2. ágúst skrifaði ég pistil um það hvort líkamsræktin hefði í raun fært mér allt annað líf en það sem ég átti. Það er sem sagt mánuður síðan ég var í þeim pælingum.
Það er svolítið gaman að skoða stöðuna núna. Þá þótti mér sem þetta væri allt heldur erfitt – og fram að því hefði þetta verið miklu meira erfitt en gaman og gott. Og kannski er það enn svo en þó held ég ekki. Mér finnst síðustu vikur hafa orðið gríðarleg breyting á mér. Breyting sem ég átti í raun ekki endilega von á að yrði strax -já eða nokkurn tímann. Lítið veit sá sem ekkert veit verður mér stundum á að hugsa þegar hreyfing er annars vegar.
Ég er samt ómöguleg í fótunum. Ekki svona fitubolluverkir held ég – enda finn ég ekki oft til í fótunum þó stundum hafi maður nú orðið þreyttur hér í den. Nei þetta eru einhverjir undarlegir verkir – framan á kálfanum en þó nokkuð neðarlega, þreytuverkir í ökklum – ekki nema von eins og ég missteig mig hér í den – það var nú meira fárið. Það var svona fyrir tvítugt.
Ég veit af hnénu sérstaklega því vinstra þessa dagana en mér finnst ég geta stýrt álaginu á það – en kannski ber ég mig þá eitthvað vitlaust.
Ég vissi þó alltaf að ég myndi finna fyrir því að labba – enda stympaðist ég nú lengi við, en sumir höfðu betur ;-).
1. aðgerð við fótaverkjum var að kaupa skó sem kosta á við hús.
Sjáum hvað það gerir.
…já og ég fór í sund – synti 600 metra á ansi góðum skrið – og sæluveran í pottunum – alein að busla. Ég elska sund, vatn já og lífið sjálft.