
…spyr fólk í algjörri andakt yfir því að ég skuli stunda einhvers konar hreyfingu á degi hverjum – og hafa gert síðan í byrjun apríl. ,,Finnst þér þetta ekki alveg frábært?“ er líka spurt og svipurinn á fólki lýsir þvílíkri innri spennu og gleði fyrir mína hönd yfir því að ég skuli vera frelsuð frá villu míns vegar – og nú hljóti lífið loksins að brosa við mér- ef ekki hreinlega að hafa tekið á sig guðdómlega mynd. Þessar spurningar og ályktanir fólks sem fylgja henni fæ ég gjarnan þegar ég er í Styrk, í sundlauginni nú eða bara hreinlega á förnum vegi. Þetta er einhvern veginn það fyrsta sem fólki dettur í hug að álykta.
Ekki er allt sem sýnist
Hvernig á maður að svara svona spurningum fólks sem hefur í mesta lagi þurft að bera 4 – 10 smjörlíkisstykki í farangrinum á ævinni? Sumir þeirra hafa svo sem heldur ekkert endilega verið að stunda líkamsrækt í einhverja mánuði heldur í styttri námskeiðum. Það er kannski svolítið eins og að lýsa lykt fyrir þeim sem ekkert lyktarskyn hefur.
Mér líður svolítið eins og þegar fólk var að spyrja mig út í F1 hér um árið þegar ég vissi allt sem þar var að gerast – var vakin og sofin yfir henni og gat sagt fyrir um úslit og atburðarás með ótrúlegri nákvæmni og hafði yfirsýn yfir yfirlag brauta, dekkjagerðir, mismunandi gírkassa og ég veit ekki hvað og hvað. Ég gat einhvern veginn aldrei talað um F1 við fólk. Það var eins og að tala við Grænlending um lífið við miðbaug. Ég varð alltaf ákaflega fámál og tjáði mig lítið – leyfði fólki svona meira að tala. Það er svolítið svipað með spurninguna um alsælu þess að vera í líkamsrækt. Ég get eiginlega ekki svarað þeirri spurningu öðruvísi en neitandi. En samt er svarið að sjálfsögðu og að hluta til játandi. Það er fyrst og fremst ákaflega flókið. Þetta ferli allt er mjög snúið – það er ekki keypt í pökkum frá Herbalife – það er heldur ekki bara árskort í Styrk og nudd við og við. Og það er svo sannarlega ekki allt annað líf uppfullt af sælu og dásemdum.
Yfir fáu að kvarta
Ég átti mér ágætt líf. Og ég á það enn. Ég var ekki ótrúlega vansæl, misþyrmd, eineltis, minnimáttar, lúbarin kona sem lifði í myrku hjónabandi með börn sem voru henni erfiðið eitt. Ég var heldur ekki vansæl í vinnunni minni. Ég er afskaplega heilsuhraust og hef allt frá því ég hóf að vinna sem kennari átt hve fæsta veikindadaga á mínum vinnustað.
Þvert á móti þá er ég bara ánægð með líf mitt. Ég á góða fjölskyldu sem er mér allt. Ég á 9 ótrúlega öflug systkini, minningar um foreldra sem ég virði meira en allt í lífinu, minningar sem gera mig að betri manneskju. Ég var kröftugur krakki, ánægður unglingur með þó allt það sem þeim árum fylgir og ég er í besta starfi í heimi. Af mér eru því engar hryllingssögur að hafa. Ekki meiri en af öðrum jónum og gunnum veraldarsögunnar – jafnvel heldur minni. Ég er ekki úttaugaður offitusjúklingur sem er á bömmer alla daga. Ég ferðast, á mér áhugamál og nýt lífsins á margan hátt – jafnvel á fjölbreyttari hátt en margir þvengmjóir sem ég þekki.
Ég hins vegar varð feit og fitnaði svert til 30 ára aldurs, stoppaði þá og hef heldur minnkað síðan og staðið í stað þó einhver kg hafi bæst við þá hafa þau farið aftur og föt af mér þrítugri eru mér of stór í dag. Afhverju ég varð feit er einfalt – ég borðaði of mikið og hafði ekkert vit á því sem var að gerast í líkama mínum. Ég heyrði sönginn um spikið og fannst að þar sem ég væri dottin í þá gryfju gæti ég allt eins verið í henni.
Vinnan ,,var“ mér allt
Ég er vinnualki. Ég skilgreini mig í gegnum vinnuna – ekki sem húsmóðir, móðir eða eiginkona – ekki heldur sem vinur. Ég er kennari og það hefur mótað allt mitt líf. Ég hef leyft starfinu að taka völdin. Þau völd þarf ég nú að endurheimta. Það er eiginlega það sem ég er að gera núna.
Líkamsræktin var afleiðing alltof mikillar vinnu – ég var komin útað endamörkum hins mögulega. Kannski hefði ég komist enn lengra og sokkið enn dýpra ef ég hefði ekki verið of feit – en allir, mjóir sem feitir hefðu ekki þolað það vinnufyrirkomulag sem ég bauð mér upp á árum saman. Líkamsræktin var ekki einu sinni umbeðið eða ætlað verk. Hún var hugarfóstur sjúkraþjálfarans míns sem ég fór í nudd til í febrúar. Ég sá ekki að ég gæti, vildi né hefði nokkuð í slíkt sprikl að gera. Til þess væri ég allt of þreytt og önnum kafin. Sumarið yrði bara að duga til þess.
