það var ég alveg viss um

Þrátt fyrir lítil viðbrögð leið þó ekki á löngu að Baldur fór að tala um labb. Og hann gat talað um labb endalaust, linnulítið og með engum hléum. Helst langaði hann að ég labbaði í skólann á morgnana. Ég þverneitaði því (en þetta með hjólið hummaði ég bara fram af mér og eyddi talinu – eða reyndi það). Hann hélt þó áfram að koma með þá tillögu að ég labbaði að morgni dags og jafnoft neitaði ég því staðfastlega. Ég ÆTLAÐI ekki að gera það – myndi ekki gera það og hana nú. En hann virtist ekki heyra það – en það var allt í lagi, ég skyldi segja nei við því eins oft og hann þyrfti til að skilja, því ég myndi ekki labba á morgnana. Og hana nú. Punktur og pasta…

Eftir því sem honum miðaði minna með labbið og hjólið fór hann að bæta sundi inn enda hafði ég gefið út stórar yfirlýsingar um það hve góður sundmaður ég væri. En ég átti nú gott svar við því sem ég hélt að hann sem ,,nuddari” myndi skilja. Ég væri svo slæm í hálsinum að ég gæti ekki synt. En hann kom bara með einhverjar lausnir á því sem mér hugnuðust alls ekki. Ég ætlaði ekki strax í sund – væri einfaldlega alltof slöpp til að geta það. Í skemmstu máli var hann ekki sammála um neitt af því sem ég bar fyrir mig og hann hélt sínu striki og ég mínu. Ég taldi mig hafa í fullu tré við hann. Og tíminn leið.

Hann bar upp sínar tillögur og ég sagði mín nei. Endalaust og linnulítið,30 mínútur tvisvar í viku í einn og hálfan mánuð. Afhverju hann Baldur hélt áfram að spyrja, leggja til og heimta skil ég ekki. Ég hefði verið löngu búin að gefast upp á mér sjálf. 100 sinnum. 1000 sinnum. Leiðinlegri skjólstæðing er held ég að ekki sé hægt að hugsa sér. Ég var svo þversum og ég á aldrei eftir að gleyma hljómnum í neiunum mínum. En kannski hefur hann heyrt annan hljóm. Hvernig eða hvers vegna skil ég ekki. Kannski var hann bara að uppfylla sínar skyldur. Gera eins og honum fannst rétt. Hann hefur vafalítið gert sér betur grein fyrir því en ég að eftirleikurinn yrði aldrei spilaður af öðrum en mér og ekki síðar en strax. Ég svo sem vissi að það var ég og ég og svo ég sem þyrfti að knýja vagninn áfram. Það sem ég vissi ekki þá var að hann var tilbúinn á ljá mér hönd. Ég vissi innst inni að ég gæti þetta ekki ein. Hann aftur á móti var þess fullviss að ég gæti þetta. Aldrei hef ég orðið vör við hinn minnsta vott af hinu. Hin fullkomna vissa hans um að ég geti næstum allt mögulegt kemur mér sífellt á óvart. Líkt og það afhverju hann bara hreinlega gafst ekki upp. Kannski hefur hann verið nálægt því þó hann segi mér núna að hann hafi vitað að ég þyrfti ekki nema smá spark… já eða spörk. Það að nota smá er hins vegar algjör vitleysa – ég þurfti engin smá spörk. Ég þurfti hreinlega dýfur, hrindingar og bakföll. Og það svo sem bar engan rífandi árangur. Hann gæti þó starfsheiðurs síns vegna sagt að hann hafi svo sannarlega reynt! Það var þá bara mitt að svikist undan merkjum.

Föst í neti

Hann náði mér að lokum á taktíkinni. Það var svo lymskulegt að eftir á get ég alls ekki munað hvernig það gerðist. Leikurinn var tapaður – ég var gjörsigruð. Ég vildi óska þess að ég myndi hvernig það vildi til! Ég gæti kannski notað taktíkina á þvera unglinga síðar meir…

Það var í lok mars að ég flumbraðist til að segja: ,,Ja ég væri þá helst til í að prófa tækin hérna frammi í sal. Styrkja mig… Ekki brennslutækin heldur lyftingargræurnar. Sem er í sjálfu sér ótrúlegt að ég hafi nokkru sinni látið mér detta í hug. En kannski ekki svo skrítið – ég hef alltaf verið hrifin af meiru, meiru í dag en í gær. Þyngd í tækjum er auðmælanleg.

Og að sjálfsögðu greip minn þá ekki svo mjög kæri Baldur það á lofti og bauðst af alkunnri góðmennsku og elsku til að fara með mér einn hring í salnum. Hið eina sem ég þurfti að gera var að vera í 10 mín á hjólinu áður en tíminn byrjaði. Ég var þá þegar farin að sjá eftir öllu saman og rúmlega það. Ég var ekki lyftingagella sko… en ég gat ekki snúið við sjálfsvirðingar minnar vegna. Ég var búin að segja a og b varð að fylgja á eftir. Hann var búinn að mála mig útí horn. Ég hef áreiðanlega eitthvað verið búin að monta mig af golf, sund og gönguferðum – gefið honum þá mynd að ég væri þrátt fyrir allt heljarinnar íþróttagella sko- ég væri ekki bara offitusjúklingur sem sæti á mínu priki. Og hvernig gat ég þá bakkað?

Framundan voru kvalafullir dagar. Ég var viss um að ég kæmist aldrei upp á hjólið. Ég gæti ekki frontað Baldur á þann hátt að fara með honum hring í salnum. Hann var allt það sem ég var ekki. Ég bara gat ekki horfst í augu við þetta. Og ég sat og klóraði mér í hausnum og reyndi að skilja hvernig í ósköpunum ég gat hafa komið mér í þessar ógöngur… Það var fátt um svör. Og ég varð að mæta.

Hálfnað verk þá hafið er…
Sigurlín keyrði mig í fyrsta tímann minn í Styrk og ég verð henni ævarandi þakklát. Ég hefði líklega farið yfir um ef ég hefði haft bílinn og getað farið sjálf. Hún var algjörlega viss um að ég kæmist upp á hjólið og ég gæti þetta. Sannfærð og þó sannfæringarkraftur hennar færi ekki inn fyrir mína skel þá dugði hann til að ég þyrði að reyna. Ég trúði ekki orði af því sem hún sagði. En ég átti engra úrkosta. Baldur var einhvern veginn þannig maður að ég átti erfitt að ganga á bak orða minna við hann. Kannski er ég bara líka þannig manneskja að ég geri það ógjarnan.

Ég komst upp á hjólið og gat hjólað vandræðalítið – vissi reyndar fyrirfram að ég gæti hjólað – það var bara að komast upp á fákinn sem olli mér vandræðum í huganum. Það var heldur auðveldara í raunveruleikanum. Og ég komst líka í gegnum hringina tvo með Baldri í salnum. Þó ég hafi verið nær dauða en lífi af stressi. Grínlaust. Aldrei hafði ég sýnt ókunnugum manni viðlíka af minni getu og brestum. Ég hélt ég myndi kafna úr vanlíðan. Vansæld og stressi. Og hvað ég var fegin þegar hringirnir voru að baki. Bara það að ég skildi ekki þá og ekki lengi vel hvernig maður og hvenær maður á að anda og ég gat alls ekki talið um leið, fór með mig! Þetta var hreint ekki einfalt. Þetta var óskaplegt, óbærilegt og svolítið niðurlægjandi fannst mér. Mikið gat ég þó prísað mig sæla fyrir að Baldur yrði ekki með mér fleiri hringi í salnum – sjúkket. Mest um vert var að halda andliltinu þrátt fyrir svo nákvæmt eftirlit að hafa einhvern fagmann með sér í líkamsrækt. Oh my god en ég mátti ekki láta bilbug á mér finna.

Jábbs – allt að baki að því er ég hélt en karlinn var ekki á sama máli. Upp á skíðin skyldi ég. Og vera þar í 5 mínútur. Oh my god. Við tilhugsunina eina saman fékk ég andateppu, kvíðakast, lenti í oföndun, lamaðist. En upp á skíðin fór ég – dó eftir 15 sek bæði á sál og líkama. Þetta tæki leit ekki hálft eins illa út þegar maður var fjarlægur því og þegar maður var komin upp á það. Nær dauða mínum hef ég ekki komist og heimtaði bæði sjúkrabíl og lækni samstundis. En þá sem oftar sagði Baldur mér að halda áfram og vera amk í 3 mín. Þetta var óbærilegt, illskiljanlegt og óbærilegt. Gott ef einherjir voru ekki líka að horfa. En það var svo sem hjóm eitt við það að bera beinin þarna þar og þá.

Ég skil ekki – og held reyndar enn að það sé klikkun, að halda ekki að hann myndi ganga af mér dauðri þar og þá. Ég meina eru ekki einhver svona mörk sem 100 kg of þungt fólk eða svo þolir? Það virtist ekki vera. Samúð var amk ekki að finna og ég held heldur engan skilning. Ja hann var þá vel dulbúinn!

Þrisvar í viku héðan í frá?
Upp frá þessum degi í byrjun afmælismánaðar míns 2006 hef ég mætt þrisvar sinnum í Styrk í 7 mánuði utan tvisvar sinnum – og þá mætti ég tvisvar. Rain or shine. Ingveldur hefur mætt og við hafa bæst, sund, göngur og hjólreiðar. Og ég er ekki dauð enn.

Ég get sagt ykkur það kinnroðalaust að þessi sjúkraþjálfari sem gerði mér lífið svo leitt í upphafi, sem var svo skilningslaus og þver, illa áttaður og fordómafullur var allt það sem ég þurfti og meira til. Hann var kannski ekki það sem ég óskaði mér… en hann var það sem ég þurfti.

En slagurinn er ekki að baki. Enn eru endalaus verkefni, vandræði og hremmingar. Afhverju? Ég veit það ekki. En ég veit að engir aðrir valkostir eru í boði en að halda áfram þennan veg og vona að samferðarmennirnir verði slíkt eðal fólk hér eftir sem hingað til.