Lélegur dagur


Jább hundlélegur. Gekk samt vel í skólanum sko. Bara hreint ágætlega. Ég hef komist að því að mér þykja börn bara hreint ekki leiðinlegt fólk. Og krakkarnir í Sunnulæk eru öllum öðrum betri svei mér þá.

Hitti nokkur ný börn í dag sem ég þekkti lítið úr 4. og 5. bekk sem bræddu alveg í mér hjartað. Meiri grjónin. Hæfilega óþægir drengir hafa einhvern sjarma sem ég bara fæ ekki staðist.

Miðvikudagar eru ekki góðir Styrkdagar nema annan hvern – ég er á fundi til fjögur og uppúr fimm er bara orðið of fjölmennt fyrir minn smekk. Þannig að ég held ég verði að fara á þriðjudegi aðra vikuna en miðvikudaga hina. Það er allt í lagi. Ég ræð við það.

Ég gerði vooða lítið í dag í brennslunni – náði varla 30 mín – var þreytt og við Vilborg á hálfgerðum bömmer yfir lífinu og tilverunni – ætli það heiti ekki þreyttar. En ég tók rosa vel á í æfingunum – eða þannig. Slóraði svolítið og slugsaði – en allt er betra en ekkert. Það er nú svoldið að kenna 8 tíma í strikklotu. Annan daginn í röð meira að segja. Þeir verða ekkert lamb að leika sér við þriðjudagarnir og miðvikudagarnir. Eitthvað er ég nú í gati samt á þriðjudögum. En nóg um þetta raus.

Vigtin…Hva er að þessari vigt. Hún lét bara eins og hún átti að gera á mánudaginn en í dag var hún ekkert nema leiðindin – með uppsteit og viðbjóðslegheit. Ég held ég geti lofað því að það fari ekki 2 kg í ágúst. Ég ætla nú samt að reyna…. Annars lendi ég í einhverjum vooða – og verð náttúrulega heldur hægar Cindy Crawford look alike.

Og þess má geta að það verður ekki mér að kenna ef Magni fer heim í kvöld. Ég var í 40 mín að kjósa hann í nótt og var svo upprifin yfir þessu öllu saman að ég svaf hvorki á undan né eftir þáttinn nema bara að mjög litlu leyti. Ó mig auma.

…svoldið spes


… held ég hafi þurft að fara í Styrk í dag! Er á fundi á morgun og fimmtudag. Hmmm er mér að förlast, fapast flugið? Tíhíhí. Reyni bara að fara seint á morgun. Hlýt að ná áður en fimm skriðan skellur á.

Svo er annað svoldið spes. Ég er í vinnunni. Er að reyna að átta mig á hlutunum… Gengur hægt og ekki endilega örugglega…

Enskusmiðja á morgun og það er svona varla að ég hafi yfirsýn yfir hvað ég ætla að gera í 4 tíma – ein með heldur betur ókunnuga krakka…

En ég redda því enda svo mikill reddari… huhmmm

Ég held ég sé hætt að hafa áhyggjur af vinnutímanum mínum – ég held ég nái því alveg að sinna minni vinnu eins og tímaramminn býður. Fer samt ekki ofan af því að það er mikið að vinna frá 8 til 17:40 daglega – plús svo það sem ég bæti við af fúsum og frjálsum vilja…

En ég er spræk, Helga búin að redda mér barnabelti fyrir Bjart minn. Já það skín bara sól á Ingveldi þrátt fyrir allan tímaskort hér í skólanum. Og börnin voru yndisleg í dag þrátt fyrir allt. Tómir snillingar náttúrulega. Og þau eru mér svo mikils virði.

Nóg í bili.

Skyldi annars ísskápurinn minn einhvern tímann læknast af þeirri þráhyggju að halda að hann sé frystiskápur? Þarf að hringja í fræðinginn og gá að hverju hann komst með sálartetrið í honum.

Mér finnst það að eiga bilaðan ísskáp vera pottþétt ástæða (ekki einu sinni afsökun) fyrir því að skila ekki matardagbók sem ónefndum snillingi datt í hug að ég gerði eftir viku tíma eða svo…

Annars á ég heldur von á því að ég hafi ekki tíma til þess og gleymi því önnunum – ojá þannig gerast nú kaupin á eyrinni um þessar mundir…

Hvað á ég að gera?

Ég væri til í að fara til Parísar – ojá.

Ég léttist ekki neitt og þá meina ég ekki neitt – ekki gramm í ágúst. Ekki var það nú mikið í júlí en þó meira en það sem á sér stað núna. Ég held mig langi ekki til að léttast….

