Trítla



Það var fyrir 8 árum eða svo sem góð vonkona mín og nágranni bauð mér hvolp úr goti yndislegrar tíkur – Glóru sem var Skoti með íslensku ívafi. Lítil tík og óskaplega gáfuð. Mikill fyrirmyndarhundur sem ekki var hægt annað en hrífast af henni.



Það var því tapaður slagurinn þegar Jóa pressaði á okkur að taka einn hvolp hjá sér. Fyrir valinu var pínulítil grá tík, sem féll nafnið Trítla – ég valdi nafnið en önnur komu til greina, en síðar urðu við óskaplega ánægð með nafnið þar sem bergmálið frá trítli hennar hreinlega kallaði á þetta nafn.



Trítla var óskaplega þver og ákveðinn hundur, hún þverneitaði að sofa heila nótt í forstofunni og á meðan við vorum í skólanum gat hún vel hugsað sér að gelta allan tímann þó hún væri svo lítil að hún stóð varla út úr hnefa.



Ragnheiður og Aðalsteinn urðu að fara heim í hádeginu og huga að litla greyinu sem var alveg orðin hás – en langt frá því að hafa gefist upp. Enda byrjaði hún af sama kappi að gelta um leið og hringt var inn og krakkarnir hlupu af stað í tíma.



Fljótlega varð hundurinn eins og einn af heimilismönnunum. Hún skipaði sinn sess í öllum áætlunum og lífi.



Hún var varla orðin eins árs þegar faðir hennar braust inn og barnaði hana af litlum hvolpi sem skírður var Snotra, en örlög hennar urðu ekki sem best og við misstum sjónar af henni – en hún var afar efnilega og gríðarlega falleg. Við söknum hennar enn. Trítla eignaðist hana þegar við vorum erlendis – líklega í Skotlandi.



Árin liðu og hún eignaðist einu sinni enn hvolpa – 6 stk en illa fór fyrir þeim flestum. Eftir barneignirnar var hún Trítla tekin úr sambandi og við það varð hún settlegri – feitari og hætti að elta eins mikið bíla – okkur öllum til ánægju. Ekkert óttuðumst við meira en hún yrði undir bíl – enda hélt Trítla að hún væri riddari þjóðvegarins og allir bílar hlytu að vikja fyrir henni á meðan hún eltist við þá.



Árin liði og enn jókst væntum þykjan. Flutningur á Selfoss lagðist illa í Trítlu nú í sumar – henni leist ekki á þetta vesen allt á Írafossi og varð því fegin þegar hún fékk að fara til Jóu – og þar átti hún yndislegar 2 vikur – svo góðar að hún vildi helst ekki koma heim aftur. En í græna húsið kom hún.



Nú um miðjan september varð hún allt í einu afskaplega veik og hreinlega dauðvona. Þetta hafði mikil áhrif á fjölskylduna – við vorum öll miður okkar. Við skildum þetta bara ekki og mikið var grátið a.m.k. mín megin.



Eftir miklar rannsóknir og veikindi kom í ljós að hún er með sjálfsofnæmi. Hvítu blóðkornin hennar hamast við að éta þau rauðu með þeim afleiðingum að dauðinn er möguleiki.



Hafin var mikil sterameðferð og hundurinn er heldur að braggast, tungan er að roðna en hún er enn þreklítil og verður fljótt móð. Hún er hins vegar alveg orðin hún sjálf – og sýnir öll persónueinkennin sem við vorum farin að sakna svo mjög þessa viku sem hún virtist vera að svífa á brott frá okkur.



Nú er bara að bíða og sjá hvað verður….



Komið hafa upp tillögur um að við ættum að lóga henni frá þeim sem ekki þekkja kannski sérlega vel til. Málið er að hún er ein af okkur þó hún sé ,,bara“ hundur. Það var eins og konan sagði fyrir norðan – maður tekur ekki afa sinn af lífi þó hann sé orðinn ellihrumur. Það er eins með Trítlu. Á meðan hún lifir þokkalegu lífi og heldur sínu geði þá reynum við allt til þess að hún fái að eiga með okkur nokkra mánuði enn og vonandi ár.



Það væri vel þegið,



kveðja Ingveldur

Færðu inn athugasemd