Bjartur

Nú fer að koma að því að ég þurfi að setja inn nýja mynd af honum Bjarti okkar – sólargeislanum okkar sem stundum dregur ský fyrir.

Bjartur er 2 1/2 mánaða í dag. Hann vex og vex og lýsist með degi hverjum. Hann er ósköp óheppinn með veðrið samt – það er erfitt að vera vetrarhvolpur. Bjartur er þó óðum að venjast snjónum og pissar gjarnan þar sem lappirnar hafa fast land undir fótum og hann er vel farinn að geta kúkað úti – honum finnst það bara ekkert voða smart.

Ólin er mikill skaðræðisgripur að því er honum finnst – en hann er búinn að læra að hann kemst ekki lengra en slaki hennar leyfir, hann er líka búinn að læra að hann heitir Bjartur og kemur jafnvel þegar hæst standa leikar. Ég missti ólina hans tvisvar í gær – hann nefnilega tekur ófyrirséða spretti og ég sem er vön ráðsettri Trítlu átta mig ekki alltaf á því hversu fast ég þarf að halda um ólina. Bjartur kom hins vegar eins og lítið ljós þegar ég kallaði – eins lítið móðursýkislega og ég gat á hann þar sem ég sá undir loppurnar á honum út á bílastæði. Sigh….

Hann er líka svoldið hrifinn af því að pissa á blöð hann bara hittir ekki alltaf og hann á sér 3 kúka staði í húsinu þannig að þessi regla hans auðveldar nú alla umhirðu. Svo fer að rigna og þá kannski fer af pallinum og þá getur maður sett hann svoldið út, svo er Palli að koma heim og ég ætla að biðja hann um að setja króka framanvið hús og þá er hægt að setja krílið út til að fá smá útrás. Hann nefnilega þarf að fá svoleiðis…..

Annars er hann að mörgu leyti algjört ljós, sefur í búrinu sínu alla nóttina og fer svo út að pissa í morgunsárið, stundum gerast slys og hann pissar í búrið – það finnst honum ekki fínt – og ekki mér heldur, en maður er nú svo lítill.

Hann verður ljósari og ljósari með degi hverjum og bletturinn framan í honum setur skemmtilegan svip á krílið – gefur honum svolítinn karakter – amk svona meðan hann er lítill. Hann er sem sagt mikill gleðigjafi – en óskaplega tæturófa og lætur einskis ófreistað í þeim efnum. En NEI er farið að öðlast merkingu þannig að þetta horfir nú til betri vegar – smám saman.

Gott gengi

Hér er nú gott og gaman að líta við endrum og sinnum. Ég sit hér úti í Sunnulæk og lít yfir sviðið, er búin að kíkja í dagbókina og sjá hvað ég var að hugsa á föstudaginn, en það var nú ýmsilegt. Mér getur enst verkefnin langt fram eftir degi, en þó er margt komið í stand af því sem gera á í næstu viku. Það er góð tilfinning. Rétt eins og ég spáði fyrir um í síðustu viku þá gekk síðasta vika firna vel, og mér finnst ég vera komin með góð tök á þessu öllu saman. Krakkarnir eru orðnir vanir fyrirkomulaginu og búnir að læra á hvernig þetta getur allt gengið fyrir sig á eðlilegum degi. Sem sagt ánægður kennari við störf á sunnudegi.



Síðasta vinnuvika var 57 tímar – það er ekki nema von að ég hafi getað skipulagt mig, en nú skrái ég hjá mér hvað ég geri og hve lengi ég vinn hvern dag. Þarna eru ekki nema 10 tímar sem ég fæ ekki borgað fyrir – en ég fæ sálarró í staðinn. Ég er líklega kennari fyrst og fremst, annað er bara gert í hjáverkum eða ekki.

Slabb og morgunverk-ir

Hó hó hó – mín bara komin útí skóla. Svaf bara út – þrátt fyrir góð fyrirheit um að vera komin hingað rúmlega sjö – næstum níu verður bara að duga. Ég er með langan lista yfir verkefni, það eru kennaranemar, fyrirlestur á Ljósafossi og hvur veit hvað auk venjulegra verkefna.



Ég er nokkuð einbeitt þessa dagana – við Dísa unnum saman hér á föstudaginn og hófum gott starf með nokkra nemendur og ég hlakka til formfestunnar sem er framundan í skólastarfinu á næstu vikum – og jafvel mánuðum. Ég held við séum komnar með nokkuð gott skipulag sem ætti að nýtast nemendum vel og okkur. Svo er bara að vona að það finnist manneskja til þess að vinna með okkur í teymi tvo daga vikunnar. Það er vissulega aukapóstur hve varðar samstarfið og halda þeirri manneskju upplýstri – því ekki verður hún hér til þess að sinna undirbúningi á mánudögum – og því þarf að vera með fast land undir fótum á fimmtudegi. Svo er spurning hvernig hennar (manneskjunnar sko) viðvera er.



