Þvílíkur dagur

Stundum á maður algjörlega hroðalega daga – maður opnar augun og veit að framundan bíður ekkert annað en vandræðin. Svo eru aðrir dagar þar sem djúpt inní manni veit maður að rúmið er besti staðurinn til að vera á en byrjunin er þó ekki það hroðalega að hún réttlæti þá ákvörðun. Það var vona dagur hjá mér.

Nóttin var erfið svaf lítið fyrir hósta – drasl um allt hús sem pirraði mig – Aðalsteinn vaknaði þó með miklum ágætum.

Ég gleymdi að þurrka bolinn sem ég ætlaði að vera í á málstofunni, fann ekki skóna mína og tölvukerfið í skólanum var þannig að ég fann ekkert af því sem ég ætlaði að setja inn í glærushowið. Meðmálstofukonan mín stóð sig eins og hetja en ég náði ekki að ljúka við allt efnið og lausu þræðirnir voru bara lausir og ég gat ekki slegið botninn í allt það sem ég hafði talað um – skelfilega lélegt hjá mér en vonandi hefur fólk kveikt á einhverjum perum. Það er þá meira Jónu Björk að þakka en mér.

Svo þurfti ég að keyra Pál í Hveragerði svo pirraðan og geðvondan en hann er að vinna þar í nokkra daga. Svo að ná í Aðalsteinn og svo í Styrk og þetta var eitthvað allt svo leiðinlegt og fúlt að það er ekki fyndið. Svo fór ég og spriklaði og það bara lagaði heilmikið. En dj… er ég þreytt maður. Ég er eins og steikt lúða. SVei mér þá alla mína daga.

Plús í kladdann

Ykkar Inga

…og svo er fríið búið!

Hó hó hó ég á svona skó úti í glugga. Svoldið flottur skal ég segja ykkur. Það er samt eitthvað við hann sem vekur mér vanlíðan – held ég myndi aldrei vilja vera í skóm sem eru eins og laufblöð. Bæði gott og vont sem sagt sem tengist þessum skóm – svolítið eins og sá staður sem ég er á núna. Þó er hið vonda í svolítíð meira magni (og vá Magni er bara umræðuefni þeirra sem horfa á Supernova í dag – hefur náð að heilla ansi marga kallinn).

Ég er búin að vera í fínum strútsleik undanfarið. Já látið svona eins og sumt sé ekki til – þó ég hafi aðeins leitt að því hugann. En bara í mjög skamma stund og grafið svo hausinn enn dýpra í sandinn. Það hefur oft reynst mér vel – amk til skamms tíma.

Nú jæja – á morgun á ég að vera með stutta tölu á námskeiði um kennslu í opnum rýmum. Þegar ég hef leitt hugann að því verkefni hef ég helst hugsað mér hvernig ég geti gert það sem einfaldast og styst og svo hef ég komist að því að það er einmitt hið eina rétta – praktískt og hnitmiðað. Lít á þetta í kvöld og skemmti mér svo bara vel á morgun. Þannig á það að vera.

Svo er það vinnan – það er eitt af því sem ég hef ekki getað hugsað mér að líta í augun á og taka í nefið. Ouch svoldið heavy dæmi sko. En svo kom Ásta í heimsókn í dag, bjargaði mér alveg og svo átti ég dáindis gott spjall við Jónu Björk um fyrirlesturinn á morgun og lífið og tilveruna. Það var líka hressandi.

Heyrið þið svo er ég búin að fatta: Oftast tala ég um eitthvað sem ég hef vit á (það þýðir ekki endilega að það vit sé sérlega vitrænt í augum allra eða það sem ég segi sé viturlegt). Ég tala um kennsluna og Formúluna og svona eitt og annað – en nú eftir að líkamsræktin byrjaði þá hef ég oftar og oftar staðið ráðvillt og ekki vitað hvað ég ætti að segja við ýmsum spurningum Baldurs t.d. – Það er afþví ég hef ekkert vit á því – ég þarf að hugsa um það og svo get ég svarað. Ég þarf minn umþóttunartíma í lífinu. Það er málið – ég hef stundum verið hissa á því hve ég get verið ráðvillt og utanveltu varðandi margt – en það er bara afþví ég er svoldið fyrir að íhuga hlutina – svo get ég blaðrað um þá. Þetta er svoldið mikil uppgötvun – ég er ekki viss um að þið fattið það sem ég meina en þetta var sem sagt uppgötvun dagsins. Vikunnar jafnvel.