Það er eina ástæðan sem mér dettur í hug. …fyrst ég er ekki með einhvern merkilega efnaskiptasjúkdóm.

Baldur þrjóskupúki og stigvélin

Það var letibragur á minni í morgun. Fór sem sagt ekki með hundinn. Fann mér margar ágætar afsakanir fyrir því að gera það ekki. Held þeim fyrir mig. Hangi enn á því að ég ætlaði ekki að labba á morgnana um helgar. Enda finnst mér nú eiginlega bara nóg um hvað lagt er á á mína breiðu fætur. Ég er aum á hinum undarlegustu stöðum – lengi má manninn reyna.

Stundum finnst mér bara eins og ég sé ekkert í betra formi. Kannski eru bara kröfurnar aðrar – viðmiðin önnur. Ég er samt hundfúl með þennan stiga hér í skólanum – dj er hann erfiður maður. Vilborg segist vera farin að hlaupa hann upp – mér finnst ég eiga alveg jafn erfitt með hann og áður – en kannski er ég ekki eins móð og fljótari að jafna mig – það gæti hugsanlega mögulega verið.

Nú er komin ný breyta inn í líf mitt – stigvélin í Styrk – fyrir svo utan morgungöngurnar (sigh). Þetta tvennt sannar að ég hef sáralítil prinsipp – og þau fjúka fyrr eða síðar ef ég hef þau. Enda er kannski bara asnalegt að hafa prinsipp sem standa manni fyrir þrifum. Það er kannski einhver skynsemisglæta í hausnum á mér.

En sem sagt aftur að stigvélinni. – Ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkkur frá aðdraganda þess að að ég prófaði hana – ef svo er þá bara skítt með það – enda eru allir hættir að lesa þessa síðu hvort sem er :D.

Undanfarnar vikur – kannski mánuði, hefur minn kæri og óbilandi trú á Ingveldi hafi, Baldur verið að nefna að nú væri bara stigvélin eftir hjá mér og svo hefur hann verið að babla um hana í annan tíma líka og öðru samhengi sem ég bara man ekki hvert var – því ég ákvað að hvorki heyra eða sjá apparatið sjálft né allt hans tal um það. Ég ætlaði ekki að vera sú sem bryti þetta tæki og gerði mig almennt séð að fífli á því. Enda gæti ég ekki verið á því – ég hafði séð nógu mikið til Vilborgar á því til þess að vita það ojá – og hananú.

Ég leyfði því honum Baldri mínum að tala alveg eins og hann lysti um þessa stigvél – hún kom mér ekki við frekar en ég veit ekki hvað. Og þetta bragð mitt gékk svo sallavel. Baldur talaði og ég hlustaði ekki. Fínt fyrirkomulag.

Sá hinn sami Baldur ákvað réttilega að kominn væri tími fyrir mig að skipta um æfingar í salnum – ég var svo sem ekki neitt endilega á því – enda taldi ég mig vera í ágætum málum og ekki leiddist mér neitt sérlega mikið og nóg svitnaði ég. Ég fékk nú samt nýjan skammt – fyrst fyrir fætur – og svo fór ég annan tíma með honum og lærði nýjar æfingar fyrir efri hluta líkamans. Allt ægilega fínt. Og mun erfiðara en fyrr – þannig að þar fór það að ég væri að gera nóg ;-). Í síðari tímanum með Baldri laumaði hann sér á bak við þar sem hjólið og stigvélin eru og sagði mér að koma. Ég var svo blönk og lítið að hugsa um stigvélina að ég var lengi að skilja að hann raunverulega ætlaðist til þess að ég stigi upp á þetta drápstæki. Þegar sá ógnvænlegi raunveruleiki síaðist inn sagði ég náttúrulega bara NEI. Og ætlaði ,,bara“ að fara á mitt ógeðstæki og ljúka brennslunni þar. En hann lét sig ekki. Ég ekki heldur — og það sem meira var ég ætlaði ekki að láta mig, fjandinn hafi það maður hefur nú einhverja sjálfsvirðingu! (þó einhvern tímann í ferlinu laumaðist það inn í kollinn á mér að það væri ekki til neins að neita – ég endaði alltaf á því að gera allt sem hann segði mér að gera – sú hugsun varð ekki til að auka mér vellíðan!).

Og þar sem ég stóð þarna ekki viss á því hvort ég væri miðaldra kona að fá taugaáfall eða óþægur krakki í frekjukasti hélt hann fast í þá skoðun sína að í dag væri dagurinn sem ég FÆRI á stigvélina. Ég stóð og stappaði niður fótunum og sagðist ekkert ætla á þetta tæki (nokkur augu voru farin að beinast að okkur Baldri á þessum tímapunkti en mér var sko sama!!)- hann skyldi bara skilja það í eitt skipti fyrir öll. Og þá spurði hann mig einfaldlega að því hvort ég vildi að hann næði í mig og setti mig upp á það?