Ég fór út með Bjart í morgun þegar hann vaknaði og lét hann pissa – honum finnst mjög ógeðslegt að feta sig um í slabbi en í gær var hann ánægðari þar sem bara var klakki að stríða honum. Það er ágætt að það sé ekki manndrápsveður upp á hvern dag – hver pissupollurinn og skítahaugurinn sem missir sig er vel þeginn.

Einn góður dagur

…eða það vona ég. Hann byrjar að minnsta kosti ágætlega. Ég svaf og svaf enda fór ég ótrúlega seint að sofa á minn mælikvarða eða rúmlega 24:00, svo las ég svolítið í Englum og djöflum sem mér finnst afskaplega skemmtileg bók – næ betra sambandi við hana en Belladonnaskjalið – þó ég hafi verið nokkuð ánægð með hana.

Það er nú rúm vika síðan ég fékk flensuna og nú er allt að losna – bæði útum húð og öndunarfæri, en skrambi er þetta þaulsetið. Ég ætla að taka það rólega um helgina – koma smá standi á húsið og vinna úti í skóla í fyrramálið og vona að það dugi til að ég verði hroðalega hress í næstu viku.

Ég er búin að skúra, taka jólaskreytinguna af stakketinu og næstum hengja hundinn. Ég áttaði mig ekki alveg á því hve hann er léttur og þegar ég var eitthvað að hagræða ólinni hans úti þá vissi ég ekki fyrr en hann hékk í lausu lofti og sveiflaðist til og frá – litla skinnið. Enda fór það svo að hann fékk yfir sig nóg af svellinu, bleytunni og ólinni og fór bara inn og hágrét. Já jafnvel hvolpar með ljónshjarta geta fengið nóg!

Við Ragnheiður vorum annars að velta því fyrir okkur hvort hann væri grimmur og vondur hundur. Hann tekur svoleiðis spretti að ég verð bara alveg dauðhrædd. Við ákváðum að reyna að blíðka hann, tala fallega til hans, strjúka honum og knúsa alveg úr hófi næstu daga. Og ég er bara ekki viss um nema hann sé nú þegar farinn að lagast greyið.

Hann er óskaplega skynsamur en líka svoldið fastur á sínu – vill t.d. gelta og láta dólgslega þó honum sé bent á að láta af þeim ósiðum. Vonandi tekst okkur að koma í veg fyrir að hann verði geltinn – það var hægt við Trítlu og verður vonandi líka hægt með hann. Nú sefur hann greyið ó horninu hér við hliðina á mér og ég skil ekkert í því að mér skuli geta fundist nóg um á köflum. Litla sílið…..

Hann verður nú ekki lítill lengi – hann stækkar og stækkar. Okkur finnst hann lýsast og vonandi verður hann Bjartur í sál og sinni. Ég var að skoða mynd af Bangsa hennar Trítlu og þá er hann ótrúlega ljós, hann var miklu gulari þegar hann fæddist en Bjartur og því ætti sá litli að lýsast. Litla þríspora krúttið.

Jæja ég ætla að reyna að skælast út í bíl og ná hjálpa Dísu til að ná í bílinn en hún var hjá Hildi í gær og það er eiginlega ekki göngufært hér úti því það er svo ofboðsleg hálka – svakaleg og kvarðanum 10 er hún 10.

Allt svo merkilegt

…að ég kem mer aldrei til að blogga. Langar samt til þess því ég hugsa eitt og annað sem kannski yrði gáfulegra ef ég setti það á blað. Það er ægilega margt sem fer í gegnum hugann á mér þessa dagana. Kennslan, Trítla, síðasta ár, Bjartur, Færeyjar og ég veit ekki hvað og hvað.

Gagnrýni í Mogganum, hörmungar í blaðaútgáfu, fjölmiðlafrumvarp og eignarhald. Sigh. Gardínur, drasl, þvottur og ég veit ekki hvað og hvað.

Hvernig á maður bara að komast út úr þessu öll? Kannski með því að vera duglegri að blogga.

Hundur á heimilinu



Kersins Bjartur 7 vikna Posted by Hello

Það er nú ekki lítið sem gengur hér á útaf þessum litla manni sem kom til okkar þann 1. janúar 2005. Hann kann að láta fyrir sér fara og það sem meira skammast sín ekkert fyrir það.

Ég er að æfa mig í því að setja inn myndir á þetta blogg í flensunni, er að verða svoldið þreytt á að lesa bækur, snýta mér og hósta. Þetta hlýtur samt allt saman að fara að koma – enda búin að vera lasin í 6 daga.

En nú þarf ég að taka dót upp úr gólfinu þar sem erfðaprinsinn er að éta einhverja bévaða óhollustu – meira seinna