Ég á slæma daga í mataræðinu – stelst í nammibita, brauð og svoldið fleira vont fyrir mig. Hef ekki svindlað svona markvisst áður – meira að borða svoldið vitlaust, þetta er erfiður tími. Ég heyri afsakanirnar fyrir að mæta ekki í Styrk, sleppa því að labba með Bjart – kaupa mér ekki hjólið og sitthvað fleira og allar verða þær afbragð og sjálfri mér verstar. En það hjálpar að vera meðvitaður um þær er það ekki.

Jæja elskurnar – munið að eyða smá tíma á hverri aðfararnótt miðvikudags og kjósið Magna – hann þarf að komast í topp 3 held ég – raunhæft topp 5 – spurning um stage presence 😀

Bless gullin mín – eruð þið annars hér?

p.s.: Bjartur var á útihátíð í Miðengi um verslunarmannahelgina – hefur vafalaust skemmt sér vel en er búinn að vera ægilega timbraður – stilltur og hógvær, rólegur og latur jafnvel með hita og hálsbólgu. Litla grjónið en han er að hressast og verða óþægur á ný. Mér er létt. Takk Helga mín fyrir að hafa hundinn svona hjálp er ómetanleg fyrir hundaeigandann.

Svolítið um heilsurækt og heilbrigði..


…það er svolítið merkilegt með þetta allt saman og mig. Stundum er eins og hlutirnir bara gangi og svo er stundum eins og þeir gangi ekki. Og svo finnst manni stundum eins og þeir gangi ekki en samt eru þeir að gera sig.

Heilsufar Ingveldar

Ég fór til læknis um daginn því mér fannst eins og það hlyti að vera eitthvað að mér – svona a.m.k. svolítið. Ég segi nú kannski ekki að ég hafi viljað að það væri t.d. eitthvað hæg í mér efnaskiptin – en það hefði nú verið fín afsökun fyrir því að LÉTTAST NÆSTUM EKKI NEITT heilu og hálfu mánuðina. En neibb ekkert að þeim. Ekkert að hormónabúskapnum, blóðfitan ekki til að tala um nema þá dásama, blóðið eins og í hrossi og ég veit ekki hvað og hvað. Góður grunnur til enn betri heilsu sagði Gylfi. Ojá…. væri nú ágætt ef ég léttist við allt puðið en það gerist nú ekki. Onei. Ja nema smá :D. Þegar ég fór til hans Gylfa læknis þá kom í ljós að ég hjartslátturinn hjá mér er 69 slög á mínútu, súrefnisupptakan eins og hjá langhlaupara, blóðþrýstingurinn svona líka dásamlegur – viljið þið að ég haldi áfram? Sigh… og ég alltaf vælandi og skælandi. Ekkert að mér. Hreint alls ekki neitt – og ég er ósköp voðalega montin af því skal ég segja ykkur. Heilbrigðasta fitubolla á Íslandi svei mér þá. Góður grunnur til enn betri heilsu sagði hann með miklum þunga og væntanlega hugsað til Baldurs í leiðinni. Ég held að hann Gylfi bindi nokkrar vonir við hann Baldur fyrir mína hönd, enda sagðist hann ætla að senda mig til svolítið kröftugs sjúkraþjálfara (sem eyrun námu sem nuddara). Hann bað að vísu bara um léttar æfingar en Baldur hefur nú eitthvað aðra skoðun á því hvað er létt en ég.

Ég er sem sagt komin með það fullkomlega á hreint að það er ekkert að mér og ég ætti bara að bíta á jaxlinn í staðinn fyrir að vera að þessu væli alltaf hreint.

Þegar ekkert virðist ganga þá kannski bara gengur það

Ég var að skoða motionsdagbogen min og þá sá ég svolítið skemmtilegar tölur en hann Palli mældi mig í dag. Ég hef misst svona marga sentimetra síðan 30. apríl:

Yfir brjóst 7
Upphandleggir 5
Mitti 15
Mjaðmir 17
Læri 8

Bara svoldið flott – ekki nema von að fötin mín séu svolítið að víkka ha? Reyndar get ég alls ekki notað föt sem ég var í í mars.

