Það er náttúrulega óskaplegt að vera í verkfalli – eiginlega alveg óskaplega óskaplegt. Lífið virðist þó ganga sinn vanagang og heimurinn skekst ekki nema lítillega hjá Íslendingum – það eru helst málefni fatlaðra og einhverfra sem valda usla. Það kemur í ljós í dag hvað verður með það. Þó er eiginlega ekki hægt að segja að verkfallsvopnið séu silkihanskar – heldur nýtist það best ef það er beitt – og bitið fer úr við hverja undanþágu. Áróðurslega fer þetta samt greinilega óskaplega illa í almenning. Og vissulega er þetta líka áróðursstríð.
Ég sit og skoða bútasaumsblöðin mín – ný og gömul og er að reyna að ákveða hvað ég geri næst – er búin með tvö voða sæt stykki – gaman gaman. Það er ekki leiðinlegt að hafa tíma til ýmissa hluta – ég fer t.d. í sund á morgnana og tek til alveg eins og mig listir – hið sama verður þó ekki sagt um börnin mín sem eiga í miklum vandræðum með herbergin sín – litlu lýsnar mínar.
Mér leiðist samt aðeins – þarf svona að hitta fólk við og við – en það eru allir að vinna einhvern veginn – er að hugsa um að heimsækja Jóhönnu samstarfskonu mína – það er nú ekki langt á milli.
Svo ætla ég að baka snúða á eftir.
Month: september 2004
Button hvað?
Þvílíkt svindl – átti maðurinn ekki eftir að fara í eitt stopp enn – annars ber að varast að hlusta á þessa menn í útsendingunni – og reyna að hugsa sjálfstætt – svoldið erfitt. Trítla átti erfiða nó´tt másar og másar og mér líst ekkert á hana greyið. Hún þarf að fara tvisvar út að pissa á næturnar og vill alltaf vera að éta. Þetta er eins og að vera með ungabarn. Kannski másar hún bara því henni er heitt.Nú fór hún út að viðra sig svoldið – kannski er þetta bara hitinn.
En sem sagt – ég er ekki enn búin að skilja þennan akstur hjá Button – held hann hljóti að vera svoldið góður. Kimi fór svoldið snemma inn í síðasta stoppi – vogun vinnur vogun tapar. En nú ætla ég að hlusta á blaðamannafundinn.
Sem sagt – McLaren reyndi að gera eitthvað eitthvað nýtt til að ná Barra – gekk ekki. Kimi sagði að það skipti ekki máli hvort maður er 2. eða 3. – heldur að vinna.
Fín keppni – fín braut og bara gaman gaman. Hlakka samt til að fá RTL
Í dag er það aðeins meiri tiltekt og byrja að sauma.
Inga
PS: Þið ættuð að sjá hvað það er fínt í stofunni mar – vantar ekkert annað en nagla og hengja upp myndi.
Grein um grein
Ég fékk 2 sms í morgun vegna greinar minnar í Mogganum – annað var frá Daða – takk fyrir það Daði minn. Hitt var nafnlaust en frá Garðari Guðl á Akranesi. Hann þakkaði fyrir greinina en benti mér á að ég hefði 2,5 mánuð í sumarfrí. Ég settist niður og skrifaði manninum póst um sumarfríið mitt. Hann fer hér á eftir.
Sæll Garðar og takk fyrir sms-ið. Alltaf gaman að fá viðbrögð við skrifum
sínum.
Nú veit ég ekki hvort athugasemd þín um sumarfríið var í háði eða í
alvöru. Ég var fyrst alveg viss um að þetta væri háð – fyrst þér finnst
greinin góð en ef ekki ætla ég að segja þér frá sumarfríinu mínu góða.
