
Halló – föstudagur næstum liðinni. Besti dagur vikunnar að mínu mati alla jafna. Þessi var samt óvenju strembinn og minnti mig á gamla tíma.
Þetta hefur verið svefnlaus vika hjá Ingveldi og þykir mér sem gengið sé full gróflega á það þrek og aukna orku sem hún hefur þó öðlast með breyttum lífsháttum. Ég bara hreinlega hef ekkert sofið síðustu þrjár nætur. Ja sko ekki nema 2 – 3 klst amk og það ekki einu sinni í einni lotu. Og mér líður svo sannarlega svoleiðis núna – enda ekki að furða.
Í nótt hringdi dóttir mín í mig algjörlega miður sín af verkjum og vanlíðan og sagði að sér hefði liðið illa í tvo daga. Ég bað hana að koma heim frá kærastanum kæra og vera hjá mér svo ég gæti fylgst með henni. Ekki leist mér nú á blikuna og úr varð að við fórum til Reykjavíkur til gömlu góðu læknanna á barnadeildinni og Ragnheiður fór í alls kyns rannsóknir frá 11 að morgninum til 10 um kvöldið. Þetta var nú meiri maraþon dagurinn.
Útilokaðir voru nýrnasteinar sem þeir héldu að e.t.v. hefðu getað verið að hrella hana og vonandi dugir henni bara að skipta um lyf. Stóra rannsóknin fer svo fram síðar í mánuðinum eða í október.
Þessi ferð rifjaði upp bernsku hennar – og spítalaferðirnar, námið í Kennó, Palli á sjónum, blankheitin og ég bara skil ekki hvernig ég komst í gegnum þetta. Þvílíkar hetjur sem við höfum verið – og Ragnheiður að sjálfsögðu sú mesta. Þetta var ekki alltaf auðvelt skal ég segja ykkur. Langveik börn krefjast gríðarlegrar umönnunar og heimilið er allt mótað af umönnun þess. Og ég sver að mér þótti þetta ekkert mál á meðan á þessu stóð – þetta var bara eins og hvað annað – ekki vandamál heldur bara verkefni.
Einn dagur með veikt barn sem þó er allt í einu orðið 17 ára var kærkomin áminning um það hvað við eigum gott, hvað allt gekk vel og hvað við erum heppin að eiga hvert annað og söguna okkar saman. Við höfum svo sannarlega komist vel frá þessu verkefni.
Guð gefi að framhald verði á.