Hó hó hó
Nú er kominn 20. júní og krakkarnir emjuðu upp yfir sig í gær – að sumarið væri næstum búið. Ég – sem móðir þeirra leiðrétti það nú hið snarasta – það væru jú 10 dagar eftir af júní enn og allnokkuð í viðbót eftir af sumrinu.
Þessi lenging á grunnskólanum segir þó til sín hjá börnunum og ég spyr mig hversu tilvalin hún sé. Áfstaða mín mótast þó áreiðanlega af þeirri staðreynd að bæði börnin eru í afbragðsvinnu og hafa eitthvað til að dunda sér við á daginn.
Það hef ég reyndar líka – nú er vika liðin síðan ég komst í mitt frí – sem var afskaplega langþráð eftir langt og strembið vor. Ég þakka bara mínu sæla fyrir að hafa verið sæmilega heil heilsu þegar ég lagði inn í verkefnin sem biðu mín þar. Þau voru lögð fyrir mig af meiri festu og jafnvel vonsku en oft áður og fyllilega má segja að þau hafi verið annars eðlis en alla jafna vorverkin atarna. En allt fer þetta í reynslubankann og þó svo að margur vilji að þroski minn felist í því að þegja oftar og lengur í einu og verði sammála þeim sem ráða er ég ekki viss um að svo verði. Mér finnst ekki eðlilegt að búa í samfélagi/þjóðfélagi þar sem óttinn er notaður til þess að hafa hemil á mönnum. Iss piss ég get verið í taparaliðinu endalaust – hef haldið með McLaren, allir sem ég held með tapa á EM og svo framvegis og svo framvegis. Þetta er allt mjög karakteruppbyggjandi.
Ég hef setið við undanfarna daga og grúskað og tekið til í tölvuherberginu svokaaða og gengið nokkuð vel – ekki hratt og vel, frekar hægt og örugglega. Þar hefur ýmislegt komið uppúr kössum gömul bréf – og dagbækur sem varpa ljósi á sögu mína – ég hef t.d. komist að því að ég missti fótana einhvern tímann á aldrinum 14-18 ára og var bara nokkuð mörg ár að finna mig aftur. Nokkur ár af þeim fóru vel að merkja í það að skemmta sér og hafa gaman sem tókst dáindis vel á köflum – en var þó nokkuð markerað af þeirri staðreynd að fótfestan var lítil.
Þar sem ég sat og var að skoða gömul saumablöð – þarf nefnilega að sauma mér föt fyrir Spánarferðina varð mér hugsað til þess sem nefnt var hér fyrt – sumarfrí – mikið er gott að vera í fríi. Ég held ég ætli að byrja hvern dag á því að dásama það, því það er dásamlegt. Ég get gert allt sem ég vil í þeirri röð sem ég vil. Ég stússast í tiltekt og pakkelsi – rífst svoldið yfir letinni í blessuðum börninum sem eru tölvusjúk og glápi svo á fótbolta þess á milli. Í dag verður það þó Formúlan – amk til að byrja með – kannski hætti ég í miðju kafi ef ekkert gerist skemmtilegt. Nenni ekki að eyða mínum dýrmæta frítíma í að glápa á Ferrari rúlla yfir liðin.
Annars varðandi fótboltann…. Það er miklu meiri vinna en ég hélt að vera merkilegur fótboltaáhugamaður en mig minnti. Það er líka á köflum álíka sársaukafullt og að halda með McLaren því öll lið sem ég held með tapa – besta falli gera þau jafntefli. SIGH. En ég skil afhverju fótbolti er vinsælli af körlum en konum – ég held við konur höfum bara hreinlega ekki tíma í þetta. Ég læt mér því þetta EM dót duga og horfi á Þorstein J sæta og Beckham þegar hann er í mynd – frekar kjútt gæi verð ég að segja…. Ég vona að ég hafi tíma í þessi ósköp öll en ballið stendur til 2. júlí – og miklar annir eru hjá mér á þessum tíma. Þetta er óskaplegt álag ásamt því að vera golfari, Múlufan, pakkari og driver fyrir vinnandi börnin mín.
Já það er dásamlegt að vera í fríi – um það verður ekki deilt,
Megi þið flest njóta þess líkt og ég
ykkar Inga