Nú er þetta bara búið krakkar – sumarfríið mitt! Óskiljanlegt og ótrúlegt. Maður einhvern veginn heldur að sumarið sé tíminn þar sem allt á að vera svo yndislegt, endurnærandi og einstakt. Kannski leyfar frá bernskunni. Þá voru nú sumrin yndislegt. Þau voru tíminn. Stundum tregablandin á unglingsárunum en alltaf með einhvern sjarma sem erfitt er að skilgreina.
Og hvernig var svo sumarið í ár? Veðrið var að minnsta kosti skítt – mjög skítt. Við notuðum samt tjaldvagninn töluvert. Fórum í fyrstu útileguna á Flúðir og vorum þar í tvær nætur. Svo fórum við Þórunn til Þingvalla og vorum þar líka í 2 nætur. Þrastarlundur með Palla fjölskyldu og Hildi systur og Daða og Olgu í 2 nætur en þar á undan vorum við 1 nótt á Þingvöllum og svo gerði þar mikið rok. Svo lá leiðin með Hildi og Björk í Kiðjaberg og þar var ég í 4 nætur og Gaui var með.
Fossatún með sls genginu í 2 nætur. Akureyri í 3 nætur um verslunarmannahelgina. Þingvellir með minni fjölskyldu í 2 nætur nú um helgina – með kvef og vandræði hóstaði eins og brjáluð manneskja og komst ekki í brúðkaupið hennar Sigurlínar – á aldrei eftir að fyrirgefa mér það! En það var ekki mönnum bjóðandi að heyra í mér hóstann inn á milli ræðanna.
Nú… Ég byrjaði alla daga á því að keyra Aðalstein í Kiðjaberg og sækja hann svo kl. 16:00 – nokkuð sem ég ætla ekki að gera næsta sumar – gríðarlega dýrt, tímafrekt og bindandi og hefur af manni sumarfríið í stórum dráttum.
Labbaði með Bjart alla daga nema í ágúst – hef ekkert labbað með hann að ráði núna – en það lagast á morgun, fór alltaf þrisvar í viku í Styrk – alltaf og stundum oftar. Synti mikið í júní en minna í júlí og ekkert í ágúst. Fór svolítið í nudd – stundum mikið því ég fékk ægilegan höfuðverk á tímabili sem Baldur læknaði – ojá.
Léttist um 5 kg. – Já ég varð nú svoldið hissa á þessari tölu – frá 10. jún til dagsins í dag… kannski ekki heimsmet en miðað við hvað ég var mikið í útilegu og rugli þá má þetta nú bara heita gott.
Jamm…. Þetta er það helsta – einfalt tilþrifalítið sumar sem einkenndist ekki af því að gera ekki neitt eins og ég hélt – heldur töluverðu róti, akstri og stússi.
Á föstudaginn og í dag voru fyrstu tvö skiptin sem ég hef farið í Styrk og gengið þaðan út og hugsað, ógeðslega líður mér vel þó ég sé uppgefin. Ég finn meira að segja að ég er byrjuð að lækna mig sjálf með hreyfingunni – ég er kannski aum daginn áður en mýkist svo öll upp í æfingunum mínum. Ég held reyndar að nýju æfingarnar séu algjör snilld – þær reyna ekki eins mikið á liðamótin t.d. eins og úlnliðina og tækin sjálf. Nú þarf ég bara að taka vel á, á hjólinu því ef ég ætla að verða hjólreiðagarpur þá verð ég að styrkja fæturnar og venjast því að hjóla í 20 mín. Hahumm… það er reyndar ekkert ef. Það verður.
Það eru að vísu ansi mörg ef í gangi núna – svindla eins og ég lifandi get í mataræðinu og tel mér trú um að fyrir því séu ákaflega góðar aðstæður. Í dag var ég helst á því að ég þyrfti ekkert að hitta Baldur meira – ég væri alveg orðin góð, næsta skref væri að blogga sjaldnar, tala um annir og slíkt…. Ég er býsna lunkin við að finna mér undankomuleið – það er gamall vani sem erfitt er að drepa. Ég vona bara að þeir sem það þurfa sjái í gegnum bullið.