Nú á næstunni ætla ég að skrifa niður smá pistil um hvernig þetta byrjaði allt saman – því það er nú svo sérkennilegt að ég skrifaði ekkert á bloggið mitt um nuddið eða annað á meðan ég var að byrja í því – ekki hóst – fyrstu fréttir af Styrkferðum mínum voru í páskafríinu. En aðdragandinn hefur alveg legið í láginni – sem er svolítið merkilegt verð ég að segja. Vonandi kem ég því í verk áður en ég byrja að vinna.

Ein með öllu….


Í ljósi MJÖG skýrra veðurspár var haldið norður í land á föstudaginn með soninn sem vildi hvergi annars staðar vera (ja nema á Þjóðhátíð og það kom nú ekki til greina) en á Akureyri. Þar átti líka að vera þessi bongóblíða og við sunnan menn þolum alveg svolítið af henni. Eftir að hafa séð að það væri nánast ómögulegt að vera hér sunnan heiða í útilegu án þess að vera með vagninn til eilífðar uppi þá varð þetta æ vænlegri kostur eftir því sem leið á helgina.

Veðrið var svo bara hundleiðinlegt á Akureyri þó það hafi ekki verið kalt. Engin sól að ráði og ef það var sól þá var svo mikill vindur að maður gat ekki nýtt sér hana. Rigning og alles meira og minna – þvílíkt svekkelsi maður. Ég hélt ég yrði ekki eldri svei mér þá úr geðvonsku. En svo jafnaði ég mig nú – maður er jú orðinn vanur slæmri tíð.

Annars var ég ekki betri en unglingarnar – komst í tæri við 50% vodka og drakk heldur ótæpilega af honum. Það var nú mjög gaman sko- var eiginlega með skemmtidagskrá – athyglissjúk eins og ég er. Voðalega óskaplega skemmtilegt að vera hífaður, hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta og það allt saman. Vandinn var bara að vínið gladdi ekki á mér magann. Ég hefði sem sagt alveg gleymt að taka með í reikninginn afhverju ég er hætt að drekka og drekk alls ekki vodka. Minn litli magi þolir bara ekki svona og ég komst að því að kannski er ekki svo mikill munur á unglingadrykkju og miðaldradrykkju – einkennin eru mörg hin sömu. Sigh. En gaman var það meðan það varði – ég svaf eins og engill vaknaði með sára þörf fyrir magatöflurnar mínar sem ég er bara alveg hætt að þurfa að taka eftir lífsstílsbreytinguna miklu! Var bara nokkuð hress – hef amk verið óhressari um dagana svo mikið er víst.

Við tókum bara saman í rólegheitunum og ósköp var nú gott að hafa Pallann með sér við það – verður allt svona þægilegra verð ég að segja. Enda er ég ekki nærri eins aum í fingrunum og únlniðunum. Ætli ég hafi ekki bara verið með einhver eymsli af áreynslunni frekar en gigt í fingrunum 😉 Var nú með hanska alla helgina til vonar og vara enda svoldið fljót að stífna í liðunum í kulda. Já og 18°C hiti á Akureyri er bara ekkert eins hlýtt og á Suðurlandi. Þetta er allt í nösunum á þeim og svo eru þeir enn að tala um að það hafi verið svo gott verður fyrir norðan – HALLÓ það var bara ekkert gott – ekki einu sinni á sunnlenskan mælikvarða.

En jæja nú ætla ég að hugsa um kennslu í opnum rýmum fyrirlesturinn minn sem ég á að halda á föstudaginn og reyna að gera hann svolítið gáfulegan. Nenni því samt alls ekki.

Svo er ég með kvíðaverk yfir Styrk – var að drepast alla helgina maður eftir æfingar Baldurs síðast – sver ykkur það, hversu mikið er hægt að láta mann gera sigh. Og svo át ég alls kyns vitleysu um helgina fyrir nú utan kókið sem ég drakk í gær og orkuna sem ég saup í mig á sunnudagskvöldið. En það er allt í lagi – þetta var bara verslunarmannahelgi og ég gerði eitt og annað sem ég geri ekki aðrar helgar. Það er hægt að vera duglegur næstu daga í staðinn.

…og er þetta ekki allt annað líf?