Vinnuvika mín er 42,5 /er víst 42,8/ stundir. 2 stundum rúmlega lengri en hjá öðrum til
þess að vega upp á móti lengra sumarfríi. ,,Sumarfrí“ mitt í ár og önnur
undanfarin ár er frá því um 10. júní til 16. ágúst – 45 virkir dagar. Á
þeim tíma ber mér að fara á námskeið – venjan er að fara á eitt 3 -5 daga
námskeið í júní og 2 eftir 10. ágúst. Í sumar skráði ég mig á námskeið
upp á 7 daga en eitt féll niður þannig að þeir urðu ekki nema 5
námskeiðsdagarnir og ég hef upp á það kvittun og skírteini. Þar með eru
dagarnir orðnir 39 (37) sem ég hef frí að frádregnum þeim dögum sem ég
byrjaði fyrr að vinna í ágúst – en látum þá liggja á milli hluta. Á
hverri viku síðasta vetur vann ég af mér 2,86 stundi sem er um 100 klst
eða tvær og hálfa vinnuviku sem gerir dagana sem ég hef í sumarfrí um 27.
Sumarfríið mitt – þetta tveggja mánaða {hann sagði reyndar í smsinu að ég hefði 2,5 mán. en ég hafði nú ekki hugmyndaflug í það í morgunsárið] er því 27 virkir dagar og getur
ekki lengra orðið nema ég sem starfsmaður geti ekki nýtt mér námskeið
sumarsins af einhverjum ástæðum.
En ég veit svo sem ekki hvort þetta sé eitthvað sem þú vildir vita, og
kannski vissir þú þetta allt saman fyrir. Þessar tölur eru birtar með
fyrirvara þar sem ég hafði ekki reiknivél við höndina en svona sýnist mér
staðan vera og upplifunin er vissulega þessi – sumarfrí mitt er næsta líkt
öðrum hópum sem búa við sömu réttindi og ég.
bestu kveðjur og vonandi lýkur verkfallinu sem fyrst,
Ingveldur Eiríksdóttir
Góðan daginn
Það er greinilega ekki úr mér allur Formúlu 1 kraftur fyrst ég skreið fram úr til að horfa á F1 eldsnemma að morgni. Vandinn er þó ekki að klukkan sé sex heldur að ég hef farið ótrúlega seint að sofa síðustu kvöld enda líður mér eins og svefngengli – hef eiginlega ekki verið ég sjálf síðustu daga. Ég bara verð að fara að sofa snemma og vakna snemma – en ekki hitt – sofa seint og vakna seinna.
Fyrsti kappaksturinn í Kína lítur vel út – brautin er svo gjörólík öðrum brautum að meira að segja Gunnlaugur virðist átta sig á því – sem betur fer er Rúnar alltaf meira áttaður á þessu þó ekki sé mikið talað um eðli brautanna. En ég ætla nú ekki að tala meira um það.
Trítla vill hafa mjög kalt í húsinu þessa dagana – hún másar og blæs en núna þegir hún þar sem hún liggur hér fyrir framan svaladyrnar þar sem blæs þvílíkt inn í einhverju skítaveðri sem másar og blæs eins og hundurinn.
Verkfallið …. Hef ekkert um það að segja. Er þó alveg gáttuð hvað leiðrétting á vinnutíma getur haft mikil áhrif á þjóðfélagið – við bara erum að setja samfélagið straight to hell. Kannski verður maður bara að hugsa um að söðla um. Maður svo sem getur ekki unnið svona mikið alltaf hreint. Ég veit það ekki svei mér þá………
En svefninn í nótt býður eiginlega ekki upp á meiri pælingar að sinni,
Inga
Vinsældir foknar út í veður og vind
Ég er kennari í verkfalli. Því fylgir ýmislegt m.a. gefst tóm til að lesa dagblöð. Þar hefur margur frægur maðurinn stigið á stokk og tjáð sig,
Mörgum ef ekki flestum þeirra virðist vera sérlega uppsigað við forystu kennara – enda hún sem stendur í eldlínunni. Þessi forysta hefur dregið kennara á asnaeyrunum í verkfall og verið með æðubunugang í aðdraganda þess og kjölfar. Úrslit atkvæðagreiðslunnar í vor um verkfall meðal kennara voru þó ótvíræð, yfirgnæfandi meirihluti kennara var til í að láta sverfa til stáls nú í haust. Ekki af því að Eiríkur og Finnbogi hefðu tak á asnaeyrum okkar heldur vegna þess að okkur fannst og finnst vera nóg komið.
