Baldur þrjóskupúki og stigvélin

Það var letibragur á minni í morgun. Fór sem sagt ekki með hundinn. Fann mér margar ágætar afsakanir fyrir því að gera það ekki. Held þeim fyrir mig. Hangi enn á því að ég ætlaði ekki að labba á morgnana um helgar. Enda finnst mér nú eiginlega bara nóg um hvað lagt er á á mína breiðu fætur. Ég er aum á hinum undarlegustu stöðum – lengi má manninn reyna.

Stundum finnst mér bara eins og ég sé ekkert í betra formi. Kannski eru bara kröfurnar aðrar – viðmiðin önnur. Ég er samt hundfúl með þennan stiga hér í skólanum – dj er hann erfiður maður. Vilborg segist vera farin að hlaupa hann upp – mér finnst ég eiga alveg jafn erfitt með hann og áður – en kannski er ég ekki eins móð og fljótari að jafna mig – það gæti hugsanlega mögulega verið.

Nú er komin ný breyta inn í líf mitt – stigvélin í Styrk – fyrir svo utan morgungöngurnar (sigh). Þetta tvennt sannar að ég hef sáralítil prinsipp – og þau fjúka fyrr eða síðar ef ég hef þau. Enda er kannski bara asnalegt að hafa prinsipp sem standa manni fyrir þrifum. Það er kannski einhver skynsemisglæta í hausnum á mér.

En sem sagt aftur að stigvélinni. – Ég man ekki hvort ég var búin að segja ykkkur frá aðdraganda þess að að ég prófaði hana – ef svo er þá bara skítt með það – enda eru allir hættir að lesa þessa síðu hvort sem er :D.

Undanfarnar vikur – kannski mánuði, hefur minn kæri og óbilandi trú á Ingveldi hafi, Baldur verið að nefna að nú væri bara stigvélin eftir hjá mér og svo hefur hann verið að babla um hana í annan tíma líka og öðru samhengi sem ég bara man ekki hvert var – því ég ákvað að hvorki heyra eða sjá apparatið sjálft né allt hans tal um það. Ég ætlaði ekki að vera sú sem bryti þetta tæki og gerði mig almennt séð að fífli á því. Enda gæti ég ekki verið á því – ég hafði séð nógu mikið til Vilborgar á því til þess að vita það ojá – og hananú.

Ég leyfði því honum Baldri mínum að tala alveg eins og hann lysti um þessa stigvél – hún kom mér ekki við frekar en ég veit ekki hvað. Og þetta bragð mitt gékk svo sallavel. Baldur talaði og ég hlustaði ekki. Fínt fyrirkomulag.

Sá hinn sami Baldur ákvað réttilega að kominn væri tími fyrir mig að skipta um æfingar í salnum – ég var svo sem ekki neitt endilega á því – enda taldi ég mig vera í ágætum málum og ekki leiddist mér neitt sérlega mikið og nóg svitnaði ég. Ég fékk nú samt nýjan skammt – fyrst fyrir fætur – og svo fór ég annan tíma með honum og lærði nýjar æfingar fyrir efri hluta líkamans. Allt ægilega fínt. Og mun erfiðara en fyrr – þannig að þar fór það að ég væri að gera nóg ;-). Í síðari tímanum með Baldri laumaði hann sér á bak við þar sem hjólið og stigvélin eru og sagði mér að koma. Ég var svo blönk og lítið að hugsa um stigvélina að ég var lengi að skilja að hann raunverulega ætlaðist til þess að ég stigi upp á þetta drápstæki. Þegar sá ógnvænlegi raunveruleiki síaðist inn sagði ég náttúrulega bara NEI. Og ætlaði ,,bara“ að fara á mitt ógeðstæki og ljúka brennslunni þar. En hann lét sig ekki. Ég ekki heldur — og það sem meira var ég ætlaði ekki að láta mig, fjandinn hafi það maður hefur nú einhverja sjálfsvirðingu! (þó einhvern tímann í ferlinu laumaðist það inn í kollinn á mér að það væri ekki til neins að neita – ég endaði alltaf á því að gera allt sem hann segði mér að gera – sú hugsun varð ekki til að auka mér vellíðan!).

Og þar sem ég stóð þarna ekki viss á því hvort ég væri miðaldra kona að fá taugaáfall eða óþægur krakki í frekjukasti hélt hann fast í þá skoðun sína að í dag væri dagurinn sem ég FÆRI á stigvélina. Ég stóð og stappaði niður fótunum og sagðist ekkert ætla á þetta tæki (nokkur augu voru farin að beinast að okkur Baldri á þessum tímapunkti en mér var sko sama!!)- hann skyldi bara skilja það í eitt skipti fyrir öll. Og þá spurði hann mig einfaldlega að því hvort ég vildi að hann næði í mig og setti mig upp á það?