…spyr fólk í algjörri andakt yfir því að ég skuli stunda einhvers konar hreyfingu á degi hverjum – og hafa gert síðan í byrjun apríl. ,,Finnst þér þetta ekki alveg frábært?“ er líka spurt og svipurinn á fólki lýsir þvílíkri innri spennu og gleði fyrir mína hönd yfir því að ég skuli vera frelsuð frá villu míns vegar – og nú hljóti lífið loksins að brosa við mér- ef ekki hreinlega að hafa tekið á sig guðdómlega mynd. Þessar spurningar og ályktanir fólks sem fylgja henni fæ ég gjarnan þegar ég er í Styrk, í sundlauginni nú eða bara hreinlega á förnum vegi. Þetta er einhvern veginn það fyrsta sem fólki dettur í hug að álykta.

Ekki er allt sem sýnist

Hvernig á maður að svara svona spurningum fólks sem hefur í mesta lagi þurft að bera 4 – 10 smjörlíkisstykki í farangrinum á ævinni? Sumir þeirra hafa svo sem heldur ekkert endilega verið að stunda líkamsrækt í einhverja mánuði heldur í styttri námskeiðum. Það er kannski svolítið eins og að lýsa lykt fyrir þeim sem ekkert lyktarskyn hefur.

Mér líður svolítið eins og þegar fólk var að spyrja mig út í F1 hér um árið þegar ég vissi allt sem þar var að gerast – var vakin og sofin yfir henni og gat sagt fyrir um úslit og atburðarás með ótrúlegri nákvæmni og hafði yfirsýn yfir yfirlag brauta, dekkjagerðir, mismunandi gírkassa og ég veit ekki hvað og hvað. Ég gat einhvern veginn aldrei talað um F1 við fólk. Það var eins og að tala við Grænlending um lífið við miðbaug. Ég varð alltaf ákaflega fámál og tjáði mig lítið – leyfði fólki svona meira að tala. Það er svolítið svipað með spurninguna um alsælu þess að vera í líkamsrækt. Ég get eiginlega ekki svarað þeirri spurningu öðruvísi en neitandi. En samt er svarið að sjálfsögðu og að hluta til játandi. Það er fyrst og fremst ákaflega flókið. Þetta ferli allt er mjög snúið – það er ekki keypt í pökkum frá Herbalife – það er heldur ekki bara árskort í Styrk og nudd við og við. Og það er svo sannarlega ekki allt annað líf uppfullt af sælu og dásemdum.

Yfir fáu að kvarta

Ég átti mér ágætt líf. Og ég á það enn. Ég var ekki ótrúlega vansæl, misþyrmd, eineltis, minnimáttar, lúbarin kona sem lifði í myrku hjónabandi með börn sem voru henni erfiðið eitt. Ég var heldur ekki vansæl í vinnunni minni. Ég er afskaplega heilsuhraust og hef allt frá því ég hóf að vinna sem kennari átt hve fæsta veikindadaga á mínum vinnustað.

Þvert á móti þá er ég bara ánægð með líf mitt. Ég á góða fjölskyldu sem er mér allt. Ég á 9 ótrúlega öflug systkini, minningar um foreldra sem ég virði meira en allt í lífinu, minningar sem gera mig að betri manneskju. Ég var kröftugur krakki, ánægður unglingur með þó allt það sem þeim árum fylgir og ég er í besta starfi í heimi. Af mér eru því engar hryllingssögur að hafa. Ekki meiri en af öðrum jónum og gunnum veraldarsögunnar – jafnvel heldur minni. Ég er ekki úttaugaður offitusjúklingur sem er á bömmer alla daga. Ég ferðast, á mér áhugamál og nýt lífsins á margan hátt – jafnvel á fjölbreyttari hátt en margir þvengmjóir sem ég þekki.

Ég hins vegar varð feit og fitnaði svert til 30 ára aldurs, stoppaði þá og hef heldur minnkað síðan og staðið í stað þó einhver kg hafi bæst við þá hafa þau farið aftur og föt af mér þrítugri eru mér of stór í dag. Afhverju ég varð feit er einfalt – ég borðaði of mikið og hafði ekkert vit á því sem var að gerast í líkama mínum. Ég heyrði sönginn um spikið og fannst að þar sem ég væri dottin í þá gryfju gæti ég allt eins verið í henni.

Vinnan ,,var“ mér allt

Ég er vinnualki. Ég skilgreini mig í gegnum vinnuna – ekki sem húsmóðir, móðir eða eiginkona – ekki heldur sem vinur. Ég er kennari og það hefur mótað allt mitt líf. Ég hef leyft starfinu að taka völdin. Þau völd þarf ég nú að endurheimta. Það er eiginlega það sem ég er að gera núna.