Ég virði starf mitt mikils og ég virði verk mín sömuleiðis mikils og ég veit að margur gerir hið sama. Engu að síður er margt sagt miður um þá meintu eyrnastóru stétt sem ríður um héröð með vopnaskaki og ófriði og níðist á þeim sem síst skyldi, foreldrum og börnum þessa lands – vinnandi fólki sem ekkert vill frekar en stunda sín störf í friði. Kannski svona svolítið eins og ég sjálf. Mig langar að vinna mín verk í friði – og síðast en ekki síst hafa tíma til þess.
Ég kenni núna 4. bekk og hef því lokið minni kennslu á daginn kl. 12:30. Ég sit á fundum til rúmlega þrjú fjóra daga vikunnar og get því hafið undirbúning næsta dags um 15:30. Ég kenni 26 börnum, 6 kest á dag 4 daga vikunnar en 4 kest þann fimmta. Ég hef 2 klst. til þess að undirbúa næsta dag og fara yfir verkefni dagsins og síðan bætist við frágangur í stofunni, símtöl heim, bréfaskrif og annað sem fellur til. Á föstudögum get ég strax eftir kennslu hafist handa við að undirbúa næstu viku og farið yfir heimanám sem tekur um 4 klst ( sem samsvarar undirbúningi fyrir 2 heila kennsludaga). Við þennan vinnutíma minn bætist að 20 mín. undirbúningstími dugar mér ekki og því er vinnutími minn langtum lengri en til 17:30 dag hvern og helgarnar eru oftast nýttar til undirbúnings sömuleiðis. Og þetta er starfið sem ég elska og vil engu öðru sinna og fyrir það fæ ég 197.000 kr. eftir 10 ár í kennslu.
Ég er tilbúin til þess að vera í verkfalli þangað til ríkisstjórn þessa lands viðurkennir að greiðslur til sveitarstjórna voru alltof rýrar á sínum tíma. Ég er tilbúin að vera í verkfalli þar til nýi forsætisráðherrann okkar áttar sig á því að vandinn snýr vissulega að honum. Ég er tilbúin til þess að vera í verkfalli þar til sveitarfélögin sjá að við svona lagað er ekki hægt að una lengur. Kennarar bera of þungar byrðar í sinni vinnu og fá ekki greitt samkvæmt vinnuframlagi.
Ég veit – eftir að hafa búið í litlu en þó ríku sveitarfélagi að skólinn er þungur baggi að bera, en það þýðir samt ekki að mér finnist eðlilegt og sjálfsagt að vinna 12 tíma vinnudag án þess að tekið sé tillit til þess í launum. Ég vil geta sinnt minni vinnu í dagvinnu og vera sátt við dagsverkið þegar haldið er heim.
Halldór Ásgrímsson byrjaði valdatím sinn vel, hann sat brosandi í Kastljósstólnum í næstum hálftíma og sagði svo næsta dag að kennaradeilan kæmi hvorki sér eða ríkinu við, því hún snéri að sveitarstjórnum. Þær hafi eytt einum miljarði meira í skólamál ár hvert en ríkið gerði á sínum tíma.
