Jæja ekki er það björgulegt

Það er náttúrulega óskaplegt að vera í verkfalli – eiginlega alveg óskaplega óskaplegt. Lífið virðist þó ganga sinn vanagang og heimurinn skekst ekki nema lítillega hjá Íslendingum – það eru helst málefni fatlaðra og einhverfra sem valda usla. Það kemur í ljós í dag hvað verður með það. Þó er eiginlega ekki hægt að segja að verkfallsvopnið séu silkihanskar – heldur nýtist það best ef það er beitt – og bitið fer úr við hverja undanþágu. Áróðurslega fer þetta samt greinilega óskaplega illa í almenning. Og vissulega er þetta líka áróðursstríð.



Ég sit og skoða bútasaumsblöðin mín – ný og gömul og er að reyna að ákveða hvað ég geri næst – er búin með tvö voða sæt stykki – gaman gaman. Það er ekki leiðinlegt að hafa tíma til ýmissa hluta – ég fer t.d. í sund á morgnana og tek til alveg eins og mig listir – hið sama verður þó ekki sagt um börnin mín sem eiga í miklum vandræðum með herbergin sín – litlu lýsnar mínar.



Mér leiðist samt aðeins – þarf svona að hitta fólk við og við – en það eru allir að vinna einhvern veginn – er að hugsa um að heimsækja Jóhönnu samstarfskonu mína – það er nú ekki langt á milli.



Svo ætla ég að baka snúða á eftir.

Færðu inn athugasemd