I hluti
ÉG man ekki sérstaklega eftir áramótunum 2003 – 4 en ég man þó að ég hugsaði um hvað ég væri feit og ég yrði að gera eitthvað í því. Hélt þeirri hugmynd vakandi allt árið þar til sá danski kom til sögunnar – en víkjum að því síðar. Ég undi vel í mínu og var heppin með samstarfsfólk – reyndar svo mjög að ég held að á öllum mínum starfsaldrei eigi aldrei annað eins eftir að gerast. Ef það reynist rangt hjá mér – þá Guði sé laun og þökk. Það er ekki sjálfgert að finna samstilltan hóp sem er tilbúinn að leggja í ferðalag heildstæðs skóla og kennslu í anda þess að gera hverjum og einum nemanda skólavistina í það minnsta bærilega – og helst gott betur en það.
Hugmynd hafði komið upp hjá okkur hjónunum að rétt yrði að fjárfesta í húsnæði um sumarið þar sem húsaleiga yrði hækkuð hjá þeim í Grímsnesinu og vænlegra væri að eyða henni í húsnæðiskaup – mest langaði okkur þó að leigja húsið sem yrði keypt og nota mismuninn á leigunni til að vera áfram uppfrá því börnin okkar tvö áttu bara tvo vetur eftir í skóla – sem ég taldi og tel enn að hafi verið meðal þeirra allra best, a.m.k. á unglingastigi þar sem ég þekkti best til. Fullyrðing sem ég stend við hvar og hvenær sem er. Ég gæti reyndar skrifað afar merkilega grein um það sem var gert á Ljósafossi í fyrra og árin þar á undan. Kannski ég geri það – helst fyrr en síðar. Það stóð aldrei til annað en vera 11 ár á Ljósafossi.
Það kom því eins og blaut tuska framan í mig einn fimmtudagsmorguninn í mars held ég, þegar húsvörðurinn tilkynnti mér það að engin unglingadeild yrði á Ljósafossi næsta vetur heldur yrðu börnin keyrð upp í Reykholt og haustið 2005 yrði skólinn ekki til lengur heldur byggður skóli á Borg fyrir yngstu nemendurna. Ég vissi þó að skólinn á Ljósafossi yrði aldrei langlífur – en svei mér þá að ég héldi að farið yrði út í slíkar hrókeringar og raun varð á nema fá einhvern til að gera úttekt á ýmsum þáttum. Ja sýrslur hafa verið samdar af minna tilefni. Þetta var áfall sem ég held ég komist ekki yfir á næstunni enda voru fréttirnar margþættar fyrir mig og mína.
- Ég hafði ekki atvinnu þar sem ég hef ekki áhuga á að vinna í skóla sem horfir ekki til unglingastigs. Ég tel samfellu í skólastarfi – heildstæðan skóla miklu meira fyrir mig en barnaskóli annars vegar og unglingaskóli hins vegar. Ég hafði sem sagt ekki lengur vinnuna mína til þess að hlakka til.
- Börnin mín sem fara áttu í 9. og 10. bekk yrðu fyrirsjáanlega að skipta um skóla – og þá var Selfoss augljós kostur því ekki færi ég í uppsveitirnar að vinna þar og borga hina sömu húsaleigu sem mér hugnaðist ekki að greiða nema fá húsaleigu á Selfossi á móti að viðbættum akstri á Laugarvatn eða Reykholti eða hvar sem ég fengi vinnu. Ég vissi þá rétt eins og ég veit nú að skólaskipti í síðustu tveimur bekkjum grunnskóla er hreint ekki ákjósanlegur kostur fyrir neinn – þrátt fyrir furðulegar yfirlýsingar fyrrum sveitunga minna um annað.
- Húsnæðikaup yrðu að fara í gang – eins gott að spara og spara til að eiga fyrir útborgun þar sem ekki hafði farið í gang formlegar aðgerðir í þær átt.