Líkamsræktin var afleiðing alltof mikillar vinnu – ég var komin útað endamörkum hins mögulega. Kannski hefði ég komist enn lengra og sokkið enn dýpra ef ég hefði ekki verið of feit – en allir, mjóir sem feitir hefðu ekki þolað það vinnufyrirkomulag sem ég bauð mér upp á árum saman. Líkamsræktin var ekki einu sinni umbeðið eða ætlað verk. Hún var hugarfóstur sjúkraþjálfarans míns sem ég fór í nudd til í febrúar. Ég sá ekki að ég gæti, vildi né hefði nokkuð í slíkt sprikl að gera. Til þess væri ég allt of þreytt og önnum kafin. Sumarið yrði bara að duga til þess.

Æfingar dauðans

En það fór á annan veg. Sjúkraþjálfarinn minn – sem ég leit á sem nuddar og tæki til þess að hjálpa mér til þess að geta unnið jafn mikið og helst meira en áður hafði allt aðrar hugmyndir um framtíð mína en ég. Ég sprikla og hef spriklað í hverri einustu viku, þrisvar sinnum í heilsurækt, farið í næstum 30 nuddtíma, synt nokkur þúsund metra og farið í allnokkra göngutúra síðan í apríl. Vissulega hefur þetta haft áhrif á líf mitt – og já kannski er þetta allt annað líf en ég átti mér, en kannski ekki í þeirri merkingu sem fólk leggur í það alla jafna.

Þetta er allt annað líf að því leyti að ég verð að setja vinnuna í 3. sætið og mig í það fyrsta og fjölskylduna í annað sæti. Forgangsröðunin er allt önnur. Ég þarf að aðlaga vinnurammann minn næsta vetur að þessu breytta mynstri- ég þarf að breyta starfi mínu sem kennari og ég þarf að breyta mér óumræðilega mikið. Ekki þannig að ég verði ekki lengur þessi óskaplega óhamingjusami offitu sjúklingur sem fólk ætlar að ég hafi verið – heldur þarf ég að breyta áherslum mínum og venjum. Ég þarf að vinna með skrokkinn á hátt sem ég hélt satt að segja að væri ekki mögulegt – og alls ekki manneskjulegt, a.m.k. ekki þegar maður er 100 kg of þungur eða svo. Þar var sjúkraþjálfarinn minn líka á annarri skoðun. Hann bókstaflega hefur tröllatrú á því að ég geti allt mögulegt og þó ég trúi því ekki kemur hann mér í það samt. – Vel að merkja með einhverjum lymskufullum hætti sem ég næ ekki að sjá fyrir og fell því kylliflöt í hverja gryfjuna á fætur annarri.

Sæluríki líkamsræktarinnar

Og hverju á ég svo að svara þegar fólk spyr og er þetta ekki mikill munur, er þetta ekki æðislegt og finnst þér þetta ekki frábært? Það er engu hægt að svara einhvern veginn. Við suma segi ég bara jú þetta er alveg að verða það. Við aðra segi ég hreinlega nei, mér finnst þetta nú miklu meira erfitt en æðislegt. Og ég finn ótrúlega lítinn mun miðað við hvað ég djöflast. Og þá setur alla hljóða – þetta eru ekki hin stöðluðu svör. Það á allt að verða svo æðislegt ef maður ,,bara“ stundar líkamsrækt. En það er ekki þannig. Það er handleggur að koma þessum skrokki áfram, nota vöðva sem maður vissi ekki einu sinni að maður hefði, hamast í tækjum sem maður vissi ekki einu sinni að voru til fyrir nokkrum mánuðum, vera lurkum lamin og með verki í herðum og hálsi, aum í fótunum og vera svo uppgefin að eina raunhæfa leiðin til að komast í gegnum afganginn af deginum er að draga að sér vistir (vel að merkja grænmetis), hafa fjarstýringuna mjög nærri sér og sitja og bíða daginn af sér fyrir framan imbann – alveg þangað til maður þarf að standa upp til að labba út með hundinn…. Þetta er nú alsælan svona í stórum dráttum. Sæluríki líkamsræktarinnar. Hrein unun.

