
Er ekki bara vel við hæfi að hafa mynd frá Þingvöllum hér og blessuðum fánanum okkar? Það held ég nú. Og já víst getur himinninn verið blár á stundum! Hvaða stundum er ekki alveg vitað en ég las á mbl.is að það gæti hugsanlega mögulega og e.t.v. hætt að rigna um hádegið. Já það væri það!
En nú er ég út í skóla að byrja á því að ljúka við lokaverkefnið mitt hjá Ingvari – ég nenni því alls ekki – hef engan anda í brjósti í þetta verkefni – en ég skal ljúka því hið fyrsta. 80 stundir segir Ingvar að það eigi að taka en ég er nú búin með eitthvað af þeim klukkutímum myndi ég ætla. En samkvæmt því verð ég aldrei búin með það fyrr en um næstu helgi – og tel mig góða ef það gerist. Ég ætla ekki að segja að það komi til með að liggja á mér eins og mara og eyðileggi fyrir mér sumarfríið eða neitt svoleiðis drama – ég bara vinn í því og geri það sem ég get og skila því svo – og verð þá aðeins glaðari en áður. Ég ætla sko að vera pollróleg yfir þeim verkefnum sem lífið færir mér þetta sumarið og eitthvað áfram.
En að öðru. Ég finn á öllu að við Vilborg erum að sigla inn í erfiða (r) vikur núna. Við upplifum okkur pínulítið eins og góð kona orðaði það í líkamsræktarfangelsi – er líf okkar ekkert annað? Verður það einhvern tímann eitthvað annað og er það að skila okkur því sem við viljum.
Víst er að þetta er þrusu erfitt – það rennur af okkur svitinn í stríðum straumum, maður er rígbundinn í báða skó (ég er það nú hvort sem er útaf akstrinum á stráknum), og svo vildi maður kannski miklu frekar liggja einhver staðar og gera ekki neitt. Það er því mál að líta á björtu hliðarnar Vilborg mín og sjá hvort við getum ekki litið til þeirra á næstu dögum þegar ég bara finn það á mér að allt fari fjandans til – eins og fyrir um mánuði síðan eða svo!
Við erum búnar að vera í líkamsræktarátakinu í 70 daga og það er enginn smá munur á kerlingunum:
-
Vilborg lítur út eins og sýningarstúlka og fegurri en nokkru sinni!
-
Vilbort er líka miklu hraustari
-
Ég er 8 kílóum léttari en ég var 24. apríl
-
Ég vikta mig reglulega og horfist í augu við tölurnar
-
Ég fer í 40 – 60 mín göngur eins og ekkert er – daglega. Ég gat gengið í 10 mín með góðu móti fyrir ekki svo löngu.
-
Ég er miklu sterkari í höndunum og get borið ótrúlegustu hluti sem ég loftaði ekki áður
-
Ég finn aldrei til í bakinu
-
Ég er miklu betri í kálfunum – þeir eru meira að segja að mýkjast upp.
-
Ég borða hollari mat
-
Ég er oggu pínu pons geðbetri
-
Ég er útitekin
-
Ég er að taka líf mitt til gagngerrar endurskoðunar – innra með mér sem ytra.
Líklega get ég bætt einhverju fleiru við og vissulega kostar þetta sitt. Það þarf að færa fórnir, þetta er drullu erfitt og það er svakalega erfitt að þurfa að takast á við galla sína og brotalamir til 25 ára upp á hvern einasta dag. Það er líka ógeðslega erfitt að hugsa til þess að um leið og maður er farinn að eiga örlítið náðugri daga í Styrk þá þarf að þyngja á ógeðstækinu, fara hraðar á hjólinu og lyfta meira. En þannig næst árangurinn.
Það er líka svolítið tough að hugsa til þess að á hverjum einasta degi eyði ég 150 mín í líkamsrækt allt með öllu. En þannig er þetta í sumar og vonandi næst að byggja góðan grunn til að halda áfram næsta vetur.
Það sem veldur mér ugg er hins vegar það að ef ég breyti ekki matarræðinu – þá fer allt í sama horfið um leið og ég slaka á í Styrk og hreyfingunni. Og einhvern tímann kemur að því myndi ég ætla. en þá verð ég að hugsa. Nei ég verð að hreyfa mig og ég verð að hætta að svindla á kvöldin. Þetta er einfaldlega líf sem ég kýs mér og lífstíll sem ég ætla að halda mig við…. En afhverju finnst mér svo erfitt að trúa að ég geti það?
Afhverju hef ég ekki þessa trú á sjálfri mér sem til þarf…. kannski afþví ég er svo raunsæ? Svartsýn – og svo þegar ég hugsa um það – þá finnst mér ég hafa verið í líkamsrækt forever – en það eru bara 70 dagar komnir! Oh my god. (mér finnst það nú líka lengra því ég fór í nudd til Baldurs í byrjun febrúar og þá byrjuðu nú hjólin að snúast).
Og svo þarf ég bara ekkert að fara meira til Baldurs því það er ekkert að mér – og ég er haldin aðskilnaðarkvíða útaf því. Oh my god – en nú er ég farin að læra –
og hana nú