- Ég flytti úr þeirri sveit – vestur-Grímsnesinu sem var hve næst mínum bernskustöðvum og ég hafði ætíð litið á Fossana sem mínar æskustöðvar þar sem erfitt reynist að líta á dauðan Þingvallabæinn og partýsvítu forsætisráðherra sem sinn bernskuvöll í þeim skilningi sem flestir líta sínar bernskustöðvar.
- Ég yrði að finna mér vinnu við hæfi og þar var nú kannski ekki margt í boði – en þó var verið að byggja nýjan skóla á Selfossi sem ljóst var að gaman væri að spreyta sig við – þó á allt öðrum forsendum heldur en Ljósifoss hafði veitt mér og mínum.
- Flutningar og annasamt sumar var framundan.
Þennan fimmtudag og margar vikur þar á eftir upplifði ég mikið sorgarferli. Ég missti á einu bretti ákaflega margt sem var mín fótfesta og var mér kært. Heimilið mitt, samstarfsfólkið, öryggi barnanna minna ásamt svo mörgu fleira. Síðustu orð margra til okkar hjóna í Grímsnesinu voru – ,,Drífið ykkur bara í burtu og verið ekki að skipta ykkur að því sem ykkur kemur ekki við.“ Í fullri alvöru voru þetta einu kveðjuorðin sem við fengum frá sveitingunum því af veikum mætti og alltaf sjaldan hafði ég og Páll haft orð á því að ekki þætti okkur ráðslagið, undirbúningurinn eða vinnubrögðin gáfuleg eða til eftirbreytni. Það voru a.m.k. ekki börnin sem voru sett í 1. sætið með þessum hrókeringum öllum saman. Komið hefur enda á daginn að mín gamla sveit hefur ekki mikinn áhuga á skólamálum – og söngurinn sem var sunginn á upphafsárum mínum sem Grímsnesbúi – um að skólinn væri kjölfestan í hverju sveitarfélagi og það sem fólk liti fyrst til þegar það ákveddi búsetu á ekki lengur við.´
ÉG dæmi ekki nýjan skóla að Borg – víst er að þar geti verið rekið öflugst starf á þann hátt sem hægt er í svo litlum skóla með um 30 nemendur. Víðast hvar er verið að leggja svo litla skóla niður – enda þótti Ljósafossskóli allt of lítill með sína 55 nemendur, og sameina öðrum. Vitað er að þarna koma til með að vinna fáir kennarar og faglegt starf er afar þungt í vöfum í svo fámennum hópi og reyndar má ætla að skólinn geti aldrei orðið annað en sel frá Reykholti og þá spyr maður sig – afhverju ekki bara að senda krakkan strax í Reykholt og byggja þar upp öflugan og sterkan skóla sem getur tekið við öllum krökkum byggðalagsins – því það er áreiðanlega stefnan en undirbúningur að því er afar sérkennilegur með þeirri byggingu sem nú rís á Borg. Sérkennileg stoppistöð og peningaeyðsla að mínu mati þar sem sveitarstjórn Grímsnes og Grafnings hefur alfarið falið Bláskógarbyggð að sjá um skólahaldið – þó enn megi hringja í Möggu á Úljótsvatni ef mann langar til að vinna á Ljósuborg.
Víst er að það sem hér á undan er ritað er ruglingslegt og lítt skiljanlegt. Svona svolítið eins og raunveruleikinn er ég hrædd um. Aldrei var rætt við okkur kennara af fyrrabragði, aldrei fengum við fund með sveitarstjórn eða skólanefnd og hvorki þakkaði sveitarstjóri eða oddviti mér og mínum fyrir samstarfið – enginn málsverður var í boði sveitarstjórnarinnar eins og þó eru dæmi um að kennarar fengu þegar þeir hættu störfum. Fáir kennarar hafa þó unnið lengur við Ljósafossskóla en ég – og fáir hafa greitt meira eða betra útsvar en Páll til sveitarinnar. En ekkert af þessu skipti máli – okkur var bara bent á að fara – okkur kæmi þetta ekki við.
Þetta var 1. og stærsta áfall 2004 þó annað ekkið síðra ætti eftir að skella á og eiga hápunkt á aðfangadag.