Víst er að búast mátti við að kostnaður við skólann ykist þegar metnaðarfullir heimamenn tækju að sér að sjá um rekstur hans. En það var ekki bara metnaður heimamanna sem hafði áhrif á útgjöldin. Við flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna urði skil í greiningu og meðferð barna með hegðunar og geðraskanir. Ríkið á að sjá um meðferðarhlutann en sveitarfélögin um greininguna. Þar vantar ekkert upp greiningarþáttinn hjá þeim sveitarfélgögum þar sem ég hef starfað en úrræðin meðferðarmegin eru lítil sem engin og komi þau einhvern tímann er það ofast of seint. BUGL er nánast lamað batterí og á Greiningarstöðina komast grunnskólabörn eftir margra ára bið. Þetta eru þær einu stofnanir sem eiga og mega skila skýrslum til Jöfnunarsjóðs sem svo aftur greiðir til sveitarfélaganna.
Sveitarfélögin hafa því staðið upp úrræðalaus, hvorki heilbrigðis né félagsgeirinn koma að málum að neinu ráði og fé úr Jöfnunarsjóði fer ár minnkandi. Vandinn hefur verið leystur með meiri mannafla inn í skólastofurnar, sérkennurum og stuðningsfulltrúum. Allt kostar þetta vísast stærstan hluta þess miljarðar sem Halldór karlinn minntist á – að viðbættum gríðarlegum kostnaði við einsetningu skólanna, tæknivæðingu og mötuneyti, en það er nú ekki neitt sem Halldóri kemur við.
Þeim pistlahöfundum sem ég hef lesið greinar eftir nú undanfarið er tíðrætt um vinsældir kennara og telja þær fara ört minnkandi – vont er ef satt er en við með meint asnaeyru vissum og vitum að verkfall er ekki leið til þess að komast á topp vinsældarlistans.
Ég er vel og sí-menntaður einstaklingur sem býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu. Ég er sérfræðingur á mínu sviði og ég er stolt af því. Vinsældir eru eins og dægurfluga, hverfular og léttvægar, en störf mín eiga vonandi eftir að standa lengur en eitt dægur. Þess vegna er ég kennari – og er stolt af því.
1 miljarður
Nú er annar dagur í verkfalli. Ég er búin að ná í bútasauminn minn – og fá mér ný mynstur og svona sem gaman væri að gera. Ég er með köku í ofninum – búin að fara einu sinni út á snúru og er búin að brjóta saman úr einum bala.
Ég hef líka farið niður á Eyrarbakka með bílinn minn í skveringu hjá þeim á Litla Hrauni – hann verður nú fínn á eftir sá græni skal ég segja ykkur. Ég fór líka með Hjördísi og Guðjón í sund – en ekki með – bara með þau að sundlauginni – smá tregða við að koma sér í sundið. En það kemur.
Ég hef sem sagt ýmislegt gert. Börnin mín ganga um húsið í forundran og skilja ekki hví hér er ekki dót og drasl um allt – sjá alls ekki samhengið í því að vera heima allan daginn eða vinna 12 tíma og koma heim örþreyttur. Blessuð litlu greyin.
Verst að ég er ægilegur verkfallsbrjótur að vera með Hjördísi – er ekki mjög góð í svona verkfallsbaráttu – á að fara í verkfallsvörslu á morgun – finnst áreiðanlega allt mjög eðlilegt – hef ekki þessa brennandi verkalýðsbakteríu – en hún ágerist vísast. Auðvitað á maður ekkert að vera að passa börn fyrir fólk – það á bara að bjarga sér sjálft og lenda í vandræðum svo það fari að rífast yfir því að við séum í verkfalli og koma þannig af stað pressu.
En komum nú að erindinu:
Við höfum eignast nýjan forsætisráðherra – hef nú ekki skoðanir á honum í sjálfu sér – annað en það sem flestir hafa sem ekki eru með honum í flokki en ekki þótti mér hann byrja valdaferilinn vel blessaður á öðrum degi í embætti. Þá var kappinn spurður að því hvort ríkið ætlaði að gangast í kjaradeilu sveitarfélaganna og kennara. Hann hélt nú ekki – þetta væri allt saman mál sveitarfélaganna en ekki ríkisins.
