Sunnudagur og lexía föstudagsins


Ég þarf að setja hlutina í samhengi. Ég þarf að horfa á heildarmyndina í lífsmynstri mínu – ég þarf að hætta að lifa frá mínútu til mínútu og líta á mitt stúss í samhengi við hvert annað. Ég þarf líka að fara mýkri höndum um mig.

Síðasta vika var ótrúlega leiðinleg eitthvað – ég var rosalega þreytt, illa upplögð og uppgefin eitthvað. Það þýðir samt ekki að ég sé aumingi eða letihaugur eins og ég orða það gjarnan. Kannski var það einfaldlega vegna þess að ég var þreytt og hafði bara góða ástæðu til þess.

Ég var mjög hress fyrir síðustu helgi- svo hress að mér fannst ekkert mál að hendast ein í útilegu – og það eftir ágæta spyrnu í Styrk. Ég kom tjaldvagninum í gagnið með Aðalsteini – eldaði, bjó um og gerði bara alveg helling og talaði svo við Þórunni fram undir morgun. Um 10 leytið fór ég með Aðalstein á Selfoss, fór aftur upp á Þingvöll og stússaði í útilegunni – talaði og talaði m.a. Svaf svo ekki nema 4 tíma aðfararnótt sunnudags, tók saman vagninnn og allt útilegudótið og kom heila klabbinu heim. Var svo alveg hissa á því hvað ég var þreytt – fór í bólið snemma – horfið á F1 og hugsaði um börnin mín svolítið.

Svaf illa en fór á fætur og fór með Aðalstein á mánudag – í Styrk og svo að ná í hann aftur en í millitíðinni voru einhver heimilisstörf unnin. Þetta gekk svo svona alla vikuna nema við bættist hausverkur dauðans, eldamennska þvottur og sitthvað fleira sem húsmæður þekkja. Ein ferð í Laugarás tekur nú líka drjúgan tíma auk þess að keyra Aðalstein þetta fram og til baka. Það sem ég geri á degi hverjum er bara allnokkuð og töluvert ef maður er með þennan hausverk með og vanlíðan. Ég á ekkert að vera að berja á mér þó það séu hundahár í hornum eða ryk hér og þar -ég fer í það þegar ég hef meira þrek – eins og núna um helgina. Varla er ég nú allsherjar aumingi þó húsverkin skipi ekki öndvegi hjá mér alla jafna.

Nú finnst mér eins og ég geti gert ýmislegt – getur það verið því ég þarf ekkert annað að gera en labba með Bjart á kvöldin og hugsa um heimilið. Aksturinn, líkamsræktin og sundið bíður virku daganna – ja það væri það. Kannski er bara það sem ég geri dagsdaglega næstum eins mikið stúss og að vera í vinnu. Sumarfrí er nefnilega ekki bara FRÍ heldur öðruvísi vinna. Svo reynir nú á að vera alltaf að taka á sjálfum sér. Sérstaklega mér 😉

Lexía föstudagsins:

Hættu að segja oh – þetta er ekkert erfitt!

Þetta sagði hann Baldur minn alveg blátt áfram – það er ekki endilega flækjurnar að þvælast fyrir honum blessuðum svona alla jafna. Hvað er ég líka að láta líf mitt og bauk verða að einhverju stórmáli.

Það er þó búið að kenna manni það frá blautu barnsbeini að það sé svo erfitt að grennast, það sé svo erfitt að fara í líkamsrækt – svo erfitt að þetta er næstum ekki hægt. Hvaða röfl er það – er þetta nokkuð erfitt – þarf ekki bara að gera þetta? Ok ég er bara búin með 10 kg svo mér ferst kannski ekki – en ég er BÚIN MEÐ ÞAU og ekki með megrun heldur heilsuátaki. Þarf ekki bara ,,einfaldlega“ að gera þetta:

1. ætla sér að breyta
2. breyta

búið – punktur og pasta?