Þar sem ég hef séð nokkuð til hans í salnum vippa einhverjum stöngum með óteljandi drasli hangandi á, gat ég allt eins trúað því að hann myndi bæði fara létt með að drösla mér þarna yfir og hafa auk þess, nokkurn styrk til þess lyfta mér upp á tækið. Þegar þetta rann upp fyrir mér, fannst mér kannski rétt að nálgast manninn og reyna að tala af meiri hægð og rökfestu við hann en fyrr – fyrir aðferðir höfðu augljóslega ekki virkað. Nú yrði hin rökfasta Ingveldur að taka við.

Ég reyndi að leiða honum það fyrir sjónir hvað það væri leiðinlegt að ég myndi (ekki ef) brjóta tækið, þá vantaði eitt – ekki málið þau vildu gjarnan fá nýtt og það kæmi þá úr tryggingunum. Þá var bara að leiða honum það fyrir sjónir að ég gæti þetta ekki, vildi hann virkilega gera mér svo illt að ég bæri beinin þar og þá? – En þar var hann mér algjörlega ósammála – maðurinn virðist hafa tröllatrú á mér – veit ekki alveg hvort það er gott eða slæmt svei mér þá eða á rökum reist(ég meina það má nú of mikið af öllu vera!).

Uppá tækið fór ég og reifst þar og skammaðist, nötraði og skalf enn ekki viss um hvort ég væri umkomulaust barn eða úttaugaður offitusjúklingur á fimmtugsaldri….

En sem sagt – 2 mín með 1 mín í rifrildi entist ég á stillingu eitt og Baldur sagði mér að nú skyldi ég leggja tilfinninguna á minnið því það væri gaman að hugsa til hennar þegar ég færi 20 mín á tækinu. En það get ég sagt ykkur að stigvél er EKKI tæki sem ætlast er til að nein mannlega vera hangi á í 20 mín!!! Það er ómanneskjulegt. Getur ekki verið að fólk geri það. Þetta era.m.k. hreinlega ekki þess eðlis að það sé mögulegt að ég geti það – svo mikið er víst.

En ég ætla að lengja tímann – og hafi ég einhvern tímann svitnað þá er að hjóm eitt miðað við þarna á þessu. Þarf að passa hnén mín en þetta á líka að vera mjög gott fyrir þau því þetta styrkir vöðvana þar í kring. Það eru rök sem ég get keypt….

Sem sagt 4 mín á stillingu 3 núna. Kannski fyrir jól verði ég komin eitthvað lengra.

Og ég játa mig sigraða á öllum vígstöðvum.

Margt af því sem maður telur sig ekki geta stafar af ótta við mistök en ekki síðri er óttinn við það að komast að því sem maður telur sig vita – hinn óhugnalegi sannleikur blasi við. Hin lélega sjálfsmynd sé í raun á rökum reist.

Með því einu að takast á við óttann getur maður bætt sig. En fyrst þarf óttinn að verða áþreifanlegur óvinur en ekki dulbúin prinsipp og þá er gott að hafa einhvern með sér í slagnum. Ég er svo óendanlega heppin að hafa það.

Þó mér líði ekki alltaf eins og að aðstoðarmaður minn sé að horfa í sömu átt og ég…

Menningar,,nótt" og laugardagur í vinnu

Ég þoli ekki menningarnótt – vera að stefna ungu fólki á eitthvað helv… rugl í bæinn. Ég gat ekki stoppað sílin mín að fara fyrir mitt litla líf. Ég vona bara að þau komist heil frá þessu og Aðalsteinn skili sér heim – hann er nú þegar farinn að svara EKKI í símann sinn. Nappaði með sér bjórum hér eins og fínn maður. Já það eru sumir sem halda að þeir séu fullorðnir verð ég að segja. Vona bara að hann gefi með sér af bjórnum – hefur ekki gott af þeim sjálfur einn.

Þetta er nú annars svei mér ljótur skór. Ég myndi ekki láta sjá mig í honum. Hann er eiginlega of ljótur fyrir daginn í dag vona ég. En hællinn er svo helvíti flottur. Hann gæti kannski táknað mataræðið hjá mér þessa dagana ;-). Að mestu í ólagi en sumt svakalega fínt!