Það vita það allir sem vilja vita að sveitarfélögin sömdu af sér þegar þau tóku skólann yfir og hróplegt misræmi í launum kennara miðað við aðrar stéttir var ekki tekið með í reikninginn. Og annað hefur líka sett strik í margfrægan reikning sömuleiðis…..
Halldór sagði að skólinn væri nú miljarði dýrari hjá sveitarfélögum en hann var hjá ríkinu og það væri alfarið vandi þeirra sjálfra. En það vita þeir sem vilja vita að er ekki alfarið rétt….
Þegar sveitarfélögin tóku yfir skólann varð verkaskiptingin þannig að þau sæu um greiningu nemenda með hegðunarraskanir og eða þeirra sem þurfa greiningu í námslegri færni. Ríkið skyldi sjá um úrræðin og meðferðina. Skólasálfræðingar hér á Selfossi mega t.d. ekki hitta ,,skjálstæðing“ sinn oftar en 5 sinnum. Næsta skref er síðan Greiningarstöðin eða BUGL – og allir vita hvernig staðan er þar. Úrræðin inni í skólanum eru sárafá nema að auka stuðning með stuðningsfulltrúum og sérkennslu – sem skilar ekki endilega þeim árangri sem þarf að nást því einungis er tekið á einum þætti af mörgum sem líf barnanna er sett saman úr. Þau vandamál sem mest hvíla á kennurum eru tengd hegðun og slæm hegðun hefur mikil áhrif innan skólastofunnar.
Nú á barnið eða börnin ekki neina sök í þessu máli – heldur eru það aðstæðurnar sem valda vandanum – og skortur á meðferð á sviðunum þremur – heilbrigðis, mennta og félagslegu. Sveitarfélögin koma að menntasviðinu og hafa reynt að leysa brennandi vanda með aukinni sérkennslu og stuðningi eins og ég nefndi áðan – en ríkið stendur hjá og gerir ekki neitt – BUGL er brunnið yfir – nemendur eru heppnir ef þeir komast nokkurn tímann inn á Greiningarstöð og úrræðin eru sárafá sem ríkið hefur upp á að bjóða og vandamálin hlaðast upp og tölurnar blasa við. Allt að 90% fanga á Litla Hrauni eiga í fórum sínum greiningu vegna hegðunarvandamála og geðraskana í grunnskóla – fæstir þeirra eiga sér hins vegar nokkra sögu um það að tekið var á vandamálum þeirra á þreim þremur sviðum sem þurfa að vinna saman til þess að árangur náist.
Það er margsannað mál að þau brögð sem við beitum til þess að leysa vandann í skólastofunni og einstakra nemenda með hegðunarvanda séu ekki til þess fallin að árangur náist – hinar sem eru árangursríkari reynast er hins vegar ekki beitt – og þar hvílir ábyrgðin hjá ríkinu.
Halldór getur því gagnrýnt eyðslusemi sveitarfélaganna eða hitt þó heldur. Ég held hann ætti að setjast niður með Kristjáni Má skýrsluhöfundi Jóns Kristjánssonar og heyra hvernig þessi mál eru hér á landi. Hann ætti líka að setjast niður og skoða í heild sinni kostnað við grunnskólann með sveitarstjórnarmönnum. Þá og einungis þá geta sveitarstjórnarmenn sest niður og horft á heildina varðandi störf kennara og samið við þá. Kennarar eru nefnilega ekki fífl og þekkja sín störf mætavel og það er vel hægt að hlusta á það sem þeir segja þó maður sé í sveitarstjórnarmálum – já og jafnvel þó maður heiti Karl Björnsson.
En sem sagt – er farin í bútasauminn
sakna samt Bjarkar – hún er á Neskaupsstað í stað þess að sitja hér hjá mér og stúassast,
kveðja út í tómið,
IE
VERKFALL
Ju minn eini…..
