
Jæja dúllurnar mínar. Nú er ég búin að vinna í 4 daga og nánast ekki gert neitt nema komið stöðvabókinni á koppinn og reynt að átta mig á veröld þar sem líkamsrækt tekur 8 klst af hverri vinnuviku. Það er nú bara allnokkuð og hefur áhrif á vinnuframlagið.
Ég hef því hætt við að taka til hér í húsinu um helgina og bara vinna í staðinn. Ég er ekkert farin að grufla í mínu dóti eða líta á námsefnið. Ég get ekki tekið á móti nemendunum nema gera það verð ég nú að segja.
Líkamsræktin hefur annars gengið vel. Ég er rosalega ánægð með nýju æfingarnar hans Baldurs. Líður mjög vel eftir hvern tíma þó mikið sé púlað að mínu mati. Sumir telja þó að alltaf megi gera betur :D. Það er svo sem ágætt að hafa einhvern svoleiðis með sér í liði.
Mataræðið er hins vegar ekki eins gott – allt gengur vel í skólanum og alveg framyfir kvöldmat en svo byrja ósköpin – kvöldin eru hræðileg núna. Eða amk skelfileg. Ræð ekki alveg við sykurþörfina. VERÐ að taka á því. Eiga eitthvað ,,gott“ á kvöldin sem gerir mér ekki svona slæmt. En ég má ekki heldur berja of mikið á mér – þá fer ég bara neðar og ét meira.
…það tók Baldur ekki nema hálft ár að koma mér út að labba á morgnana – en nú hef ég farið tvo morgna með hundinn í göngu í 25 mín og svo með Aðalstein á Kiðjaberg, þá útbúið nesti fyrir daginn og svo farið í vinnuna. Ég finn alveg að það er ástæða fyrir þessu óskapar tuði í manninum með þetta. Ég svitna miklu meira en á kvöldin, verð alveg banhungruð allan morguninn og líður bara ágætlega nema ég verð svolítið stirð strax á eftir því ég sit svo mikið í kjölfarið. Vonandi gengur mér þetta vel áfram – verð bara að fá öðruvísi ól á hann Bjart minn því hann er svo aumur í hálsinum eftir lætin í sjálfum sér.
En jæja – heyrumst kannski á morgun – ekki ólíklegt ég taki mér athyglishlé til að blogga,
lofjaall