EM er það heillin

Ég er enn svoldið miður mín yfir því að hafa ekki getað séð Þorstein J í gærkveldi – líklega hefði ég ekki getað það hvort sem væri en ég hefði áreiðanlega reynt! Hann var víst ekki með þáttinn – ótrúlegt kæruleysi af hálfu manns sem ber nánast ábyrgð á endurmenntun minni í fótbolta. En sem sagt hann var ekki með þáttinn og ég sofnaði fyrir allar aldir í gærkveldi – þó ég hefði svo vaknað aftur og legið allnokkra stund og velt forsetakosningunum fyrir mér.

Ég hef vísast sofnað svona snemma þar sem leikur Hollands og Svíþjóðar var þvílíkt mega dæmi – fyrir utan náttúrulega Adolf Inga sem ég held að hljóti að vera jafn leiðinlegasti íþróttafréttamaður fyrir utan hann þarna Arnar á Stöð 2 og ónefndan F1 – veit ekki hvað á að kalla hann – fréttamann er einum of, kynnir er orðum aukið því hann býr til flest sem hann segir og sér svo ekki afganginn, kannski bara þýðanda gulupressunnar í F1 heimum RUV. En sem sagt Adolf gjörsamlega eyðilagði fyrir mér leikinn. ÉG held hann haldi að í hvert sinn sem hann opni munninn í útsendingu að hann þurfi að koma öllu að sem hann hugsanlega veit. Ásthildur stóð sig hins vegar vel og bjargaði því sem bjargað var. Ég veit svo sem ekki alveg hvurslags sky high væntingar þau höfðu til leiksins – þar sem Adolf tuðaði og tuðaði um að þetta væri nú leiðinlegur leikur. Mér fannst þetta sko dúndur leikur – þó hann hafi kannski ekki verið eins og England-Portúgal eða Tékkar – Holland, þess vegna fóru þeir leikir á spjöld sögunnar – met leikir náttúrulega og við getum ekki búist við svona leikjum oft í viku.

Annars hefur EM verið ógeðslega skemmtilegt. Hrein unun – svoldið tímafrekt hobbý en þetta er nú allt að lagast – fer a verða búið 🙂

Annars eru flutningar að komast hér í algjört hámark – gengur náttúrulega ekki neitt. Gengur aldrei neitt fyrr en á síðustu stundu. þannig er það nú hér á bæ – eftir tilheyrandi fjölda rifrilda og geðvonskukasta. En þetta er nú allt ákveðið ferli sem enginn kippir sér uppvið orðið lengur nema þá kannski Aðalsteinn greyið.

En nú ætla ég að fara að setja niður föt sem verða ekki notuð fyrr en í ágúst og einnig rúmföt og handklæði.

Það er jú dásamlegt að vera til – sumarið úti og sólin bak við skýin. Já og Óli stóð sig bara vel í kosningunum. Skil samt ekki alveg þessi 10% sem kusu fýlupokann atarna, það finnst mér alveg makalaust uppátæki.

Draslaríis kveðjur

Inga

Færðu inn athugasemd