Ég hef einu sinni farið í verkfall áður – það stóð í einn dag. Ég hef hins vegar lent í þeim mörgum – eitt varð t.d. til þess að kennaranámið mitt fór í handaskolum – ja svona m.a. Annað varð til þess að ég varð stúdent í janúar en ekki desember og hið þriðja var þarna einhvers staðar líka – og hafði sínar afeiðingar líka.
Mér finnst ekki gaman að vera í verkfalli, – ég ætla samt að líta á þetta sem svona persónustyrkjandi ferli.
Ég skal meira að segja vera í verkfalli í nokkurn tíma ef það yrði til þess að ég þyrfti ekki að vinna svona mikið. Ég get hafið undirbúning kennslu minnar fyrir næsta dag klukkan 15:30 dag hvern nema á föstudögum – þá get ég byrjað fyrr, og þá þarf ég að undirbúa 6 kennslustundir. Ég veit ekki alveg heldur hvernig ég á að hafa tíma til þess að fara yfir heimanám barnanna og skrifa athugsemdir og reyna að leiðbeina þeim í gegnum þau verkefni. Kannski er bara ekkert til þess ætlast.
Bara að skrifa undir bréf til nemenda og foreldra tekur drjúga stund þegar þau eru 26 og jafnvel 52. Samt er ég bara að kenna til hálf eitt dag hvern – tíminn er enn ódrýgri hjá þeim sem kenna eldri börnum og eru í fleiri götum – göt eru nefnilega ekki sérlega drjúgur tími til að vinna – þó hvert þeirra sé 40 mín, þá þarf að koma sér fyrir í vinnuaðstöðunni sinni – draga með sér verkefnin og komast af stað – og maður er einhvern veginn varla byrjaður þegar kennslan bíður.
Ég elska að vera kennari – og vil ekki vera neitt annað. Ég vona að ég sé góður kennari og ég vildi óska að fólk mæti stéttina mína meira en margur gerir. Við verðum að vera duglegri að markaðssetja það sem við gerum – sjáið svona gerum við og láta vita af því að starfi sem við vinnum. Kennslan er líka þjónustustarf og það eiga ekki bara að vera vefsíður sem sjá um að miðla verkum okkar – heldur við sjálf í maður á mann samskiptum og sambandi við foreldra. Foreldrar eru nefnilega með okkur í liði því þau eins og við viljum gera sem allra best og mest fyrir börnin.
Æ þetta er ósköp eitthvað trist og ég er farin að sakna litlu stubbanna minna í Sunnulæk þó ég viti að þau séu áreiðanlega svoldið ánægð með fríið.
Inga kennari
Trítla
Það var fyrir 8 árum eða svo sem góð vonkona mín og nágranni bauð mér hvolp úr goti yndislegrar tíkur – Glóru sem var Skoti með íslensku ívafi. Lítil tík og óskaplega gáfuð. Mikill fyrirmyndarhundur sem ekki var hægt annað en hrífast af henni.
Það var því tapaður slagurinn þegar Jóa pressaði á okkur að taka einn hvolp hjá sér. Fyrir valinu var pínulítil grá tík, sem féll nafnið Trítla – ég valdi nafnið en önnur komu til greina, en síðar urðu við óskaplega ánægð með nafnið þar sem bergmálið frá trítli hennar hreinlega kallaði á þetta nafn.
Trítla var óskaplega þver og ákveðinn hundur, hún þverneitaði að sofa heila nótt í forstofunni og á meðan við vorum í skólanum gat hún vel hugsað sér að gelta allan tímann þó hún væri svo lítil að hún stóð varla út úr hnefa.
Ragnheiður og Aðalsteinn urðu að fara heim í hádeginu og huga að litla greyinu sem var alveg orðin hás – en langt frá því að hafa gefist upp. Enda byrjaði hún af sama kappi að gelta um leið og hringt var inn og krakkarnir hlupu af stað í tíma.
Fljótlega varð hundurinn eins og einn af heimilismönnunum. Hún skipaði sinn sess í öllum áætlunum og lífi.
