Ég var að ljúka við Þráinn

Mér líður eins og rithöfundi eftir að hafa lesið Þráinn. Hann er mér einhvern veginn alltaf innblástur, alveg frá því ég las og heyrði hann fyrst. Fyrri hluti bókarinnar – Einhvers konar Ég, er alveg frábær. Og kaflinn um Arnarfell og líðan hans þar er hrein og tær snilld. Þó hans ár í fullkomleikanum hafi ekki verið fleiri en tvö þá minna þau mig um margt á sæluríkið sem ég átti í einverunni á Þingvöllum. Mér þótti alltaf gott að vera ein og fá svo einn og einn útvaldan til þess að vera með við og við. Þar var það helst Björk. Ási og Dísa voru mér svo selskapur á vetrum og betri en engin í því að uppfræða mig um lífsins leyndardóma, stóra sem smáa. En best var bara að vera hjá mömmu og pabba en þó ég hafi verið ægileg pabba stelpa og stundum fundist mamma hreint ekki skilja mig eru stundirnar þegar við vorum tvær aleinar í bænum einhvern veginn ógleymanlegar. Þær fylla upp í minnisbankann og þó geta þær ekki verið svo mjög margar, bæði voru nú krakkarnir heima líka, en nú þegar ég hugsa um það þá var ég náttúrulega lengstum ein því svo fóru krakkarnir í bæinn í skóla og voru á Rauðalæknum og ferðir á Þingvöll voru svo sem ekki daglegt brauð í þá daga.

Þannig að ég skynja þessa dásamlegu einveru og kyrrð sem Þráinn talar um. Mér fannst hins vegar Arnarfell alltaf ákaflega skuggalegur staður og er búin að ímynda mér að heim að bænum sé gasalegur vegur sem liggur utan í skriðum fellsins en einu sinni man ég eftir að hafa séð túnin á bænum þegar ég fór þarna um á bát, sem ekki var heldur algengt því ef ég man rétt var djúpt þarna við fellið og maður kominn langt að heiman. Mig minnir að ég hafi verið með Bangsa á Heiðarbæ þegar ég fór þessa ferð.

Jæja – búin í bili – skyldi verða ár í næsta blogg?

Inga

Færðu inn athugasemd