Blogg í nokkrum liðum

Svona dagur í dag

  • Silvía Nótt og raunveruleikinn

Það var gaman að hlusta á Kristján Hreinsson textaskáld og geðvonsku-evróvision Silvíu Nætur ekki þolari, í morgun í útvarpinu. Honum þótti þetta háðuleg útreið og nú skyldum við íslenskir hætta allri vitleysu og fara að taka þátt í þessari keppni af einhverri alvöru. Þetta hefði verið svo háðuleg útreið og okkur öllum til þvílíkrar skammar að slík múgæsing ætti aldrei að líðast aftur. Því skyldi m.a. setja á fót dómnefnd ásamt símakosningu til þess að velja flytjanda. – Sem mér að vísu þykir ekki vera alvond hugmynd en það eru bæði rök með og á móti.

Guðni Már skaut því nú inn í orðagjálfrið hjá Skerjafjarðarskáldinu að við hefðum nú áður náð litlum vinsældum en Kristján sagði aldrei sem nú – púað hefði verið á Silvíu og það þótti honum alveg gasalegt. ´

Ég man ekki í hvaða sæti We are the winners lenti – en alltaf var púað á þá og svo var púað á alla sem ekki gáfu Grikkjum stig og satt að segja held ég að það sé full ástæða til þess að púa á allt sem Silvía Nótt stendur fyrir. Við skulum ekki gleyma því að þar er á ferð undir niðri kona með boðskap – boðskap sem kannski small ekki í gegn á fimmtudaginn – en það munaði litlu. Hér kemur frétt af www.ruv.is

Evróvisjón: Finnar unnu og Silvía Nótt varð 13. í forkeppninni
Finnska hljómsveitin Lordi sigraði í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Aþenu í gærkvöld. Finnarnir fengu 292 stig fyrir lag sitt Hard Rock Halleluja. Dima Bilan frá Rússlandi varð í öðru sæti með 248 stig og hljómsveitin Hari Mata Hari frá Bosníu Hersegóvínu í því þriðja með 229 stig.
Silvía Nótt hafnaði í 13. sæti í forkeppni söngvakeppninnar á fimmtudagskvöld. Hún hlaut 62 stig, 14 stigum minna en fulltrúi Makedóníu sem hafnaði í 10 sæti og náði þar með að komast í lokakeppnina. Finnarnir unnu forkeppnina fengu 292 stig eða nákvæmlega jafn mörg stig og í gærkvöld.

Hér þykja mér vera nokkur tíðindi. Ég man ekki hvar hún Selma mín lenti í fyrra en það var held ég í 17. sæti og gott ef hún átti ekki að vinna keppnina að margra mati. Silvíu vantaði ekki nema 14 stig sem er rosalega lítið – eiginlega ótrúlega lítið. Hér má sjá hverjir gáfu okkur stig.

Ég held að menn ættu að horfast í augu við ákveðin sannindi – gert er gert og allir nema blessuð börnin vissu að Silvía Nótt myndi ekki fara hljóðlega til Aþenu – það væri bara barnaskapur að halda það – hún er ákveðin fígúra og heldu því áfram.

Mér finnst hins vegar miður að allt þetta bauk á sviðinu og búningurinn fannst mér ekki flottur en ég held það hafi samt ekki ráðið úrslitum. Kannski vantaði bara upp á að lagið væri nógu gott eða það sem mér finnst líklegast – Ágústa var bara einfaldlega búin á því og átti ekki meira inni- það vantaði neistann sem kannski hefði komið henni upp fyrir þetta ótrúlega glataða lag frá Makedóníu. Ég er bara stolt af henni og ég vona að boðskapur hennar komist í gegnum hausinn á fólki – að í raun eru svona fígúrur að tröllríða heiminum eini munurinn er að þær eru ekki að leika heldur eru þess fullvissar að ekkert sé eins stórkostlegt og þær.

Og að lokum þetta – mér fannst viðtalið við hana eftir keppnina á fimmtudag stórkostlegt – Ragnar Reykás hvað.

Svei ykkur sem kusuð Silvíu og snúið svo við henni baki á ögurstundu – einhver hringdi þessi 70 000 atkvæði inn – reynið ekki að þræta fyrir það.

  • Heimilishald

Þegar ég kom inn í stofu í morgun varu 3 sokkar þar (ekki þrennir) einar nærbuxur svolítið af skóm og einar gallabuxur á gólfinu. Einn styrkbrúsi í frumeindum, vel nöguð gosflaska, neftóbaksdós og sælgætisbréf. Á eldavélinni er matur síðan ég veit ekki hvenær, föt á borðstofuborðinu, salernið eins og hjá illra hirtri snyrtistofu og á stofuborðinu lágu alls konar hlutir, teygjur, sléttujárn, bursti, nammibréf, glös – já nefnið það bara.

Úti er ekkert farið að gera og allt í tómu tjóni. Jólaseriurnar hanga flestar enn utan á húsinu.

Ég sit í súpunni að hafa ætlað að hvíla mig þessa helgina…. Það var ekki sérlega góð hugmynd. Er ekki viss um að ég láti slíkt og þvílíkt henda mig aftur.