Ég snuddaðist hér heima í morgun – gerði ekkert af viti en færði til hluti á borðum mest. Fór svo út í skóla og gerði að mestu það sama. Var að skoða Geisla 2 og verð að teljast heppin ef ég kemst sjálf í gegnum hann 😉 Nei ég segi svona tíhíhí. Hann er nokkuð strembinn verð ég að segja. Þarf mikla yfirlegu.

Fann söguramma fyrir enskuna, fann dótið mitt og kom því fyrir inni í kringlu og gerði hæfilega draslaralegt í kringum mig svo mér liði vel. Þetta verður eitthvað maður minn. 31 tími. Hef ekki kennt svona mikið síðan í fyrr heimstyrjöldinni svei mér þá. Á að vera búin að verða sex alla daga nema föstudaga þá er ég til fimm held ég. Ég verð að búa mér til gáfulegan vinnuramma og mér sýnist laugardagar vera inni í myndinni – nú eða sunnudagur – þeir eru að mörgu leyti betri til vinnu en laugardagar. Meiri helgi í manni fyrri frídaginn.

ÉG hef miklar áhyggjur af hálsinum á Bjarti hann er mjög aumur og ég hef ekki fundið réttu ólina fyrir hann. – Verð að fara í það af alefli eftir mánaðarmótin – mikið er annars langt í þau……

Jamm…

Ætti að fara með Bjart útí sveit að hlaupa en ég bara nenni því ekki – fer einn góðan sprett í fyrramálið í staðinn áður en ég fer út í skóla.

Ykkar Inga kennari

Jáhá…


Jæja dúllurnar mínar. Nú er ég búin að vinna í 4 daga og nánast ekki gert neitt nema komið stöðvabókinni á koppinn og reynt að átta mig á veröld þar sem líkamsrækt tekur 8 klst af hverri vinnuviku. Það er nú bara allnokkuð og hefur áhrif á vinnuframlagið.

Ég hef því hætt við að taka til hér í húsinu um helgina og bara vinna í staðinn. Ég er ekkert farin að grufla í mínu dóti eða líta á námsefnið. Ég get ekki tekið á móti nemendunum nema gera það verð ég nú að segja.

Líkamsræktin hefur annars gengið vel. Ég er rosalega ánægð með nýju æfingarnar hans Baldurs. Líður mjög vel eftir hvern tíma þó mikið sé púlað að mínu mati. Sumir telja þó að alltaf megi gera betur :D. Það er svo sem ágætt að hafa einhvern svoleiðis með sér í liði.

Mataræðið er hins vegar ekki eins gott – allt gengur vel í skólanum og alveg framyfir kvöldmat en svo byrja ósköpin – kvöldin eru hræðileg núna. Eða amk skelfileg. Ræð ekki alveg við sykurþörfina. VERÐ að taka á því. Eiga eitthvað ,,gott“ á kvöldin sem gerir mér ekki svona slæmt. En ég má ekki heldur berja of mikið á mér – þá fer ég bara neðar og ét meira.

…það tók Baldur ekki nema hálft ár að koma mér út að labba á morgnana – en nú hef ég farið tvo morgna með hundinn í göngu í 25 mín og svo með Aðalstein á Kiðjaberg, þá útbúið nesti fyrir daginn og svo farið í vinnuna. Ég finn alveg að það er ástæða fyrir þessu óskapar tuði í manninum með þetta. Ég svitna miklu meira en á kvöldin, verð alveg banhungruð allan morguninn og líður bara ágætlega nema ég verð svolítið stirð strax á eftir því ég sit svo mikið í kjölfarið. Vonandi gengur mér þetta vel áfram – verð bara að fá öðruvísi ól á hann Bjart minn því hann er svo aumur í hálsinum eftir lætin í sjálfum sér.

En jæja – heyrumst kannski á morgun – ekki ólíklegt ég taki mér athyglishlé til að blogga,

lofjaall

Back to School


Jahá….

Ég hef nú löngum verið góð á fyrirlestrum – einbeitingin dugar ekki alveg út klukkutímana… Það kemur kannski smám saman – með aldrinum, auknum þroska og því öllu.

Bara spurning hvernig ég fæ það allt saman…

Kannski eiga fleiri svoldið erfitt með þetta… Mér sýnist það nú kannski.

Svei mér margir sem hafa byrjað að vinna hér í haust – ég þarf bara læra nöfnin… Ég er að æfa mig í því.

