…og löngu síðar framhald.

Fermingin hans Aðalsteins var hin yndislegasta, maturinn og stemmningin eins og best verður á kostið. Frábær dagur sem ég vona að strákurinn hafi verið ánægður með.

Á vordögum fór Aðalsteinn að vinna á Kiðjabergi og Ragnheiður á Hæðarenda. Ég keyrði þau í vinnu og sótti en á milli pakkaði ég niður og flokkaði allt mitt hafurtask. Reyndar fór ég svoítið í golf líka og hafði ótrúlega gaman af. Trítlu minni leiddist hins vegar vistin heima einni og vék ekki frá mér þann tíma sem ég var heima. Ég tók reyndar á það ráð að bjóða henni með en henni fannst nú aldrei gaman í bíl en frekar en að vera eilíflega ein alltaf hreint kom hún með blessunin.

Ekki var langt liðið á sumarið þegar Palli kom frá Færeyjum styttri á einum putta en fyrr og þar með alveg handlama.

Við fluttum á Selfoss um 20. júní og þrifum Írafoss hátt og lágt – eins vel og við gátum. Á meðan við biðum eftir að Heimahaginn losnaði bjuggum við hjá Dísu í Háenginu og Trítla mín hélt hún væri komin til himna (sem hún fór reyndar alltof fljótt), gamli trébekkurinn, svarta sófasettið – allt nýttist þetta hjá Dísu og hún þekkti þetta mæta vel. Lá á sínum gamla stað undir eldhúsbekknum og var alsæl. Henni hafði ekki liðið vel í flutningunum.

Um miðjan júlí fórum við til Spánar – öll dauðþreytt og misvel upplögð eftir átök sumarsins. Spánarferðin var góð tilbreyting þó hitinn hafi verið gríðarlegur og engin loftkæling í íbúðinni. Þetta var ósköp ljúft og gott.

Þegar við komum heim hentumst við í Galtalæk með börnin í gamla vagninum hjá tengdó. Við Trítla vorum nú bara í rólegheitum og lásum á milli þess sem við töltum á klósettið. Hún var svo mikið ljós – það þurfti ekki að binda hana eða neitt – hún vék aldrei neitt frá okkur. Blessað dýrið.

Hún hafði reyndar átt frábæra daga á meðan við vorum á Spáni hennar bestu frá vordögum en hún var hjá fósturmóður sinni henni Jóu á Hlemmiskeiði og svo gaman þótti henni þar að hún vildi helst bara vera þar áfram. Hún var samt voða glöð að sjá mig en vildi heldur bara vera kyrr og kannski hafa mig hjá sér líka – en hún kom þó orðalaust með okkur en upp frá þessu fækkaði góðu dögunum hennar hratt.

Fyrr en varði byrjaði vinnan í Sunnulækjarskóla og ekki var langt liðið á september þegar Trítla veiktist alvarlega og var ekki hugað líf. Aldrei komumst við að því hvað var að henni en sterar og pencilín hjálpuðu henni en hún varð aldrei söm. Eftir að hafa hresst mikið í verkfallinu og náð nokkurru heilsu dó hún eftir heiftarlega magakveisu á aðfangadag 2004. Á undan höfðu farið óskaplegir dagar og ég held ég eigi aldrei eftir að jafna mig á því að missa hana, elsku litla dýrið. Hún varð ekki nema tæplega 8 ára gömul. Það var ógnarfrost og hvergi hægt að koma henni niður þannig að hún hvílir í dýragryfju en í fallegum kassa með rauðajólaslaufu um fallega gráa feldinn sinn, hjá henni liggur bréf frá Ragnheiði og uppáhaldssængurverið hennar, allt það besta fylgdi henni, þessu gulli sem við fengum í hendurnar og ég á aldrei eftir að gleyma. Trítla verður alltaf sú besta. Sama hversu gott kemur á eftir. Það er bara einhvern veginn þannig.

Jólin voru undarleg en við komumst í gegnum þetta – einhvern veginn.

Að baki var ógnarerfitt haust, verkfall, veikindi Trítlu, vansælir unglingar sem áttu í erfiðleikum með 800 barna skólann sinn og kennarana sína óteljandi. Já það er merkilegt að ég skyldi hafa rétt fyrir mér varðandi áhrif breytinganna á líf þeirra, því miður. Þau fóru þó heldur verr út úr þessu en ég ætlaði.

2005 rann í hlað með honum Bjarti. O já hann Bjartur setti mark sitt á líf okkar. Við fengum hann á nýársdag hjá Helgu í Miðengi. Yndislegur ólátabelgur – allt sem Trítla var ekki – enda hún komin í gyðjutal hjá okkur. Engin var betri en hún, hún var aldrei óþæg og gerði aldrei neina vitleysu. Svona fegra nú minningarnar fortíðina stundum.

Við tók erfitt vor. Skólastarfið var ógnar annasamt og erfitt. Börnin mín voru óánægð, Bjartur veiktist og Páll missti nánast augað. Já það ætlaði eiginlega ekki af manni að ganga þetta árið.

Ég snéri vörn í sókn, keypti tjaldvagn og hengdi aftan í Toyotuna sem gat nú eiginlega ekki dregið slektið þannig að ferði okkar miðuðust við litlar brekkur og skemmri ferðir enda þurfti að koma börnunum í vinnu. Um haustið var svo ákveðið að kaupa bíl sem við fengum í endaðan nóvember. Þetta var mjög skemmtilegt. Sumarið var erfitt en að mörgu leyti gott. Páll átti erfitt með augað, það var aldrei gott veður í útilegunum en þær voru engu að síður frábærar.

Í haust hóf ég framhaldsnám í KHÍ á námsbraut sem heitir Kennslufræði og skólastarf. Voða gaman og ég byrjaði af fítonskrafti. Er leið nær jólum varð ég þreyttari og þreyttari og að lokum slokknaði alveg á mér og ég sat eins og klessa allt jólafríið og reyndi að ákveða hvort valtarinn stefndi í átt til mín, væri ofan á mér eða hefði nýfarið hjá. Nú er ég viss um að staðan er annað hvort þannig að hann er í miðjum klíðum eða um það bil að ljúka sér af – þrekið er amk ekki komið og staðan þykir mér erfið. Ósköp erfið. Hvað er maður líka alltaf að koma sér í þessi ósköp að vera vinnusjúklingur? Afeitrun er það eina sem dugir. Gerður fór í jarðeðlisfræði – ég held ég fari bara í bútasaum. En hvenær?

Ég get ekki beðið eftir fyrstu útilegunni….