Æfingar dauðans
En það fór á annan veg. Sjúkraþjálfarinn minn – sem ég leit á sem nuddar og tæki til þess að hjálpa mér til þess að geta unnið jafn mikið og helst meira en áður hafði allt aðrar hugmyndir um framtíð mína en ég. Ég sprikla og hef spriklað í hverri einustu viku, þrisvar sinnum í heilsurækt, farið í næstum 30 nuddtíma, synt nokkur þúsund metra og farið í allnokkra göngutúra síðan í apríl. Vissulega hefur þetta haft áhrif á líf mitt – og já kannski er þetta allt annað líf en ég átti mér, en kannski ekki í þeirri merkingu sem fólk leggur í það alla jafna.
Þetta er allt annað líf að því leyti að ég verð að setja vinnuna í 3. sætið og mig í það fyrsta og fjölskylduna í annað sæti. Forgangsröðunin er allt önnur. Ég þarf að aðlaga vinnurammann minn næsta vetur að þessu breytta mynstri- ég þarf að breyta starfi mínu sem kennari og ég þarf að breyta mér óumræðilega mikið. Ekki þannig að ég verði ekki lengur þessi óskaplega óhamingjusami offitu sjúklingur sem fólk ætlar að ég hafi verið – heldur þarf ég að breyta áherslum mínum og venjum. Ég þarf að vinna með skrokkinn á hátt sem ég hélt satt að segja að væri ekki mögulegt – og alls ekki manneskjulegt, a.m.k. ekki þegar maður er 100 kg of þungur eða svo. Þar var sjúkraþjálfarinn minn líka á annarri skoðun. Hann bókstaflega hefur tröllatrú á því að ég geti allt mögulegt og þó ég trúi því ekki kemur hann mér í það samt. – Vel að merkja með einhverjum lymskufullum hætti sem ég næ ekki að sjá fyrir og fell því kylliflöt í hverja gryfjuna á fætur annarri.
Sæluríki líkamsræktarinnar
Og hverju á ég svo að svara þegar fólk spyr og er þetta ekki mikill munur, er þetta ekki æðislegt og finnst þér þetta ekki frábært? Það er engu hægt að svara einhvern veginn. Við suma segi ég bara jú þetta er alveg að verða það. Við aðra segi ég hreinlega nei, mér finnst þetta nú miklu meira erfitt en æðislegt. Og ég finn ótrúlega lítinn mun miðað við hvað ég djöflast. Og þá setur alla hljóða – þetta eru ekki hin stöðluðu svör. Það á allt að verða svo æðislegt ef maður ,,bara“ stundar líkamsrækt. En það er ekki þannig. Það er handleggur að koma þessum skrokki áfram, nota vöðva sem maður vissi ekki einu sinni að maður hefði, hamast í tækjum sem maður vissi ekki einu sinni að voru til fyrir nokkrum mánuðum, vera lurkum lamin og með verki í herðum og hálsi, aum í fótunum og vera svo uppgefin að eina raunhæfa leiðin til að komast í gegnum afganginn af deginum er að draga að sér vistir (vel að merkja grænmetis), hafa fjarstýringuna mjög nærri sér og sitja og bíða daginn af sér fyrir framan imbann – alveg þangað til maður þarf að standa upp til að labba út með hundinn…. Þetta er nú alsælan svona í stórum dráttum. Sæluríki líkamsræktarinnar. Hrein unun.
Munurinn gægist fram
Fjórum mánuðum og næstum 60 Styrkferðum síðar er ég farin að finna mun. Ég get farið í útilegu án þess að hvíla mig í tvo daga samfellt á eftir. Ég hef meiri styrk, ég get líka labbað með Bjart næstum daglega í 40 mín. Ég get verið í 25 mín á ógeðstækinu í stað þriggja hér í den. En ég er oft þreytt, finn til í vöðvunum, er aum í fótunum með hælsæri og höfuðverk, seiðing í hálsinum og uppgefin á morgnana. Þetta er engin alsæla. Þetta er ferðalag þreyttrar konu sem hefur unnið alltof mikið í alltof mörg ár, konu sem hefur sett sig í aftursætið en áhugamálið – starfið í framsætið og leyft því að taka völdin. Þetta er ferðalag sem er rétt að hefjast og vonandi verður þetta allt annað líf einn daginn í þeirri merkingu – miklu betra líf. Ég myndi a.m.k. þiggja meira heilbrigði, þrek og úthald. En það er eins og Berglind einkaþjálfari sagði – það er bara hægt að taka einn dag í einu.
Stuðningur er gullvægur
Mér finnst frábært að geta gert þetta með ykkur sem lesið bloggið mitt, nennið að tala við mig um þetta allt og ykkur í Styrk. Ekki síst honum sjúkra mínum sem hefur áreiðanlega ekki enn áttað sig á því hvað hann fékk í hausinn frá þeim í Laugarási í byrjun febrúar 2006. Hann veit a.m.k. klárlega ekki hve ótrúlega miklum breytingum líf mitt hefur tekið eftir að ég lenti í klónum á honum – og það er allt honum að þakka eða kenna, svona eftir því í hvernig skapi ég er. Hver hefði einfaldlega trúað því að Ingveldur færi upp á punkt og prik í líkamsrækt í heilsuræktarstöð án þess að svo mikið að íhuga það hvort hún nennti því eða ekki þrisvar sinnum í viku? Sprangandi þar um með vatnsflösku eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það er hreinlega ekki annað í boði en gera þetta og verkefnið á eftir að endast lengi enn. Vonandi fæ ég áfram góðan stuðning – ég gæti þetta ekki án hans. Þetta er nefnilega allt annað líf – ekki auðveldara líf – en öðruvísi og það er alltaf erfitt að breyta. Það krefst mikils.
Og upphaf þess lífs var ekki nein sæluganga heldur. En nánar um það síðar 😉