Vinsældir foknar út í veður og vind
Ég er kennari í verkfalli. Því fylgir ýmislegt m.a. gefst tóm til að lesa dagblöð. Þar hefur margur frægur maðurinn stigið á stokk og tjáð sig,
Mörgum ef ekki flestum þeirra virðist vera sérlega uppsigað við forystu kennara – enda hún sem stendur í eldlínunni. Þessi forysta hefur dregið kennara á asnaeyrunum í verkfall og verið með æðubunugang í aðdraganda þess og kjölfar. Úrslit atkvæðagreiðslunnar í vor um verkfall meðal kennara voru þó ótvíræð, yfirgnæfandi meirihluti kennara var til í að láta sverfa til stáls nú í haust. Ekki af því að Eiríkur og Finnbogi hefðu tak á asnaeyrum okkar heldur vegna þess að okkur fannst og finnst vera nóg komið.
Ég virði starf mitt mikils og ég virði verk mín sömuleiðis mikils og ég veit að margur gerir hið sama. Engu að síður er margt sagt miður um þá meintu eyrnastóru stétt sem ríður um héröð með vopnaskaki og ófriði og níðist á þeim sem síst skyldi, foreldrum og börnum þessa lands – vinnandi fólki sem ekkert vill frekar en stunda sín störf í friði. Kannski svona svolítið eins og ég sjálf. Mig langar að vinna mín verk í friði – og síðast en ekki síst hafa tíma til þess.
Ég kenni núna 4. bekk og hef því lokið minni kennslu á daginn kl. 12:30. Ég sit á fundum til rúmlega þrjú fjóra daga vikunnar og get því hafið undirbúning næsta dags um 15:30. Ég kenni 26 börnum, 6 kest á dag 4 daga vikunnar en 4 kest þann fimmta. Ég hef 2 klst. til þess að undirbúa næsta dag og fara yfir verkefni dagsins og síðan bætist við frágangur í stofunni, símtöl heim, bréfaskrif og annað sem fellur til. Á föstudögum get ég strax eftir kennslu hafist handa við að undirbúa næstu viku og farið yfir heimanám sem tekur um 4 klst ( sem samsvarar undirbúningi fyrir 2 heila kennsludaga). Við þennan vinnutíma minn bætist að 20 mín. undirbúningstími dugar mér ekki og því er vinnutími minn langtum lengri en til 17:30 dag hvern og helgarnar eru oftast nýttar til undirbúnings sömuleiðis. Og þetta er starfið sem ég elska og vil engu öðru sinna og fyrir það fæ ég 197.000 kr. eftir 10 ár í kennslu.
Ég er tilbúin til þess að vera í verkfalli þangað til ríkisstjórn þessa lands viðurkennir að greiðslur til sveitarstjórna voru alltof rýrar á sínum tíma. Ég er tilbúin að vera í verkfalli þar til nýi forsætisráðherrann okkar áttar sig á því að vandinn snýr vissulega að honum. Ég er tilbúin til þess að vera í verkfalli þar til sveitarfélögin sjá að við svona lagað er ekki hægt að una lengur. Kennarar bera of þungar byrðar í sinni vinnu og fá ekki greitt samkvæmt vinnuframlagi.
Ég veit – eftir að hafa búið í litlu en þó ríku sveitarfélagi að skólinn er þungur baggi að bera, en það þýðir samt ekki að mér finnist eðlilegt og sjálfsagt að vinna 12 tíma vinnudag án þess að tekið sé tillit til þess í launum. Ég vil geta sinnt minni vinnu í dagvinnu og vera sátt við dagsverkið þegar haldið er heim.
Halldór Ásgrímsson byrjaði valdatím sinn vel, hann sat brosandi í Kastljósstólnum í næstum hálftíma og sagði svo næsta dag að kennaradeilan kæmi hvorki sér eða ríkinu við, því hún snéri að sveitarstjórnum. Þær hafi eytt einum miljarði meira í skólamál ár hvert en ríkið gerði á sínum tíma.
Víst er að búast mátti við að kostnaður við skólann ykist þegar metnaðarfullir heimamenn tækju að sér að sjá um rekstur hans. En það var ekki bara metnaður heimamanna sem hafði áhrif á útgjöldin. Við flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna urði skil í greiningu og meðferð barna með hegðunar og geðraskanir. Ríkið á að sjá um meðferðarhlutann en sveitarfélögin um greininguna. Þar vantar ekkert upp greiningarþáttinn hjá þeim sveitarfélgögum þar sem ég hef starfað en úrræðin meðferðarmegin eru lítil sem engin og komi þau einhvern tímann er það ofast of seint. BUGL er nánast lamað batterí og á Greiningarstöðina komast grunnskólabörn eftir margra ára bið. Þetta eru þær einu stofnanir sem eiga og mega skila skýrslum til Jöfnunarsjóðs sem svo aftur greiðir til sveitarfélaganna.
Sveitarfélögin hafa því staðið upp úrræðalaus, hvorki heilbrigðis né félagsgeirinn koma að málum að neinu ráði og fé úr Jöfnunarsjóði fer ár minnkandi. Vandinn hefur verið leystur með meiri mannafla inn í skólastofurnar, sérkennurum og stuðningsfulltrúum. Allt kostar þetta vísast stærstan hluta þess miljarðar sem Halldór karlinn minntist á – að viðbættum gríðarlegum kostnaði við einsetningu skólanna, tæknivæðingu og mötuneyti, en það er nú ekki neitt sem Halldóri kemur við.
Þeim pistlahöfundum sem ég hef lesið greinar eftir nú undanfarið er tíðrætt um vinsældir kennara og telja þær fara ört minnkandi – vont er ef satt er en við með meint asnaeyru vissum og vitum að verkfall er ekki leið til þess að komast á topp vinsældarlistans.
Ég er vel og sí-menntaður einstaklingur sem býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu. Ég er sérfræðingur á mínu sviði og ég er stolt af því. Vinsældir eru eins og dægurfluga, hverfular og léttvægar, en störf mín eiga vonandi eftir að standa lengur en eitt dægur. Þess vegna er ég kennari – og er stolt af því.