Flutningur

Hmmmm….

Það gengur satt að segja ekki sem best að skipuleggja sig í þessum flutningum. Ég geri helst ekki neitt – ja svona meira og minna :-). Aumingja Palli – sem er vel að merkja farinn að geta farið á bílnum eitt og annað, er að stússast í húsbréfa-lánadótinu. Það ætti að komast í gegn í næstu viku eða svo, eða ég vona það. Hef samt enga trú á að það gangi snurðulaust…. Ekki alveg í mínum anda einhvern veginn. Ég hef samt fattað að Guð er með mér í liði, og það róa huga minn aðeins 🙂

Nú er fótboltinn að byrja aftur og þá verður nú gaman…. vona að þetta verði ekki 140 mín leikur, hef eiginlega ekki tíma í það svei mér þá :-).

Annars verð ég að fara að fara um húsið og tína saman kassa og setja á einn stað – svo það sé eitthvað hægt að fara að taka til í kringum þetta drasl allt saman og sjá hverju á að henda og hverju á að ganga frá, sem liggur eins og hráviður allt í kringum þessa blessaða kassa. Annars er þetta nú að koma…

Það var lítið golf í morgun mar…. Stubburinn hennar Ástu var veikur en ég sló svolítið með kylfunum hans Palla á æfingasvæðinu – nógu lengi til að verða hundblaut og fín. Ég held ég þurfi lengri kylfur en ég er með, þær eru nú kannski líka orðnar úreltar miðað við það sem fæst í dag – eins og settið hans Palla. Þær eru nú orðnar 15 ára blessaðar.

Ég held ég fari og láti mæla mig upp til að komast að réttu kylfulengdinni – svo ég fari nú ekki að kenna árinni um þegar það er bara ég.

Vona að ég komist í golf í fyrramálið. Langar það mjög mikið…. en Það er svoldið mikið að gera sko

enn einar flutningskveðjurnar, Ingos

Úlla la langar brautir

Halló gullin mín,

ég fór 5 mjög langar og merkilega brautir í dag með Ástu. Afarskemmtilegt og tók nett í – við fórum nú ekki hratt yfir enda með Björn Ólaf í kerru – vorum næstum tvo tíma – en tveggja tíma ganga uppí mót og allavega er nú svoldið gott fyrir manneskju eins og mig.

Við förum aftur á morgun – voða gaman og styrkjandi.

En það dugir ekkert droll á milli nú verður að koma húsinu í flutningshæft form – skrúfa í sundur hlaða og raða. Já þetta er allt ljómandi skemmtilegt – sérstaklega þar sem Páll er svona skemmtilega handlama – en hann getur nú dútlað í skrúfverkinu.

Kveðja að sinni

Ingos

sigh

Halló gúrkurnar mínar! Það er nú engin gúrkutíð hjá Ingveldi. Nú er Ásta golffélagi minn og andlegur félagi þessa dagana að leggja í stóra völlinn á Kiðjabergi. Í dag var labbað upp á nokkuð smátt fjall – en fjall er að – og spilað golf ofan á því – þrjár brautir. Á morgun verða það 5 holur á stóra vellinum

Við höfum verið að paufast á litla æfingavellinum – ég segi litla því brautirnar þar eru mjög svo smáar miðað við flykkin á þeim stóra. Páll þessi elska ætlar að gæta bús og barna fyrir Ástu á meðan við skondrum kl. 8 í fyrramálið. Ojá við erum sko duglegar. Og það besta er, ég sagðist sko ekki komast upp á þetta litla fjall en svo bara komst ég það. Frábært afrek. Afrekin í golfinu eru ekki eins greinileg en þau koma …. Haldið þið það ekki?

Áður en ég golfaðist fór ég til tannlæknis að láta laga brotnu tönnina mína, eftir golf fór ég í bæinn með palla puttaling og svo bara varð ég svo þreytt að ég þurfti að lúlla í heilan klukkutíma. En núna er ég farin að elda og klára vaskahúsið – maður verður nú að vera í flutningsgír – það gengur ekki annað.

Sem sagt voða gaman að vera til,

Ingos

Forseti og gjár

Bara eitt sem ég var að hugsa á leiðinni til Reykjavíkur að kaupa fleiri kassa. Dabbi dós segir að djúp gjá sé á milli forsetans og þjóðarinnar – og vasabúarnir hans, lögmaðurinn með gleraugun og steinninn sem býr á hólminum eru náttúrulega alveg sammála og segja Óla hafa mistekist að sameina þjóðina. Veit nú svo sem ekki hvort það sé verk forsetans – við vissum öll hvað við gerðum þegar við kusum hann hér um árið – hmmm held reyndar að ég hafi ekki kosið hann – en amk þeir sem gerðu það vissu hvað þeir gerðu.

Ég held að Dabbi og vasaklútarnir hans og annað ryk sem þar safnast fyrir ættu að einbeita sér að því að sameina þjóðina að baki forsetanum í staðinn fyrir að vera rífast þetta. Og að lokum þó 40% af þjóðinni hafi ekki farið á kjörstað þýðir það ekki að þeir allir hafi verið á móti Óla – þvert á móti – frækt er að þeir sem eru ósammála fari frekar á kjörstað.

EM er það heillin

Ég er enn svoldið miður mín yfir því að hafa ekki getað séð Þorstein J í gærkveldi – líklega hefði ég ekki getað það hvort sem væri en ég hefði áreiðanlega reynt! Hann var víst ekki með þáttinn – ótrúlegt kæruleysi af hálfu manns sem ber nánast ábyrgð á endurmenntun minni í fótbolta. En sem sagt hann var ekki með þáttinn og ég sofnaði fyrir allar aldir í gærkveldi – þó ég hefði svo vaknað aftur og legið allnokkra stund og velt forsetakosningunum fyrir mér.