Munurinn gægist fram

Fjórum mánuðum og næstum 60 Styrkferðum síðar er ég farin að finna mun. Ég get farið í útilegu án þess að hvíla mig í tvo daga samfellt á eftir. Ég hef meiri styrk, ég get líka labbað með Bjart næstum daglega í 40 mín. Ég get verið í 25 mín á ógeðstækinu í stað þriggja hér í den. En ég er oft þreytt, finn til í vöðvunum, er aum í fótunum með hælsæri og höfuðverk, seiðing í hálsinum og uppgefin á morgnana. Þetta er engin alsæla. Þetta er ferðalag þreyttrar konu sem hefur unnið alltof mikið í alltof mörg ár, konu sem hefur sett sig í aftursætið en áhugamálið – starfið í framsætið og leyft því að taka völdin. Þetta er ferðalag sem er rétt að hefjast og vonandi verður þetta allt annað líf einn daginn í þeirri merkingu – miklu betra líf. Ég myndi a.m.k. þiggja meira heilbrigði, þrek og úthald. En það er eins og Berglind einkaþjálfari sagði – það er bara hægt að taka einn dag í einu.

Stuðningur er gullvægur

Mér finnst frábært að geta gert þetta með ykkur sem lesið bloggið mitt, nennið að tala við mig um þetta allt og ykkur í Styrk. Ekki síst honum sjúkra mínum sem hefur áreiðanlega ekki enn áttað sig á því hvað hann fékk í hausinn frá þeim í Laugarási í byrjun febrúar 2006. Hann veit a.m.k. klárlega ekki hve ótrúlega miklum breytingum líf mitt hefur tekið eftir að ég lenti í klónum á honum – og það er allt honum að þakka eða kenna, svona eftir því í hvernig skapi ég er. Hver hefði einfaldlega trúað því að Ingveldur færi upp á punkt og prik í líkamsrækt í heilsuræktarstöð án þess að svo mikið að íhuga það hvort hún nennti því eða ekki þrisvar sinnum í viku? Sprangandi þar um með vatnsflösku eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það er hreinlega ekki annað í boði en gera þetta og verkefnið á eftir að endast lengi enn. Vonandi fæ ég áfram góðan stuðning – ég gæti þetta ekki án hans. Þetta er nefnilega allt annað líf – ekki auðveldara líf – en öðruvísi og það er alltaf erfitt að breyta. Það krefst mikils.

Og upphaf þess lífs var ekki nein sæluganga heldur. En nánar um það síðar 😉

Góðar fréttir


Haldið þið ekki að ég sé að taka til- með smá athyglishléi núna að vísu :D.

Ég er líka að fara í bæinn að sækja Pallann minn og kaupa dúk í fortjaldið – ojá. Ef það verður rigning í marga daga þá er nauðsynlegt að hafa hann held ég.

Nú svo er ég að hugsa um að fara í Styrk – þarf að hugsa það svoldið vel þar sem ég á að mæta á morgun líka og því stendur valið um fimmtudag og föstudag í æfingum eða miðvikudag og fimmtudag. Þetta er sko ho mjög flókið mál!

Ég er svoldið ringluð – ég er aum í fótunum og svoldið eftir mig eitthvað -og ætti því e.t.v. að vera í rólegri málum í dag en mér finnst það eiginlega ekki ganga.

Skítt með það. Ég er æði, þið eruð æði og þessi skór er æði – tjú tjú tralla – ætla að halda áfram að taka til – smá að lesa um Magna samt á netinu. Lof jú

Ingos

Hef lokið þegnskylduvinnunni


Ég hef lokið við þá skyldu mína sem Íslendings og tónelskandi manneskju sem ég er: 20 mín í að kjósa Magna. Ekki það þó hann lendi í botn 3 þá held ég það sé útilokað að þeir sendi hann heim. En sem sagt stóðuð þið ykkur svona vel?
Þið þurfið ekki einu sinni að horfa bara fara á http://www.rockstar.msn.com og velja vote og kjósa your arse off 😀 . Þið stillið bara vekjarklukkurnar og gerið þetta næst.

Hvað haldiði – sól og hiti í heilan dag!