Hvað á að gera við konu eins og mig?

  • Líkamsrækt

Ég fór síðast í Styrk á miðvikudag, synti sama og ekki neitt á fimmtudag, skreytti sal og samdi ræðu á föstudag. Svaf og þreif grilljón diska og glös eftir matarklúbbinn á laugardag. Át NAMMI (líka á fimmtudagkvöld -eina bótin er að mér finnst það ógeðslegt eftir nokkra bita og hætti því í tíma). Er að drepast í bakinu eftur að hafa hvílt mig óhóflega mikið!

Hef þó farið í 20 – 30 mín göngu í gær og fimmtudag með Bjart og það er nú aðeins betra en ekki neitt – fann stóran mun reyndar hvað ég er sprækari í þeim efnum. Verður gaman að prófa goflið. Kylfurnar eru komnar neðan af lofti og nú er bara að fara að prófa.

Eftir þessa niðursveiflu þá er bara að láta sig hlakka til morgundagins – fara í sinn Styrk og vera glöð með sitt. Það er ómögulegt annað en leiðin liggi aftur upp á við og niður á við á vigtinni. Ég má ekki láta andlega niðursveiflu hafa of mikil áhrif á mig. Þær koma líka alltaf og maður verður bara að þola þær er það ekki? Ég hef bara verið orðin þreytt…. og uppgefin! Svo hef ég engan Baldur og það munar nú um minna – ekki það ég held að meira að segja hann hafi ekki getað bjargað mér úr þessari klípu sem ég hef verið í.

  • Annað

Tjaldvagninn er kominn í hlaðið og garðhúsgöngin líka. Nú bara að bíða eftir góðu veðri og kíkja á græurnar.

Palli er búinn að fá vinnu í Færeyjum og fer væntanlega í júní, vonandi skilar það góðu og vonandi kann hann að fara vel með sig og kemur með alla limi og líffæri heil heim.

Ég fer að vinna í lokaverkefninu í áfanganum um næstu helgi og ætli ég reyni ekki að vera búin að meta ýmsa þætti þá líka. Ég held ég eigi að vinna á uppstigningadag til þess að vinna af mér og ná að vera með Ástu Björk áður en hún fer út og þá er nú rosa margt hægt að gera.

Já já þetta er allt að koma. Ég fer í garðinn og tek eitthvað til. Hvíli mig svo líka og reyni að hugsa ekki þá hugsun til enda að hvorki Sædís né Vilborg verða í skólanum á morgun. Bara byrja daginn rólega og af skynsemi og muna að það eru blessuð börnin sem gefa þessu öllu gildi.

Búin í bili –

6 athugasemdir á “Blogg í nokkrum liðum

  1. Hæ hæGaman að lesa hjá þér bloggið alltaf, ég kannast við þetta með sokkana:( frekar hvimleitt vandamál.Flott hjá Silvíu að ná 13. sæti hún er langflottust:)Gangi ykkur vel á morgun og þriðjudagknús knúsSædís

    Líkar við

  2. Hæ aftur skvíség gleymdi að játa eitt, ég á held ég þrjú atkvæði af þessum 70.000 atkvæðum:)kv. Sædís

    Líkar við

  3. Hæ besta frænka mín.Þú ert nú meiri bloggarinn, heldur betur komist á flug með hana Silvíu og ýmistlegt fleira líka. Já, ég er bara rosalega svekkt yfir að hún komst ekki áfram. Ég er það bara meira og meira eftir því sem meira er talað illa um hana. Er sammála Páli Óskari og öðrum sem eru í Evrópu að spá í að breyta fyrirkomulaginu í það að Vestur og Austur Evrópa keppi í aðskildum keppnum og láta efstu lögin úr þeim keppnum keppa í úrslitakeppni. já, það verður að vera gaman að þessu. Mér fannst annars rosa gaman að Finnar skyldu vinna. Sýnir að þetta hefst að lokum, þeir eru ýmsu vanir. Ekki fengið 12 stig í 30 ár!! Við höfum þó oft fengið 12 stig, svo verum bara ánægð.Spurning hvort ég ætti líka að fara að blogga þar sem ég virðist þurfa að fá einhverja útrás hérna og geri það bara í comments hjá henni Ingu minni. Læt það duga. Bestu kveður, og áfram Inga!!Björk

    Líkar við

  4. Þessi skór minnir mig á eitthvað leiðinlegt frá því í gamla daga. Ég get huggað þig með því að það eru fleiri latir að gerða garðinn fínan. Svo vil ég minna þig á það að þrátt fyrir allt þitt sjálfstæði þá er maður manns gaman. Þetta á ótrúlega vel við þig sem stendur í lýsingunni, vaaaá.

    Líkar við

  5. Nákvæmlega Hildur – þetta eru bara ekki skemmtilegir skór – enda var þetta ekki góð helgi hjá mér.Ljótur og leiðinlegur skór. Já ég elska nú eina og eina manneskju en mengið fólk er verra. Ég væri td. ekkert án ykkar Bjarkar og fleiri. Ég gæti aldrei verið kennari ef mér leiddist að vinna með fólki.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd