Þetta er óskaplegt. Tíhíhí…. Ég kemst ekki út að labba – (hefði nú einhvern tímann verið fegin því), get hreint ekki farið í neitt sem reynir á fæturnar og varla í vinnuna því ég er skoho ekki göngufær. Er alltaf með einhverja bévaða verki í ökklunum og þar í kring, fyrir neðan og ofan. Sigh… Álagsverki… tíhíhí er það ekki fínt orð. Kannski hef ég farið of geyst – held samt að ég hafi ekki hlustað á það sem kroppurinn sagði og alls ekki brugðist við því. Því sit ég uppi með það að vera með þessa verki. Er eiginlega ekki vinnufær.
Og þó ég gæti hugsanlega mögulega þorað í kálfanudd þá er það ekki fyrr en á miðvikudag og ef kálfarnir á mér eru nuddaðir þá eru ekki herðarnar á mér nuddaðar á meðan né hálsinn og ég sem er orðin svoldið aum þar á ný og farin að fá smá hausverk við og við – sem er svo sem í lagi nema mér lærðist í sumar að svona hausverkur bara ágerist. En ég veit líka að þetta er allt tímabundið og ég á klárlega eftir að jafna mig – þetta er ekkert hættulegt. Þarf bara að breyta svoldið til. En skítt með þetta allt -þetta er allt hluti af ferlinu mínu. No pain no gain. Verð bara að skipta um takt – ég get það vel.
Pallinn minn kemur heim á morgun – litla grjónið. Færeyski gaukurinn minn. Alltaf gott að fá hann heim þó í stutt stopp sé. Mér tókst líka að koma ísskápnum í viðgerð – það hefur nú ekki tekið nema 3 vikur. Aldrei að vita nema mér takist að ganga frá tjaldvagninum á morgun líka.
En stoltust er ég nú yfir því að hafa kosið Magna út í eitt hér eina nóttina – horft á hvað hann var glaður að komast í lokaþáttinn – þá bara fannst mér þetta allt þess virði. Það munar ekki um eina viku enn. Já ég er bara stolt af okkur Íslendingum þessari þjóð sem getur komið Magna til bjargar þegar okkur finnst það henta best en látum öryrkjana sitja á hakanum, Kárahnjúka rísa og hálendið fjúka burt. En Magna skulum við bjarga öll sem eitt – nema þau sem gera lítið úr því áhugamáli okkar og finna því allt til foráttu. Það er eins og maður megi aldrei hafa gaman að neinu – þá sé það svo hallærislegt og lame að skömm er að. Iss ég er bara stolt af þessu – þessi litla Hobbitaþjóð sem vill bara vinna, éta og kjósa Magna má bara alveg uppskera eins og hún sáir. Ojá
Ég ætla að reyna að fara með Bjart í fyrramálið. Gá hvernig ég verð – það er rólegur dagur í skólaum þannig lagað á morgun. Mig langar svo að halda áfram á sömu braut – hreyfa mig að morgni og stunda salinn um miðjan daginn, vinna svo í bland og hitta unglingana mína við og við – og léttast. Mér fannst þetta allt vera komið á svo góðan skrið – en ég má ekki láta þetta slá mig útaf laginu.
Jæja ég er farin að sofa – þetta er orðið gott í dag. Hitti systurnar í bústaðnum hjá Gústu, það er elskulegt að umgangast þær. Dísa er að prjóna á mig legghlífar, Hildur er góðmennskan holdi klædd og Gústa eins og ferskur andblær með smá ádeilu í bland. Það er gott að eiga góða að.
Bestu kveðjur til ykkar hinna,
Inga