Ég átti að vera á fundi um kennaranemunum mínum í gær – mætti ekki, er ekki alveg viss um að ég hafi sett það inn á harða diskinn. Ég þarf líka að hugsa um þessa ensku-smiðju mína. Það verður nú svolítill handleggur. Ég þarf líka að leggjast yfir stærðfræðina…. Ég þarf svona almennt að fara að huga að vinnunni – og láta það vera innan vinnuramma… Tíhíhí – það verður spennandi. Svei mér krefjandi verkefni…

Og ég verð að passa að nenna að labba með Bjart…

Jább margt að gera á stórum bæ. Eins gott að vera vel skóaður.

Síðasti dagur sumarfrísins 2006


Skór sumarsins 2006 á góðum degi – ja svona þokkalegum!


Nú er þetta bara búið krakkar – sumarfríið mitt! Óskiljanlegt og ótrúlegt. Maður einhvern veginn heldur að sumarið sé tíminn þar sem allt á að vera svo yndislegt, endurnærandi og einstakt. Kannski leyfar frá bernskunni. Þá voru nú sumrin yndislegt. Þau voru tíminn. Stundum tregablandin á unglingsárunum en alltaf með einhvern sjarma sem erfitt er að skilgreina.
Og hvernig var svo sumarið í ár? Veðrið var að minnsta kosti skítt – mjög skítt. Við notuðum samt tjaldvagninn töluvert. Fórum í fyrstu útileguna á Flúðir og vorum þar í tvær nætur. Svo fórum við Þórunn til Þingvalla og vorum þar líka í 2 nætur. Þrastarlundur með Palla fjölskyldu og Hildi systur og Daða og Olgu í 2 nætur en þar á undan vorum við 1 nótt á Þingvöllum og svo gerði þar mikið rok. Svo lá leiðin með Hildi og Björk í Kiðjaberg og þar var ég í 4 nætur og Gaui var með.
Fossatún með sls genginu í 2 nætur. Akureyri í 3 nætur um verslunarmannahelgina. Þingvellir með minni fjölskyldu í 2 nætur nú um helgina – með kvef og vandræði hóstaði eins og brjáluð manneskja og komst ekki í brúðkaupið hennar Sigurlínar – á aldrei eftir að fyrirgefa mér það! En það var ekki mönnum bjóðandi að heyra í mér hóstann inn á milli ræðanna.
Nú… Ég byrjaði alla daga á því að keyra Aðalstein í Kiðjaberg og sækja hann svo kl. 16:00 – nokkuð sem ég ætla ekki að gera næsta sumar – gríðarlega dýrt, tímafrekt og bindandi og hefur af manni sumarfríið í stórum dráttum.
Labbaði með Bjart alla daga nema í ágúst – hef ekkert labbað með hann að ráði núna – en það lagast á morgun, fór alltaf þrisvar í viku í Styrk – alltaf og stundum oftar. Synti mikið í júní en minna í júlí og ekkert í ágúst. Fór svolítið í nudd – stundum mikið því ég fékk ægilegan höfuðverk á tímabili sem Baldur læknaði – ojá.
Léttist um 5 kg. – Já ég varð nú svoldið hissa á þessari tölu – frá 10. jún til dagsins í dag… kannski ekki heimsmet en miðað við hvað ég var mikið í útilegu og rugli þá má þetta nú bara heita gott.
Jamm…. Þetta er það helsta – einfalt tilþrifalítið sumar sem einkenndist ekki af því að gera ekki neitt eins og ég hélt – heldur töluverðu róti, akstri og stússi.
Á föstudaginn og í dag voru fyrstu tvö skiptin sem ég hef farið í Styrk og gengið þaðan út og hugsað, ógeðslega líður mér vel þó ég sé uppgefin. Ég finn meira að segja að ég er byrjuð að lækna mig sjálf með hreyfingunni – ég er kannski aum daginn áður en mýkist svo öll upp í æfingunum mínum. Ég held reyndar að nýju æfingarnar séu algjör snilld – þær reyna ekki eins mikið á liðamótin t.d. eins og úlnliðina og tækin sjálf. Nú þarf ég bara að taka vel á, á hjólinu því ef ég ætla að verða hjólreiðagarpur þá verð ég að styrkja fæturnar og venjast því að hjóla í 20 mín. Hahumm… það er reyndar ekkert ef. Það verður.
Það eru að vísu ansi mörg ef í gangi núna – svindla eins og ég lifandi get í mataræðinu og tel mér trú um að fyrir því séu ákaflega góðar aðstæður. Í dag var ég helst á því að ég þyrfti ekkert að hitta Baldur meira – ég væri alveg orðin góð, næsta skref væri að blogga sjaldnar, tala um annir og slíkt…. Ég er býsna lunkin við að finna mér undankomuleið – það er gamall vani sem erfitt er að drepa. Ég vona bara að þeir sem það þurfa sjái í gegnum bullið.