Hó hó og hí hí! Svei mér þá alla mína daga – ég varð svo hissa þegar ég vaknaði í morgun og sá alla þessa sól að ég dreif mig í að hringja í Þórunni og setjast út – læsti mig úti while I’m at it en sem betur fer kom sonur minn heim í nótt frá Lifrarpollinum sæll og ánægður og vaknaði til að hleypa mér inn – sem er í sjálfu sér aðdáunarvert eins og hann getur sofið fast.

Ekkert vit í matar-æðinu

Ekki fór ég í Bónus í dag að versla – onei. Það þýðir að rugl verður á matnum langt fram á morgundag, því Palli kemur víst heim þá en við höfum farist svo hrottalega á mis síðustu daga að ég hef ekki heyrt í honum í óratíma. Aldeilis sérkennilegt að eiga mann og heyra aldrei í honum ;-). En það verður þá bara enn skemmtilegra þegar við sjáumst vænti ég. Ég bara verð að versla skipulega inn og elda af einhverju viti – afhverju læt ég alltaf eins og ég hafi ekki tíma í það?

Dregur frá

Enn rofar til í höfðinu á mér – þvílíkur doði sem hefur heltekið mig í allt sumar að það er alveg með ólíkindum. Það er greinilega ekki tekið út með sældinni að koma sér í form og hreyfa sig upp á hvern dag. Það fer bráðum að nálgast hálfs árs afmæli þetta heilsuferli – þó um of sé að segja að ég hafi byrjað að sprikla þá strax – en þá hófst heilaþvotturinn. Ég er búin að vera í 4 mán. í ræktinni – það er nú ekki meira. Sumir segja að það sé bara gott úthald – kannski er það líka erfiðasti tíminn – ég vona amk að ég gangi ekki í gegnum viðlíka torture tímabil og ég hef farið í gegnum nú í sumar. Ég veit hins vegar að mér á eftir að leiðast, nenna ekki og vilja svíkjast um og þá bý ég vonandi að þessu sem ég hef gert í sumar – þessari skilyrðingu – í ræktina skaltu no matter what. Og svo heldur Bjartur minn mér líka á mottunni.

Hundalíf

Bjartur beit svo í tunguna í sér í göngunni áðan greyið að blóðið lak úr munninum – enda ekki litlir rykkir sem verða í þessari baráttu okkar Bjarts. Sem betur fór gekk ég fram á stráka sem voru að þvo bíl og þeir gáfu okkur vatn þannig að blóðbaðið rénaði. Ég var með slátur með í för og það róaði hann svolítið og hann er alltaf voða góður seinni partinn þegar við erum komn á gangstéttina. Gaman væri að fara einhverja frumlegri leiðir – kannski förum við og prófum Hellislandið einhvern tímann á næstunni. Þrastarlundur kemur svo sterkur inn í haust – þá er ekki útilegufólk þar. Það var aldrei maður þar síðastliðinn vetur þegar við gengum þar um.

Versló

Ég hef ekki hugmynd um hvað skal gera um verslunarmannahelgina. Aðalsteinn vill fara til Akureyrar – ég fer ekki þangað með hundinn það er klárt. Það er leiðindaspá fyrir Suðurlandið – yes right since when? Og svo langar mig ekki neitt í neitt argaþras. Æ ég veit það svei mér ekki hvað skal gera. Þingvellir? Það er svo sem stutt að fara ef eitthvað kemur uppá en mér líst ekkert á þessa Akureyrarferð sonarins. Ekki hægt að biðja annað fólk um hann finnst mér á svona stundum. Meiri vesenishelgin þessi Verlunarmannahelgi.

En nú líður að því að ég verði að fara að huga að fyrirlestrinum mínum. Annað bara gengur ekki. Ég verð bara almennt séð að fara að haga mér eins og vitiborin manneskja – það væri til bóta.

Bestu kveðjur frá fyrirlesaranum 😉

huhummm

Finnst ykkur hægt…


…að ég sé eins og þurrkuð sveskja á sálinni?

…að ég eigi að halda fyrirlestur um kennslu í opnum rýmum eftir nokkra daga og ég hef ekki hugmynd um hvernig ég sný mér í því?

…að ég sé ekki uppfull af dásamlegri orku og starfsgleði eftir heilt sumar í fríi og sjálfstyrkingu?

…að ég sef eiginlega ekki neitt?

…að ég hef eiginlega ekki hitt neitt ykkar í sumar?

…já svona almennt sé þá sé sumarið á enda bráðum?

En amk er komið myrkur og þá er allt svo rómó!