Hún var varla orðin eins árs þegar faðir hennar braust inn og barnaði hana af litlum hvolpi sem skírður var Snotra, en örlög hennar urðu ekki sem best og við misstum sjónar af henni – en hún var afar efnilega og gríðarlega falleg. Við söknum hennar enn. Trítla eignaðist hana þegar við vorum erlendis – líklega í Skotlandi.
Árin liðu og hún eignaðist einu sinni enn hvolpa – 6 stk en illa fór fyrir þeim flestum. Eftir barneignirnar var hún Trítla tekin úr sambandi og við það varð hún settlegri – feitari og hætti að elta eins mikið bíla – okkur öllum til ánægju. Ekkert óttuðumst við meira en hún yrði undir bíl – enda hélt Trítla að hún væri riddari þjóðvegarins og allir bílar hlytu að vikja fyrir henni á meðan hún eltist við þá.
Árin liði og enn jókst væntum þykjan. Flutningur á Selfoss lagðist illa í Trítlu nú í sumar – henni leist ekki á þetta vesen allt á Írafossi og varð því fegin þegar hún fékk að fara til Jóu – og þar átti hún yndislegar 2 vikur – svo góðar að hún vildi helst ekki koma heim aftur. En í græna húsið kom hún.
Nú um miðjan september varð hún allt í einu afskaplega veik og hreinlega dauðvona. Þetta hafði mikil áhrif á fjölskylduna – við vorum öll miður okkar. Við skildum þetta bara ekki og mikið var grátið a.m.k. mín megin.
Eftir miklar rannsóknir og veikindi kom í ljós að hún er með sjálfsofnæmi. Hvítu blóðkornin hennar hamast við að éta þau rauðu með þeim afleiðingum að dauðinn er möguleiki.
Hafin var mikil sterameðferð og hundurinn er heldur að braggast, tungan er að roðna en hún er enn þreklítil og verður fljótt móð. Hún er hins vegar alveg orðin hún sjálf – og sýnir öll persónueinkennin sem við vorum farin að sakna svo mjög þessa viku sem hún virtist vera að svífa á brott frá okkur.
Nú er bara að bíða og sjá hvað verður….
Komið hafa upp tillögur um að við ættum að lóga henni frá þeim sem ekki þekkja kannski sérlega vel til. Málið er að hún er ein af okkur þó hún sé ,,bara“ hundur. Það var eins og konan sagði fyrir norðan – maður tekur ekki afa sinn af lífi þó hann sé orðinn ellihrumur. Það er eins með Trítlu. Á meðan hún lifir þokkalegu lífi og heldur sínu geði þá reynum við allt til þess að hún fái að eiga með okkur nokkra mánuði enn og vonandi ár.
Það væri vel þegið,
kveðja Ingveldur
Hreiðurgerð
Nú erum við Dísa og Gerður að stússast í því að koma okkur fyrir á svolítið krúttlegan hátt hér í Sunnulækjarskóla – verðum að vera með svolítið dúllumdútl í kringum okkur kerlingarnar. Náttúrulega klikkun en samt….
Annars er það helst að frétta af mér að annar og veikindi Trítlu hafa markað líf mitt undanfarið – en nánar um það síðar.
kveðja í bili
Ingos
Freyja er kjarnokurkvendi
Freyja er hetjan mín
Freyja er kvennskörungur
Freyja getur eiginlega allt sem henni dettur í hug og reddar afgangnum.
Freyja er vinkona mín.
Guði sé lof fyrir Freyju.
Meira um hana síðar
Annars er ég búin að keyra Aðalstein í vinnuna, vinna sjálf frá því um 6 og er svo að fara og sækja hann Palla minn í bæinn.
Þetta hefur verið góður dagur hvað annir varðar. Og við gátum látið öll 50 börnin þegja á sama tíma í dágóða stund.
Kveðja Inga