Hver dagur er upphaf einhvers góðs
Mikið er maður heppinn að opna augun að morgni dags og áður en meðvitundarstigið er orðið 100% brýst sú hugsun fram að þetta verði góður dagur.
Það er eitthvað unaðslegt við þessa morgna þar sem áhyggjurnar, draslið og stússið allt nær engan veginn að buga sálartetrið – heldur þvert á móti býðst það til þess að stökkva á verkefnin og leysa þau – eftir besti magni, því líðandi stund virðist vera svo dæmalaust vel til þess fallin að láta sér líða vel.
Svona dagur er í dag hjá mér – meira að segja ferð til tannlæknisins náði ekki að brjóta niður bjartsýnina. Ráðist var í ruslið er heim var komið og nú stend ég í ströngu við að fá þær Hildi og Dísu til mín í morgunkaffi en hvorug svarar. Þykist vita að þær – amk Dísa vilji eiga sitt eigið líf hér á Selfossi en ég blæs nú á það – hversu oft er 25 stiga hiti svona í morgunsárið – meira að segja Hildur ætti að geta setið úti ;-).
Bak við vitneskjuna um allt draslið og dótið hér í húsinu kúrir hugmyndasafn IE fyrir næsta vetur og þá kannski mest hvernig best verði að hefja skólastarfið – þar þarf að kynnast börnum og foreldrum til þess að vel megi takast til. En ég læt það bíða til næstu viku – eða helgar. Veit þó að það verður nóg að stússast þar líkt og hér í Heimahaga 8. Það er gott að vera í vinnu sem manni finnst skemmtileg. O já
Þið sjáið því að ekkert brýtur niður góða skapið mitt í dag, enn sem komið er amk. En það er svo sem eins og strá – eitt óvarlegt fótspor getur brotið það, a.m.k. sett í það brot sem erfitt reynist að bæta.
Jæja – farin að sópa af borðum og gólfum.
Vona að þið hafið það jafn dæmalaust gott og ég
Inga