VERKFALL
Ju minn eini…..
Ég hef einu sinni farið í verkfall áður – það stóð í einn dag. Ég hef hins vegar lent í þeim mörgum – eitt varð t.d. til þess að kennaranámið mitt fór í handaskolum – ja svona m.a. Annað varð til þess að ég varð stúdent í janúar en ekki desember og hið þriðja var þarna einhvers staðar líka – og hafði sínar afeiðingar líka.
Mér finnst ekki gaman að vera í verkfalli, – ég ætla samt að líta á þetta sem svona persónustyrkjandi ferli.
Ég skal meira að segja vera í verkfalli í nokkurn tíma ef það yrði til þess að ég þyrfti ekki að vinna svona mikið. Ég get hafið undirbúning kennslu minnar fyrir næsta dag klukkan 15:30 dag hvern nema á föstudögum – þá get ég byrjað fyrr, og þá þarf ég að undirbúa 6 kennslustundir. Ég veit ekki alveg heldur hvernig ég á að hafa tíma til þess að fara yfir heimanám barnanna og skrifa athugsemdir og reyna að leiðbeina þeim í gegnum þau verkefni. Kannski er bara ekkert til þess ætlast.
Bara að skrifa undir bréf til nemenda og foreldra tekur drjúga stund þegar þau eru 26 og jafnvel 52. Samt er ég bara að kenna til hálf eitt dag hvern – tíminn er enn ódrýgri hjá þeim sem kenna eldri börnum og eru í fleiri götum – göt eru nefnilega ekki sérlega drjúgur tími til að vinna – þó hvert þeirra sé 40 mín, þá þarf að koma sér fyrir í vinnuaðstöðunni sinni – draga með sér verkefnin og komast af stað – og maður er einhvern veginn varla byrjaður þegar kennslan bíður.
Ég elska að vera kennari – og vil ekki vera neitt annað. Ég vona að ég sé góður kennari og ég vildi óska að fólk mæti stéttina mína meira en margur gerir. Við verðum að vera duglegri að markaðssetja það sem við gerum – sjáið svona gerum við og láta vita af því að starfi sem við vinnum. Kennslan er líka þjónustustarf og það eiga ekki bara að vera vefsíður sem sjá um að miðla verkum okkar – heldur við sjálf í maður á mann samskiptum og sambandi við foreldra. Foreldrar eru nefnilega með okkur í liði því þau eins og við viljum gera sem allra best og mest fyrir börnin.
Æ þetta er ósköp eitthvað trist og ég er farin að sakna litlu stubbanna minna í Sunnulæk þó ég viti að þau séu áreiðanlega svoldið ánægð með fríið.
Inga kennari