Ég hef vísast sofnað svona snemma þar sem leikur Hollands og Svíþjóðar var þvílíkt mega dæmi – fyrir utan náttúrulega Adolf Inga sem ég held að hljóti að vera jafn leiðinlegasti íþróttafréttamaður fyrir utan hann þarna Arnar á Stöð 2 og ónefndan F1 – veit ekki hvað á að kalla hann – fréttamann er einum of, kynnir er orðum aukið því hann býr til flest sem hann segir og sér svo ekki afganginn, kannski bara þýðanda gulupressunnar í F1 heimum RUV. En sem sagt Adolf gjörsamlega eyðilagði fyrir mér leikinn. ÉG held hann haldi að í hvert sinn sem hann opni munninn í útsendingu að hann þurfi að koma öllu að sem hann hugsanlega veit. Ásthildur stóð sig hins vegar vel og bjargaði því sem bjargað var. Ég veit svo sem ekki alveg hvurslags sky high væntingar þau höfðu til leiksins – þar sem Adolf tuðaði og tuðaði um að þetta væri nú leiðinlegur leikur. Mér fannst þetta sko dúndur leikur – þó hann hafi kannski ekki verið eins og England-Portúgal eða Tékkar – Holland, þess vegna fóru þeir leikir á spjöld sögunnar – met leikir náttúrulega og við getum ekki búist við svona leikjum oft í viku.

Annars hefur EM verið ógeðslega skemmtilegt. Hrein unun – svoldið tímafrekt hobbý en þetta er nú allt að lagast – fer a verða búið 🙂

Annars eru flutningar að komast hér í algjört hámark – gengur náttúrulega ekki neitt. Gengur aldrei neitt fyrr en á síðustu stundu. þannig er það nú hér á bæ – eftir tilheyrandi fjölda rifrilda og geðvonskukasta. En þetta er nú allt ákveðið ferli sem enginn kippir sér uppvið orðið lengur nema þá kannski Aðalsteinn greyið.

En nú ætla ég að fara að setja niður föt sem verða ekki notuð fyrr en í ágúst og einnig rúmföt og handklæði.

Það er jú dásamlegt að vera til – sumarið úti og sólin bak við skýin. Já og Óli stóð sig bara vel í kosningunum. Skil samt ekki alveg þessi 10% sem kusu fýlupokann atarna, það finnst mér alveg makalaust uppátæki.

Draslaríis kveðjur

Inga

Morgunstund gefur gull í mund

Jæja það var nú meiri dagurinn í gær. Mér liggur við að segja að leikurinn á milli Englands og Portúgals liggi þyngst á mér – sigh. En það væri nú einum of ekki satt?

Palli klemmdi sig nefnilega í gær og missti framan af löngutöng vinstri handar svona eins og einn sm eða svo. Hann verður því frá vinnu í sex vikur og kemur í fyrirframákveðið frí nú í dag. Hann átti síðan að fara 5. júlí en hann fer þess í stað út 5. ágúst. Tekjatap hans er nokkurt þar sem hann fær ekki dagpeningana sem eru í samningnum hans heldur einungis tímakaupið – sem er nú allverulegt samt – vona að hann fái yfirvinnuna líka. Það þarf líka að athuga hvort hann eigi rétt á launum í stoppinu. Þetta eru nú meiri vandræðin. ég hef ekki guðmund um hvernig ég eigi að flytja. Svo er svo óþægilegt að fá ekki húsið fyrr en svona seint því annars hefði verið hægt að biðja fólk að koma og hjálpa um helgina 3. – 5. júli en þess í stað verður maður að gera þetta þann 1. júlí og það með sterka manninn minn handlama. Ég vona að hann verði góður sem fyrst – það er svo leiðinlegt að hafa bara aðra höndina. Ég vona svo sannarlega líka að hann haldi vinnunni. Ekki gott að byrja á því að slasa sig. Fuss og svei, karlanginn. En hvað um það – ég verð bara að vera þeim mun duglegri.

Ég ætla að fara að taka til í eldhúsinu litla og líta svo niður og sjá hvernig ástandið er í geymslunni. Það er nú áreiðanlega hægt að fara að stússast eitthvað í kjallaranum og svo er háaloftið eftir. Dísa kemur eftir helgina og þá verður nú strax hægt að skipuleggja hvað hún getur tekið með sér og hvað ekki.

Ætli við verðum ekki að hringja í Guðrúnu og athuga með hvenær hún getur tæmt húsið. Það væri best að geta gert þetta allt í einu en ekki svona í einhverjum bútum – þá er næstum eins gott að setja bara allt inn í skúr hjá Hildi – en hún er búin að bjóðast til þess að lána okkur pláss þar.

Æ þetta eru nú meiri vandræðin.

Annars langar mig að gifsklæða herbergið hjá Aðalsteini og hann ætlar að kaupa sér parket þar inn. Hver veit nema það verði hægt. Ætla að tala við Grím um það. Svo er það innréttingin – ég er alveg að verða búin að ná lendingu þar.

Kveðja Inga

Fótbolti er fólskufíkn

ég hef ekki heilsu í það að vera fótboltafan. Eyði öllum þessum voðalega tíma í að horfa á leik 110 mínútur eða eitthvað og svo bara klúðrar krúttið mitt öllu saman strax í upphafi – þetta er óskaplegur ávani að fylgjast með þessu. Púff. Gott að EM er ekki lengra en til 2. júlí. Gasalegt – það er ekki hægt að flytja fyrir þessu, já eða njóta lífsins jafnvel. Ætli ég verði ekki að horfa á Þorstein J analísera þessi ósköp hjá Portúgölum og Englendingum. Sigh….