Þar sem ég hef séð nokkuð til hans í salnum vippa einhverjum stöngum með óteljandi drasli hangandi á, gat ég allt eins trúað því að hann myndi bæði fara létt með að drösla mér þarna yfir og hafa auk þess, nokkurn styrk til þess lyfta mér upp á tækið. Þegar þetta rann upp fyrir mér, fannst mér kannski rétt að nálgast manninn og reyna að tala af meiri hægð og rökfestu við hann en fyrr – fyrir aðferðir höfðu augljóslega ekki virkað. Nú yrði hin rökfasta Ingveldur að taka við.

Ég reyndi að leiða honum það fyrir sjónir hvað það væri leiðinlegt að ég myndi (ekki ef) brjóta tækið, þá vantaði eitt – ekki málið þau vildu gjarnan fá nýtt og það kæmi þá úr tryggingunum. Þá var bara að leiða honum það fyrir sjónir að ég gæti þetta ekki, vildi hann virkilega gera mér svo illt að ég bæri beinin þar og þá? – En þar var hann mér algjörlega ósammála – maðurinn virðist hafa tröllatrú á mér – veit ekki alveg hvort það er gott eða slæmt svei mér þá eða á rökum reist(ég meina það má nú of mikið af öllu vera!).

Uppá tækið fór ég og reifst þar og skammaðist, nötraði og skalf enn ekki viss um hvort ég væri umkomulaust barn eða úttaugaður offitusjúklingur á fimmtugsaldri….

En sem sagt – 2 mín með 1 mín í rifrildi entist ég á stillingu eitt og Baldur sagði mér að nú skyldi ég leggja tilfinninguna á minnið því það væri gaman að hugsa til hennar þegar ég færi 20 mín á tækinu. En það get ég sagt ykkur að stigvél er EKKI tæki sem ætlast er til að nein mannlega vera hangi á í 20 mín!!! Það er ómanneskjulegt. Getur ekki verið að fólk geri það. Þetta era.m.k. hreinlega ekki þess eðlis að það sé mögulegt að ég geti það – svo mikið er víst.

En ég ætla að lengja tímann – og hafi ég einhvern tímann svitnað þá er að hjóm eitt miðað við þarna á þessu. Þarf að passa hnén mín en þetta á líka að vera mjög gott fyrir þau því þetta styrkir vöðvana þar í kring. Það eru rök sem ég get keypt….

Sem sagt 4 mín á stillingu 3 núna. Kannski fyrir jól verði ég komin eitthvað lengra.

Og ég játa mig sigraða á öllum vígstöðvum.

Margt af því sem maður telur sig ekki geta stafar af ótta við mistök en ekki síðri er óttinn við það að komast að því sem maður telur sig vita – hinn óhugnalegi sannleikur blasi við. Hin lélega sjálfsmynd sé í raun á rökum reist.

Með því einu að takast á við óttann getur maður bætt sig. En fyrst þarf óttinn að verða áþreifanlegur óvinur en ekki dulbúin prinsipp og þá er gott að hafa einhvern með sér í slagnum. Ég er svo óendanlega heppin að hafa það.

Þó mér líði ekki alltaf eins og að aðstoðarmaður minn sé að horfa í sömu átt og ég…

5 athugasemdir á “Baldur þrjóskupúki og stigvélin

  1. HAHAHAHAHAHAHAHAHAH!! Mikið vildi ég að ég hefði verið fluga á vegg!! Áður en þú veist af verðurðu farin að þjóta upp um fjöll og firnindi eins og ekkert sé! Förum við ekki bara saman á Ingólfsfjall? Eða Laugaveginn? :oD

    Líkar við

  2. Ég tala bara við Baldur og fæ hann í lið með mér – þá verðurðu farin að klífa fjöll áður en við er litið! Híhí! Lofthræðsla eða ekki!

    Líkar við

  3. Ekki ein stafsetningarvilla!!!Stigvélin og hjól eru góð fyrir hnén. Annað kemur nokkrum kaloríum síðar:)

    Líkar við

  4. Það er nú ekki leiðinlegt að lesa þetta og gott ef þú ert ekki búin að fara á nokkur fjöll síðan þetta var skrifað, og oftar en einusinni á Ingólfsfjallið þú ert bara snillingur

    Líkar við

Færðu inn athugasemd