Hvað gerðist hjá mér til að ég færi af stað? Ég var orðin heilsulaus af vöðvabólgu og verkjum. Gjörsamlega aðframkomin af gríðarlegu vinnuálagi og vandamálum heima (og áreiðanlega spiki – fer samt ekki ofan af því að flestir sem hafa staðið í því sem ég hef staðið í síðustu mánuði og ár væru líka slituppgefnir!). Ég fór og leitaði mér aðstoðar – hún varð svo aftur víðtækari en ég ætlaði í upphafi því ég hitti fyrir þverhaus sem ætlaði sér með öllum ráðum að koma mér í að hreyfa mig. Ekki veit ég hvar hann fann hjá sér þann ógnarkraft sem þurfti til þess – kannski var ég bara svona skemmtileg áskorun ;-)- en amk linnti hann ekki látunum. Ég fékk sem sagt stuðning. Hann er hægt að fá víða. Fullt af fólki sem selur sig í slik verk og er áreiðanlega fært í þeim líka. Ég viðurkenndi að ég þyrfti aðstoð og ég vildi breyta – að lokum. Ég var látin horfast í augu við vandann – og ég horfðist í augu við hann a.m.k. að hluta. Ég er enn að eiga við hann – og vísast er ekki allur vandinn kominn fram í dagsljósið – enda næg verkefni sem ég fæst við enn sem komið – þarf ekki fleiri í bili. Ég breytti lífsmynstrinu. Gaf sjálfri mér tíma. Lét mig og mínar þarfir í þessu máli í algjöran forgang. Ég sá að í raun var ekkert val – ég setti dæmið aldrei upp þannig að ég gæti valið um hvort ég færi til Baldurs og í Styrk eftir að ég lagði af stað – ég tók meðvitaða ákvörðun- ég fór no matter what. Og ég fer enn – fimm mánuðum síðar. Þetta ferli að koma mér í hreyfinguna tók nefnilega drjúgan tíma -við Baldur þurftum að takast svolítið á – já og ég þurfti að glíma við sjálfan mig og vinna úr því sem þessi vesenislausi maður hélt fram. Ég tók að svo miklu leyti leiðsögn sem mér var fært(maður lætur nú ekki svínbeygja sig í fyrsta)- og treysti á að ég njóti góðs af henni. Ég tala um það sem ég geng í gegnum og ég reyni að tjá mig við Baldur til þess að hann geti stutt mig betur. – (gengur ekki alltaf vel hjá mér að tjá mig – en þá nota ég ritað mál – er betri í því). Ég hreyfi mig fimm daga vikunnar og nú tvisvar á dag. Ég held matardagbók til þess að horfast í augu vð það sem ég borða og til að sjá hvernig ég geti tekist á við það. Ég er meira að segja að reyna að berja ekki á mér fyrir mistökin – heldur fækka þeim. Ég ákvað að taka sumarið í að koma mér svo vel á koppinn að ég geti gert þetta með vinnu í vetur – því þetta er átak – en þetta er ekki meira en t.d. mennta sig – ala upp börn eða hvaða önnur vinna sem við tökum okkur fyrir hendur – það þarf einfaldlega bara að sinna þessu. Ég er búin að ákveða að þetta hefur forgang næsta vetur – vinnan verður að vera í kringum þetta því annars næ ég ekki árangri. Þetta er einfaldlega verkefni sem ég þarf að tileinka mér- og ná árangri í. Þetta er ekkert flókið – þetta er í raun kristaltært. Það þarf einfaldlega bara að gera þetta. Ég er búin að losna við 10 kg á 2 mánuðum – ég get losanð við önnur 10 á næstu tveimur og fram að jólum get ég verið búin að losna við 40 kg – kannski verða þau bara 30 – en þau verða farin – einfaldlega ef ég held áfram að gera eins og ég hef gert. Og með hverri vikunni verður þetta auðveldara – það þarf einfaldlega að finna taktinn í lífsmynstrinu. Það setti svolítið úr skorðum að bæta því við að fara út með Bjart í göngu (og það bara heillanga skal ég segja þér) en nú hef ég það undir control. Ég tileikna mér sumarið, ég geri það að mínu- ég tileinka mér lífið og verkefni mitt þessa dagana er að stunda heilsurækt og ná árangri í því að létta mig. Það er svo einfalt. Ekkert flókið eða erfitt við það. Ekki þegar maður hefur ykkur og Baldur með sér í liði – já og er sú sem ég er? Til hvers að vera að segja ohhh – þetta er ekkert erfitt

1 athugasemd á “Sunnudagur og lexía föstudagsins

  1. hæ hæ dúllan mínþú ert svo dugleg:)hafðu það gott og við verðum að fara að skipuleggja sunnulækjarútilegu er það ekki:)kv. sædís

    Líkar við

Færðu inn athugasemd