Nú fer að koma að því að ég þurfi að setja inn nýja mynd af honum Bjarti okkar – sólargeislanum okkar sem stundum dregur ský fyrir.
Bjartur er 2 1/2 mánaða í dag. Hann vex og vex og lýsist með degi hverjum. Hann er ósköp óheppinn með veðrið samt – það er erfitt að vera vetrarhvolpur. Bjartur er þó óðum að venjast snjónum og pissar gjarnan þar sem lappirnar hafa fast land undir fótum og hann er vel farinn að geta kúkað úti – honum finnst það bara ekkert voða smart.
Ólin er mikill skaðræðisgripur að því er honum finnst – en hann er búinn að læra að hann kemst ekki lengra en slaki hennar leyfir, hann er líka búinn að læra að hann heitir Bjartur og kemur jafnvel þegar hæst standa leikar. Ég missti ólina hans tvisvar í gær – hann nefnilega tekur ófyrirséða spretti og ég sem er vön ráðsettri Trítlu átta mig ekki alltaf á því hversu fast ég þarf að halda um ólina. Bjartur kom hins vegar eins og lítið ljós þegar ég kallaði – eins lítið móðursýkislega og ég gat á hann þar sem ég sá undir loppurnar á honum út á bílastæði. Sigh….
Hann er líka svoldið hrifinn af því að pissa á blöð hann bara hittir ekki alltaf og hann á sér 3 kúka staði í húsinu þannig að þessi regla hans auðveldar nú alla umhirðu. Svo fer að rigna og þá kannski fer af pallinum og þá getur maður sett hann svoldið út, svo er Palli að koma heim og ég ætla að biðja hann um að setja króka framanvið hús og þá er hægt að setja krílið út til að fá smá útrás. Hann nefnilega þarf að fá svoleiðis…..
Annars er hann að mörgu leyti algjört ljós, sefur í búrinu sínu alla nóttina og fer svo út að pissa í morgunsárið, stundum gerast slys og hann pissar í búrið – það finnst honum ekki fínt – og ekki mér heldur, en maður er nú svo lítill.
Hann verður ljósari og ljósari með degi hverjum og bletturinn framan í honum setur skemmtilegan svip á krílið – gefur honum svolítinn karakter – amk svona meðan hann er lítill. Hann er sem sagt mikill gleðigjafi – en óskaplega tæturófa og lætur einskis ófreistað í þeim efnum. En NEI er farið að öðlast merkingu þannig að þetta horfir nú til betri vegar – smám saman.

